Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ótrúlega sagan um hvítasunnudaginn

Í grein í Morgunblaðinu í gær fjallar Sigurður Ægisson um hvítasunnudag, þar er útskýrt hvers kristnir menn eru að minnast á þessum degi. Það er nauðsynlegt verk, þar sem hinn almenni "kristni" Íslendingur hefur ekki hugmynd um hvað í ósköpunum á að hafa gerst á hvítasunnudag. Reyndar grunar mig að þessi grein Sigurðar breyti litlu um þekkingu Íslendinga á þessum "merkilega" hátíðisdegi, því í raun er þeim bara skítsama hvað á að hafa gerst þá.

Hvítasunnudagur er fimmtíu dögum eftir páska, tíu dögum eftir uppstigningardag sem sannar væntanlega að hinn kristni guð er hrifinn af tugakerfinu. Lærisveinarnir voru daprir eftir að Jesús hafði verið geislaður upp til pabba síns en allt þetta breyttist þegar þeir fylltust heilögum anda, byrjuðu að tala tungum, fengu þrjúþúsund manns til að trúa á Krist og stofnuðu í leiðinni kristna kirkju. Helvíti öflugir eða hvað?

Sigurði finnst þetta allt saman "allt annað en normalt" og segir að ef fréttaskýringarþátturinn "60 mínútur" hefði verið til á þessum tímum þá hefði verið fjallað um þessa atburði þar. Ég er sammála Sigurði í þessu, svona merkilegur atburður hefði án efa orðið til þess að fréttamiðlar hefðu fjallað um það. Augljósa spurningin er því: Hvers vegna er ekkert fjallað um atburði hvítasunnudagsins í þeim heimildum sem til eru frá þessum tíma? Eina heimildin um þennan atburð er í viðauka við bók sem samanstendur af ýmsum tröllasögum sem enginn sæmilega skynsamur maður myndi trúa ef ekki kæmi til hálfgerður heilaþvottur samfélagsins.

Ef sagan um fyrsta hvítasunnudaginn væri sönn þá hefðu allir þeir útlendingar sem lærisveinarnir sneru til kristinnar trúar farið heim til sín og sagt þessa sögu aftur og aftur. Sagan hefði vafalaust varðveist í ótal heimildum, en þessar heimildir eru ekki til þannig að eina rökrétta niðurstaðan er sú að þessi atburður gerðist aldrei og þessi saga sé því uppspuni frá rótum.

Í lok greinarinnar segir Sigurður að stærsta fréttin sé sú að heilagur andi sé ennþá starfandi á 21. öld. Þvílíkt rugl, ef heilagur andi væri að störfum í þessum heimi þá myndum við taka eftir því. Sigurður ætti að temja sér þá einföldu lífsreglu að trúa ekki hvaða vitleysu sem er. Sagan af hvítasunnudeginum er vissulega ótrúleg en einsog svo margar ótrúlegar sögur þá er hún einfaldlega ósönn.

Óli Gneisti Sóleyjarson 31.05.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 05:22 #

Óli, mæl þú manna heilastur!


ketill - 31/05/04 17:31 #

þú mátt ekki vera vondur við séra Sigurð.
Hann hefur reynt að útskýra á hvað raunverulegastan hátt ýmsa hluti varðandi kristna trú og sögur af Jesú. Þegar ég spurði hann hvernig karlinn fór að því að metta heilt þorp með tveimur fiskum, þá sagði Sigurður mér að þetta hefðu verið hvalir sem Jesú gaf fólkinu að borða. Það er ekki ótrúlegt að tveim hnúfubakar dugi í 5000 manna grill veislu, ekki satt. Það sem vantar á Íslandi er að prestar fari og endursegi bíblíu sögur uppá nútímann þannig að fólk skilji um hvað þetta snýst og þá getur fólk gert sér betur grein fyrir því hvað er bull og hvað er ekki bull. Séra Sigurður er enn af brautriðjendum presta á Íslandi í þessum efnum að því ég tel.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 18:46 #

Vá, stórkostlegt kjaftæði með fiskana. Hvernig stóð á því að fólki fannst þetta vera kraftaverk hjá Jesú ef þetta voru hvalir en ekki fiskar? Var Jesú bara í því að skera niður hvali? Ég sé ekkert sérstaklega guðlegt við það. Og hvað með brauðin sem margfölduðust? Það er ekki hægt að útskýra rugl með rugli.


ketil - 31/05/04 19:11 #

Ég er ekkert viss um að þessu fólki sem var í þessari grillveislu hafi fundist þetta vera neitt krafaverk, enda þarf ekkert karfaverk til að grilla í 5000 manns. Hvaða fífl trúir því að tvær sardínur dugi í 5000 manns. ? Að segja bara hálfan sannleikan er næstum því verra en að segja ósatt og það hafa trúarþjónar, bæði kristnir og aðrir gert að atvinnu sinni.

það eru prestar og aðrir líkir menn sem hafa snúið út úr þessu og gert þetta að einhverju karftaverki, hafa aldrei sagt allan sannleikann.

Davíð gaf öllum Reykjvíkjum tertu á afmæli Reykjavíkur, en hann er jú karftaverkamaður þannig að það er OK. Hefur sýnt það og sannað. Verður kökuveisla Davíðs skráð sem kraftaverk eftir 500 ár eða er hún þegar orðin að kraftaverki ?

Varðandi brauðin, þá er það mjög einfalt. Fólkið var að narta í þetta meðan þau voru að hefast. Jesú karlinn setti fullt af geri í þetta og þetta voru risabrauð. Fólkið byrjaði svo að éta þetta áður en það var tilbúið og brauðin stækkuðu jafnóðum og tekið var af þeim. það þarf nú ekki sérstaka vísindamenn til að sjá að þetta virkar. hægt að gera tilraunir með þetta heima í eldhúsi.

Prestar eiga að hætta að koma með e.h. óskiljanlegt bull og bera það á borð fyrir okkur. Þeir eiga að taka sig taki og segja okkur hið sanna, koma með raunhæfar skýringar á því hvað var að gerast þarna fyrir um 2000 árum síðan. Það getur ekki verið flókið.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 19:27 #

Þannig að sagan fjallar í raun um lautarferð sem var ekki merkileg á nokkurn hátt?


ketill - 31/05/04 19:49 #

Now you got it

Og það er sama niðurstaða og hægt er að fá eftir að lesa allar þessa sögur. Bara kósí grill í Heiðmörk, mesta falli Þórsmörk.

Og t.d. varðandi að lækna sjúka.!!!!! Ég hef séð fólki ekið í hjólastól til nuddara í Kína. Nuddarinn gaf skjúklingnum gott nudd og viðkomandi labbaði út. Var það karftaverk. Held ekki.

Sama með Jesú, hann var bara lúnkinn nuddari, einfalt mál. Hefur kunnað e.h. fyrir sér í því.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 19:55 #

Og þar með er kristin trú augljóslega fallin í heild sinni.


ketill - 31/05/04 20:31 #

Ég ætla ekki að segja að þessi lautarferð sé nóg til að fella kristna trú. Bíblían er bara góður frásagnarbók sem kryddar sögurnar þokkalega en það er ekki þar með sagt að fólk eigi að éta það ókokkað.

En ég hvet presta landsins, og víðar, til að bretta upp ermarnar og segja fólki sannleikan og matreyða þessar sögur á heilbrigðan hátt svo fólk geti tekið raunhæfa ákvarðanir.

Bíblían er ekki svo gamalt sagnarit í sjálfu sér. Eigum við að gera Egil Skallgrímsson að guði af því hann gat hoppað hæð sína jafnfætis í full herklæðum. Nei, hann svindlaði, notaði trabolínu.

Ég sé ekki stærsta munin á hvort e.h. er 2000 ára gamalt eða 1000 ára gamalt, hvorttveggja er hundgamalt.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 20:46 #

Ég held að grunnatriði kristninnar væri að Jesú hafi verið guð og ef við förum yfir Nýja Testamentið og tökum út öll kraftaverkin þá hlýtur kristin trú að vera fallin.


ketill - 31/05/04 21:18 #

ég hef alltaf skilið að guð sé sama og drottinn. þ.e. pabbi Jesús, kannske misskilningur því ég ef ekki lesið einn staf í þessu dóti.

Fyrir mér var Jesú bara flottur töffari og góður show karl og að mörguleiti mikið hæfileikaríkur náungi. Svipaður og galdrastrákurinn í sjónvarpinu sem stendur uppá endann í 72 klst inní ísmola. Ég trúi mjög mikið að hann hafi verið til, það er alveg pottþétt.

Liðinu vantaði lika svona tákn, erfitt að búa til styttur og hálsmen af e.h. anda,(guði) þannig að þessi grallari var alveg tilvalinn til að nota í svoleiðis.


Snær - 31/05/04 22:32 #

Þú mátt svo sem trúa hverju því sem þú vilt, en það er ekki eins mikil fullvissa um tilveru jesú eins og þú vilt vera láta.

Annars finnst mér þú ekki hafa tekið inn eitt af grunnatriðum kristinnar trúar, þetta með þessa fáránlegu þríeiningu.

Jesú á að hafa verið guð(legur), og er Biblían með nokkuð skýran boðskap hvað það varðar. Ef ekki vegna kraftaverkanna (sem þú útskýrir marga sem svo ósköp eðlilega atburði), þá út frá vitnisburði postulanna. Hann er já einn af hinni meintu þríeiningu, með föðurnum og hinum heilaga anda. Þrátt fyrir að mér þyki kristni vera nokkuð gott dæmi um fjölgyðistrú í afneitun, þá á jesú að vera hluti af guði. Guð sjálfur, í raun.

Að því óskyldu, hver er annars tilgangurinn með því að fórna sjálfum sér til eigin dýrðar?


ketill - 31/05/04 23:09 #

Vitnisburður Postulanna er ekki marktækur. Þeir voru á sýrutrippi allan tímann og sáu bara ofsjónir. Og ofan á það þá gengu þessar sögur allar mann af manni og ýktust stórkostlega, rétt eins og íslendingasögurnar.

Og til að kórona þetta, þá koma prestarnir og aðrir sjálfskipaðir spekingar og ætla að lesa e.h. út úr þessu.

Svipað og fólk þóttist sjá LSD út úr Bítlalaginu Lucy in the Sky with the Dimonds. Fáránlegt. Sonur John Lennon teiknaði mynd og þegar John spurði hann hver þetta væri þá sagði strákurinn að þetta væri Lucy og hún væri með dimonds og sæti uppá himninum. Gott dæmi um fáranlega rangtúlkun á einföldum hlut.

Að fórna sér fyrir eigin dýrðir er eitt það flottasta sem einn maður getur gert. Pældu í því.

Búin að vera með þetta show í gangi og svo bara fórna sér fyrir líðinn, þetta er flottasta sem hann gerði.

Ímyndaðu þér að Davíð Oddson myndi núna fyrir næsta þing fórna sér fyrir Íslendinga. Væri það ekki nokkuð cool ?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 31/05/04 23:21 #

"Þegar ég spurði hann hvernig karlinn fór að því að metta heilt þorp með tveimur fiskum, þá sagði Sigurður mér að þetta hefðu verið hvalir sem Jesú gaf fólkinu að borða."

Hvalir eru ekki fiskar.


Snær - 31/05/04 23:45 #

Jogus, er það víst að gyðingar hafi aðskilið þessa tvo dýraflokka (ég man ekki nægilega vel eftir hinum sjö þrepum sem farið er eftir til þess að aðgreina dýrahópa, þannig að ég bið ykkur að taka tillit til þess)? Það er kannski furðulegt af Katli og/eða Sigurði Ægissyni að taka ekki eftir þessu, en skilgreining gyðinganna er samt líklega það mikilvægasta í þessu.

En Ketill, ef þú tekur ekkert mark á postulunum, hvað ertu þá annars að taka mark á biblíunni almennt? Skil ég það rétt að þú takir lítið eða ekkert mark á Nýja Testamenntinu, en kallir þig samt kristin?

Endilega útskýrðu þetta annaðhvort hér eða í umræðunni sem kölluð er 'bakgrunnur' á spjallborðinu.


Snær - 31/05/04 23:48 #

"ég man ekki nægilega vel eftir hinum sjö þrepum sem farið er eftir til þess að aðgreina dýrahópa"

Lífverur, hefði ég viljað sagt. Held ég.


ketill - 01/06/04 01:04 #

Jógus, þú ert orðin eins og bókstafstrúarmaður, farin að pikka upp orð og vetla þér því fram og til baka. Ef hvalir eru ekki fiskar heldur e.h. önnur dýr, hvers vegna tilheyra þeir þá ekki landbúnaðarráðuneytinu. Þetta er allt sama stuffið sem syndir í sjónum. Allt selt af SH og SIF og stjórnað af fiskstofu. OK, þá voru þetta ekki hvalir, sennilega lítið um þá þarna í miðjarðarhafinu. Þetta voru risastórir túnfiskar!!!!! Túnfiskar hljóta að teljast til fiska. Enda grillaður túnfiskur mjög góður, vægt til orðatekið og þarf ekki grillingu til. Ertu þá ánægður ?

Ég trúi að Jesú hafi verið til og þessar sögur sem sagðar eru af honum séu sannar en hins vegar mjög mikið ýktar, bæði vegna dópneyslu sumra frásagnarmanna og eins til að gera sögurnar meira krassandi svo það væri meiri eftirspurn eftir þeim manna á milli.

Mér finnst þetta ágætis pallborð til að útskýra þetta því það er vitnað í Séra S.E. hér að ofan einmitt þar sem hann er að reyna að veikum mætti að útskýra sitt mál.

Ég er að benda á að prestar eiga að venda sínu kvæði í kross og fara að segja fólki frá þessum hlutum eins og þeir voru en ekki í einhverjum fagurblóma.

Hvort ég sé kristin eða ekki, það er svo annað mál. Í raun er ég trúaður trúleysingi. Ég trúi að allar þessar höfuð persónur í hafi verið til og eins Buddha karlinn og fleira. Þeir komu yfirleitt upp með ágætis kenningar og margt væri betra ef fólk færi eftir þeim, þá með ráði en ekki óráði eins og margir öfgatrúarmenn.

hvort það sé guð þarna uppi, það finnst mér harla ólíklegt en það er nú samt þannig með mannskepnuna að hún hefur mikla þörf í sér til að trúa á eitt eða annað. Hvort það er að trúa á guð eða trúa á trúleysi. Mér finnst gott að fara í krikju, ekki við athöfn, heldur yfir hábjartan daginn. Hvergi betra að sitja og hugsa heldur en á svoleiðis stað. Sennilega umgjörðin frekar en að guð vaki yfir þér þar.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/04 01:14 #

"Í raun er ég trúaður trúleysingi."

Og ég er giftur piparsveinn. Þú ert trúleysingi ef að þér finnst það "harla ólíklegt" að guð sé til.


ketill - 01/06/04 01:34 #

Giftur Piparsveinn, sjaldgjæft, samt til , erfitt til lengdar.

Er nóg að efast um tilveru Guðs til að teljast trúleysingi ?

Mér finnst þurfi e.h. meiri og sterkari rök til þess að skilgreina sig sem slíkan

Hvað með líf eftir þetta líf, spákerlingar og fleira, er leyfilegt að trúa á það ?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/04 02:00 #

Nei, ekki myndi ég halda það, en þú ert amk guðleysingi. Skref í rétta átt :)


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 01/06/04 02:37 #

Sá sem efast um tilvist guða hlýtur að vera það sem kallast efahyggjumaður eða efasemdamaður, ekki satt?


ketill - 02/06/04 00:57 #

En hvað kallast sá sem efast um trúleysi ? Líka efahyggju/semda maður.


hanni - 02/06/04 16:18 #

á þetta að vera einhver sjúkur brandari óli að hafa mynd af sér á síðunni sinni þar sem jesús er í bakgrunninum ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/06/04 16:38 #

En hvað kallast sá sem efast um trúleysi ? Líka efahyggju/semda maður.

Auðvitað. Og slíkar efasemdir skjóta örugglega nokkuð reglulega upp kollinum í huga efahyggjmannsins, málið er í sífelldri endurskoðun.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/06/04 17:38 #

Hatturinn sem ég er með á myndinni var líka í eigu einhvers prests, mig minnir að í stærri útgáfunni sjáist meiraðsegja séra Hallgrímur Pétursson við hliðina á mér.


Árni Árnason - 04/06/04 15:37 #

Allt á sér skýringar. Eins og alkunnugt er sökk Ésú ekki þegar hann gekk út á vatnið. Það hefur því væntanlega verið heldur klént fyrir hann sem krakka að geta ekki sullað í pollunum eins og börn hafa svo gaman af. Maður sér hann fyrir sér stappa niður hælunum, eins og á ís, en án árangurs. Eitthvað hefur verið lítið um baðferðir hjá blessuðum manninum, og má nærri geta að lyktin af honum hlýtur að hafa verið orðin megn undir lokin.

Er þá ekki líka komin skýringin á því að lamaðir stukku á fætur og hlupu í burtu ef hann snerti þá?


Snær - 04/06/04 16:34 #

Þetta er ansi fyndinn brandari hjá þér, Árni, en hvorki kristnir né aðrir trúaðir eða trúlausir notast raunverulega við svona rök.

Þú veist það alveg örugglega, er það ekki?


Helgi - 07/06/04 15:28 #

Varðandi Hvítasunnudag og heimildir. Þá má benda á að einhvernveginn varð til kirkja í Róm, án þess að þangað færi nokkur trúboði. Hún var orðinn til snemma á Kristniboðsferli Páls, Gyðingar voru reknir frá Róm vegna deilna "um Chrestus nokkurn" skrifaði Tacitus, margir telja að í Róm eins og víða annarstaðar hafi deilur Gyðinga og Kristinna farið pínu framhjá yfirvöldum og þau lítið botnað í þeim. En í 2. Kafla Postulasögunnar, er tekið fram að Gyðingar frá Róm hafi verið viðstaddir. Þeir hafa farið heim og sagt frá.

Það er býsna merkilegt að það sé notað sem rök að fyrst ekki hafi fundist ritaðar heimildir um Hvítasunnudag utan Biblíunnar að þá hafi þetta aldrei átt sér stað. Hvar ættu þær heimildir að finnast? Í dagblöðum? Annálum Gyðinga, sem voru síður en svo ánægðir með vöxt kirkjunnar og reyndu að drepa hana í fæðingu? Annálum Rómverja, sem skyldu almennt lítið hvað var um að vera meðal Gyðinga?

Það er fínt að hafa skoðun, fínt að "trúa" á einhvern málstað, mér finnst bara sem umræðurnar séu ekki mjög alvarlegar. Ágætis framtak hjá ykkur samt.


Árni Árnason - 07/06/04 15:46 #

Eins og þú getur þér réttilega til Snær þá notar enginn svona "rök".

En þegar kraftaverkasögur, sem allar eru hvort eð er tóm rökleysa, eru annars vegar, getur varla skaðað að gantast svolítið. Þetta verður varla mikið vitlausara, þó að menn geti brosað út í annað.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/06/04 17:51 #

Heimildirnar ættu að finnast út um öll nágrannalöndin af því að postularnir sneru fólki frá ótal löndum. Rómverjarnir sem voru meðal gyðinga hefðu nú væntanlega getað tekið eftir þessu enda gátu postularnir rætt við þá á meðan þeir töluðu tungum.

Þrjú þúsund manns víðs vegar að úr heiminum verða vitni að kraftaverki og engar heimildir finnast um það, er það ekki frekar tortryggilegt?

Það að kristin kirkja hafi verið til sannar ekki að einhverjir náungar hafi uppúr þurru byrjað að tala tungum, fjölmörg trúfélög hafa orðið til án þess að nokkur talaði tungum.


Helgi - 07/06/04 20:37 #

Það er býsna veikt að heimta heimildir frá öllum "nágrannalöndum", voru sagnaritarar annara landa að skrá niður hvað gerðist meðal gyðinga? Þetta voru allt gyðingar sem voru viðstaddir. Eru til aðrar heimildir frá þessum sömu gyðinglegu samfélögum? Á þessum tíma var sagnaritun ekki eins og í dag, ef ég væri gyðingur og kæmi í dag heim frá Jerúsalem og segði þér þessa sögu, myndir þú skrifa hana niður? Hvers vegna ættu aðrir að skrá þetta hjá sér? Og þá hverjir? Ritarar konunga? Hví?

Varðandi það að þeir hafi talað tungum og uppruna Kristinnar kirkju. Sá sem sannfærði rómversku gyðinganna gæti allt eins hafa talað arameísku, eða grísku eða e-ð, hafi þeir sem stofnuðu kirkjuna í Róm tekið trú þarna, það er ekki sannað. Það sem skipti máli hafi það verið raunin, er það að þeir tóku trú, eitthvað gerðist sem sannfærði þá.

Ég hef orðið vitni að því að maður talaði latneskt mál sem ég skyldi, ég skyldi ekki alveg allt, þetta var sennilega Ítölsk mállýska, ég þekki þennan mann vel. Hann talar ekkert latneskt mál. Er engan veginn tungumálamaður. Kona sem ég þekki líka fékk það sem kallað er "útlegging" þ.e. þýðingu á tungutalinu , eins og talað er um í fyrra Korintubréfinu. Allt sem hún sagði kom heim og saman við það sem ég skyldi. Þetta er raunverulegur atburður, nú er ég búinn að segja þér frá honum, ég skil það vel að þú hafir litlar ástæður til að verða agndofa yfir þessari sögu. Mér finnst ólíklegt að þú skráir hana hjá þér og búir til heimild fyrir komandi kynslóðir. Settu þig í spor sagnaritara á þessum tíma, myndirðu eyða bleki í slíka sögu?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/06/04 21:49 #

Rómverjar og Grikkir voru væntanlega meðal þeirra sem var snúið og þessar þjóðir voru mikið fyrir það að skrifa hlutina niður en þrátt fyrir það er ekki til ögn af heimildum um þennan atburð og

Af hverju ætti ég að trúa þér? Ég þekki þig ekki neitt. Þessi þrjúþúsund sem urðu kristin á þessum degi hefðu sagt fólki sem það þekkti og treysti frá þessu og þess vegna hefðu sögurnar endað í rituðum heimildum.

Þrjúþúsund manns, líklega frekar ríkt fólk vegna þess að það hafði efni á að ferðast svona, sáu þetta og fundu enga þörf til koma sögunni af þessu niður á blað.

Ekki nóg með að enginn hafi skrifað hjá sér nokkuð um þennan atburð heldur skrifaði enginn nokkuð um kristna trú eða kristna menn fyrir en löngu seinna, það bendir ekki til þess að kristin kirkja hafi verið stofnuð á jafn öflugan hátt og þessi lygasaga gefur í skyn.


Helgi - 08/06/04 00:37 #

Geturðu nefnt eina sambærilega heimild við það sem þú ert að fara fram á? Ef við hefðum ótrúlega mikið af heimildum frá þessum tíma af venjulegum hlutum, eða jafnvel sambærilegum hlutum, ok, þá hefðiru nokkuð til þíns máls. En eru þær heimildir til? Það kemur t.d. á óvart þegar maður sér hversu fáar heimildir við höfum sem segja frá Júlíusi Sesari, og hversu langt er milli aldurs skjalanna sem geyma heimildir um hann og þess tíma sem hann lifði á. Sagnaritun var ekki svona algeng, ef fólk skrifaði sendibréf eða dagbók er ólíklegt að þær varveitist svona lengi.

Mér þætti gaman að sjá dæmi þess að slík sagnaritun hafi átt sér stað meðal gyðinga sjálfra, því ólíklegt er að nokkur annar maður færi að skrifa þetta niður.

Það er mikið líklegra að ef þú þekktir mig og þér þætti sagan mín rosaleg, að þú myndir segja öðrum frá henni, eins og var mikið algengara á þessum tíma.

Það voru mörg ár og áratugir þar til Kristni var álitin aðskilin trú frá Gyðingdómi. Þessvegna var ekki talað um þá sem sér flokk fyrr en löngu seinna.

Mér þætti gaman að vita á hvaða heimildum þú byggir það sem þú segir. Ég byggi mitt aðallega á Bók F.F. Bruce um Postulasöguna, þetta hefur samt hvatt mig til að halda betur utan um hvar ég les hvað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.