Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Grænsápuguðfræðingur á villigötum

Séra Örn Bárður Jónsson er kraftmikill prestur með ákveðnar skoðanir á mörgum málum. Það er gaman að fylgjast með þeim mikla kappa bruna um ritvöllinn á heimasíðu sinni. En því miður opinberast í máli hans sú kreppa sem steðjar að kristinni trú. Örn Bárður virðist ekki þola nokkra gagnrýni á Biblíuna og hugmyndakerfið hennar. Hann snýst til varnar í tveim greinum á heimasíðu sinni með freyðandi grænsápuguðfræði. (Gein 1 og Grein 2) Við skulum skoða boðskap sóknarprestsins gegn skrifum Atla Harðarsonar heimspekings um sköpunarsinna í Lesbók Mbl., bls. 3, þann 19.06.2004 “Bókstafstrú og þekking”.

Til að forðast misskilning trúmanna þá eru vísindi ekkert annað en viðurkennd aðferðafræði til að sanna eða afsanna. Vísindi eru því ekki trú og þaðan af síður óhagganlegir bókstafir, heldur sífelld leit að sannleika studdum mælanlegum niðurstöðum. En Örn Bárður virðist ekki skilja þetta og veður áfram í blindni til verja sköpunarsögu biblíuna. Hann gerir það eins og sönnum grænsápuguðfræðing sæmir að moka ryki í augu lærisveina sinna.

Örn Bárður segir í svari sínu að hann “trúi” á sköpunarsöguna og að hún sé skáldleg sýn á veruleikann. Einnig að sköpunarsagan sé listaverk með sjö daga ramma og að baki tilverunni sé hugsandi máttur. Allt hljómar þetta hjá prestinum eins og biblían sé djúpvitur sannleikur aftan úr fornöld, sem má með ákveðnum aðferðum skilja sem nútímasannleik. En öðru nær, lífið á jörðinni er alls ekki skapað og á sér ekki nokkurn höfund. Hér misskilur Örn Bárður aðalatriði málsins. Það er því hræðilegt að sjá hann túlka sköpunarsöguna á sama hátt og nýaldar rugludallar rembast við túlka sýruna í ljóðum Nostradamusar.

Áfram heldur Örn Bárður að böðlast um í grænsápuguðfræði og dauðrotar sjálfan sig með þeim orðum að Adam hafi verið fyrsti vísindamaðurinn. Að hans fyrsta hlutverk hafi verið að gefa skepnum nafn með því að flokka þau og skilgreina. Ekki þarf að orðlengja að hvergi finnast vísindalegar studdar kenningar eftir þennan hr.Adam. Heldur eru Mósesbækurnar gott dæmi um úrelta heimsmynd mannfjandsamlegs samfélags útdauðra eyðimerkurskrælingja. Það slær einfaldlega á mann hroll að nokkur maður útskrifist frá HÍ með viðlíkar hugrenningar í kollinum.

Lokaátakið hjá Guðfræðingnum til að sanna sköpunarsögu biblíunnar er að vitna í Jobsbók sem “eitt af merkustu ritum allra heimsbókmenntanna”. Sem skáldlegt og myndrænt samtal þar sem Guð ávarpar Job úr stormviðrinu (Job 38.4-11 og 16-24). Siðfræðilega er þetta ævintýri Jobsbókar gjaldþrota þar sem Yahweh og Satan taka sig saman í að leggja gildru fyrir Job karlinn. En Örn Bárður les ákveðin texta hennar þ.e.a.s. Job 38.4-11 og 16-24 sem einskonar fyrirlestur um kristilega nútímasköpunarfræði.

Í þessum texta er Yahweh látinn tala úr stormviðri í gervi önugs grobb belgs. Eins og snargölnum einræðisherra sæmir eys hann sjálfumgleði sinni yfir Job hvernig hann hafði fyrir því að skapa jörðina. Reyndar setti hann stólpa undir hana til að festa hana betur niður, en með góðum grænsápugleraugum þýðir það væntanlega að jörðin sé hnöttur sem snýst um sól. Svona til að kóróna ruglið segist Yahweh geyma haglél í skýi sér við hlið til að kasta í þá sem honum mislíkar. Þessum skrælingjum sem skrifuðu farsann var vorkunn sökum vanþekkingar. En hvers vegna í ósköpunum er svo illa farið fyrir vel gefnum guðfræðing að túlka þessa blekkingu sem meistaraverk sannleikans.

Með sterkri trú og miklum vilja er hægt að lesa allskonar rugl út úr listaverkum, skáldsögum og ljóðum, en það eru ekki vísindi Örn Bárður. Þar skilur á milli blekkingar og þekkingar. Þar er skilur á milli trúar og vísinda.

Að lokum Örn Bárður, hvers vegna slepptir þú versi 38:12 til 15 í Jobsbók? En þar segir hinn siðblindi einvaldur “Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn”. Er þetta jarðvegurinn sem þú uppskerð úr? Hversu langt ætlar þú að ganga inn dimman dal kristninnar? Þú hafnaðir stríði Bush í Írak en virðist nærast af stríði Yahweh gegn uppréttu fólki. Bush gefur fé í góðgerðastarfsemi en það bætir ekki hugmyndakerfi hans. Sama afstaða gildir um kristna vini mína. Sama gildir um þig ágæti Örn Bárður. Það er aldrei of seint hafna einræði, fáfræði og siðleysi kristinnar trúar. Vonandi eiga vísindin eftir að vera sá kyndill sem lýsir þér leið úr ánauð trúar. Þér verður tekið fagnandi úr dýflissu Jesú Krists.

Frelsarinn 22.06.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Örn Bárður Jónsson - 23/06/04 10:54 #

Þakka snörp viðbrögð og skemmtilega útúrsnúninga!

Og vegna þess að þú hefur svo gaman að tilvitnunum í Gamla testamentið þá gef ég Job orðið:

„Já, vissulega, miklir menn eruð þér, og með yður mun spekin deyja út!“


Snær - 23/06/04 16:59 #

Bárður minn, kastar þú ummælum Frelsarans einfaldlega frá þér með sama hraða og nokkrum þeim trúar-efa sem þú verður fyrir?

Á ekki einu sinni að svara þessum útúrsnúningum? Viltu ekki bara sýna okkur fram á rökvillur þeirra, ef þeir eru eins barnalegir og þú virðist vilja halda fram?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/06/04 17:41 #

Já, það er hentugt að afgreiða þetta bara sem útúrsnúninga, en Örn Bárður minn, þessi grein er einfaldlega alveg sorglega sönn. Guðfræði nútímans gengur einfaldlega út á það eitt að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram og heimfæra svo einstök atriði fræðanna að þeirri niðurstöðu með öllum ráðum. Biblían skal vera boðskapur kærleika og réttlætis, hvað svo sem í henni stendur.

Slík fræðimennska er í besta falli hjákátleg, en í versta falli er hún skammarlegur blettur á því fræðastarfi sem fram á að fara innan veggja háskóla.


Snær - 23/06/04 23:26 #

Að leita að sannleika út frá forsendu Guðs, en ekki að Guði út frá forsendu sannleika. Það er Örn Bárður sekur um, svo langt sem ég get séð, og við trúleysingjarnir erum ekkert sérstaklega hrifnir af slíku.

Venjulega er skemmtilegra að rökræða við þá sem nálgast guð sinn út frá sannleika, því þótt þeir kunni ekki alltaf að notast við þau rök og þær aðferðafræðir sem við trúleysingjarnir hreykjum okkur af (reyndar sjaldnast, ef nokkurn tíma), þá taka þeir frekar rökum, og gera sér grein fyrir (að mismiklu leiti) brothættu eðli trúar sinnar og sennileika.


Örn Bárður - 24/06/04 08:47 #

Snær og Birgir.

Bendi ykkur á síðu mína þar sem miklar umræður eru um grein mína Vísindamaður á villigötum?

Svar mitt var auðvitað í sett fram í hálfkæringi og gamni. Ykkar eigin stíll er líka dálítið út úr kortinu og ekki alveg ljóst hvernig svara skal.

Hins vegar er ég tilbúinn í heiðarlegar umræður og gjarnan húmorískar ef svo ber undir!

www.gudfraedi.is/annall/ornbardur

Velkomnir á síðuna. Örn B

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.