Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýtt galdrafár?

Í frétt á mbl.is í dag segir:

Hætt við að banna börnum í Ástralíu að sjá Harry Potter

Átralskir kvikmyndaeftirlitsmenn óttast greinilega fjölkynngi ungra aðdáenda Harrys Potters og hafa ákveðið að falla frá þeirri kröfu að 15 ára aldurstakmark verði sett á myndina Harry Potter og fanginn í Azkaban. Þess í stað verður börnum heimilt að sjá myndina í fylgd foreldra sinna.

Það kemur fram í fréttinni að ástæða eftirlitsins felst í hrollvekjandi atriði þar sem varúlfar koma við sögu, en það er fullyrðingin í upphafsmálsgrein fréttarinnar sem verður mér tilefni til þessara skrifa.

Því hvort sem henni er slegið fram í gríni eða ekki hef ég nefnilega, í umræðum mínum um trúmál gegnum tíðina, komist að því að til er fullorðið, upplýst fólk í vestrænu nútímasamfélagi sem trúir því í alvöru að galdrar og fjölkynngi séu staðreynd - hluti af raunveruleikanum.

Þið hafið eflaust tekið eftir því að það eru töframenn sem duglegastir eru við að fletta ofan af miðlum og öðrum sem staðhæfa um yfirnáttúrlega hæfileika sína. Ástæða þess er einföld: Þetta fólk þekkir í þaula þau brögð sem í taflinu eru, kunna blekkingaleikinn út og inn og sjá um leið þegar verið er að beita slíkum brögðum.

Þegar ég tefli þessum upplýsingum fram í trúmálaumræðunni hefur það komið fyrir að menn haldi að slíkir töframenn séu í alvörunni göldróttir, að þeir geti raunverulega nýtt sér yfirnáttúrlega hæfileika sína til að ganga fram af fólki á sviði.

Galdrar eru ekki staðreynd, heldur mýta sem menn hafa trúað um aldir að séu partur af veruleikanum. Kristin kirkja pyntaði og brenndi um aldir ógrynni fólks á þeim forsendum að það væri göldrótt og gæti beitt mætti orða og athafna til að sveigja veruleikann undir vald sitt.

Í dag eigum við að vita betur. Nákvæmlega ekkert bendir til þess að slíkt sé hægt. En staðreyndin er samt sú að í röðum trúmanna heldur þessi forna ranghugmynd lífi og bitnar það óspart á afþreyingarefni á borð við Harry Potter.

Hlustið bara á Gunnar í Krossinum.

En þessu trúfólki er svosem vorkunn, því stór hluti trúarbragðanna gengur út á galdur. Líka kristnin. Eða hvað er annars í gangi þegar menn leggjast á bæn með það að markmiði að fá guð sinn til að haga hlutunum öðruvísi en þeir eru? Eru galdrasæringarnar ekki bara þar lifandi komnar; andi særður fram með orðum og afkáralegri hegðun til að framkvæma ákveðin verk í þágu þess sem biður/galdrar?

Um leið og menn átta sig á þessu samhengi og því að engu er áorkað með svona skrípalátum, þá átta menn sig líka á því að Harry Potter er bara ævintýri sem engu barni ætti að vera óhollt að lifa sig inn í. Þetta er bara í þykjustunni.

Alveg eins og Guð og Jesús.

Meðan kristnir klerkar halda áfram að fullyrða eitthvað um mátt bænarinnar yfir lögmálum náttúrunnar mun misskilningurinn um raunveruleika galdra og kukls lifa. Um leið lifir hættan á öðru galdrafári, missi menn sig út í skefjalausan átrúnað og ótta við þessi fyrirbæri.

Hættum að hlusta á þvæluna úr munni sanntrúaðra og njótum ævintýranna á þeim forsendum að þau eru einmitt það - ævintýri.

Birgir Baldursson 08.06.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 08/06/04 10:45 #

Bíddu hægur Birgir, mér þykir þú fljótur á þér. Geturðu SANNAÐ að það séu ekki til galdrar!?

:D


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/06/04 11:28 #

Ef sönnunarbyrðin væri mín megin myndi ég reyna það. En ég hef reyndar oft bent á eitt dæmi þess að galdrar virki. Það er þegar Vúdúgaldrar senda anda á fólk til að drepa það. Reyndar þarf sá sem á að drepa að vera hjátrúarfullur og svo þarf hann að vita af því að hann muni deyja, helst upp á mínútu hvenær það gerist. Að öðrum kosti virkar galdurinn ekki, því það er auðvitað enginn andi sem framkvæmir drápið heldur hræðsla fórnarlambsins sjálfs.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 08/06/04 12:17 #

Iss, það eru nú ekki merkilegir galdrar. Bara passleg blanda af heilaþvotti og leikrænum tilþrifum.

(Ekki það, að ég var vitaskuld að grínast....)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 08/06/04 12:18 #

Iss, það eru nú ekki merkilegir galdrar! Blanda af hjátrú, heilaþvotti, lyfleysuáhrifum og leikrænum tilþrifum, sirka 'bát.

Ekki það að ég var auðvitað að grínast..

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.