Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jesús grætur

Í nýlegri predikun yfir fermingarbörnum segir presturinn Örn Bárður Jónsson:

Jesús grætur ekki yfir þeim sem þekkja vitjunartíma sinn en hann grætur yfir þeim sem hunsa hin sönnu gildi lífsins og hafna eilífðinni sjálfri, himni Guðs og kærleiksríki hans.

"Jesús grætur," segir Örn Bárður og undirstrikar mikilvægi þess að trúa, svo maður eigi sér einhverja von. En er sama á hvað er trúað? Á maður sér von ef maður er múslimi, eða kannski hindúi með (að okkar mati) afkáralegar og teiknimyndalegar hugmyndir um guðdóminn? Er hin eina slæma afstaða í lífinu að vera guðlaus, að mati þínu Örn Bárður?

Og tekur þá umburðarlyndi íslensku þjóðkirkjunnar aðeins til annarra trúarbragða, en ekki guðleysis?

Getur sá er boðar trú, kristna trú, haft raunverulegt umburðarlyndi gagnvart öðrum lífsskoðunum? Er honum ekki í mun að sækja týndu lömbin svo Jesús geti hætt að gráta? Er ekki sá guðsmaður sem lætur sig trúleysi náungans einu gilda þá bara ömurlegur hræsnari?

Jesús grætur, en grætur þú, Örn Bárður? Í samræðu okkar fyrr í sumar segirðu skýrum orðum: "Vertu sæll í þinni van-trú". Hvað táknar þetta? Er þér alveg sama um þótt ég glatist? Þú veist sannanlega af mér núna, mér og guðleysi mínu, af hverju reynirðu ekki að koma til bjargar, þú fulltrúi guðdómsins á jörðinni? Af hverju er þér sama um trúleysi mitt?

Hræsnari!

Er nauðsynlegt að trúa eða ekki, Örn Bárður? Ef það er nauðsynlegt, er þá nauðsynlegt að trúa á eitthvað sérstakt, eða nægir einungis að gera ráð fyrir einhverskonar óskilgreindum æðri mætti? Og ef það nægir, af hverju er þá þjóðkirkjan að boða kristni, með öllum sínum afkáralegu hindurvitnum sem upplýstur nútímamaður á í mestu vandræðum með að fallast á?

En samkvæmt sjálfum þér er tiltrú á æðri mátt ekki einu sinni nauðsynleg. Í nýjustu samræðu við okkur trúlausa læturðu þér nægja að skilgreina trú sem traust. Ef trúleysi er í huga þér einungis skortur á trausti, af hverju ertu þá í stólræðum þínum að boða uppstigningar, meyfæðingar, himnadrauga, kraftaverk, syndabyrði og annað það sem upplýstur nútímamaður á erfitt með að kaupa? Af hverju læturðu þér ekki nægja að hvetja menn til trausts á náunganum? Ef nauðsynlegt er að trúa, snýst það þá ekki bara um þetta eitt?

Hræsnari!

Birgir Baldursson 17.08.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.