Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Maðurinn í miðjunni?

Í grein sinni Guðleysi og kristindómur, sem er að finna í bókinni Pælingar, reynir Páll Skúlason að lýsa þeirri skoðun sem kristnir menn hafa á guðleysingjum:

Kristinn maður sakar guðleysingjann um takmarkalausan hroka og yfirgang, hömlulausa manndýrkun, ef ekki sjálfsdýrkun, sem sagt að upphefja manninn, þennan sama mann sem hefur spillst og gersamlega tapað áttum í tilveru sinni. Hlýtur ekki meðvitað og yfirlýst guðleysi að vera hámark mannlegrar firringar og fráhvarfs frá Guði?

Þetta er undarleg skoðun, ég veit ekki til þess að trúleysingjar líti almennt á manninn sem eitthvað sem er að nokkru leyti æðra. Ætli þessi misskilningur sé kominn til vegna þess að trúmenn haldi að það þurfi eitthvað að koma í staðinn fyrir Guð? Halda þeir að maðurinn taki hásæti Guðs fyrir sjálfan sig? Slíkt er augljóslega fjarstæða, Guð er óþarfur og því er óþarfi að finna staðgengil fyrir hann.

Ég veit ekki til þess að trúleysingjar upphefji manninn á nokkurn hátt. Ef eitthvað er þá er maðurinn bara eitt af dýrunum, vissulega það dýr sem er í einhverjum skilningi ríkjandi á Jörðinni um stundarsakir en samt bara dýr. Í minni heimsmynd er maðurinn í raun ekkert sérstaklega merkilegur, þessi tegund verður til um stundarsakir og annað hvort þróast yfir í eitthvað annað og/eða þá deyja einfaldlega út. Maðurinn hefur bara verið til í örskotsstund og mun verða ómerkileg klausa í sögu alheimsins.

Það er hins vegar þannig að flestir kristnir menn setja manninn á stall. Upphaflega gekk kristni til að mynda út frá því að maðurinn hefði verið skapaður í mynd Guðs, nú á dögum trúa flestir kristnir menn að Jesú hafi verið Guð á Jörðu, er þetta ekki hálfgerð manndýrkun? Sum trúarbrögð gera ráð fyrir að guðirnir líti út eins og dýr en kristni er föst í að skapa Guð í mannsmynd. Kristnir menn tala reyndar sjaldan um gamla gráhærða kallinn í skýjunum en norrænni hippinn sem fór til Palestínu er ennþá vinsæll þó ég spái því að hann verði aukaatriði í kristindómnum eftir hundrað eða tvö hundruð ár, nema bara sem ævintýri.

Hroki kristinna manna og margra annarra trúmanna liggur í því að þeir líta svo á að maðurinn sé nógu merkilegur til að fá sérstaka athygli frá Guði, aðrar dýrategundir virðast alveg vera útundan.

En í þessum litla pistli mínum þá fell ég í sömu gryfju og trúmenn gera gjarnan, ég tala um trúleysingja sem hóp sem hefur ákveðna skoðun þegar sannleikurinn er sá að trúleysið eitt og sér segir afar lítið til um lífsskoðanir fólks.

Óli Gneisti Sóleyjarson 17.10.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )