Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er þetta fræðimennska?

Þegar þróunarkenningin leit dagsins ljós varð mönnum ljóst að eldri skýringar á tilurð og eðli veraldar gátu engan veginn verið á rökum reistar. Það sem kirkjan hafði boðað gegnum aldirnar reyndist eftir allt ekki annað en barnalegt ævintýri.

Guðfræðingar nútímans viðurkenna nútímavísindakenningar um eðli veraldar og tilurð tegundanna. Þeir vita sem er að maðurinn var ekki skapaður í ákveðnum tilgangi, heldur er hann afrakstur þróunar sem gat um síðir af sér fjölmargar apategundir.

Þeir vita sem er að maðurinn er ein þessara apategunda.

En það virðist vera einhver kerfisvilla í hugum guðfræðinganna þegar kemur að því að endurmeta Biblíuna, þennan endanlega sannleik júdókristinna manna um aldir. Svo virðist sem ekki sé nokkur möguleiki í hugum þeirra að afskrifa bara þessa fornu sköpunarsögu og viðurkenna að hún á ekkert undir sér. Nei, þess í stað hefur farið að stað gífurleg vinna við að endurtúlka þetta allt saman eins og einhvern djúpvitran sannleik, svo maðurinn fái áfram að vera í öndvegi "sköpunarinnar".

Þetta fólk er því, þrátt fyrir allt frjálsræðið og nútímalegan hugsunarhátt, enn sköpunarsinnar, en bara með vægum forsendum.

Hver er nauðsynin á því að hefja enn á loft úreltar hugmyndir hirðingja til forna um gerð og eðli veraldar og leiða út einhvern sannleik, þegar ljóst er að ekkert þarna fær staðist? Af hverju þarf að túlka þetta eins og ljóð eða líkingu með djúpvitra vitneskju að baki? Eru það fræðileg vinnubrögð að þvinga fram einhverskonar sannleik úr því sem ljóst er að byggt er á fáfræði?

Slíkt hlýtur að teljast fræðimennska með öfugum formerkjum. Í stað þess að rannsaka hlutina og draga síðan ályktanir, gefa menn sér niðurstöðurnar fyrst (Biblían boðar sannleika, kærleika og réttlæti) og heimfæra síðan allt sem í ritinu stendur upp á þessa niðurstöðu.

Þannig ganga málin fyrir sér í guðfræðideildinni. Deildin sú er bæði tímaskekkja og háðung þeirri fræðimennsku sem fram fer innan veggja háskólanna. Hún fær einungis að vera þarna í krafti ríkrar hefðar, en allt slíkt tekur einhverntíma enda.

Það er bara spurning hvenær.

Birgir Baldursson 27.06.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Sigurður Ólafsson - 28/06/04 10:14 #

Innan þjóðkirkjunnar starfa víðsýnir, upplýstir og nútímalegir guðfræðingar. Þeir túlka helgirit sín mjög frjálslega og segja t.d. að Biblían "hafi að geyma orð Guðs án þess að vera það sjálf". Þeir nefna að "kennivald Biblíunnar er því ekki talið fólgið í ritsafninu sjálfu heldur í fagnaðarerindi Jesú Krists og ber að lesa allt sem í henni er út frá því." Einnig tala þeir um að Biblían gegni "menningarlegu hlutverki" (tilvitnanir teknar úr grein af annall.is sem finna má hér).

Það er því ljós að ef fer fram sem horfir muni öllum grundvallarkenningum Biblíunnar s.s. heimsmynd hennar verða kastað fyrir róða. Eftir mun standa Kirkja sem fyrst og fremst lítur á sig sem menningarlegt fyrirbrigði með fallegan og góðan boðskap. Stofnun sem hafi það hlutverk að hlú að og efla gott siðferði meðal borgaranna og vera e.k. veislu- og sálfræðiþjónusta ríkisins. Það er því óþarfi, Birgir, að hamast gegn Þjóðkirkjunni, guðfræðingar hennar munu sjálfir með tíð og tíma sjá um að henda út trúarruglinu þar á bæ :)

Er það ekki bara gott mál?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/06/04 10:52 #

Ég er bara að flýta fyrir ;)

Nei í alvöru, þá boðar þessi kirkja enn tilvist Guðs (skapandi greind yfirnáttúruvera) sem sannleika, þrátt fyrir að það stangist fullkomlega á við hennar eigin guðfræði, sem gengur í dag út á að túlka þetta í allar áttir á næstum bókmenntafræðilegum forsendum. Meira um það hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.