Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fréttablaðið brotlendir í Roswell

Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um fljúgandi furðuhluti, viðtal við Magnús Skarphéðinsson geimveruáhugamann ásamt "Geimveru- og geimskipasögum úr íslenskum raunveruleika". Einnig er sagt frá brotlendingu geimskips við Roswell í New-Mexico einsog um staðreyndir sé að ræða þó í raun sé þetta einfaldlega samsæriskenning sem byggir ekki neinum sönnunum.

Það er svo margt sem rangt í Roswellgreininni að það er ekki skrýtið að blaðamaðurinn hafi sleppt því að láta nafn sitt við hana. Það sem gerðist í raun var að bóndi nokkur fann eitthvað rusl á landareign sinni og lét engan vita af því fyrr en 11 dögum síðar þegar hann heyrði að fljúgandi furðuhlutir hefðu sést yfir Washington. Það er annars of langt mál að fara yfir staðreyndirnar í Roswell-málinu hér en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér það geta kíkt á heimildirnar sem vísað er í hér neðst á síðunni.

Í blaðinu er líka birt mynd af "krufningu geimveranna", þó það sé ekki sagt þá virðast þessar myndir vera úr myndbandi sem varð frægt fyrir nokkrum árum. Það virðist ekki skipta blaðamanninn neinu máli að það er löngu orðið ljóst að myndbandið er falsað, í því sést til að mynda skilti í bakgrunninum sem var ekki framleitt fyrr en 1967 (svo ekki sé minnst á hve ósannfærandi myndbandið sjálft er).

Reynslusögurnar "úr íslenskum raunveruleika" eru einfaldlega sögur, samkvæmt þeim geta geimskip sveimað yfir Öskjuhlíðinni með miklum ljósasýningum án þess að 99.9% Reykvíkinga taki eftir því. Staðreyndin er einfaldlega sú að það mannshugurinn er ekki fullkominn og það er auðvelt að blekkja hann.

Magnús Skarphéðinsson virðist trúa öllu nema því sem vísindamenn segja enda eru þeir forpokaðir. Magnús trúir á geimverur, álfa, huldufólk, drauga og hugsanaflutning, öll þessi fyrirbrigði hafa verið rannsökuð ítarlega án þess að nokkuð bendi til þess að þau séu raunverulega til. Í raun verður fólk að spyrja sig hvort það trúi Magnúsi Skarphéðinssyni eða vísindasamfélaginu, svarið ætti að vera augljóst.

Það er sorgleg staðreynd að stundum virðast blaðamenn halda að fréttaflutningur af yfirnáttúrulegum fyrirbrigðum falli ekki undir sömu lögmál og umfjallanir um önnur mál. Þeir virðast líta á svona greinar sem meinlausa skemmtun án þess að sjá ástæðu til þess að merkja greinarnar þannig að þær þekkist frá raunverulegum fréttum.

Þetta viðhorf er hættulegt. Fyrst og fremst er það reyndar skaðlegt fyrir fjölmiðlanna sjálfa og trúverðugleika þeirra en einnig getur þetta skaðað trúgjarnt fólk (og börn) sem ekki hafa náð tökum á þeirri tækni sem þarf til að gera greinarmun á raunveruleika og kjaftæði.

Hver veit nema að Magnús Skarphéðinsson sé sjálfur fórnarlamb óábyrgra blaðamanna sem töldu hlutverk sitt vera að skemmta almenningi en ekki uppfræða. Fjölmiðlafólk verður að taka ábyrgð á umfjöllunum sínum og átta sig á að það má ekki framreiða hvaða rugl sem er í búningi frétta. Blaðamenn verða að bera virðingu fyrir sannleikanum, almenningi og síðast en ekki síst, sjálfum sér.

Þess má að lokum geta að efahyggjumenn telja alls ekki útilokað að geimverur séu til, miðað við stærð Alheimsins þá er það í raun frekar líklegt, sögurnar af komum geimskipa til Jarðar eru hins vegar afar ósannfærandi.

Heimildir
Did a flying saucer crash near Roswell, New Mexico in the 1940s? What's with this "alien autopsy" movie?
The Cold War's Classified Skyhook Program
How To Make An Alien

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.07.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Snær - 11/07/04 02:38 #

Ég var einmitt að glugga í þessa grein í morgun, og fannst þetta einmitt alveg afskaplega óábyrg greinarskrif.

Fussumsvei, segi ég. Mér væri það nær að leggja hreinlega álög á greinarhöfund. Ég hef það nefnilega frá áreiðanlegum álfum á höfuðborgarsvæðinu að þeir voru bara aðeins að hrekkjast í fólkinu....


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 12/07/04 23:58 #

Það er gott að e-r sýnir fjölmiðlunum aðhald í þessum efnum. Vitleysan sem oft veður uppi er hreinlega til skammar.


Tóti - 14/07/04 15:56 #

Greinin í Fréttablaðinu er sorglegt dæmi um óvandaða blaðamennsku. Samt skal ekki afskrifa fljúgandi furðuhluti fyrir það. Reyndar er þessi íslenska þýðing á enska orðinu UFO meingölluð, hún gefur strax til kynna að eitthvað fáránlegt sé ferðinni. Bein þýðing er óþekktur fljúgandi hlutur. Áður fyrr hefði ég skrifað hérna inn til varnar áhugamönnum um ÓFH en ástæða þess að ég geri það nú er að ég sá einn slíkan að kvöldlagi í byrjun júnimánaðar síðasta yfir Kaupmannahöfn. Hann var skáhalt beint yfir mér í um tíu metra hæð, hvítur, hljóðlaus, fór á um fimmtíu til sextíu kílómetra hraða og sýnilegur eitt augnablik. Eftir það hvarf hann alveg í myrkrið. Þegar ég sagði frá þessu fyrst mætti ég strax mikilli vantrú. Það var eins og sjálfkrafa viðbrögð að viðkomandi vildi frekar trúa að ég hefði verið að sjá ofsjónir, verið undir áhrifum eiturlyfja eða bara hvað sem er annað en að ég hefði raunverulega séð þetta. Slíkt sárnar manni og vil ég hvetja alla til að fullyrða ekki um neinn að hann sé heimskur, auðtrúa eða geðveikur þó hann/hún haldi því fram að hafa séð óþekktann fljúgandi hlut. Eins og grískur heimspekingur sagði eitt sinn: "Það er meira milli himins og jarðar en er dreymt um í heimspeki þinni."


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/07/04 16:04 #

Ég ætla ekki að efast um að þú hafir séð eitthvað sem var óútskýranlegt af þinnu hálfu en málið er að mannshugurinn er gallaður og skynfærin geta blekkt. Jimmy Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseti var sannfærður um að hann hefði séð UFO en í raun veru sá hann bara Venus sem er fræg fyrir að plata fólk svona.

Annars þá er þetta Shakespeare, Hamlet réttara sagt:

There are more things in heaven and earth, Horatio, Than are dreamt of in your philosophy.

Sindri Guðjonsson - 14/07/04 19:03 #

Flott grein Gneisti. Þið megið eiga það "vantruar menn" að þið hafið kjaftinn fyrir neðan nefið.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/07/04 20:06 #

UFO eru alveg til. Sérhver hlutur sem er fljúgandi og menn vita ekki hvað er er einmitt það: UFO. Meðal hluta sem oft flokkast undir UFO eru veðurathugunarloftbelgir. Ef það sést óvæntur depill á ratsjánni, depill sem enginn viet hvað er, þá er hann UFO þangað til það kemur í ljós hvað er á ferðinni.


Baldvin - 26/07/04 00:55 #

Nú ætla ég aðeins að tjá mig. Tekið úr greininni hér að ofan: ..öll þessi fyrirbrigði hafa verið rannsökuð ítarlega án þess að nokkuð bendi til þess að þau séu raunverulega til. Segir hver? Það er margt sem bendir einmitt til þess og umræðan skal haldast opin-því að hið ókunna er ókannað og ekkert um það að dæma enn. Ef einhver efast um/afneitar tilvist ffh eða hugsanaflutnings t.d. mætti koma með þau rök á móti að undirmeðvitundin er ótrúlegt tæki og lokar oft á minningar tengdar því sem fólk vill ekki hafa í veruleika sínum eða þekkir ekki og jafnvel hræðist. Sumir segjast ekki vera hræddir við tilvist slíkra hluta einsog FFH en er það raunin? Hefur nokkuð gefið sér tíma og virkilega pælt í því. Ekki margir. Ekki nógu margir nei! Annars væri þessi umræða óþörf.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/07/04 01:45 #

Undirmeðvitundin lokar ekki á minningar, það hefur verið rannsakað ítarlega. Til að mynda var rannsakað hvort fólk sem hafði verið í útrýmingarbúðum nasista sem börn hefðu gleymt minningunum og það kom í ljós að fólkið mundi yfirleitt nákvæmlega hvað hafði komið fyrir það. Einnig var rannsakað hvort börn sem höfðu orðið vitni að morði foreldra sinna hefðu lokað á minningarnar en svo var ekki.

Mítunni um að undirmeðvitundin loki á minningar hefur hins vegar verið haldið á lofti af óábyrgum fjölmiðlum, jafnvel þannig að gríðarlegur skaði hefur hlotist af.

Minningar um brottnám geimvera eru oft Falskar minningar.


Baldvin - 28/07/04 01:12 #

Minningar um brottnám geimvera er ekki eitthvað sem ég er tilbúin til þess að deila um. Enda ætla ég ekki að segja fólki hvað það hefur upplifað. En varðandi að fólk loki á minningar er ekki það sama og að loka á tilfinningar og hræðsla er ein sterkasta tilfinningin. Það var nú kanski það sem ég átti við. Fólk sem er vantrúað á yfirskilvitlega hluti hefur hugsanlega lent í einmitt því að upplifa eitthvað dulrænt. Samanber einstaklingur sem er hræddur við t.d. að virka þunglyndur/dapur manifestar sig sem heilbrigðan og hressan. Þetta er eitthvað sem að við öll vitum og fólk sem byrjar þessari afneitun og lendir i hlutverki gleymir oft sannleikanum og hreinlega "man ekki" hver það er og hverju því trúir. Þó svo maður þekkji sannleikan þegar maður "sér" hann.


Snær - 28/07/04 22:44 #

Skynjanir okkar mannfólksins falla ekki alltaf að raunveruleikanum. Þess vegna er ekki alltaf hægt að treysta á það að einhver ein upplifun segi okkur til um tilvist yfirnáttúru, eða geimvera, eða hvaðeina það sem ósannað er.

Þannig að það er þitt álit að við séum nú líklega bara í einhverri afneitun? Áhugavert. Algerlega órökstutt, en áhugavert engu síður.


Baldvin - 29/07/04 02:54 #

Kanski út fyrir efnið-en þó ekki. Rök skýra fátt í mínu lífi. Enda rökleysa undirstaða þess að ég leita skýringar,reglu og flokkana. Ég er sáttur við að ekki allt sé skýringum háð. Og trúi því að ýmislegt sé okkur ekki ætlað að skilja. En liggja rökin ekki þar. Þar sem fólk endar og tilfinningar taka við-og þær eru einsog víðátta geimsins-órannsakaðar og ,að því er oft virðist, endalausar.


Snær - 29/07/04 12:34 #

Ég þekki þig kannski ekkert sérstaklega vel, en fyrir mér hljómar þetta eins og meiri háttar óskhyggja-þörf fyrir því að meira sé til en það sem við sjáum í kringum okkur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/07/04 12:47 #

Fólk sem er vantrúað á yfirskilvitlega hluti hefur hugsanlega lent í einmitt því að upplifa eitthvað dulrænt.

Kjaftæði, einfaldlega, þú veist greinilega ekkert hvað þú ert að tala um. Ég er búinn að benda á að undirmeðvitundin felur ekkert fyrir okkur, þetta var sálfræðikenning sem hefur verið hrakin vel og vandlega. Lestu þér aðeins til.

Og trúi því að ýmislegt sé okkur ekki ætlað að skilja

Hver eða hvað er það sem vill ekki að við skiljum allt? Hvers vegna heldurðu að okkur sé yfirhöfuð "ætlað" eitthvað? Það gefur til kynna að það sé einhver tilgangur með heiminum en það eru bara getgátur af þinni hálfu.


Baldvin - 29/07/04 23:16 #

Lest þú þér til ef þú vilt skilja mitt sjónarmið sem mér sýnist þú ekki vilja gera. 'Eg skil þitt og virði það. 'Eg er viss um að þú veist ekki allt og hugsar ekki allt á sama hátt og aðrir. Því við erum jafn ólík og við erum mörg. Og þetta með undirmeðvitundina- er hún ekki undir? Það finnst mér benda óneitanlega til þess að ekki sé allt á yfirborðinu þar. Orðið bendir til þess. Misskilningur hjá mér þá. 'Eg skal trúa því að þú vitir og munir allt sem fyrir þig hefur komið þegar þú sannar það. Hugsanlega hefur þú lent í einhverju um ævina sem þú hreinlega manst ekki eftir. Ekki man ég allt mitt líf. Og að lokum-þá hef ég til dæmis takmarkaðan áhuga á því að vita allt um alla enda held ég að andlegt áreiti af því tagi sé ekki heilbrigt. Ég vinn með andlega sjúku fólki og langar ekki að skyggnast(skilja allt) inn í líf þeirra meira en nauðsynlegt er því að þar eru dimmir og hræðilegir staðir. Ég er ekki með getgátur um að það sé tilgangur með lífinu kæri,ég veit. Hver er þá tilgangurinn með orðinu tilgangur? Hvernig prentast það á þig?


Baldvin - 29/07/04 23:19 #

Svo sé ég að þú viðurkennir að þú ert með getgátur einnig með þú vitir að þér sé ekkert hulið. ..."en málið er að mannshugurinn er gallaður og skynfærin geta blekkt."


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/07/04 00:16 #

Ég sagði aldrei að við munum allt sem hefur komið fyrir okkur, ég sagði að undirmeðvitundinn væri ekki að fela hluti fyrir okkur, við gleymum hlutum oft og okkur misminnir oft. Það er hins vegar ljóst að við munum betur eftir hræðilegum atvikum heldur en öðrum.

Ég segist ekki vita allt en ég hef augljóslega meira vit á umræðuefninu en þú, það er ekkert vit í að virða heimskulegar skoðanir. Til dæmis lýsir "þetta með undirmeðvitundina- er hún ekki undir?" fullkomnu skilningsleysi þínu.

En ég bið þig annars um að vera aðeins skýrari, meirihlutinn af því sem þú skrifar er samhengislaust rugl.


Baldvin - 30/07/04 15:37 #

...(augljóslega meira vit á umræðuefninu en þú).. Hvernig? Ég geri mér enga grein fyrir hvernig þú upplifir hlutina þessvegna reyni ég að orða hlutina á sem einfaldastan hátt til að byrja með. Og einfalt er best. Það sem þú flokkar og ég flokka og allt það. ég þjáist ekki af skilningsleysi heldur þú. Og varðandi samhengi þá er ekkert samhengi í því að vera að efast um upplifanir annarra á vitsmunalegan hátt með því að hreinlega hunsa frásagnir þúsundir manna og hreinlega kalla þá lygara og segja því að það þjáist af hugarórum þegar þú getur ekki hrakið,afsannað né haft skoðun á einhverju sem þú hefur ekki séð og upplifað -þegar þú aðhyllist eitthvað sem þú lest í vísindagreinum eða á öðrum "viðurkenndum" slóðum. Trúir þú öllu sem þú lest? Mér er minnistætt núna bók sem vinkona mín las um að við værum öll heilar í krukku sem höldum að við skynjum heiminn svona og svona sem reyndist svo allt vera bull- samhengislaust rugl :) Víkkaðu sjóndeildarhringinn. Og fyrir alla muni hafðu húmor fyrir þessu. Saklaus uns sekt er sönnuð. Ekki kalla fólk lygara sem segist hafa séð eitthvað- gott að hafa skoðun og jafnvel ekki trúa fyrr en þú sérð það líka, en vonandi ertu opin fyrir hinu óþekkta og sannleikanum. Nú skrifa ég ekki meir á þennan vef. Takk (Ekki leita að sannleikanum, hættu bara að hafa skoðanir: buddha)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/07/04 16:03 #

Ég er ekki að kalla fólk lygara, þú ert enn og aftur að ásaka mig um að segja eitthvað sem ég hef aldrei sagt, ég er að segja að heilinn blekkir okkur. Ég efast ekki um að fólk heldur að það sjái geimverur, heldur að það verði vitni að kraftaverkum og svo framvegis. Ef þetta ætti hins vegar við rök að styðjast þá væri hægt að finna sannanir en þær er hvergi að finna.

Reynum smá próf varðandi áreiðanleika minnisins. Hefurðu einhvern tímann deilt við einhvern varðandi eitthvað gerðist bara örstuttu áður og verið ósammála hinum aðilanum um hvað gerðist í raun og veru? Er annar ykkar að ljúga eða er minnið svíkja annan hvorn ykkar (eða báða)?

Mér sýnist þú hættur að leita að sannleikanum en þig vantar aðeins upp á að vera skoðanalaus, Búdda hefur þar af leiðandi ekki alveg heilaþvegið þig.


Tóti - 15/03/06 19:24 #

Óli Gneisti skrifaði: "Ef þetta ætti hins vegar við rök að styðjast þá væri hægt að finna sannanir en þær er hvergi að finna."

Það er margt í vísindunum í dag sem er samþykkt án þess fyrir því séu sannanir. Til að nefna tvennt: Að sígarettur valdi krabbameini og að þróunarkenning Darwins sé rétt. N.b. ég er ekki að mótmæla þessum kenningum, en þær eru bara það, kenningar.

Að eitthvað sé ekki til afþví ekki sé hægt að sanna það eru jafn léleg rök og að eitthvað sé til þangað til hægt sé að afsanna það.

Að mínu viti er það hroki að halda að við vitum og skiljum allt. Rétt eins og við vitum í dag að vísindamenn miðalda höfðu rangt fyrir sér um margt er enginn vafi að vísindamenn fortíðar munu finna marga meinbugi á vísindakenningum nútíðarinnar.

Ég trúi hvorki né trúi ekki að það sem ég sá hafi raunverulega verið til staðar, verið utan úr geimnum eða annað. Og það skiptir ekki máli, ég þarf ekki að vita það fyrir víst frekar en ég þarf að vita það fyrir víst að ekkert fyrirbrigði eins og guð eða guðir séu til. En aftur finnst mér það vera hroki að ganga út frá því sem vísu að dýrategundin maður sé æðsta og gáfaðasta veran í allri tlverunni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/06 19:26 #

Til að nefna tvennt: Að sígarettur valdi krabbameini

sorry, það hefur fyrir löngu verið sannað að sígarettur valda krabbameini. Bæði með því að sýna fram á að efni í tóbaksreyk er krabbameinsvaldandi og með faraldsfræðirannsóknum sem sýna fylgni milli reykinga og krabbameins.

Hvoru tveggja telst sönnun.


Tóti - 15/03/06 19:36 #

Á að sjálfsögðu að vera að vísindamenn framtíðar munu komast að því að ýmislegt sem við trúum að sé rétt í dag, sé í raun rugl.


Tóti - 15/03/06 19:42 #

Nei þetta er rangt, það hafa verið sýnd yfirgnæfandi líkindi og sterk fylgni milli tóbaksreikinga og krabbameins en ennþá hefur ekki tekist að sýna og sanna það nákvæmlega hvernig tóbaksreykur veldur stökkbreytingunni sem aftur leiðir til krabbameins. Þetta er bara kenningin sem eru svo miklar líkur fyrir að sé rétt að meira að segja tóbaksfyrirtækin eru hætt að mótmæla henni. En samt strangt til tekið er þetta bara kenning sem er ekki búið að sanna.


Dvergurinn - 15/03/06 20:16 #

Nei þetta er rangt, það hafa verið sýnd yfirgnæfandi líkindi og sterk fylgni milli tóbaksreikinga og krabbameins en ennþá hefur ekki tekist að sýna og sanna það nákvæmlega hvernig tóbaksreykur veldur stökkbreytingunni sem aftur leiðir til krabbameins.

Það hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á ýmis áhrif sem reykingar hafa á frumur í þá átt að auka líkur á krabbameini.

Það er nú einu sinni þannig að tölfræðileg líkindi og fylgni er sú leið sem nýtist best til að færa sönnur á kenningar.

Hvernig sönnun viltu fá?


Tóti - 15/03/06 20:44 #

Mjög einfallt, hvernig veldur tóbaksreykurinn því að heilbrigð lungnafruma verður krabbameinsfruma.


Dvergurinn - 15/03/06 21:42 #

Mjög einfallt, hvernig veldur tóbaksreykurinn því að heilbrigð lungnafruma verður krabbameinsfruma.

Þarna ertu kominn inn á svið krabbameinsrannsókna. Tóbaksreykur getur til dæmis valdið stökkbreytingum í DNA, þannig að frumur fara að fjölga sér óeðlilega og gen sem annars bæla krabbamein verða óvirk.

Þú verður einfaldlega að lesa þér til um kabbamein og eðli þeirra. Getur til dæmis byrjað hér.

Annars er þetta nú komið nokkuð út fyrir efni þráðarins.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/06 23:55 #

Já í raun. Stofnaðu þráð á spjallborðinnu ef eitthvað er um tóbaksreykingar, Þór.


Tóti - 16/03/06 00:08 #

Þessi grein sem er vitnað í hér að ofan í wikipedia er líka byggð á kenningum, líkum og tölfræði. Ekki sönnunum. Rétt eins og allar vísindagreinar sem hafa verið skrifaðar um málið. Og líkurnar eru það sterkar að reykingar valdi krabbameini að flestir (þar á meðal ég) líta orðið á það sem sönnun. En líkur eru samt ekki það sama og sönnun. Það er ekki búið að sanna þetta á sama hátt og það er búið að sanna að vírus valdi kvefi. Kjarni málsins er að það er ekki hægt að sanna allt sem gegnið er út frá að sé satt. Margir halda að ekkert sé samþykkt í vísindum nema það sé 100% sannað en það er ekki. Svo lengi sem nógu margir eru sammála um að líkurnar séu sterkar og að ekki sé hægt að afsanna þá eru kenningarnar samþykktar án vísindalegrar sönnunar. Það er ekki heldur hægt að sanna þróunarkenningu Darwins afþví það er ekki hægt að ferðast aftur í tímann og fylgjast með þróuninni. En til að þetta er vissulega komið langt fyrir utan efnið. Upphaflega vildi ég meina að þó það sé samhengi milli þess að eitthvað sé til og að hægt sé að sanna það, þá er ekki endilega samhengi milli þess að eitthvað sé ekki til og að ekki sé hægt að sanna það.


Tóti - 16/03/06 00:11 #

Þetta er betur orðað öfugt.

Þó að það sé samhengi milli þess að hægt sé að sanna eitthvað og að það sé til. Þá er ekki endilega samhengi milli þess að ekki sé hægt að sanna eitthvað og að það sé ekki til.

Eða hvað?

En nú nenni ég þessu ekki lengur og ætla að fá mér sígarettu.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 16/03/06 11:02 #

Þessi grein sem er vitnað í hér að ofan í wikipedia er líka byggð á kenningum, líkum og tölfræði. Ekki sönnunum. Rétt eins og allar vísindagreinar sem hafa verið skrifaðar um málið.

Þetta er ekki rétt. Árið 1998 var sýnt fram á það hvernig reykingar valda lugnakrabbameini með beinum hætti, þannig að það er staðfest sem vísindaleg staðreynd að reykingar valdi krabbameinum. Af þeim 4000 efnum sem finna má í tóbaksreyk er vitað að um 40 geta verið krabbameinsvaldandi.

Hvað lugnakrabbamein varðar þá er vitað að efnið benzópýren er mjög krabbameinsvaldandi. Þekjufrumur lugnanna taka þetta efni upp og breyta því yfir í afleiðuna benzópýren díól epoxíð.(BPDE)

Í frumum þá binst BPDE geninu p53 og gerir það óvirkt. p53 og afurðir þess eru nokkurs konar eftirlitsstöðvar í frumuhringnum sem passa upp á það að frumuskipting gangi eðlilega fyrir sig. Stökkbreytingar á því, eins og binding BPDE veldur, valda krabbameinum því þá fer stjórnun frumuskiptinga úr skorðum.

Meira má lesa um þetta t.d. á Vísindavefnum; Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? . Does smoking cause cancer? er líka ágæt.


oliver - 17/03/06 17:31 #

Ég er sammála því að það getur vel verið að það sé vitsmunalíf annars staðar í alheiminum. En þessar frásagnir af geimverum og diskum til jarðar eru ekki mjög sannfærandi. Ef það er til líf annars staðar í heiminum en jörðinni þá tel það ekki vera neitt yfirnáttúrulegt heldur vísbending fyrir því að við erum ekkert sérstök eins guðstrúin heldur fram.


Tóti - 17/03/06 17:59 #

Hvað lugnakrabbamein varðar þá er vitað að efnið benzópýren er mjög krabbameinsvaldandi. Þekjufrumur lugnanna taka þetta efni upp og breyta því yfir í afleiðuna benzópýren díól epoxíð.(BPDE) Í frumum þá binst BPDE geninu p53 og gerir það óvirkt. p53 og afurðir þess eru nokkurs konar eftirlitsstöðvar í frumuhringnum sem passa upp á það að frumuskipting gangi eðlilega fyrir sig. Stökkbreytingar á því, eins og binding BPDE veldur, valda krabbameinum því þá fer stjórnun frumuskiptinga úr skorðum.

Þá veit ég það, ó.k. ég hafði þá vitlaust fyrir mér.

Ég er sammála því að það getur vel verið að það sé vitsmunalíf annars staðar í alheiminum.

Já, ef alheimurinn er tímalaust (eigi sér hvorki upphaf né endi) og endalaus (hafi engin ytri landamæri). Þá virðist ekki ólíklegt að einhversstaðar, einhverntíman hafi skapast vitsmunalíf af sömu gráðu eða hærri og hjá homo sapiens. En hvort til séu vitsmunaverur sem eru bæði nógu nálægt okkur í tíma og rúmi til að geta heimsótt okkur er allt annað mál. En svo getur líka verið að vitsmunir sem fara fram úr okkur viti eitthvað um eðli alheimsins, tíma og rúms (geims) sem við vitum ekki.


Bjarni - 05/03/08 00:37 #

Kynnið ykkur Montauk söguna, það er hægt að fá mp3 fæla til að fá þessi mál á hreint. Stewart Swerdlow er inn þeirra sem slapp heill úr þessu verkefni. Hann er að fara að halda fyrirlestur um upphaf lífs og sögu jarðar og manna. Sjá www.human.is

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.