Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Breskir Draugabanar

Frétt á mbl.is í gær:

Draugabanar í herstöð

Hópur draugabana mun heimsækja flotastöð konunglega sjóhersins í Plymouth á Englandi um helgina til að kanna hvort þar sé reimt, en kvartað hefur verið yfir draugagangi á staðnum.

Miðlar, sjáendur og fleira fólk, sem sérhæfir sig í fyrirbærum handanheimsins, dvelja í stöðinni tvær nætur með ýmiss konar tæki og tól til að reyna að hafa upp á draugum. Verður athygli sérstaklega beint að Hengingarklefanum, herbergi sem meira en 100 manns hafa verið teknir af lífi í.

Hvaða tæki og tól ætli þetta séu? Er það orðið að almennt viðurkenndri staðreynd að draugar séu raunverulegir og hægt sé að hafa upp á þeim með einhverjum tækjum?

Eða ætli þessi tæki séu ætluð til að skera úr um hvort draugagangurinn eigi sér eðlilegar skýringar? En af hverju eru þá miðlar og sjáendur þarna?

Ég er nokkuð viss um að þetta fólk er ekki á höttunum eftir því að komast að hvort þarna sé eitthvað á ferðinni sem samræmist ekki raunveruleikanum eins og við þekkjum hann. Hins vegar er nokkuð ljóst að þarna fer fólk af stað með tilgátu sem það ætlar sér að finna sannanir fyrir.

Slíkt heitir að byrja á öfugum enda. Margir hafa dottið í þann pytt, s.s. Freud, sköpunarsinnar og FFH átrúendur. Trúgirni þessa fólks og þrá eftir því að raunveruleikinn sé í samræmi við hugmyndir þess gerir það að verkum að allt er reynt til að finna eitthvað sem fallið getur inn í fyrirfram gefnar hugmyndir. Hið eina rétta í stöðunni væri þó að vega og meta gögn burtséð frá óskum sínum og laga svo heimsmynd sína til samræmis við niðurstöðurnar.

Og það er einmitt það sem efahyggjufólk gerir. Heimsmynd sú sem við aðhyllumst er alls ekki í neinu samræmi við neinar þær óskir sem við kynnum að hafa um heiminn, heldur er hún einfaldlega byggð á þeim niðurstöðum sem liggja fyrir.

Birgir Baldursson 02.06.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


ketill - 04/06/04 19:19 #

væri nú gaman að sjá niðurstöðurnar ef þú rekst á þær e.h. staðar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.