Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mygluð mjólk

Í Fréttablaðinu þann 23. september birtir Þórhallur Heimisson prestur svargrein við skrifum Sigmundar Ernis um afdalamennsku Þjóðkirkjunnar. Ég ætla mér ekki á nokkurn hátt að halda uppi vörnum fyrir Sigmund Erni, hann er fullfær um það sjálfur, en get ekki á mér setið að benda á nokkur atriði í málflutningi Þórhalls:

Þórhallur spyr hvort kirkjan eigi að hlaupa stefnulaus eftur vindum samtímans, á póstmódernískan hátt, í stað þess að halda vörð um tvö til þrjú þúsund ára gamlar hugmyndir. Hann stillir þessu upp eins og aðeins þetta tvennt komi til greina. Sú er þó ekki raunin. Ég er sammála Þórhalli, að póstmódernískt stefnuleysi sé ekki eftirsóknarvert, en það er ekki þar með sagt að vanþroskaðar ranghugmyndir gamalla hirðingjaþjóðflokka séu með því orðnar einhver klettur til að byggja heimsmynd sína á. Nei, Þórhallur lítur viljandi fram hjá hinu augljósa, að við höfum annað og haldbærara bjarg en illa skilgreindan yfirskilvitlegan mátt til að binda trúss okkar við, nefnilega markvissa þekkingarleit vísindalegrar aðferðar.

Ritning sú sem þjóðkirkja Íslendinga heldur á lofti er um margt nöturleg lesning, þar sem vígaguðinn Jahve gefur grænt ljós á þrælahald, mannfórnir, kvennakúgun og hommahatur. Sé þessi guð kristinna manna raunverulega til, þá hefur stór hluti mannkynsins nú þegar farið fram úr honum í siðferðis- og félagsþroska. Slíkur guð er auðvitað enginn guð. Samt sem áður heldur ríkisrekin kirkjan áfram að boða dóm þessa guðs yfir sálum mannanna á efsta degi og þar eru þeir einir hólpnir sem möglunarlaust kyngja áróðri þessarar tvö þúsund ára gömlu dómsdagsreglu. Þetta er svo með ærnum tilkostnaði sett fram sem kærleiksboðskapur og flestir landsmenn láta það ganga yfir sig athugasemdalaust, borga þegjandi sinn hlut í myglaðri mjólkinni á þessum fúna brúsapalli.

Þórhallur segir nauðsynlegt að kirkjan stökkvi ofan af brúsapallinum og taki afstöðu í málefnum samkynhneigðra. Þar er ég honum hjartanlega sammála en bendi á að lendingin er þegar ljós. Ritning kristinna manna er alveg skýr í þessum efnum. Bæði Mósebækur og skrif Páls postula vitna um að samkynhneigð skuli skoðast sem viðurstyggð og gengur Páll meira að segja svo langt að telja þá er leita eigin kyns réttdræpa, um leið og hann kallar þá öllum illum nöfnum í aftast í Rómverjabréfinu. Menn innan kirkjunnar hafa sjálfir bent á að þeir hafi enga heimild frá meintu yfirvaldi sínu á himnum til að breyta afstöðu sinni. Kirkjan hlýtur því að vera dæmd til að halda á lofti fordómum manna sem opinberuðu ranghugmyndir sínar í þeim árþúsundagamla texta sem kristnir menn hafa alla tíð dýrkað.

Kirkjan verður áfram að útiloka samkynhneigða því það liggur í eðli kristinnar trúar. Við hin, sem hefjum á loft manngildisviðhorf þau sem upplýsing og nútími hafa leitt af sér, skulum leyfa þessu trénaða útskúfunarbákni að sigla sinn sjó. Við ættum að taka okkur saman og höggva niður þennan fúna brúsapall og leggja í staðinn öflugan grunn að þjóðfélagi fjölbreytileikans, þar sem allir hafa jafnan rétt.

Birgir Baldursson 24.09.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/09/04 14:14 #

Mig grunar að "grænsápu-nefnd" Þjóðkirkjunnar muni fljótlega komast að þeirri niðurstöðu að mál samkynhneigðra verði að skoða í "Ljósi Krists". Þar með er kominn grænsápuvinkill á að bulla sig framhjá vandanum með tilvísanir í "Nýjan Sáttmála", kærleiksboðskap Krists, o.s.frv. Guð kristinna gefur þeim t.d. mjög skýr fyrirmæli um að drepa fólk sem safnar sér eldiviði á helgidegi en ekki nokkur maður lætur sér detta í hug að fara eftir því boði. Svo það er bara smotterí að strika yfir einhver ónot í garð homma og lesbía. Praise the Lord!!!

93


Kristinn - 24/09/04 18:47 #

Ég satt að segja get ekki skilið hvernig kærleiksboðun og fordómar geta farið saman. Full manréttindi öllum til handa væri eðlileg krafa þeirra sem aðhyllast réttlæti. Þess vegna er það mitt álit að kirkjan ætti að taka afstöður í erfiðum málum sem geta verið í samræmi við kærleika og réttlæti. Á þeim gildum grundvallast mannréttindin sem aftur eru hornsteinn lýðræðis og það er sá vegur sem hún á að rata til að geta verið trúverðug í augum fólks með réttlætiskennd.

Vandamál kirkjunnar manna verða væntanlega orð Páls. Páll var glaður með pennann og skrifaði mikið eftir að hann hætti að veiða menn fyrir böðulinn. Þeir (kirkjunnar menn) verða væntanlega að velja milli orða Páls og útlistunar (sinnar) á því hver Jesú var og hver boðskapur hans var ef þeir ætla að gera tilslökun í þessu máli.


Kristinn - 25/09/04 00:13 #

Þess vegna er það mitt álit að kirkjan ætti að taka afstöður í "erfiðum málum" sem geta verið í samræmi við kærleika og réttlæti. Þetta er mikilvægt. Því, hvað er svo sem ervitt? Mér sýnist að Aiwa hafi eitt einhverju af sýnum tíma í Bíblíu ransóknir, því það sem hann vitnar til, með eldiviðin, það kannast ég ekki einu sinni við, en mér finnsty þessi endemis vitleysa vera í anda við einhverja af bókum Móses, sem eru hin leiðinlegasta lesning sem hægt er að hugsa sér, fyrir minn smekk (eða allt að því hin leiðinlegasta).


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/09/04 16:59 #

Réttlæti? Síðan hvenær hefur kirkjan verið eitthvað baráttuafl fyrir réttlæti?


Kristinn - 25/09/04 18:15 #

Ég kann ekki að svara því, enda þarf ég ekki að svara því síðan hvenær kirkjan hefur verið að berjast fyrir réttlæti. Hitt er aftur afar mótsagnarkent ef kærleiksboðskapur og réttlæti eiga ekki að fara saman.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/09/04 19:43 #

Það er það ekki endilega. Fyrir utan að meintur kærleiksboðskapur kristninnar er umdeildur, svo ekki sé meira sagt.


Kristinn - 25/09/04 22:38 #

Ef það þarf ekki endilega að vera að það sé mótsagnakennt, (ef kærleiksboðskapur og réttlæti fari ekki saman að þá sé eitthvað athugunarvert) þá hlýtur einhver pottur að vera brotinn. Kærleiksboðskapur boðaður með óréttlæti (ef þú átt við eitthvað slíkt), hlýtur að vera eitthvað afar sérkennilegt og helst einhver rangnefning.

Það má líta á kærleik sem hugtak og algerlega utan við og óháðan Kirkjunni, alveg eins og hvítt er hvítt og svart er svart, hvað svo sem kirkjan og kristin kenning segir um það að hvítt sé hvítt og svart sé svart, þá er kærleikur aðeins hugtak með sína merkingu. Hugtak með sína tilvísun.


Lárus Páll Birgisson - 26/09/04 02:32 #

Ég skil ekki alveg hvernig kærleiksboðskapur geti verið umdeildur, öðruvísi en þannig að um rangnefni sé að ræða.... það er að kalla það kærleiksboðskap þegar boðskapurinn snýst ekki um kærleika.

Vésteinn spyr hvenær kirkjan hafi verið eitthvað baráttuafl fyrir réttlæti. Ég get ekki betur séð en að meirihluti íslenku kirjunnar sé bara með almennt gott siðferði.... eru ekki annars flestir Ísendingar sammála um jafnrétti? Eru ekki flestir sammála um réttindi samkynhneigðra?

Ég veit ekki betur!


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/04 04:25 #

Kristinn: Ég er ekki að segja að kærleikur og réttlæti fari ekki saman, ég er að segja að það er umdeilt að kirkjan boði hvort tveggja (eða bara annað hvort). Kærleikur er góður og gegn, en kirkjan hefur ekkert einkaleyfi á honum. Þvert á móti er hann manninum eðlislægur og þess vegna hlýtur kirkjan hljómgrunn; hún höfðar til eðlis mannsins. Kærleikurinn er nefnilega ekki uppfinning hennar, hann varð til býsna löngu áður. Satt er það, að kærleikur boðaður með óréttlæti er sérkennilegur, svo ekki sé meira sagt. Evrópa var að miklu leyti kristnuð með valdboði. Manstu eftir stríðsherranum Ólafi Tryggvasyni? Aldeilis kærleikurinn þar á ferð.

lalli spyr: "Eru ekki flestir sammála um réttindi samkynhneigðra?" -- Ef þú meinar hvort ekki séu flestir smmála um að samkynhneigðir eigi að hafa réttindi á við aðra menn, þá jú, ég veit ekki betur en að flestir séu sammála um það. Kirkjan er samt á öðru máli. Meirihluti íslensku kirkjunnar (eða, réttar sagt, kirkjan sem slík) er síður en svo með gott siðferði. Kirkjan boðar siðferði þræla og lítilmenna, undirgefinna og aumkvunarverðra þjóna. "Siðferðið" sem kirkjan boðar er sterklitað af hagsmunum valdastéttarinnar; það er til þess ætlað og best til þess fallið, að gabba þá sem láta í minni pokann til að sætta sig við óréttlátt hlutskipti með því að ljúga því að þeim að þeim verði bætt það upp ÞEGAR ÞEIR ERU DAUÐIR. Kirkjan hefur alla tíð verið í hópi afturhaldssömustu og íhaldssömustu afla í samfélaginu. Bæði hefur hún haldið dauðahaldi í kreddur og forneskju, og einnig hefur hún verið AFSPYRNU treg til að samþykkja breytingar á samfélagsskipaninni.


Lárus Páll Birgisson - 26/09/04 05:43 #

Jááh! Ég skil þig núna. Ég get ég vel fallist á það sem þú segir ef þú skilgreinir kirkjuna á þennan hátt. Ég aftur á móti skilgreini kirkjuna ekki sem fáar manneskjur sem sanka að sér völdum og telja sig yfir aðra hafna, þvert á móti hefur minn skilningur á hugtakinu "kirkja" alltaf verið sá að kirkja sé fólk...þe. allt fólkið sem tilheyrir kirkjunni.

Það er nokkuð ljóst að við hefðum getað rifist hér í marga mánuði ef við hefðum ekki greitt úr svona misskilningsflækju. :)

Ef við skoðum málið út frá þeirri skilgreiningu að: kirkjan sé samansafn allra einstaklingana, þá horfir málið allt öðruvísi við. Það kom mér því óneytanlega spánskt fyrir sjónir þegar því var haldið fram að "kirkjan" boði hatur á samkynhneigðum. Vissulega eru einstaklingar innan kirkjunnar sem ráða illa við hómófóbískar kendir sínar en meirihlutinn er sem betur fer ekki þannig.

Þar sem ég hef starfað innan kirkjunnar, í eflaust einhver 12 ár, þá hef ég sjaldan orðið vitni af þessum hommaandróðri. En þegar svo hefur borið undir, að einhver viðri þessa skoðun sína, er alltaf einhver sem stendur upp og talar gegn henni.

Hins vegar má réttilega gagnrýna það að yfirvöldin skulu enn tvístíga í opinberum yfirlýsingum í málefnum samkynhneigðra. En það er nú einu sinni svo að yfirvaldið hefur ekki meira vald en það sem almúginn leyfir þeim. Því væri gaman að sjá alla meðlimi kirkjunar, sem styðja full réttindi samkynhneigðra, ganga niðrá biskupsstofu (á öðrum tíma en gay pride) og krefjast þess að mark verði tekið á tilfinningum þeirra.

Auðvitað á ekki að mismuna fólki! Þetta vita lang flestir meðlimir íslensku þjóðkirkjunnar.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 26/09/04 12:41 #

Ha, eiga nú kindurnar að taka völdin af fjárhirðinum? Er það ekki gvuð og bókin hans sem eru átorítetið um hvernig þetta á að vera? Fólk velur hvort það fylgir gvuði að málum, en fyrr má nú vera ef söfnuðurinn þykist ráða kenningunni, eða hvað? Það má svosem segja að kirkjan sé samansafn meðlima sinna, en hún er ekki lýðræðisleg. Henni er stjórnað af prestunum, biskupnum og öðrum guðfræðingum. Þeir eru ekki í einhverju hagsmunalegu tómarúmi. Þeir hafa hagsmuni, bæði sem stétt og í gegn um tengsl sín við hina eiginlegu valdastétt.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 26/09/04 12:41 #

Ha, eiga nú kindurnar að taka völdin af fjárhirðinum? Er það ekki gvuð og bókin hans sem eru átorítetið um hvernig þetta á að vera? Fólk velur hvort það fylgir gvuði að málum, en fyrr má nú vera ef söfnuðurinn þykist ráða kenningunni, eða hvað? Það má svosem segja að kirkjan sé samansafn meðlima sinna, en hún er ekki lýðræðisleg. Henni er stjórnað af prestunum, biskupnum og öðrum guðfræðingum. Þeir eru ekki í einhverju hagsmunalegu tómarúmi. Þeir hafa hagsmuni, bæði sem stétt og í gegn um tengsl sín við hina eiginlegu valdastétt. Þessir hagsmunir lita kirkjuna og allt hennar starf.


Kristinn - 26/09/04 21:49 #

Kærleikur og réttlæti ættu bara að vera tveir af fleiri þáttum í sama þræði.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 27/09/04 00:14 #

Já, þetta ættu að vera tveir mikilvægir þættir í margþættum þræði hins æskilega, en það breytir því ekki að þetta er ekki það sem kirkjan boðar - og hvað þá það sem hún gerir í verki.


Lárus Páll Birgisson - 27/09/04 04:09 #

Þetta er ekki rétt hjá þér Vésteinn. Kirkjan gerir fullt af góðum hlutum, má td. nefna hjálparstarfið.

Auðvitað eru það svo söfnuðirnir sem ákveða það hvort þeir meðtaki kenningar eða ekki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Með sömu rökum er hægt að halda því fram að Íslendingar séu allir stríðsóðir brjálæðingar... bara af því forystunni finnst rétt að varpa sprengjum á önnur lönd.

Gallinn á málflutningi ykkar er að trúa því að kirkjan starfi eftir einhverjum miðaldargildum og sé að ofsækja fólk sem er á öndverðum meiði. það er alrangt, því skoðanaskipti eru ekki bönnuð innan Þjóðkirkjunnar.

Vandamál ykkar er að setja þá kröfu á kirkjunnar fólk að vera bókstafstrúarmenn.... sem við erum svo sannarlega ekki. Það að trúa á Guð felur ekki í sér að "verða" að vera funtimentalistar. Ekki einu sinni Jesú var bókstafstrúarmaður... þetta munduð þið vita ef þið læsuð guðspjöllin fordómalaust.


Kristinn - 27/09/04 08:33 #

Evrópa var að miklu leyti kristnuð með valdboði. Manstu eftir stríðsherranum Ólafi Tryggvasyni? Aldeilis kærleikurinn þar á ferð.

Konungar (höfðingjar barbaranna sem fengu krýningu í Róm) og biskupar stóðu að myndun þjóðríkja undir fulltingi páfa (um Evrópu)

Já það er svo lítið sérkennilegt að skoða þróunina. Ekki lengri tími en 1000 ár frá tíma Ólafs, en sýn manna svo mjög breytt.

Ég get verið þér sammála að kærleikur sem slíkur sé ekki sér kristið fyrirbæri, menn gætu alveg tileinkað sér slíkt far án “Kristni”. Spurningin er kannski; hvaða virki hvati getur kallað það betra fram í fari manna og knúið það áfram?

“þeir Kristnu fækka fötum”. það getur verið siðlaust að ríghalda í gamlar kreddur. Með tilvísun í það að það hafi verið boð að drepa þann sem safnaði eldiviði á helgidegi, að þá ætti þetta ekki að vera svo stórt vandamál, að fækka fötum, því hve langt er síðan menn lögðu slíka hugsun og sið af og sjá ekki annað en undarlega mótsögn, við betri vitund, í slíku boði.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 27/09/04 15:53 #

Þetta er ekki rétt hjá þér Vésteinn. Kirkjan gerir fullt af góðum hlutum, má td. nefna hjálparstarfið.

Hjálparstarf kirkjunnar getur vitanlega gert bágstöddu fólki gagn. Skárra væri það nú. En hversu "góð" eru "góðverk" sem eru unnin í trausti þess að manni verði umbunað á himnum? Það er ekki góðverk heldur bara vinna, vegna þess að maður býst við launum fyrir það. Það var annars ekki þetta sem ég var að tala um. Þegar ég segi að kirkjan vinni verk og boði erindi sem ekki séu "æskileg" er ég einkum að tala um fjárplógsstarfsemina, heilaþvottinn og þrælasiðferðið sem hún innrætir. Að ógleymdri hugsunarvillunni sem hún leggur alúðlega rækt við í blásaklausu fólki, jafnvel börnum (ja, ekki síst börnum). Fölsk huggun, innantóm loforð, innistðulausir happdrættismiðar. Þegar við bætist helgislepjan þar sem prestarnir þykjast vera öðru fólki siðferðisleg fyrirmynd, þá tekur svo út yfir allan þjófabálk.

Auðvitað eru það svo söfnuðirnir sem ákveða það hvort þeir meðtaki kenningar eða ekki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Já, það gera þeir með því móti, að fólk gefst upp á að vera í söfnuði sem þvi geðjast ekki að. Ef boðskapur klerksins fellur í grýttan jarðveg tínast vitanlega sauðirnir frá honum. Ef sauðirnir mótmæla ekki boðskap prestsins en halda áfram að hlýða honum, þá má álykta að þeir séu samþykkir honum eða láti sér í það minnsta standa á sama um "smávægilega" hnökra á borð við að (a)boðskapurinn um tilvist guðs á ekki við nein rök að styðjast, (b)kirkjan malar yfirstéttinni gull, og (c)kirkjan friðþægir undirstéttirnar svo þær leita ekki réttar síns heldur sætta sig möglunarlaust við hlutskiptið.

Með sömu rökum er hægt að halda því fram að Íslendingar séu allir stríðsóðir brjálæðingar... bara af því forystunni finnst rétt að varpa sprengjum á önnur lönd.

Tja, ekki var okkur nógu umhugað um saklaust fólkið í Íraq eða Afghanistan til þess að við risum upp og létum stjórnvöld hætta þessum stuðningi, var það? Íslendingar, almennt, gerðu ekkert í málinu. Það er ekki nóg að sitja muldrandi heima í sófa og "vera á móti stríðinu". Fyrir valdhafanum skiptir það engu máli hversu margir sitja heima og eru á móti.

Gallinn á málflutningi ykkar er að trúa því að kirkjan starfi eftir einhverjum miðaldargildum og sé að ofsækja fólk sem er á öndverðum meiði. það er alrangt, því skoðanaskipti eru ekki bönnuð innan Þjóðkirkjunnar.

Skoðanaskipti, kannski, en hversu lýðræðisleg er hún sem stofnun? Hver tekur ákvarðanirnar? Kirkjan segir sjálf að hún fylgi ekki tískustraumum heldur haldi í gamalgróin gildi. Það er því rangt að segja að hún fylgi ekki miðaldagildum. Eða hvað? Gjarnan er talið að miðöldum ljúki árið 1492 með fundi Ameríku. Lúther kom fram með greinarnar sínar 1518, þannig að ég skal draga aðeins í land: Ekki miðaldagildi, heldur 16. aldar gildi. Gildi sem henta stéttinni sem þá var að vaxa ásmegin og nú ræður ríkjum, borgarastéttinni. Þess utan fylgir kirkjan kenningum bókar sem er með því forneskjulegasta og steinrunnasta sem ennþá eimir eftir af í okkar menningu. Biblían? Hvaða heilvita manni dettur í hug að sækja alla sína "visku" í bók frá fornöld? Hvað ofsóknirnar varðar, þá sitja samkynhneigðir ekki við sama borð og aðrir í sölum kirkjunnar. Auk þeirra eru trúleysingjar einnig rægðir, svo og fleiri hópar. Það er kannski djúpt í árina tekið að kalla það ofsóknir - enda gerði ég það ekki heldur þú - en mismunun er þetta klárlega, gróf mismunun og óréttlát. Og það frá þessu fúna hræsnandi afturhaldsbákni sem sveipar sig skinhelgi.

Ekki lengri tími en 1000 ár frá tíma Ólafs, en sýn manna svo mjög breytt.

Er það svo? Er það virkilega svo? Hlutverk kirkjunnar nú og fyrir 1000 árum síðan er vissulega það sama: Hún þjónar valdastéttinni dyggilega. Það hefur ekkert breyst.

Ég get verið þér sammála að kærleikur sem slíkur sé ekki sér kristið fyrirbæri, menn gætu alveg tileinkað sér slíkt far án “Kristni”. Spurningin er kannski; hvaða virki hvati getur kallað það betra fram í fari manna og knúið það áfram?

Til dæmis maðurinn sjálfur og það eðli hans að láta sér lynda við aðra menn. Maðurinn er hjarðdýr og samlyndi við aðra menn er honum í blóð borið. Það eru ekki allir svo eigingjarnir að þurfa loforð um handanheimseilífðarfróun til þess að gera öðru fólki gott.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/04 17:37 #

Var Jesú ekki bókstafstrúarmaður? Hann var kannski ekki öfgasinnaður en tók allavega fram að hann væri ekki kominn til að afnema "lögmálið", þú virðist hins vegar halda að þú megir afnema lögmálið lalli.


Lárus Páll Birgisson - 28/09/04 05:08 #

Vésteinn, hvað er fölsk huggun?? ...Eða D, enginn maður er fullkominn.

Ég get ekki afnumið lögmál sem ég veit að er rétt: Að elska náungann eins og sjálfan sig.

Ég er fullkomlega meðvitaður um það að ég hef margvíslega brotið þetta lögmál og á eflaust eftir að gera það alloft í viðbót. Aðeins með því að gera sér grein fyrir því er manneskjunni kleift að þroskast andlega/siðferðislega.

Þetta er hið æðsta boðorð, að elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig. Allt annað eru útfærslur manna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/04 11:56 #

hvað er fölsk huggun??

Sú huggun sem gerir fólki hugarhægara í krafti lyga og loforða sem ekki standast. Barn sem missir móður sína fær að heyra að eftir dauðann muni það hitta hana aftur á himnum. Hvað er fengið með slíkum fullyrðingum? Er ekki mikilvægara að barnið nái sáttum við nýtt hlutskipti, í stað þess að ganga með söknuð sinn og tilhlökkun ævina á enda?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/04 13:20 #

Ég get ekki afnumið lögmál sem ég veit að er rétt: Að elska náungann eins og sjálfan sig.

Ekki skal ég bera á móti gildi þessa lögmáls. Það er okkur enda eðlilegt að hjarðdýrunum sem við erum, að elska náungann. Vitanlega innan skynsamlegra marka; við getum t.a.m. ekki látið náungann óáreittan ef hann vegur að hagsmunum okkar eða öryggi, eða þá ástvina okkar eða ættingja. Við getum heldur ekki látið hvað sem er yfir okkur ganga af hendi annars fólks. Ef við elskum náungann eins og sjálf okkur en látum vaða yfir okkur í sífellu, þýðir það þá ekki að við mundum líka láta vaða yfir náungann í sífellu? Þarna er ljóður á ráði margra: Maður verður að elska sjálfan sig fyrst til að það að "elska náungann eins og sálfan sig" hafi einhverja merkingu. Maður verður að gæta sín, hafa vit fyrir sér, vera sanngjarn við sjálfan sig og stuðla að því að aðrir séu sanngjarnir gagnvart manni sjálfum líka. Við erum hvort tveggja í senn, einstaklingar og samfélag. Með því að elska sjálf okkur leggjum við rækt við einstaklinginn; með því að elska náungann leggjum við rækt við samfélagið. Þessu andæfi ég ekki.

Þetta er hið æðsta boðorð, að elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig. Allt annað eru útfærslur manna.

Abbababbabbabb! Nú vorum við að komast eitthvað áleiðis. Við erum sammála um að elska sjálfa okkur og náungann álíka mikið. Verum ekki að blanda þessum guði þínum inn í þetta. Hann er síðari tíma viðbót, fundinn upp af seiðskröttum frum-Hebrea. Taktu eftir hvernig þetta er sett upp: Fyrst er sett fram krafa sem í besta falli er umdeilanleg (að elska þennan meinta guð), svo er sett fram krafa sem okkur er hvort sem er eðlilegt að framfylgja (að elska sjálf okkur og náungann). Það er haft rangt við. Guðs-ást er laumað inn hjá okkur bakdyramegin. Þú hlýtur að sjá slægðina í þessu. Ef ég segði við þig: "Tilbiddu mig og vertu góður við börnin þín." -- hvað mundirðu taka mikið mark á því? Þú mundir líkast til taka mark á seinni fyrirmælunum, enda eru þau um eitthvað sem þú mundir gera hvort sem er. En þau fyrri? Glætan. Ef þú tækir ekki mark á því, hvers vegna ættirðu þá að taka mark á prestum sem segja það sama um guð?


Lárus Páll Birgisson - 28/09/04 21:14 #

Ég er ekki viss um að ég sé sammála þessari skoðun þinni Birgir. Mín reynsla er nefnilega sú að vonin á fyrirheitið um einhverskonar handanlíf hjálpi í sorginni. Hugsunin um maðkétna ástvini í 6 feta holu sættir mig síður við nýja hlutskiptið. Eins get ég ekki skilið hvað er svona rangt við það að lifa í tilhlökkun alla sína ævi. Tilhlökkun og von um betri tíma getur aldrei, að mínu mati, verið slæmt.

Með þessari lífsýn sem þú boðar er vissulega gagnslaust að hugsa með tilhlökkun til morgunndagsins. Vonin um skemmtilega næstu helgi er því blekking þar sem við gætum allt eins dáið í nótt.

Þú getur nú varla áfellst fólk fyrir það eitt að hafa bjarta framtíðarsýn.

Vésteinn, sá sem iðkar þetta boðorð af fullkomnun þarf ekki að óttast náungann.

Já, þetta var nú kannski fljótfærni hjá mér að blanda Guði inn í umræðuna, við sem vorum að verða svo sammála :)

Kannski virkaði þetta ofsa vanhugsað hjá mér en þú verður að skilja að fyrir mér er Guð það sama og kærleikur. Þannig að til að sættast á ný skal ég umorða þetta komment svo allir geta verið sáttir.

Þú skalt elska kærleikan af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 02:02 #

Hmm.. það er nær lagi. Nær lagi en hin útgáfan að minnsta kosti. Fyrir þér er þessi guð kannski sama og kærleikur, en það breytir því ekki að kærleikur er ekki sama og guð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/04 18:01 #

Eins get ég ekki skilið hvað er svona rangt við það að lifa í tilhlökkun alla sína ævi. Tilhlökkun og von um betri tíma getur aldrei, að mínu mati, verið slæmt.

Ég hef sagt það áður: Það er álíka siðlaust að láta sér í léttu rúmi liggja hvort eitthvað sé satt svo lengi sem það veldur þægindatilfinningu og að láta sig einu varða hvaðan peningar eru fengnir svo lengi sem þeir eru komnir í veskið.

Þú getur nú varla áfellst fólk fyrir það eitt að hafa bjarta framtíðarsýn.

Hér gerirðu mér upp skoðanir. Ég er ekkert að því, svo lengi sem fólk er ekki að ljúga að sjálfu sér. Er ekki lágmark að framtíðarsýnin miðist við lífið?

Eg tel sáttina við ríkjandi ástand (ef ég get ekki breytt því ) betri kost en ævilanga óþreyjufulla óskhyggju.


Jón Valur Jensson - 04/10/04 23:17 #

Nú, þegar þessi umræða er komin út um víðan völl, vil ég (án þess að gera lítið úr óskum manna að tengja hana öðrum málefnum) snúa henni aftur að upphaflegum pistli Birgis Baldurssonar um kirkjuna og samkynhneigða, sérstaklega þar sem hann sneiðir að Nýja testamentinu. Klaufalegt var það hjá honum að segja eftirfarandi um Pál postula: “Bæði Mósebækur og skrif Páls postula vitna um að samkynhneigð skuli skoðast sem viðurstyggð og gengur Páll meira að segja svo langt að telja þá er leita eigin kyns réttdræpa, um leið og hann kallar þá öllum illum nöfnum aftast í Rómverjabréfinu”. Í 1. lagi er nákvæmlega ekkert um þessi mál aftast í því bréfi, í 2. lagi er ofmælt, að hann kalli þá öllum illum nöfnum, í 3. lagi segir hann þá hvergi réttdræpa, og í 4. lagi kallar hann samkynhneigð hvergi viðurstyggð (þótt 3. Mósebók geri það, en í merkingu sem er kannski ekki augljós okkur). Til hvers þá að býsnast svona, Birgir? Jú, afsökun hefurðu -- hefur sennilega misskilið orð Páls í 1. kafla Rómverjabréfsins, eins og nánar kemur fram hér á eftir.

Ekki er ráðrúm að sinni til að fara í saumana á Gamla testamentinu, við getum rætt þau atriði seinna, en lítum á það Nýja. Hvergi minnist Jesús beinlínis á samkynhneigða, þó að ýmis ummæli hans, t.d. um náungakærleika eða köllunarhlutverk hans sjálfs fyrir alla menn, eigi við um homma og lesbíur ekkert síður en aðra. En af orðum Jesú um hjónabandið (Mt.19.4 o.áfr.) er a.m.k. kristnum mönnum ljóst, að það er einungis ætlað karli og konu. Þannig var það einnig skv. Gamla testamentinu. Afstaða samtíðarmanna Jesú í Landinu helga var sú sama (jafnvel Stóíkera líka, sem þá höfðu mikil áhrif), og því var engin sérstök ástæða fyrir hann að ítreka það í kenningu sinni, nema hann hefði viljað kenna eitthvað nýtt í þessu efni.

Samhengið hjá Páli er annað. Hann fór víða um grísk-rómverska heiminn í boðun sinni á 2. og 3. áratugnum eftir krossfestingu Jesú og sá ástæðu til að fjalla sérstaklega um heimsmynd hjálpræðisins (ef svo mætti kalla þetta): allir menn hafi þekkt Guð af verkum hans (Róm.1.19-21) og haft möguleika til að “gera að eðlisboði það sem [siðferðis]lögmálið býður” (2.14), en í reynd hafi margir þeirra hvorki vegsamað Guð né þakkað honum, heldur gerzt hégómlegir og tekið aðra hluti fram yfir hann, “dýrkað hið skapaða í stað skaparans” (1.21-25), en afleiðingin orðið sú, að þeir hafi farið á mis við hjálp hans, lokazt fyrir sannleikanum og spillzt í lífsstefnu sinni, hugsunum og verkum (1.24, 26-32).

Höfum í huga, að hér ræðir Páll um alla guðvana menn sem haldnir séu “ósæmilegu hugarfari”, sem sýni sig í röngu framferði þeirra (Róm.1.28 o.áfr.), sem sagt alls ekki um einn flokk manna fremur en annan (og engin ‘stigröðun’ synda kemur fram í upptalningunni). Og þegar Páll segir: “þeir, er slíkt fremja, eru dauðasekir” (“verðugir dauða” væri réttari þýðing á frumtextanum, axioi þanatou), þá er hann að vísa til þess sama og í Róm.6.23: “laun syndarinnar [ófyrirgefinnar syndar] er dauði,” þ.e. eilífur aðskilnaður frá Guði, eins og ritskýrendur kirkjunnar áttu ekki í neinum vandkvæðum með að skilja (sbr. Th. Aquinas, In Rom., ad 6.21 og 23 og 1.32). Það er fjarri öllum skilningi þeirra, að orðin axioi þanatou þýði, að viðkomandi menn, sem breyta ekki rétt (þ.m.t. allir öfundsjúkir, bakmálir, óskynsamir, hrekkvísir og foreldrum óhlýðnir!), séu réttdræpir eins og skóggangsmenn að fornu á Íslandi eða að veraldlegum/kirkjulegum yfirvöldum beri að taka þá af lífi. Í sögu kristninnar hefur þetta vers (Róm.1.32) aldrei verið talið réttlæting fyrir dauðarefsingu allra slíkra eða ágjarnra, óáreiðanlegra, kærleikslausra o.s.frv. -- og því heldur ekki homma eða lesbía. Þar í liggur misskilningur Birgis í þessu dæmi, sem er þó að vissu leyti skiljanleg skoðun, því að frá hámiðöldum voru samkynhneigðir ofsóttir með dauðarefsingu í mörgum löndum Evrópu, en það kemur þessum Pálstexta ekki við.

Annar misskilningur B.B. er sá, að hann virðist telja, að upptalning lastanna í Róm.1.28-31 eigi sérstaklega við um homma og lesbíur, eins og allir þessir brestir séu fylgifiskar þeirra. En sú upptalning getur átt við hvern sem er eftir atvikum, án tillits til kynferðis-hneigðar eða -atferlis; Páll er að segja miklu meira en svo, að hann festi hugann við samkynhneigða eina, því að þarna bendir hann á almennar og margvíslegar afleiðingar og birtingarmyndir þess, að menn dýrki ýmsa hluti eða sjálfa sig fram yfir Guð skapara sinn. En það fólk, sem hefur kynmök við aðra af sama kyni, fellur vissulega að mati Páls undir hóp syndara rétt eins og aðrir, sem haldnir eru þeim ýmsu siðferðisbrestum (óviðkomandi hommum og lesbíum) sem taldir eru upp í Róm.1.29-31.

Eru ekki nógu margir erfiðir hlutir í Biblíunni?! Er nokkur þörf á því að skálda upp á hana öfgakenndum meiningum sem ekki liggja fyrir í texta hennar? Það er grundvallaratriði við íhugun orða hennar, að við fáum það á hreint hvað hún sjálf segir og hvað hún segir ekki -- og að við einblínum ekki á þann texta út frá tímabundinni túlkun síðari alda (t.d. Stóradóms á 16. öld).

Þótt Páll postuli sé ekki aðalatriði þessa máls, er þýðing hans mikil fyrir kristna menn. Hann ber markvert vitni um krossfestingu og upprisu Krists, er e.k. meðhöfundur að “guðfræði náðarinnar”, kenningunni (þ.e. fræðslunni) um réttlætingu gegnum trú (Róm., Galatabréfið), auk þess að kenna t.d. um heilaga kvöldmáltíð (I. Kor.11), og hjá honum finnum við sjálfan óðinn til kærleikans (I. Kor.13), sem boðar góðvild, umburðarlyndi og gleði yfir sannleika þess Guðs, sem okkur gefist jafnvel færi á að þekkja “augliti til auglitis” eftir þetta líf. Þó að Páll tiltaki margvísleg skilyrði fyrir þessu síðastnefnda, skilyrði sem geta verið ströng við eitt og sérhvert okkar (eins og víða kemur fram í kenningu Krists sjálfs), þá er það engin ástæða til að fleygja Páli út í yztu myrkur. Og við værum ekki að skilja orð hans um samræði karla við karla eða kvenna við konur rétt, ef við héldum að tilgangur hans hafi verið að skammast eða úthúða mönnum eða gera þá að þeim smáða og ofsótta hópi sem þeir síðar urðu víða, heldur er hann að tala um atriði sem tilheyra trúarvitneskju hans og það sem hann í ljósi hennar telur ástæðu til að vara söfnuð sinn við.

Þetta sést enn greinilegar á hinum tveimur bréfunum þar sem Páll víkur að samkynhneigðum, I. Kor.6.9-11 og I. Tím.1.9-10. Í fyrra verkinu (sem er elzta Pálsbréfið, frá því um 50–55 e.Kr.) telur hann upp ýmsa sem með breytni sinni útiloki sig frá Guðs ríki (lastmála, ásælna, hórkarla, þ.e. framhjáhaldsmenn, óhreinlífa, þ.e. lauslætisfólk, skurðgoðamenn, þjófa og ræningja, auk þeirra sem leggjast til samræðis með öðrum sama kyns). Í öllum tilvikum sleppir hann því að krydda orð sín um þetta fólk, heldur notar einfaldlega vel afmarkaðar skilgreiningar. Jafnvel sjálft orðið, sem á íslenzku er ranglega þýtt ‘kynvillingur’, er hjá honum í raun hlutlægur terminus technicus, ógildishlaðinn og sem slíkur laus við álösunartón, þ.e. gríska orðið arsenokotai, ‘karl[sam]liggjendur’ eða ‘karlmanna-rekkjunautar’. Hin hávísindalega Vulgata-þýðing, sem miðaldamenn notuðu, hefur hér kórrétta þýðingu: masculorum concubitores, sem nær alveg gagnsæju merkingunni hjá Páli (“karl-hjásvæfur” væri jafnvel réttari þýðing en þessi íslenzka kynvilluhugsun). Páll notaði einfalda, hávaðalausa lýsingu á því sem hann átti við. Og tökum svo eftir, að sú eilífa glötun, sem hann tengir öllum þessum lastmálu, ásælnu, hórkörlum, hommum o.s.frv., er nú ekki óhjákvæmilegri en svo, að hann segir við sína kristnu tilheyrendur strax í næsta versi: “Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda Guðs” (I. Kor.6.11). M.ö.o.: Það var ekki óviðráðanleg hindrun fyrir neinn, sem átti sér fortíð sem t.d. ræningi, hórkarl, lastmáll eða hommi, að geta orðið kristinn maður: hrifizt af boðskap Lausnarans, iðrazt, fengið fyrirgefningu og endurbætzt með náðarkrafti Guðs til nýs lífs í trúnni. Það er því opin leið fyrir hvern homma og hverja lesbíu ekkert síður en okkur hin, þ.m.t. kristna menn, sem líka höfum brotið lögmál Guðs í ýmsum greinum. “Hvar er þá hrósunin? Hún er útilokuð” (Róm.3.27). “Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú” (3.23-24).

Í I. Tím.1.10 er orðið arsenokotai ranglega þýtt (nú jafnvel með enn meiri fordæmingarkeim en í I. Kor.6.9): hér er viðhaft íslenzka orðið “mannhórar”, sem missir alveg marks, þ.e. nær ekki frumtextanum og verður hreinlega að teljast sensational. Þessar brengluðu þýðingar verður að endurskoða við nýja útgáfu Biblíunnar. En um þennan texta í fyrra Tímoteusarbréfi 1.9-10 á það við eins og um I. Kor.6.9-11, að þar notar Páll hlutlæg, skýrt afmörkuð hugtök og sleppir því með öllu að krydda mál sitt með hneykslunarfullum athugasemdum. Ef menn verða varir við ‘fordæmingu’ í málflutningi hans, þá er hún einfaldlega í því formi, að hann segir nefnda breytni af margvíslegu tagi útiloka menn frá Guðsríki, nema þeir snúi sér til Guðs og frá þeim fortíðargjörðum sínum. En það sama finnum við í flestöllum ritum NT og hjá Jesú sjálfum, þótt forgangsverkefni hans hafi verið að boða Guðsríkið, líkna bágstöddum og kalla til sín syndara. Já, eins og frægt er, sakfelldi Jesús ekki hórseku konuna í Jóh.8, en hann kvaddi hana þó með þessum orðum: “Far þú, syndga ekki framar”; og í mörgum ummælum sínum tvínónar hann ekki við að tala um að menn geti útilokað sig frá Guðsríki með lögmálsbrotum (dæmi: Mt.4.17, 5.20, 7.21-23, 11.20-24, 13.37-42, 49-50, 18.2-4 og ekki sízt 25.31-33 og 41-46). Hommar og lesbíur eru því á sama báti og allir aðrir hvað þetta varðar: þau, eins og annað fólk, hver sem fortíð viðkomandi er, eru kölluð til trúar á Krist, til iðrunar og fyrirgefningar og til að verða meðtekin af Guði, miskunnarfullum föður okkar, í eilífðarríki hans.

Að lokum vil ég svo vísa til góðrar greinar (þeirrar sem ég hef nýjast komizt yfir) um NT og samkynhneigða, þ.e. ‘Homosexuality and the New Testament’ eftir próf. Romano Penna, á vefsíðunni http://www.ewtn.com/library/HUMANITY/homo4.htm .

Jón Valur Jensson, cand.theol.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/04 00:26 #

Takk fyrir þetta ítarlega innlegg, Jón Valur. Og veistu, þú hefur alveg rétt fyrir þér - þetta er aftast í 1. kafla Rómverjabréfsins, en ekki aftast í því sjálfu. Afsakaðu fljótfærnina.

En annað í svari þínu er meira álitamál. Skoðum það ögn:

En af orðum Jesú um hjónabandið (Mt.19.4 o.áfr.) er a.m.k. kristnum mönnum ljóst, að það er einungis ætlað karli og konu.

Jesús var semsagt á móti hjónabandi samkynhneigðra. Það gerir hann að eftirbáti mínum í siðferðilegum efnum. Ég vil ekki að fólki sé mismunað eftir kynhneigð (hljóðar ekki mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna upp á slíkt líka), en frelsara kristinna manna munar ekkert um að ýta undir slíka mismunun. Hvað finnst þér um það? Getur verið að hann sé guð og skapari?

og því var engin sérstök ástæða fyrir hann að ítreka það í kenningu sinni, nema hann hefði viljað kenna eitthvað nýtt í þessu efni.

Ef Jesús var/er guð ætti hann auðvitað að hafa kennt eitthvað nýtt í þessum efnum, í stað þess að styðja við úrelta fordóma. Sama gildir reyndar um fleira, t.d. ranghugyndir manna um geðsjúkdóma sem Jesús gerði ekkert í að leiðrétta, heldur viðhélt þeim með því að reka út illa anda í akkorði. Bendi á grein mína Glæpur Guðs gegn mannkyninu.

Það er fjarri öllum skilningi þeirra, að orðin axioi þanatou þýði, að viðkomandi menn, sem breyta ekki rétt (þ.m.t. allir öfundsjúkir, bakmálir, óskynsamir, hrekkvísir og foreldrum óhlýðnir!), séu réttdræpir eins og skóggangsmenn að fornu á Íslandi eða að veraldlegum/kirkjulegum yfirvöldum beri að taka þá af lífi.

Á öllum tímum hafa menn túlkað það sem stendur í Biblíunni með öllu móti. Þessi orð Páls má auðveldlega túlka á þennan hátt og alveg öruggt að það hefur verið gert. Páll segir að þessir menn séu dauðsekir. Var það ekki með svipaðri túlkun á orðum Biblíunnar sem menn æddu austur í álfur að berja á múslimum fyrr á öldum? Hvað með "eigi skaltu láta galdrakonu lífi halda" og bálkesti þá sem klerkar og kirkja reistu út um allt fyrir fáeinum árhundruðum?

Spurningin er í raun þessi: Ef Biblían er raunverulega guðsorð, eða flytur einhvern sannleika um örlög okkar og siðlega breytni, af hverju í ósköpunum er hún þá ekki skýrari? Ætti það ekki að vera himnafeðgunum hjartans mál að ekkert fari á milli mála þarna, vitandi það að leitað yrði í þessa bók til leiðsagnar árþúsundum saman?

En sú upptalning getur átt við hvern sem er eftir atvikum, án tillits til kynferðis-hneigðar eða -atferlis; Páll er að segja miklu meira en svo, að hann festi hugann við samkynhneigða eina...

En nú er samkynhneigð ekki synd, skv. almennum siðferðisviðmiðum nútímans. Er ekki dálítið grótesk hjá Páli að setja hana á bekk með morðum, falsi, lygi og öðrum illvirkjum? Og myndi Gussi gamli ekki hafa filterað þetta út hjá honum ef hann hefði vitað að mannskepnunni myndi fleygja svo fram í siðferðilegu tilliti að sýna þessari kynhegðun umburðarlyndi?

ef við héldum að tilgangur hans hafi verið að skammast eða úthúða mönnum eða gera þá að þeim smáða og ofsótta hópi sem þeir síðar urðu víða, heldur er hann að tala um atriði sem tilheyra trúarvitneskju hans og það sem hann í ljósi hennar telur ástæðu til að vara söfnuð sinn við.

Og hver var trúarvitneskja hans? Skildi hann himnadraugana rétt? Eru þá Gussi og Krissi mér umburðarlausari þegar kemur að málefnum samkynhneigðra? Biblían er til vitnis um það, ber okkur ekki að taka hana of alvarlega þegar allt kemur til alls?

Jón Valur, það er árið 2004 og öllum er orðið skítsama um hvoru kyninu náungann langar að ríða. Það eru aðeins öfgafullir trúarsöfnuðir sem eyða orku í að fordæma og úthúða samkynhneigð, en auk þess mismunar Þjóðkirkjan enn þessu fólki af einhverjum ástæðum.

Látum þetta duga. Af hverju viðurkennirðu ekki bara, Jón Valur minn, að Biblía sú er þú hefur menntað þig í er forneskjuleg skrudda, uppfull af fordómum hirðingjaþjóðflokks aftan úr fornöld og ekki nútímamanninum sæmandi að gera hana að einhverju endanlegu átoríteti þegar kemur að siðferðilegum efnum. Eitt og annað má tína til ágætt í kenningum Jesú, en margt af því sem hann á að hafa sagt er hæpið, ef ekki bara hreinlega geðveikislega afkáralegt. Páll Postuli var fordómapúki sem studdi kúgun kvenna, þrælahald og mismunun eftir kynhneigð og því eiga þessi stirðbusalegu textar ekkert erindi við fólk í nútíma réttarríki.

Það vantar mannréttindasáttmálann í Biblíuna.

Og svona að lokum: Hvort ertu með eða á móti því að þjóðkirkjan virði samkynhneigt fólk til jafns við aðra menn?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/04 01:06 #

Smá viðbót: Er það alveg útilokað að Páll Postuli hafi átt við það að samkynhneigðir séu réttdræpir þegar hann segir þá dauðseka? Því ef það er það sem hann meinar, þá er það ekkert nýtt í Biblíunni heldur á sér hliðstæðu í þessum orðum úr Levitíkusi:

Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim. (Leviticus 20:13)

Getur verið, Jón Valur, að grænsápan hafi náð á þér tökum? ;)


Lárus Páll Birgisson - 07/10/04 18:15 #

Ég hef nú töluvert skoðað söguna um þennan jesú og ég get ekki séð að hann tali nokkurntímann um samkynhneigð..... sé bara ekkert í hans orðum sem gera homma og lespíur eitthvað meiri perverta en okkur hin. Hann talar einfaldlega hvergi um það!


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 08/10/04 01:01 #

Ég er með kenningu: Jesús var hommi. Hann á að hafa verið mennskur, svo hann hlýtur að hafa haft kynhvöt eins og aðrir. Hafi hann hneigst til kvenna væri það ekkert feimnismál, enda eðlilegt, en hafi hann hneigst til karla er skiljanlegra að fordómafullir forn-Hebrearnir hafi þaggað það niður. Ef hann var hommi mundi það líka skýra hvers vegna hann hamrar ekki meira á hommum í meintum ræðum sínum, þrátt fyrir skýr fyrirmæli gamlatestamentisins óskeikula.


Lárus Páll Birgisson - 10/10/04 05:01 #

Nú hreinlega verð ég að vera þér ósammála Vésteinn. Kenning þín er nefnilega ekki byggð á neinu...svo undarlega sem það nú hljómar.

Í fyrsta lagi þarftu að gera upp við þig hvort Jesú hafi í raun verið til eða ekki til að mynda þér skoðun um einhverja eiginleika sem hann kunni að hafa eða ekki.... bara það gerir kenninguna kjánalega.

Í öðru lagi er vægast sagt ómögulegt að fordómafullir forn-hebrear hafi þaggað niður svona svívirðu (að þeirra mati, ekki mínu) þegar augljóst var samkvæmt lögmálinu að það ætti að grýta hann. Fordómafullir bókstafstrúarmenn þagga ekki niður lögmálsbrot.

Í þriðja lagi er gamla testamenntið ekki óskeikulli en það að Jesú sjálfur bendir á ýmsa vankanta á því. Jesú var nefnilega ekki bókstafstrúarmaður. Barátta hans var gegn bókstafstrúarmönnum sem nota texta til að réttlæta misgjörðir sínar.....hann var svona eiginlega á móti lögræðingum (fariseum) sem nýta sér glufur kerfisins til að halda öðrum undir sér.

Í fjórða lagi má ætla að hommar þessa tíma hafi þurft hvað mest á því að halda að opinbera hómófóbískar skoðanir, svona rétt eins og hommahatarar nútímans.

Má vel vera að hann hafi verið hommi, ég get ekkert sagt um það. Ég get bara sagt að það þarf betir kenningu en þetta til að sannfæra mig.


Arnþór Jónsson - 10/10/04 11:39 #

Fullkominn maður eða Kristsvera gæti á engan veginn birt alla fullkomnun kosmískrar vitundar sinnar í efnislíkama venjulegs manns. Slík fullkomnun fær aðeins birst í mannlegum líkömum, sem eru næginlega þroskaðir til þess, en þá er ekki enn að finna hér á jörðu, jafnvel þó þróunin í þá átt sé þegar byrjuð með pólstöðubreytingunni.

Hinn fullkomni maður hefur á þróunarskeiði sínu náð fullþroska pólstigi, þ.e.a.s., að andstæðupóllinn hefur náð sama stigi og frumpóllinn. Frumpóllinn, sem fram að þessu hefur borið uppi hneigðir dýrsins í manninum, svo að þær voru ráðandi, hefur jafnframt breyst með þróuninni eftir því sem andstöðupóllinn, sem einmitt ber uppi hið mannlega í verunni, hefur þroskast. Þegar þessir tveir pólar hafa aðlagst til fullkominnar samvinnu í mannlegri vitund, sem er gersneydd hugarfari dýrsins, er veran einmitt orðin fullkomin "maður í Guðs mynd" og líkingu.

Þar sem báðir pólar, karkyns og kvenkyns, eru í jafnri aðstöðu og jafnvægi í hinum fullkomna manni, verður nefnd vera hvorki sérstök "karlvera" né sérstök "kvenvera". Hinn fullkomni "maður í Guðs mynd" er því hvorki maður né kona.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 10/10/04 11:59 #

Fjandakornið, er danskurinn tölvuforrit eftir Arnþór, svona svipað og póstmóderníski generatorinn? Ég sé ekki betur. Kann enga aðra skýringu á þessum fullkomlega glórulausu og frasakenndu athugasemdum sem virðast vera settir saman af tilviljun.

Skoðið póstmóderníska generatorinn og berið saman við skrif danskurisins/Arnþórs.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 11/10/04 01:46 #

Lárus Páll Birgisson - 10/10/04 05:01:

Nú hreinlega verð ég að vera þér ósammála Vésteinn. Kenning þín er nefnilega ekki byggð á neinu...svo undarlega sem það nú hljómar.

Ég veit það Lárus minn, þessi kenning er líka meira sett fram í gamni en alvöru. Í sjálfu sér finnst mér hún samt meika ansi mikið sens. Hún mundi skýra ýmislegt.

Jesú var nefnilega ekki bókstafstrúarmaður. Barátta hans var gegn bókstafstrúarmönnum sem nota texta til að réttlæta misgjörðir sínar...

Vér marxistar eigum orð yfir svona menn: Endurskoðunarsinnar. Það mætti semsagt segja að Ésús hafi verið endurskoðunarsinni og er hann þá kominn í hóp með mönnum á borð við Krústsjoff eða Kautsky. Það er hin kenningin mín: Ésús var endurskoðunarsinni.

..hann var svona eiginlega á móti lögræðingum (fariseum) sem nýta sér glufur kerfisins til að halda öðrum undir sér.

Ég spyr, hver er ekki á móti lögfræðingum ( faríseum)??

Matti Á. - 10/10/04 11:59:

Skoðið póstmóderníska generatorinn og berið saman við skrif danskurisins/Arnþórs.

Hver andskotinn, ég held þetta sé rétt hjá þér! Þetta er með því besta sem ég hef heyrt lengi!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.