Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þar sem fátæktin er mest

Vítt og breitt um veröldina leitar fólk í trúna þegar áföll dynja yfir, ekki síst þar sem kirkjurnar eru fátækastar og peningarnir eru minnstir. Svo undarlega vill til að þar er vöxtur kirkjunnar mestur. #

Þetta segir séra Svavar A. Jónsson í ummælum sínum við greinina Sorgarstund.

Séra Svavari þykir undarlegt að þar sem fátækt ríkir sé uppgangur kirkjunnar mestur. Fyrir mér eru þetta engar fréttir.

Samkvæmt frétt á heimasíðu Þjóðkirkjunnar er mest fjölgun í lútherskum kirkjum í Afríku. Í Evrópu fækkar aftur á móti í lúthersku kirkjunum, enda er það svo að helsta sóknarfæri kirkjunnar er í þriðja heiminum.

Þarf að leita lengi til að finna skýringar á þessari þróun? Með bættu menntunarstigi minnkar trúþörf og því er kirkjan á undanhaldi í vestur Evrópu. Lútherskar kirkjur hafa gripið til þess ráðs að stunda stíft trúboð í þriðja heiminum og uppskera eftir því.

Ég hef áður fjallað um kristniboð á þessum vettvangi og hef litlu við þá umfjöllun að bæta hér en um helgina er fagnað 75 ára afmæli Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Mér þætti meira til góðvilja kirkjunnar manna koma ef þeir hjálpuðu fólki án þess að því fylgdi böggull.

Á Íslandi fjölgar í þjóðkirkjunni nokkurn veginn í takt við fjölgun þjóðarinnar enda gildir hér það ótrúlega kerfi að börn eru sjálfkrafa skráð í trúfélag móður og útlendingar eru sjálfkrafa skráðir í trúfélag þegar þeir flytja til landsins. Aftur á móti fækkar þeim Íslendingum sem eru í þjóðkirkjunni hlutfallslega þó hvergi sé minnst á það í fréttinni sem vísað er í hér að ofan. Sú fækkun er stórmerkileg í ljósi þess gengdarlausa áróðurs sem Þjóðkirkjan stundar í skjóli gríðarlegra fjármuna.

Er séra Svavar ekki í raun að benda okkur á að trú sé málið fyrir illa upplýsta? Spurningin sem blasir við er; hvert ætlar kirkjan að snúa sér þegar menntunarstig þriðja heimsins er komið á sama stig og hjá þróuðum ríkjum?

Matthías Ásgeirsson 07.05.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Skúli - 07/05/04 14:30 #

Vægi kristninnar er mest í BNA - einu auðugasta landi jarðar. Þar eru kirkjurnar sjálfstæðar og þiggja ekki opinbert fé.

Vöxturinn er vissulega mikill í þriðja heiminum.

Hann er þó jafnvel enn meiri í Kína þar sem því er jafnvel haldið fram að 20% íbúanna verði kristnir eftir fáeina áratugi ef fram heldur sem horfir.

Trúin hefur hvað minnst vægi í Rússlandi, þar sem fátækt og spilling eru viðloðandi.

Tengsl þarna á milli eru ekki eins ljós og þú kannske gefur til kynna.

Upplýsing er ekki helsti ógnvaldur kristninnar á Vesturlöndum. Trúleysið er ekki síður einn angi tómhyggjunnar sem birtist í æ fjölbreyttari mynd í þessum heimshluta.

Neysluhyggjan er annað dæmi af sama meiði sprottið og e.t.v. náskylt hnignun trúarbragðanna. Fólk hámar sér til huggunar. Neyslan getur bæði verið afleiðing hnignandi trúar og orsök hennar. Ekkert göfugra þarf að búa þar að baki.


Svavar A. Jónsson - 07/05/04 15:15 #

Menn eru gamansamir hérna. Benda á að lútherskar kirkjur stundi stíft trúboð í þriðja heiminum og uppskeri eftir því, en Adam verður ekki lengi í Paradís, því trúarþörf minnki með bættu menntunarstigi, eins og það er fullyrt, (sem mætti auðvitað skilja sem svo að trú sé aðallega fyrir illa menntað fólk og fávíst. Skyldi það sama gilda um trúarþörf Íslendinga?). Svo er spurt hvert kirkjan ætli að snúa sér þegar menntunarstig þriðja heimsins sé komið á sama stig og hjá þróuðum ríkjum. Þá verða góð ráð á uppsprengdu verði! Ekki síst fyrir þá sök að eitt af því sem kristniboðar leggja hvað mesta áherslu á í starfi sínu í Afríku er að koma á fót skólum, kenna fólki að lesa og skrifa, með öðrum orðum að bæta menntunarstigið.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 07/05/04 15:26 #

Takk fyrir þessa samantekt Svavar, pistillinn er reyndar ekki svo langur og torræður að þörf sé á úrdrætti en ég tek viljann fyrir verkið.

Ekki síst fyrir þá sök að eitt af því sem kristniboðar leggja hvað mesta áherslu á í starfi sínu í Afríku er að koma á fót skólum, kenna fólki að lesa og skrifa, með öðrum orðum að bæta menntunarstigið.
Og þeir eru ekki fyrr búnir að kenna fólki að lesa og skrifa en þeir ota að því Biblíunni ;-)

Annars bendi ég á fyrri pistil minn, sem vísað er á hér að ofan, um trúboðastarf.


Sigurður Ólafsson - 07/05/04 16:08 #

"Vægi kristninnar er mest í BNA - einu auðugasta landi jarðar."

Í BNA er mikill auður, það er rétt, en ekki gleyma því að þar er líka gríðarleg fátækt. Misskipting lífsins gæða er hvergi meiri. Það er alþekkt staðreynd að stór hluti bandaríkjamanna er ólæs! Sumir segja að fjórðungur fólks þar í landi sé svo til ólæs (e. functionally illiterate).

Skildi það útskýra vinsældir hindurvitna á borð við kristni í því ágæta landi?


Sigurður Ólafsson - 07/05/04 16:56 #

Í greininni sem Skúli vísar til hér að ofan um kristni í Kína, er m.a. getið um það að margir kínverjar taki kristna trú vegna "yfirburða" vestrænnar menningar. Þeir telji að kristinn siður sé undirrót þeirrar velgengni sem vestræn ríki njóti (sem er reyndar bull). Það er m.ö.o. á forsendum efnishyggju sem þeir taki kristna trú! Athyglisvert!

Skildi fátækt fólk í Afríku trúa þessu á sama hátt? Ríka fólkið frá vesturlöndum er yfirleitt kristið, skildum við ekki verða rík líka ef við tökum kristna trú?


Bjoddn - 08/05/04 00:04 #

Það er beint samhengi á milli eymdar og aðsóknar í trúarbrögð.

Þegar sókn eftir þunglyndislyfjum fer vaxandi, þá eykst líka kirkjusókn um leið.

Í fátækari löndum er það fátæktin sem býr til eymdina. Hjá okkur er það sjúkt samfélag fólks sem leitast eftir jákvæðum samanburði við náungann.

Þegar klerkar kætast yfir aukinni trú hjá landanum, þá eru þeir um leið að kætast yfir aukinni eymd hjá landanum.

Peningar og menntun sem slík eru því ekki orsök þess að fólk fer að trúa. Ómenntað fólk er ekki endilega heimskt fólk. Trúað fólk er ekki endilega heimskt fólk. Ríkt fólk getur alveg verið trúað fólk o.s.frv... það eru allir jafn miklir bjánar í mínum augum hvort sem þeir eru með háskólapróf og þykka buddu eður ei, þetta er bara spurning um aðstæður sem fólk er í og hvar brotpunkturinn liggur. Hvenær kem ég að þeim punkti að ég vil hætta að ákvarða veginn að minni hamingju sjálfur og fara að láta aðra segja mér hvaða leið sé best?


Úlfurinn - 08/05/04 15:10 #

Hvað varðar trúrækni bandaríkjamanna má benda á að fáfræði er ótrúlega mikil meðal þeirra,einnig meðal menntamanna.Sjáið bara trúarvaðalinn í Bush Hann segist vera stríðsmaður guðs,útvalinn til að brytja niður villutrúarmenn.Og við höngum aftan í rassgatinu á þessum vitleysing og gerum okkur samábyrg fyrir fjöldamorðum og pyntingum í Írak. ja svei


Skúli - 08/05/04 17:19 #

Hafið hemil á ykkur kæru vinir. Ég er hvorki að hampa gáfum Busa, stjórnmálum í BNA né nokkru slíku. Fátt af því fellur mér í geð satt að segja. Þá kunna að vera annarlegar ástæður fyrir því að sumir Kínverjar gerist kristnir. Ég þekki þó að eigin raun gagnstæð dæmi, þar sem menn virkilega þyrstir eftir boðskapnum og leggja sig í margvíslega hættu til þess að nálgast hann.

En með þessari klausu vildi ég bara benda á hnökrana á málflutningi Matta.

Svo sem mér er skylt að gera.

;>)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 09/05/04 02:42 #

hnökrana á málflutningi Matta.

uh... uh... , hvað áttu við - hnökrar á mínum málflutningi - fráleit hugmynd :-)


Árni Árnason - 10/05/04 10:55 #

Trúboð í vanþróuðum löndum er lýgilaust með því ógeðfelldara sem ég þekki. Samfélög sem þekkja ekkert tæknifyrirbæri flóknara en leirkrukku, og er ógnað af sjúkdómum sem okkur á vesturlöndum eru léttvægir, horfa á þyrluna slaka niður einhverju furðufyrirbæri, sem síðan opnast eins og blómkróna og breytist í fullkomna sjúkrastofu. Meira að segja krossinn er á löm og rís sjálfvirkt. Er nema von að þetta fólk haldi að hér séu guðlegar verur á ferð.


Carlos - 05/11/04 13:28 #

Er séra Svavar ekki í raun að benda okkur á að trú sé málið fyrir illa upplýsta? Spurningin sem blasir við er; hvert ætlar kirkjan að snúa sér þegar menntunarstig þriðja heimsins er komið á sama stig og hjá þróuðum ríkjum?

Þá verður kannski lögð meiri áhersla á samræður og samstarf á jafningjagrundvelli ... Hitt er annað mál, að kristniboð er erfiðara í samfélögum með þróaðar trúarhugmyndir... vísindaleg efnishyggja austantjaldslandanna ber nógu mörg einkenni trúar til þess að hægt er að telja þau með í hóp hinna þróuðu trúarsamfélögum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/04 13:55 #

Hvað ertu að fara með þessu, Carlos? Ertu að segja að vísindaleg efnishyggja sé þróaðri trúarbrögð en kristni? Tekurðu þá ekki heilshugar undir orð mín hér?


Carlos - 05/11/04 23:43 #

Ef færri guðir=þróaðari trúarbrögð þá já. En málið er ekki hvort mælieiningin er rétt heldur hvað reynist vera rétt.

Þar sem trúkerfin eru útpæld, átrúnaðurinn forn og tilbeiðslan beinist að öðru en náttúruguðdómum virðast eingyðistrúarbrögð ná minni útbreiðslu en á meðal hinna.

Ég held að eingyðistrú og guðleysi eigi það sammerkt að það er auðveldara að rekja sig aftur til upphafsins en í trúarkerfum þar sem guðirnir eru fastbundin náttúruöflunum. Hvorki eingyðið né guðleysið tilbiðja náttúruöflin.

Hvert er ég að fara? Líkast til er ég bara að tjá það sem mér sýnist liggja í augum uppi.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/04 00:36 #

Carlos, ertu í alvöru að leggja díalektíska efnishyggju að jöfnu við trúarbrögð? Díalektísk efnishyggja er einmitt alls ekki trúarbrögð, hún er (a) efnishyggja = gengur ekki út frá öðru en efninu og (b) díalektísk = beitir þeirri aðferð að skoða ytri áhrif/aðstæður og innri aðstæður/eðli til að lýsa heiminum eða skýra hann. Ákaflega lógísk nálgun og á mjög lítið skylt við trúarbrögð -- nema hvað díalektíska efnishyggjan kemst nær því en flest, að fylla skarðið sem trúarbrögðin annars skilja eftir sig í heimsmynd fólks -- án þess þó að vera trúarbrögð sjálf. Þú segir að hún hafi "nógu mörg einkenni trúar" -- mundirðu kæra þig um að rekja nánar í hverju sú skoðun þín er fólgin eða á hvaða rökum hún er reist?


Carlos - 06/11/04 19:29 #

Hvort sem við flokkum þessa nálgun til trúarbragða, næstum trúarbragða eða lífsviðhorfs eða whatever þá hefur kristnu eða öðru trúboði ekki orðið ágengt þarna á sama hátt og þar sem fólk guðgerir náttúruöflin.

Engu máli skiptir hvernig ég flokka efnishyggjuna, en vísa í orð Vésteins: "díalektíska efnishyggjan kemst nær því en flest, að fylla skarðið sem trúarbrögðin annars skilja eftir sig í heimsmynd fólks -- án þess þó að vera trúarbrögð sjálf".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/04 21:40 #

þá hefur kristnu eða öðru trúboði ekki orðið ágengt þarna á sama hátt og þar sem fólk guðgerir náttúruöflin.

Athyglisvert orðalag. Er fólk í öðrum trúarbrögðum en kristni að þínu mati alltaf að guðgera náttúruöflin? En hinir kristnu? Eru þeir ekki bara að því líka? Er guðinn þinn kannski fyrir þér bara ígildi náttúruaflanna, en þér finnst samt einhver nauðsyn á því að boða hann eins og persónulega veru með sjálfstæðan vilja?

Ef svo, þá af hverju í ósköpunum? Má ekki bara kalla náttúruöflin náttúruöfl? Sérðu ekki að það er úrelt forneskja að færa þau í búning vitræns afls? Ef þér finnst ekki nauðsynlegt að trúa slíku sjálfur, af hverju heldurðu að öðrum sé það nauðsyn?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 02:52 #

Ég held að eingyðistrú og guðleysi eigi það sammerkt að það er auðveldara að rekja sig aftur til upphafsins en í trúarkerfum þar sem guðirnir eru fastbundin náttúruöflunum. Hvorki eingyðið né guðleysið tilbiðja náttúruöflin.

Hvað áttu við með því að "rekja sig aftur til upphafsins"?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 03:47 #

Matti spyr:

Spurningin sem blasir við er; hvert ætlar kirkjan að snúa sér þegar menntunarstig þriðja heimsins er komið á sama stig og hjá þróuðum ríkjum?

Ætli hún færi sig ekki yfir í apa, ljón og ísbirni. Sumir kristniboðar eru greinilega þegar byrjaðir.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 04:13 #

Enda stendur í Mark 16:15 ...Farið út um allan heiminn og og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.