Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvern eru þeir að plata?

Þórhallur 'miðill'Stundum spyr ég sjálfan mig hvort það sé réttlætanlegt að kalla miðla og aðra sem eru í svipuðum bransa svindlara og svikahrappa. Þetta kemur ekki til af því að ég telji þessa karaktera hafa einhverja yfirnáttúrulega hæfileika heldur vegna þess að ég held að þeir viti margir hverjir ekkert af því að þeir séu að beita brögðum.

Um daginn ræddi ég um orkuvitundargúrúinn Stephen Kane og kom með þá kenningu að hann væri fyrst og fremst að plata sjálfan sig. Aðalástæðan fyrir þessari ágiskun minni var sú að hann klúðraði einföldu bragði, ég tel að ef hann hefði gert sér grein fyrir því að um bragð væri að ræða þá hefði hann vandað sig meira og framkvæmt það rétt.

Annað dæmi um mann sem ég tel vera að svindla á sjálfum sér er Þórhallur miðill*. Þegar fylgst er með Þórhalli þá dylst það engum sem þekkir til að hann er að nota aðferð sem kallast á ensku cold reading, þeir sem þekkja til þessarar aðferðar sjá líka að Þórhallur er afskaplega lélegur að nota þessa tækni. Ef Þórhallur væri meðvitaður um brögðin sem hann notar þá tel ég að hann myndi, sjálfsvirðingar sinnar vegna, taka sig til og æfa sig betur.

En kannski vita þessir menn stundum af eigin svindli, þeir réttlæta það þá hugsanlega fyrir sér með því að segja að þeir hafi í raun hæfileika en þurfi stundum að "feika það" til að valda ekki vonbrigðum. Það er allavega ljóst að þeir sem trúa á miðilshæfileika nota oft þessa afsökun fyrir hönd þeirra miðla sem hafa verið staðnir að svindli. Til eru þónokkrir sem trúa enn að Lára miðill sem var dæmd fyrir svindl á síðustu öld hafi í raun haft hæfileika en hafi ákveðið að beita brögðum þegar halla fór undan fæti hjá henni.

Viðskiptavinir miðlana plata sjálfa sig oft, ef fólk vill trúa þá getur það sannfært sig um að lélegir svindlarar hafi undraverða hæfileika. Það eru allir að svíkja alla í þessum bransa. Það getur vel verið að viðskiptavinirnir plati miðlana til þess að halda að þeir hafi hæfileika, það getur komið til vegna þess að þeir hafa svo mikinn trúarvilja en einnig vegna þess að þeir vilja ekki valda miðlinum vonbrigðum. Kannski eru miðlarnir á vissan hátt fórnarlömb aðstæðna.

Niðurstaða mín er sú að það sé alveg réttlætanlegt að tala um svindl og svik í þessu sambandi. Ef við lítum á miðla sem seljendur þjónustu þá er alveg ljóst að þeir veita ekki umrædda þjónustu og að þeir beita brögðum (meðvitað eða ómeðvitað) til þess að láta viðskiptavininn halda að þjónustan hafi verið veitt.

Ert þú að svindla á sjálfum þér?

*Hugsanlega ætti maður að tala um falsmiðil í þessu sambandi en ég tel alla miðla vera falsmiðla þannig að mér finnst óþarfi að taka það fram.
Óli Gneisti Sóleyjarson 11.10.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Árný Leifsdóttir - 11/10/04 11:28 #

Fín grein. Hefur þú farið á miðilsfund? Mér þætti gaman að lesa frásögn þína af einkafundi. Ég er ekki að halda uppi nokkrum vörnum fyrir miðla enda hef ég aldrei farið á fund, mér þætti bara spennandi að vita hvernig miðill bregst við skoðunum þínum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 11:31 #

Ég hef náttúrulega sótt um að fara í þáttinn hans Þórhalls en fékk ekki inn.


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 14:11 #

Mér dettur það oft í hug þegar við sem erum án trúar á guð eða guði erum að pirra okkur á svokölluðum miðlum, heilurum, fólki sem "sér" álfa og öðrum slíkum - hvað kirkjan og "opinber trúarbrögð" njóta mikils umburðarlyndis. Meira að segja landlæknir hvetur til varkárni í sambandi við "orkulæknana" - en segir ekki orð þótt það eigi að "biðja fyrir sjúkum" í kirkjum landsins. Hver er munurinn?


Össi - 11/10/04 18:30 #

Jórunn, það eru engin fórnarlömb af bænum. Hins vegar getur fólk tapað peningum og heilsu við ýmiss konar kukl.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 18:40 #

Hér sérðu ekki heildarmyndina Össi, að sjálfssögðu er borgað fyrir bænirnar, því miður neyðist ég til þess vegna þess að kirkjan er á hverjum degi að nota mína peninga. Tekur kirkjan ekki líka við frjálsum framlögum frá fólki? Það er nákvæmlega sama aðferð og margir af þessum lækningamiðlum nota.

Þegar er verið að biðja fyrir fólk þá er verið að gefa til kynna að það geti á einhvern hátt hjálpað því, það er rangt, bænir hjálpa engum. Ef þú ert sjúkur og trúir staðfastlega á mátt bænarinnar þá getur alveg verið að þú hunsir raunverulega læknisaðstoð, þess í stað treystir þú bara á mátt bænarinnar og drepst. Þetta hefur gerst, vissulega er þetta ólíklegt að þetta gerist til að mynda innan þjóðkirkjunnar (þó það geti vel verið að það hafi gerst) enda eru afar fáir innan þjóðkirkjunnar sem trúa þessu rugli.

Prestar sem hvetja til þess að það sé beðið fyrir fólki ættu að sjálfssögðu að taka fram að bænin sé algerlega gagnslaus.

Kannski er aðferðafræði þjóðkirkjunnar öðruvísi en þessarra læknismiðla en þetta er allt sama pakkið, aðalmunurinn er að kirkjan hefur bara komið sér betur fyrir í samfélaginu.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 21:34 #

Ef einhver vill reyna getu miðla og fara á fund, munið þá að svara ENGU játandi eða neitandi. Yptið öxlum yfir ÖLLUM ágiskunum og spurningum, og segið í mesta lagi "segð ÞÚ mér það". Miðlar missa allt samband við andaheima þegar þeir fá ekki fídbakk frá fórnarlömbum sínum. Reyndar er það dálítið eins og að vera í leiknum "Frúin í Hamborg" því erfitt er að sitja þegjandi undir stanslausu spurningaflóði. Bítið á jaxlinn og flettið ofan af prettunum :o) - gefið okkur svo rapport!

93


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 22:46 #

"Af hverju segir þú mér það ekki, ert það ekki þú sem ert með giftið?"

hehe

Með bænina, ég held reyndar að hún geti vel haft áhrif. Ekki vegna þess að draugur einn á Einskítsstöðum í Himnaþinghá leggi við hlustir og veifi töfrasprota, heldur vegna þess að máttur andans yfir efninu er býsna mikill (sitthvað órannsakað þar hygg ég). Það er semsagt maður sjálfur en ekki eitthvað goð sem getur haft áhrif á líðan manns með viljastyrk, með von, með bjartsýni og svo framvegis. Auðvelt samt að blekkja sjálfan sig og halda að það sé einhver annar í spilinu, sérstaklega ef manni hefur verið sagt það frá því maður var barn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 22:56 #

Bænin sjálf gerir ekkert, ef einhverjum er sagt að heil hundrað manns hafi beðið fyrir honum þá skiptir ekki mál hvort það sé satt eður ei. Ég efast um að áhrifin séu meiri heldur en þegar fólki er sagt að einhver sé að "hugsa til þeirra".


Malla - 11/10/04 23:47 #

Já, í þessu sambandi verð ég að minnast á lærimeistara minn Sverri Stormsker. Hann kallar miðla af þessari tegund og öðrum tegundum svikamiðla. Það get ég tekið umdir, því oftast nær virðast spár miðla vera á sama máta og stjörnuspár. Þær eru almenns eðlis og snerta því strengi í hinum almenna manni. Og hver vill svo ekki vera snertur? Þetta eru einhvers konar alþýðuútskýringar (með virðingu fyrir alþýðunni, ég tilheyri henni...) sem flestir geta tekið til sín. Það er jú alltaf gott að geta tekið eitthvað til sín. Að finna að maður sé hluti af einhverju normi. Ég held að svikamiðlar og aðrir miðlar gegni þessu hlutverki; að finna fólki einhvern stað í alheimssamfélaginu....


Malla - 11/10/04 23:53 #

Æjá, ég gleymdi... Engum ber skylda til að borga til kirkjunnar þó svo að ríki og kirkja tilheyri sömu stofnuninni. Fæstir vilja vera hluti af stofnun, er það ekki? Þá er bara hið minnzta má að skrá sig úr ÞJÓÐKIRJUNNI og borga sinn skerf af skrattanum til háskólans til dæmisæðin. Vísindi efla...blablabla. Það er ekki gott að sjá hve margir andstæðingar kirkjunnar greiða samt hluta síns skattfjár til kirkjunnar. Ég hvet því hvern sem enn er hræsnari að drífa sig inn á hagstofuna í Borgartúni og kvitta umdir pappírinn! Og hananú! JA svei!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 23:57 #

Malla, þú misskilur, ég er ekki að segja að ég borgi af því ég er í þjóðkirkjunni, ég er löngu búinn að segja mig úr henni. Það er bara hins vegar þannig að þjóðkirkjan fær aukalega peninga frá ríkinu og þeir peningar koma til að mynda frá mér.


Malla - 12/10/04 00:36 #

já, svei! Svona er það nú skítt! ÉG var bara að nota tækifærið til að vera með smá munnsöfnuð og áróður....


Össi - 12/10/04 00:43 #

Óli Gneisti, það er skrýtið að tala um að þú borgir fyrir bænirnar. Það er álíka og að segjast borga fyrir vegina og skólana. Sjálfur var ég ríkisstarfsmaður, og ef þú hefur rétt fyrir þér í þessu sambandi þá borgaði ég launin mín sjálfur. Það er út í hött.

Bænin gerir víst eitthvað. Að vísu ekki meira en eitthvað annað, en hún gerir meira en ekki neitt. Ef prestar tækju hins vegar fram að bænin væri gagnslaus þá yrðu áhrif hennar engin.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 07:37 #

Össi, ég borga líka fyrir vegina og skólana, þetta er nú bara einfaldlega þannig sem skattkerfið virkar.

Bænir virka ekki, það hefur verið reynt að sanna það í rannsóknum og það hefur að sjálfssögðu mistekist. Þessi staðhæfing þín er því einfaldlega röng.


Ormurinn - 12/10/04 10:38 #

Æjá, ég gleymdi... Engum ber skylda til að borga til kirkjunnar þó svo að ríki og kirkja tilheyri sömu stofnuninni. Fæstir vilja vera hluti af stofnun, er það ekki? Þá er bara hið minnzta má að skrá sig úr ÞJÓÐKIRJUNNI og borga sinn skerf af skrattanum til háskólans til dæmisæðin. Vísindi efla...blablabla. Það er ekki gott að sjá hve margir andstæðingar kirkjunnar greiða samt hluta síns skattfjár til kirkjunnar. Ég hvet því hvern sem enn er hræsnari að drífa sig inn á hagstofuna í Borgartúni og kvitta umdir pappírinn! Og hananú! JA svei!

Nú veit ég ekki alveg hvort ég fari með rétt mál en mér skilst að "kirkjuskatturinn" sem þeir sem eru ekki í þjóðkirkjunni greiða, fari að vísu til háskólans EN þaðan beint í guðfræðideildina. Í guðfræðideildinni er síðan verið að mennta presta...


Ormurinn - 12/10/04 10:49 #

Bænin sjálf gerir ekkert, ef einhverjum er sagt að heil hundrað manns hafi beðið fyrir honum þá skiptir ekki mál hvort það sé satt eður ei. Ég efast um að áhrifin séu meiri heldur en þegar fólki er sagt að einhver sé að "hugsa til þeirra".

Það er rétt hjá þér. Bænin sjálf gerir ekkert. En ef það veitir fólki andlegan styrk að vita af einhverjum að biðja fyrir því þá er ekkert að því.

Þetta er ekki ósvipað Voodoo álögum. Bölvunin sjálf gerir ekkert en ef fórnarlambið veit af henni og er trúað þá getur það verið nóg til að manneskjan deyr einfaldlega úr hræðslu.

Hugurinn er ansi kraftmikill og getur haft stór áhrif á heilsu okkar og vellíðan þó svo að það sé erfitt að mæla það á vísindalegan hátt.


Bjoddn - 12/10/04 10:52 #

Hvort sem peningurinn fer í guðfræðideildina eður ei, þá er þetta samt fáránlegt. Með sömu rökum ætti innheimtudeild RÚV að rukka fólk um afnotagjald þó svo að það eigi ekki sjónvarp og senda síðan afraksturinn upp í háskóla.


Ormurinn - 12/10/04 11:09 #

Bjoddn - 12/10/04 10:52 # Hvort sem peningurinn fer í guðfræðideildina eður ei, þá er þetta samt fáránlegt. Með sömu rökum ætti innheimtudeild RÚV að rukka fólk um afnotagjald þó svo að það eigi ekki sjónvarp og senda síðan afraksturinn upp í háskóla.

Það er bara fáránlegt að kirkjan skuli vera að fá pening úr ríkissjóði.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 11:27 #

Sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga fara ekki í Guðfræðideildina heldur í sérstakan sjóð í Háskólanum. Þessi sjóður styrkir meðal annars Siðfræðisstofnun og ýmsa menningarstarfssemi innan HÍ.


Bjoddn - 12/10/04 13:11 #

Samt er það grunsamlegt að HÍ skuli sitja einn að þessu fé.

Fær THÍ eitthvað í sinn hlut eða er afrakstur arðránsins eingöngu ætlaður stofnunum sem stuðla að fjölgun presta?

Mundi THÍ kannski fá aðgang að fénu ef hann færi að kenna TækniGuðfræði?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 13:47 #

Að sjálfsögðu á einfaldlega ekki að innheimta sóknargjöld af þeim sem standa utan trúfélaga. Það væri líka ágæt prófraun á trú þjóðarinnar að sjá hversu margir myndu kjósa að halda þessu fé eftir ef það væri hægt.

Ég er viss um að Þjóðkirkjan myndi missa mörg þúsund þegna.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 14:31 #

Ég kann að hafa orðað hug minn með ónákvæmum hætti. Þetta:

Ormurinn - 12/10/04 10:49 # Bænin sjálf gerir ekkert. En ef það veitir fólki andlegan styrk að vita af einhverjum að biðja fyrir því þá er ekkert að því. Þetta er ekki ósvipað Voodoo álögum. Bölvunin sjálf gerir ekkert en ef fórnarlambið veit af henni og er trúað þá getur það verið nóg til að manneskjan deyr einfaldlega úr hræðslu. Hugurinn er ansi kraftmikill og getur haft stór áhrif á heilsu okkar og vellíðan þó svo að það sé erfitt að mæla það á vísindalegan hátt.

...er mjög nálægt því sem ég var að hugsa. Bænin er þannig ekki afl í sjálfu sér og hún dugir ekki til að aflétta náttúrulögmálum eða neitt þannig, en hún getur verið manninum tæki til að virkja sjálfan sig og njóta þannig vellíðunar eða sjálfstrausts.


Hreinn Hjartahlýr - 12/10/04 16:07 #

En ertu þá ekki að gefa pragmatíska ástæðu til að trúa???!?! "Best að trúa, það gefur mér aukinn styrk, hvort sem guð/whatever er til eða ekki." Eða eiga læknar að ljúga að fólki ef það virkar? Sérstakt námskeið í læknadeild - sannfærið fólk um að það sé heilbrigt - öll brögð leyfileg. Gæti sparað! Burt með alla lýgi segi ég.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 16:38 #

En það er náttúrulega snjallara að færa traust sitt yfir á tæknina, þá hefurðu lyfleysuáhrifin og þar að auki eitthvað raunverulegt.


Össi - 12/10/04 18:04 #

Óli Gneisti, þú segir að bænir virki ekki og það hafi verið sannað. Í fyrsta lagi þá er ekkert sannað með rannsóknum. Það eru einungis stærðfræðingar sem sanna hluti. Vísindamenn styðja eða hrekja kenningar. Þetta er því tóm vitleysa í þér. Í öðru lagi þá virka bænir upp að vissu marki. Þær virka jafn vel og aðrar lyfleysur. Lyfleysur virka hins vegar ekki ef fólki er talið trú um að þær virki ekki. Það eru meira að segja menn að tala um að það sé hægt að auka áhrif lyfleysunnar ef hún er látin hafa aukaverkanir. Athugaðu að ég er ekki að segja að bænir séu allrameinabót, heldur einungis að þær virki upp að vissu marki.

Ef þú skoðar áhrif verkjalyfja, þá sérðu að þau eru litlu meiri heldur en lyfleysu.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/10/04 18:20 #

Fyrirgefðu mér að hafa notað orðið sanna, vissulega flýtimistök hjá mér. Ég hefði átt að segja að þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda ekki til þess að bænir virki umfram lyfleysuáhrif.

Ég hélt því aldrei fram að bænir hefðu ekki lyfleysuáhrif en það er í raun ekki áhrif bænarinnar. Ef einhver heldur að ský lækni höfuðverk og það virki vegna lyfleysuáhrifa þá er það ekki skýinu að þakka, skýið sjálft hafði engin áhrif.

Taktu eftir því sem ég sagði varðandi það að ef þú segir einhverjum að það hafi verið beðið fyrir honum þá skipti það engu máli hvort það sé satt eður ei, þar að segja, bænin sjálf er ekki áhrifavaldur.

Nú hef ég ekki kynnt mér hvernig verkjalyf virka og ég ætla því ekki að halda því fram að þú farir með rangt mál en hins vegar hef ég oft heyrt lækna hvetja fólk til þess að treysta ekki um of á verkjalyf, ég hef aldrei heyrt prest segja að fólk eigi ekki að treysta um of á bænina.


Össi - 12/10/04 18:38 #

Óli Gneisti, ég tek undir það með þér að það sé trúin á að bænin virki frekar en að það sé bænin sjálf sem virkar.

Gaman að rífast við þig! :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/10/04 18:39 #

En ertu þá ekki að gefa pragmatíska ástæðu til að trúa???!?!

Í raun segir þetta okkur bara að með ákveðinni beitingu hugans má kalla fram vellíðan og mótívasjón. En það getur varla verið siðferðilega rétt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að slík beiting hugans geti læknað og huggað aðra með yfirnáttúrlegum hætti.

Hins vegar er hægt að notast við hliðstæða beitingu hugans sem ekki hefur yfirnáttúrlegar skírskotanir og kostar það ekki að ljúga þurfi að börnum jafnt sem fullorðnum heilu ranghugmyndakerfunum og halda úti til þess rándýrum stofnunum þar sem menn hafa í fammi undarlega tilburði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.