Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leynireglan uppí Háskóla

Fræðimennska hlýtur óneitanlega að ganga út á að komast sem næst sannleikanum. Meira að segja bókmenntafræðin hafa sitt til málanna að leggja í þessum efnum, því textarýnin þar á bæ getur þegar best lætur höndlað kjarna mennsku okkar, rétt eins og bókmenntirnar sjálfar geta staðið sem öflugt þekkingartæki. En hvernig kemur þetta út í guðfræðinni?

Þar á bæ rýna menn stíft í texta Biblíunnar, túlka dæmisögur og leiða út hvað þeir sem textann skrifuðu aftur í forneskju voru að meina með þessu öllu. Biblían er enda ítarleg heimild um reynslu manna af guðum gegnum ótal aldir og árþúsund.

Slík rýni er góðra gjalda verð og færir okkur beinharða þekkingu þegar upp er staðið. En það er einn annmarki á öllu þessu fræðastarfi. Og hann er sá að menn ganga of langt í þörf sinni fyrir að leiða það út að texti þessi sé djúpvitur sannleikur sem fullt erindi eigi við okkur í dag.

Píslarganga Jesú er gott dæmi. Guðfræðingar nútímans eru alveg komnir á þá skoðun að sagan sú sé ekki endilega sannleikanum samkvæm, heldur táknræn fyrir sigur lífsins yfir dauðanum. Gott og vel, menn hafa löngum trúað því að lífið sigri dauðann með einhverjum hætti. En þessi niðurstaða getur þó með engu móti rímað við þá þekkingu sem við í nútímanum búum að um líf og dauða skepna og gróðurs. Þekkingin á því ferli öllu útilokar gersamlega möguleikann á því að dýrategund á borð við manninn geti á einhvern hátt haldið lífi sínu og vitund eftir að líkið er kólnað.

Þetta eiga guðfræðingarnir að vita. Og í krafti þess eiga þeir ekki að ganga skrefi lengra en að gefa sér þá niðurstöðu að í gegnum tíðina hafi menn trúað slíkri bábilju og haldið á lofti. Í krafti fræðimennsku sinnar eiga þeir ekki sjálfir að geta haldið neinu slíku fram.

En það gera þeir samt. Útúrfróðir sérfræðingar í fornum goðsögum notfæra sér þessar mýtur miskunnarlaust sem efnivið í að boða hindurvitnin áfram, þótt þeir eigi að vita betur. Þeir ganga meira að segja lengra, gerast sjálfir prestar og hampa gömlum ranghugmyndum sem djúpum sannleika sem aðeins útvaldir geti höndlað og skilið.

Og þar með hafa þeir kálað fræðimennsku sinni. Þeir slökkva á allri gagnrýninni hugsun og fara að hegða sér eins og æðstuprestar hjá frumstæðum þjóðflokkum. Guðfræðinámið, sem eins og annað fræðilegt nám ætti að sía burtu allt sem ekki stenst í raunverunni, er í raun eins og forn leyniregla þar sem launhelgar eru tignaðar og menn líta á sjálfa sig sem djúpvitra útvalda stétt helgra manna.

Hver sá sem skoðar helgiritin með gagnrýnu hugarfari sér í hendi sér að textarnir þar eru börn síns tíma, lýsa heimsmynd sem fáfróðir hirðingjar bjuggu að og boðuðu í bland harðneskulegt þrælasiðferði.

Hvað veldur því að menn koma trúaðir út úr þessari deild?

Birgir Baldursson 25.05.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 25/05/04 10:34 #

Biggi, ég þekki guðfræðinema sem er afar snjall drengur. Hann er búinn mjög gagnrýnni hugsun og beitir föstum rökum á hvaðeina í heimi hér. Við skellihlæjum saman að fáránlegum trúarbrögum hinna ýmsu þjóða gegnum aldirnar. Hann hefur efasemdir um flest í Biblíunni nema eitt þ.e. hann er sannfærður um tilvist yfirnáttúrveru sem skapaði heiminn. Þegar að þessu atriði kemur þá hreinlega slekkur pilturinn á öllum rökum og segir það "bara óhugsandi" að svo mikilfengleg tilvera gæti sprottið fram að sjálfu sér og þar að baki "hljóti" að búa kraftmikil vitsmunavera.

Ég held ég viti hvað er að gerast. Ég sé það á blikinu í augum hans og undarlegum andlitsdráttum þegar hann viljandi blokkerar alla skynsemi....ég kalla það ANDLEG SJÁLFSFRÓUN, ég finn ekki betra orð yfir það.

93


Snær - 26/05/04 17:27 #

Þetta er alveg sígilt vandamál.

Ég á góðan vin, trúaðan mjög, sem ég sé þessi einkenni vel á.

Þegar ég fer að rökræða við hann, og tekst að sýna fram á það að eitthvað sem hann hélt vera rétt samkvæmt trúarbrögðum hans, og hann áleit vera gott og satt, væri í raun ekki á þá vegu, jafnvel samkæmt Bibbu gömlu, þá leitar hann strax í aðra útskýringu, sérstaklega til þess að styðja réttleika guðs síns.

Það myndi bæta heiminn svo mikið ef fólk myndi leita sannleikans út frá hans eigin forsendum, ekki forsendu guðs.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.