Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er ásatrú góð trú?

Margir þeir sem skrá sig úr Þjóðkirkjunni ganga frekar í Ásatrúarfélagið heldur en standa utan trúfélaga. Þetta gera þeir væntanlega vegna þess að þeim þykir ásatrúin kúl og kannski vilja þeir varðveita fornan menningararf. Fæstir eru raunverulega ásatrúar, svo mikið er víst.

En er eitthvað kúl við ásatrúna? Nú snýst hún um skemmtilegar sögur af guðum sem voru sumir hrekkjóttir, aðrir miklir bardagaseggir, enn aðrir graðir en allir mjög mennskir, breyskir og uppátækjasamir. Dæmalaust skemmtilegt allt saman.

Þessir guðir eru þó engin sérstök fyrirmynd í siðferðilegum efnum, síst af öllu í nútímanum. Sumir þeirra stunduðu það t.d að berja á jötnum. Þessir jötnar höfðu þó lítið annað til saka unnið en vera af öðrum "kynþætti" en æsirnir. Í raunveruleikanum steðjuðu svo heiðnir norrænir víkingar, í krafti þeirra hugmynda sem trú þeirra boðaði hampaði, suður í álfu til að berja á múslimum. Þóttu þeir upp til hópa hrollvekjandi hugrakkir og óhræddir við dauðann, enda hið besta mál að deyja í bardaga.

Ásatrúin boðar þannig kynflokkadrætti í sinni tærustu mynd, kyndir undir úlfúð og óöld. Aldrei gæti ég hugsað mér að fylkja mér undir merki slíkrar hugmyndafræði, jafnvel þótt enginn væri átrúnaðurinn. Kúlið í ásatrúnni er einfaldlega ekkert kúl í mínum augum, heldur fyrst og fremst siðlaus viðbjóður.

En auðvitað má alveg halda því fram að þarna hjá Ásatrúarfélaginu sé ekkert verið að púkka upp á siðferðisskort trúarinnar sjálfrar, heldur verið að hefja á loft forna arfleið sem ekki má gleymast. Slík rök ná þó ekki nema ákveðið langt, því það sem í höndunum á Hauki Halldórssyni og Sveinbirni Beinteinssyni var upphafning fornra siða virðist í dag óðum vera að þynnast út í sams konar slepju og einkennir öll ritúöl Þjóðkirkjunnar.

Og þá er betra heima setið.

Birgir Baldursson 05.05.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 00:27 #

Jötnarnir voru ekki annar kynþáttur, þeir voru ófreskjur sem höfðu allt sér til ó-ágætis. Hugmyndirnar um að það sé gott að deyja í bardaga eru barn síns tíma; skilgetið afkvæmi samfélagsins sem þær urðu til í. Sæmdin, hreystin og tryggðin voru helstu dyggðir þess samfélags og það sem var líklegast til að fleyta manni farsællega áfram í lífinu. Þetta voru m.ö.o. gildin sem menn lifðu eftir, inkorporeruð í trúna, frekar en siðaboðskapur trúarinnar sem setti mark sitt á gildin. Eins og með kristni og önnur trúarbrögð. Gildi samfélagsins setja mark sitt á trúarbrögðin eða, réttara sagt, trúarbrögðin gæta þess að boða það sem fólkið vill heyra, og eigna sér það svo eftir á sem boðskap sinn.

Ég held annars að það sé rétt athugað hjá þér, að flestir meðlimir Ásatrúarfélagsins séu þar af því þeim finnist það kúl. Það félag hefur reyndar þann kost (burtséð frá því að stunda ekki trúboð) að fólk stundar sjálfan átrúnaðin eftir eigin geðþótta og sannfæringu og kennivald man ég ekki eftir að hafa heyrt um. Fólk sem aðhyllist hugmyndir um jafnvægi manns og náttúru, virðingu fyrir náttúruöflum eða "vættum" eða fólk sem vill geta galdrað með því að gefa náttúrulögmálum langt nef með viljastyrknum, slíkt fólk á sér samastað í Ásatrúarfélaginu.

Virðing fyrir náttúrunni eða harmónía með náttúruöflum eru nú í sjálfu sér gildi sem ég get glaður skrifað undir. Að tengja það trú á goð er samt fjarri mér. Ég er á stundum svolítið svag fyrir vættum, en það hefur meira að gera með tilfinningu eða stemmningu en alvöru trú.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 02:17 #

"Jötnarnir voru ekki annar kynþáttur, þeir voru ófreskjur sem höfðu allt sér til ó-ágætis."

Ég veit, enda setti ég þá í gæsalappir. Mér varð í sama mund hins vegar hugsað til ferðalaga ásatrúarmanna suðrí sólhitarass að berja á múslimum.

Auðvitað er það rétt athugað að hin félagslegu gildi hafi meira mótað trúna en öfugt, en að gangast inn á trúarbrögð sem mæra flokkadrætti og dráp, þótt af kúlhugsjónum sé, finnst mér ekki siðferði okkar sæmandi. Það er svona álíka paradox og þegar hin umburðarlynda Þjóðkirkja okkar, sem biður menn að bera virðingu fyrir öllum trúarskoðunum, hampar á sama tíma Passíusálmunum þar sem ekki er beint verið að sýna gyðingdómi umburðarlyndi.

En ég er nú líka kaþólskari en páfinn þegar kemur að siðferðishugmyndum. Skil vel að öðrum geti fundist þetta í góðu lagi, en fannst rétt að viðra þetta og fá viðbrögð.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 03:18 #

Varðandi Jötnana þá held ég að það sé varla hægt að kalla þá ófreskjur, ég held að það sé seinni tíma túlkun þar sem þeir hafa að einhverju leyti runnið saman við tröll. Mörkin milli jötna og ása eru ákaflega óljós, ásarnir voru komnir af Jötnum, Loki er eiginlega jötun.

Nú myndi einhver segja að jötnarnir hafi verið vondir en staðreyndin er sú að ásarnir voru, einsog Birgir bendir á, líka óttalegir skíthælar líka.

Minn skilningur er sá að ásar og jötnar hafi ekki verið af ólíkum kynþætti eða tegund heldur náskyldir hópar sem börðust um völd.


Hr. Pez - 05/05/04 09:12 #

Svo má náttúrulega ekki gleyma því að helgiritin eru skráð af þeim sem trúa á sigurvegarana.


Daníel - 05/05/04 10:38 #

Hér í þessum skrifum gætir margháttaðs miskilnings. Í fyrsta lagi þá er sú Ásatrú sem lýst er í Íslendingasögum höfðingjatrú og ekki dæmigerð fyrir hina gömlu norrænu trú. Menn dýrkuðu mikið náttúruvætti, s.s. fossa, fjöll, ár o.s.frv. Í dag túlka Ásatrúarmenn þetta að því er mér skilst sem umhverfisvernd og að maðurinn eigi að lifa í sátt við náttúruna. Ágætt í sjálfu sér en kemur trú lítið við. Í öðru lagi eru Jötnar og Æsir eiginlega bara tveir hópar af sömu tegundinni. Þ.e. báðir eru komnir af Ými (sem var Jötunn) og allir Jötnar eru alls ekki slæmir. T.d. giftist Njörður Skaði sem er Jötunkona og Æsir sækja oft veislur hjá Ægi sem einnig er Jötunn. Vanir eru svo annar hópur sem lítið fer fyrir. Sumir Jötnar undir forystu Útgarða-Loka vilja hins vegar leggja Ásgarð undir sig og það er við þá sem Æsir eru í stríði. Þetta er svipað og þegar Írakar voru í stríði við Írani. Voru þeir þá Múslímahatarar? Þeir eru jú Múslímar sjálfir. Æsir geta eiginlega ekki verið Jötnahatarar þó þeir séu í stríði við suma þeirra því þeir eru jú Jötnaættar sjálfir. Í þriðja lagi þá fóru víkingar og börðu á múslímum. Þeir fóru líka og börðu á Írum, Englendingum, Frökkum, Rússum, Finnum, Eistum, Lettum, Inúítum og Indíánum (eiginlega bara öllum sem þeir hittu). Þetta var yfirleitt barátta um land og völd og kom trú þeirra ekkert við. Þeir fóru aldrei í manngreinarálit með það hverja þeir drápu og viðurkenndu að því er virðist alltaf guði andstæðinga sinna sem góða og gilda, sbr. hvíta krist sem víkingar virðast hafa átt auðvelt með að viðurkenna án þess að það breytti trú þeirra á nokkurn hátt, sbr. hve margir létu prímsignast til að geta haldið áfram að stunda viðskipti. Þar að auki þegar víkingar voru sestir að á einhverju svæði voru þeir fljótir að kasta tungu sinni og siðum og taka upp trú og mál heimamanna, sbr. Normandí,Írland, Wales, Hvíta-Rússland o.s.frv. Í fjórða lagi skapast hugmyndin um vopndauðan og þess háttar af því að Ásatrúin er að mótast á þjóðflutningatímanum þegar allsherjarstríð virðist hafa ríkt í Evrópu í heilu aldirnar. Hernaður og hreysti eru því óneitanlega mjög mikilvæg á þeim tíma. Helstu siðalögmál norrænu trúarinnar snúast hins vegar um heiður, drengskap og mikilvægi þess að vera góður og gegn maður, sbr. Deyr fé deyja frændur deyr sjálfr hið sama en góður orðstýr deyr aldreigi hveim sér góðan getur. Þannig að nánast allt sem þú segir um Ásatrú í þessum pistli er rangt. Norræna trúin snýst um að troða yfirnáttúrulegum vættum inn í náttúruna og dýrka þau. Þetta finnst mér kjánalegt en alls ekki ósiðlegt. Kynþáttahatur og ofbeldi eru þar víðs fjarri.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 11:38 #

Hmm, ég játa að ég er ekkert allt of vel að mér í goðafræðunum. En nú hef ég fengið tvær leiðréttingar á að líkja ásum og jötnum við tvo kynþætti. Annars vegar eru þeir alls óskyldar (dýra)tegundr, en í hinu tilvikinu svo skyldir að þetta jaðrar allt við fjölskylduerjur.

Norræna trúin snýst um að troða yfirnáttúrulegum vættum inn í náttúruna og dýrka þau. Þetta finnst mér kjánalegt en alls ekki ósiðlegt. Kynþáttahatur og ofbeldi eru þar víðs fjarri.

Þetta er einfaldlega rangt. Hvort sem ásar og jötnar voru af sama meiði breytir það því ekki að Þór gerir sér sérstakar ferðir einhvert austur (ef ég man rétt) að berja á jötnum (eða voru það tröll?). Þetta var sport hjá honum, hann var ofbeldishneigður.

En eins og ég segi þá er það tæknilegt atriði hvort hægt er að líkja þessum flokkadráttum við kynþáttahatur. En flokkadrættir eru það.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 11:53 #

Málið með goðin er að þau áttu ekki að vera siðferðilegar fyrirmyndir heldur áttu þau að útskýra hitt og þetta í heimsmyndinni, ef þrumuguðinn er hálf-geðveikur rusti sem drepur þegar honum sýnist þá er ákaflega auðvelt að skilja hvers vegna eldingar kveikja húsum, hins vegar er mjög undarlegt hvernig algóður og almáttugur guð tekur sig reglulega til og brennir til dæmis kirkjur sínar.

Dýrkunin snerist fyrst og fremst um að reyna að friða þessa rugludalla.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 12:30 #

Ekki siðferðilegar fyrirmyndir? En menn tala jafnvel í dag með lotningu um Þór og hafa velþóknun á ofbeldisverkum hans. Ég er að gera því í skóna að slík dýrkun hafi jafnvel mótað hegðun norrænna víkinga til forna.

Fyrstu aldirnar eftir landnám Íslands voru menn bundnir á klafa þeirra siðferðisviðhorfa sem ásatrúin gengur út á. Mannslíf voru einskis virði og allt sem menn höfðu áhyggjur af var sæmdin. Þetta viðhorf entist meira að segja eitthvað inn í hið kristna samfélag ef eitthvað er að marka Íslendingasögurnar.

Ég held að þau siðferðsviðhorf megi rekja beint til ásatrúar. Laxness á fyrirtaks satíru á þessi siðferðisviðmið í Gerplu.

Í nútímasamfélagi eiga menn auðvitað að kannast við þennan mennigararf sem norræn goðafræði er, en það er engum til sóma að ganga í trúfélag sem gengur út á að dýrka ofbeldiskennd viðmið, þótt í gamni sé.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/04 12:50 #

Mannslíf voru metin lítils vegna þess að þannig var gildismat þess samfélags. Framleiðsluhættirnir ráða samfélagsgerðinni. Ef matvæli eru framleidd af ánauðarbændum undir járnhæl lénsmanna, þá er mannslíf lítils virði. Mannréttindi voru ekki fundin upp fyrr en á átjándu öld, og það hafði ekkert með trúarbrögð að gera, heldur voru þau afleiðing borgarabyltinga í Frakklandi og víðar. Ef mannhelgi er gildi í kristni er það gildi sem hefur verið bælt niður allar götur frá krossfestingunni og þangað til það átti upp á pallborðið. Með öðrum orðum, mannhelgi nýtur sín fyrsta þegar -- þegar mannhelgi nýtur sín! Það hefur ekkert að gera með trúarbrögð. Mannhelgissjónarmiðin smitast inn í trúarbrögðin, ekki út úr þeim.

Ég get alveg dregið í land með æsi og jötna sem tvær dýrategundir.

Ég hugsa að Daníal hafi alveg rétt fyrir sér þegar hann segir "sú Ásatrú sem lýst er í Íslendingasögum [er] höfðingjatrú og ekki dæmigerð fyrir hina gömlu norrænu trú."


Daníel - 05/05/04 23:17 #

Það er rétt hjá Óla Gneista að Goðin voru ekki siðferðilegar fyrirmyndir. Þannig halda Æsirnir, bæði Goð og Gyðjur, hver framhjá öðrum án þess að það sé álitið neitt skelfilegt. Óðinn heldur margoft framhjá Frigg og eignast börn með ýmsum konum og Frigg sefur hjá bræðrum Óðins. Norrænir menn tignuðu goðin til að friða þau eða kaupa velvilja þeirra. Alls ekki vegna þess að þeir litu upp til þeirra. Goðin voru persónugerving náttúruafla sem voru alls ekki hliðholl manninum og hann hefði allt eins viljað geta sloppið við að þurfa lúta. Enda gerðu margir norrænir menn það og trúðu á mátt sinn og meginn. Og slíkt var umburðarlyndið í norrænu trúnni að enginn kipti sér upp við það eða ofsótti þá fyrir villutrú.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/05/04 15:59 #

"Norrænir menn tignuðu goðin til að friða þau eða kaupa velvilja þeirra. Alls ekki vegna þess að þeir litu upp til þeirra."

Abb, þetta má sennilega allt til sanns vegar færa. Grein þessi er þvi fallin um sjálfa sig og fall hennar var mikið :)


Árni Árnason - 10/05/04 11:23 #

HVAÐ ER GÓÐ TRÚ ?

Það er í raun tilgangslaust að deila um hvort ein trúin sé betri en önnur. Trúarbrögðin leitast flest við að skýra tilurð heimsins, og annað sem mönnum hefur ekki tekist að skýra með rökrænum hætti. Sömuleiðis er það flestum trúarbrögðum sameiginlegt að reyna að setja einhverskonar ramma um líf manna, ramma sem ber keim af ríkjandi siðferði og lífsskoðun. Ég sé nú ekki reginmun á vitleysunni hvort guðlegar verur stökkva fullskapaðar út úr höfðinu hver á annarri, eða eru skapaðar úr tiltækri mold og rifbeinum. Er í raun einhver munur á grímuklæddum afrískum galdralækni og hempuklæddum presti uppi á Íslandi, annar en sá að sá fyrrnefndi dansar á meðan hann fer með særingar/fyrirbænir sínar yfir dauðvona sjúklingi. Er þetta ekki allt sama bullið frá A-Ö ? Allt býsna skemmtilegt, svona eins og krakkar með ríkt ímyndunarafl í þykjustuleik. Ég er til í að láta mér í léttu rúmi liggja hverju fólk trúir, svo framarlega sem ég þarf ekki að borga fyrir herlegheitin.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/04 11:41 #

Öll trú byggir á ranghugmyndum, en "góð" trú er kannski sú trú sem í krafti ranghugmynda sinna rekur áróður fyrir boðlegu siðferði.

Ég hef ekki enn rekist á trúarbrögð sem komast í hálfkvisti við sjónarmið siðrænna húmanista í þessum efnum. Kristnin, sem flestir Íslendingar telja sjálfgefið að boði háþroska siðferði, er furðu aftarlega á merinni þegar maður skoðar það nánar.


Einar - 17/05/04 17:57 #

Hver sá sem les Hávamál mun sjá að ásatrúin er í eðli sínu skynsöm og leggur áherslu á hið jarðneska líf, og að koma eigi fram við náungan eins og þú vilt að hann komi fram við þig.


Magnús Matthíasson - 01/08/04 21:45 #

Ég er þér hjartanlega sammála Baldur Birgirson, Kristintrú hefur ekki verið siðleg hingað til og ekki til að hrópa húrra fyrir. Þeir menn sem hafa ekki verið duglegir að lesa sagnfræðina eins og hún kemur fram í réttu ljósi, ættu kannski að hafa það hugfast að kristnirmenn gerðu ekki síður en ástrúarmenn að fara um rænandi og ruplandi um lendur Evrópu, Daniel verður að líta á einn hlut sem varða framhjáhald og það er að framhjáhald hefur alla tíð verið viðlogandi mannkyninu frá upphafi, (líttu á Grísku Ilionskfiðu eftir Homer). Goðin eiga einfaldlega að sýna fram á það hver maðurinn er í raun og veru, þau eru ekki betri en við mennirnir, en við getum lært margt af þeim, þau sýna þörf mannsins og ánytjun. En Árni segir hér mikin sannleika, það er engin trú sem er góð, yfir annarri, ekkert er gallalaust, og sérstaklega ekki Kristintrú eins og hún hefur verið í gegnum tímann.


Magnús Matthíasson - 05/08/04 21:59 #

Mér þætti virkilega gaman að vita hvað þú Daníel trúir á? Ef þú heldur því fram að víkingar hafi í gegnum tímann átt í útistöðum við alla þá sem þeir mættu, þá er það ekki rétt. Þeir höfðu mikil viðskipti við margar þjóðir t.d Tyrki,Perssa, Rússa,Kænugarðsmenn og Grikki o.fl. Þú mættir taka það fram í einum pistla þinna að norrænir víkingar studdu við bakið á trúbræðrum sínum sem voru Keltar í Skotlandi og Weals. Þessar þjóðir áttu í höggi við valdagráðuga Englendinga (sem voru þá kristnir). Það var nokkrum hundruðum árum fyrir landnám Íslands. En! ef þú heldur því fram að Ásatrúamenn hafi verið skaðlegri mannkyninu en t.d. kristnir menn, þá ættir þú að lesa þig betur til. Annars eru pistlarnir þínir mjög mikið til fyrirmyndar og það er greinilegt að þú ert vel lesinn til í þessum efnum, þú ættir bara segja betur frá hinu sanna sem felst í því að trúa á Æsir.


Nadia - 18/11/05 21:53 #

Er Ásatrú góð trú?


Nadia - 18/11/05 21:54 #

Er Ásatrú góð trú?


Snæbjörn - 20/11/05 02:42 #

Kæri Magnús Matthías nú vitna ég í þig:

Þeir höfðu mikil viðskipti við margar þjóðir t.d Tyrki,Perssa, Rússa,Kænugarðsmenn og Grikki o.fl.

Þetta er rétt hjá þér. En það er aftur á móti ekki satt að þeir hafi heldur ekki herjað á þá. Norrænir menn fóru nefnilega í furðu lítið manngreinarálit þegar það koma að ránum. Þær rændu hvorn annan, þeir rændu tyrki, rússa, kænugarðsmenn og grikki. Og þeir stunduðu viðskipti við Breta, Íra og Frakka. En þeir rændu allar þessar þjóðir líka. Málið er bara það, að það þótti einfaldlega dyggð hjá þeim að ræna annað fólk svo lengi sem þú hnuplaðir ekki heldur bara einfaldlega lemdir, hina. (Kannski full gróf einföldun, vissulega höfðu þeir þing sem bönnuðu fólki að ræna hvort annað í það minnsta í heimabyggð).

Rússar eru fyrir það fyrsta afkomendur norrænna manna og slavneskra þjóða, víkingar undirokuðu þjóðirnar í Rússlandi og blönduðust þeim. Rússar er tekið af Rus (frá grísku) sem merkir ljóshærður maður. Vissulega voru norrænir menn í þjónustu gríska konungsins í Konstantínópel. Hann réð þá í sína þjónustu til þess að vernda sig frá árásum annara norrænna manna sem höfðu rænt sömu borg.

En nú er ég sérlegur áhugamaður um norræna menn og fortíð. Ég tek undir Birgi að Ásatrú er ekki góð trú fremur en önnur. Meðal ýmissa ósiða sem ásatrúarmenn tíðkuðu eru mannfórnir til ýmissa goða (Óðinn og Þór þar stærstir á því sviði), tilgangslausra matarfórna þar sem oft bestu og næringarmestu matarbitunum er fórnað til fossa, hóla hæða eða bara álfa, og barnaútburður. Barnaútburður er kannski ekki tengdur Ásatrú beint. Kristnir stunduðu hann líka, þótt að undir kristni væri það synd. Ásatrúarmenn börðust fyrir að halda þeim sið inni við kristnitöku árið 1000 ásamt því að berjast fyrir að mega blóta á laun og éta hrossakjöt.


Gudjon - 20/11/05 10:48 #

Það hvort ásatrú er góð eða vond er einfaldlega spurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig.

Til þess að geta svarað spurningunni þurfa menn traustra þekkingu á ásatrú og auk þess sem menn verða að hafa skýr viðmiðum um hvað sé gott eða vont

Það að ganga í trúfélag persónuleg ákvörðun um að taka upp lífstíl af ákveðnu tagi og menn ráða því gjörsamlega sjálfir á hvaða forsendum þeir gera það

Ég verð að viðurkenna að ég hef takmarkaða þekkingu og áhuga á ásatrú.

Það er hins vegar mjög áhugavert að kynnast sjónarmiðum annara og eiga vinsamleg samskipti við alla menn hver sem sjónarmið þeirra eru

Hvert og eitt okkar hefur algört og endanlegt vald til að á ákveða hvað er rétt og hvað er rangt á þeim forsendum sem við sjálf kjósum. En þetta endanlega vald okkar takmarkast við okkur sjálf

Af þessu leiðir að ásatrú er augljóslega frábær og afbragð annarra trúarbragða um leið og þau eru jafn augljóslega eins vond og vantrúarmenn segja að þau séu.

Til þess að hægt sé að ræða þessi spurningu verður að vera trúnaður á milli þeirra sem hana ræða og trúnaður hann býr ekki hér.

Vantrúar menn telja sig vera handhafa hinns stóra og mikla sannleika sem þeir hafi persónulega höndlað og hafi í hendi sér og þeir nota til að berja duglega á öllum sem voga sér að mótmæla þeim.

Hér gildir sá sannleikur að það séu sjálfgefin sannindi að öll trúarbrögð séu vond án tillits til hvernig þau eru


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/11/05 12:00 #

Vantrúar menn telja sig vera handhafa hinns stóra og mikla sannleika sem þeir hafi persónulega höndlað og hafi í hendi sér og þeir nota til að berja duglega á öllum sem voga sér að mótmæla þeim.

Þetta er rangt! Ég veit ekki hve oft við erum búin að leiðrétta þetta en við teljum okkur ekki handahafar sannleikans. Er það til of mikils ætlast að menn noti rök til að styðja mál sitt? Miðað við svona innlegg mætti halda að þú hefði verið tekinn svo oft í bakaríið hérna að þú sért farinn að verða eitthvað sár.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/05 17:05 #

Einmitt. Það eru aftur á móti trúmenn sem upp til hópa telja sig handhafa sannleikans. Trúarbrögðin ganga einfaldlega út á að gefa sér hann. Það eina sem við erum að gera hér að er að efast um sannleiksgildi staðhæfinganna sem frá trúarbragðaforkólfum og öðrum loddurum koma.


Gudjon - 21/11/05 17:18 #

Mér finnst það barnalegt að þras um hver hefur tekið hvern í bakaríð

Ég er einfaldlega að benda á að það er ekki hægt að komast að niðurstöðu nema að menn hafi skýrar reglur um hvernig eigi að gera það og í framhaldi af því held ég því fram að það sé óþolandi skerðing á persónuleikafrelsi að setja einhverjar slíkar reglur.

Ekkert er heilagara en frelsi einstakingsins til að hugsa sjálfur nákvæmlega eins og hann telur rétt

Þegar kemur að því að mynda sér lífskoðun gildir aðeins eins regla það er allt er leyfilegt

Af þessu leiðir að það er algjörlega vonlaust að komast að niðurstöðu, nema menn séu sammála um hvaða viðmið eigi að styðast við

Þó ég telji mig vera handa hafa sannleikns í vissum skilningi tel ég að sú niðurstaða gildi einungis fyrir mig og aðrir verði sjálfir að finna sannleikan með þeim hætti sem þeir kjósa


erna - 11/04/06 14:25 #

siðlaus viðbjóður?? ef útí það er farið hvað sé skrítið og siðlaust í trúmálum er hægt að finna svipaða hluti í flestum trúarbrögðum! kvenfólk er oftast ekki merkilegra en húsdýr í mörgum trúarbrögðum,Í biblíunni á að drepa þjófa og drepa vanbyrja konur!!!??? en það þýðir ekki að allir sem eru í því trúfélagi nú til dags fari með konur sínar eins og hunda. Drepi þjófa eða þær konur sem ekki geta eignast börn! það er í eðli mannsins að trúa á eitthvað æðra, yfirleytt vegna þess að það er öruggt og þægilegt að ekki allt sé í okkar höndum. Mér finnst líka alveg merkilegt að fólk eins og þú nennir að fara hérna inn og´nánast gubba yfir eitt trúarbragð. Ég hef oft heyrt talað um þennan vef vantrú.is en aldrei kíkt á hann. Ástæðan fyrir því núna var að eg er einmitt að gera verkefni um ásatrú og lenti hér. að lokum er einhver trú góð?? eða er einhver trú í sínu upprunalega formi?


óðinsmær - 05/05/06 17:55 #

ásatrú er í dag bara fólkið sem þykist iðka hana í nútímanum og það litla sem við vitum um goðafræðina - þeir sem kynna sér það allt einsog eddukvæðin í heild sinni, komast að því að þetta er mjög góður siður, engar kreddur og rosalegt umburðarlyndi, víkingarnir fóru aldrei í sérstakar ferðir til að lemja aðra kynþætti það er bull og hægt að saka þann sem heldur því fram um alvarlega sögubrenglun. Þór var verndari jarðarinnar, óli gneisti kemur með góðan punkt þegar hann bendir á skýringuna í óstabíla rustamenninu en samkvæmt goðafræðinni á Þór sömu mömmu og við (þau okkar sem líta á Móður jörð sem sérstaka líffveru sem er einsog mamma) og hann er í austirvegi að berja tröll FYRIR OKKUR - þannig meika ásatrúarmenn sem sannarlega trúa mjög fínt að hafa svona "ofbeldishneygðan" þrumuguð sem er albróðir okkar í þokkabót

ásatrúarmenn eiga í dag að fá að njóta þess góða sem trú þeirra byggir á. talið frekar um mannfórnir og svoleiðis í gamla daga, trúarhitinn í samfélögum var oft þannig að dýrin voru stundum ekki nóg... samt vitum við svo lítið um það að það er synd að vera að gera Óðinn að einhverri sjúkri siðleyssisskepnu bara af því að á einhverjum tímapunkti þótti líklega fínt að færa honum mannfórnir. Það breytir engu. Mun nær okkur í tíma eru nefninlega hin ýmsustu þjóðarmorð sem kristnir hafa framið og við vitum helling um, t.d á gyðingum, indíánum, frumbyggjum ástralíu og fleirum og fleirum. Múslimar stunda það sport sumsstaðar enn í dag.

til að skilja ásatrú er best að líta á hana einsog pínu-ponsu-litla litlusystur hindúisma, það gengur að hafa hvaða álit á almættinu sem er og engir vinir eru jafn tryggir og falslausir og ásatrúarmenn, það gerir þetta að góðri trú og í nútímanum sjáum við þetta fólk boða jafnrétti til allra, umburðarlyndi og almennt tjill gagnvart náunganum. Ásatrúarmenn eru ekkert að skipta sér af því sem í hjarta annarra býr, nema kannski ef það mun hafa böl í för með sér, þeir eru menn friðarins.


Urður - 18/04/10 20:03 #

Mér finnst að maður eigi ekki að gagrýna aðrar trúr. Það eru gallar og kostir við allar trúr. Maður á bara að virða það sem aðrir trúa á. Og svo finnst mér það ekki rétt sem Birgir Baldursson er búin að skrifa um ásatrúna. Gamli konungur Noreigs ætlaði að drepa alla þá á Íslandi sem vildu ekki láta skíra sig og breyta í kristni trú. Var kristni trú þá eitthvað betri? Fólk varð hálf klikkað í gamla daga, drápu þá sem fóru í taugarnar á þeim og neiddi fólk til þess að breyta um trú. Það er kannski þannig ennþá líka. Fólk sem eru ásatrúar eru ekkert verri en aðrir, ég er ásatrúi en ég er ekkert að mikið að hugsa út í það hverjir drápu hvern í ásatrúnni. Ég er bara 12 ára en ég hef sammt mikið að seigja um svona. Ég veit kannski ekki allt um ásatrúnna en ég veit nó til þess að vita það að ég vil trúa á það.


Ásgeir Valur Sigurðsson - 20/04/10 17:59 #

Ágætu viðmælendur Vantrúar,

a) Framvegis munu öll bréf sem ég sendi til Vantrúar , þegar ég skrifa til ykkar , byrja á ´ágætu´eða með einhverjum leiðum til að heilsa mönnum á kurteisislegann og yfirvegaðann hátt b) Textinn verður skýrmæltari og vandaðri en sá óvandaði og oft ærið dónalegi og ómálefnalegi texti , sem ég hafði áður haft í bréfum sem ég hafði sent mönnum um hin ýmsu málefni. Þú veltir fyrir þér hvort að ásatrú sé góð trú? Auðvitað getur sá skilningur að náttúran sé lifandi verið góð trú enda er það staðreynd að náttúran er lifandi , meðvituð vera. Hver sem er getur verið ásatrúarmaður ef hann kýs svo , en það veltur á viðkomandi hvernig hann tjáir sínar lífsafstöður og heimspekilegu eða trúarlegu viðhorf hvernig þau birtast. Ég tel að kristindómurinn t.a.m. hafi ekki haft sérstaklega góð áhrif á mig þar sem að ég tjáði ´minn kristindóm´, í orði og verki með hætti sem er ósmekklegur , og sem var óviðeigandi undir þeim kringumstæðum þar sem menn voru að tjá sig um eitthvað sem þeir héldu að þeir hefðu eitthvert vit á. Ef ég segði við þig að það væri slæmt að vera ásatrúar og þú værir ásatrúar , hvernig myndirðu svara mér? Mér sýnist sem svo að staðreyndin um afstöðu flestra vantrúarmanna til trúar , og þar með talið margra okkar gagnrýnenda Vantrúar , er , að við vitum almennt næstum því ekkert um það hvað er trú. Hvað er trú? Ef ég vel að trúa því að 2 + 2 eru 4 byggi ég þá afstöðu á trú minni þess efnis að 2 + 2 eru 4 en ekki sannfæringu um staðreyndina að 2 + 2 séu fjórir? Tökum nýlega videomyndband sem er enn eitt videomyndbandið af reimleikum. Þar sem ég þekki ekki þann sem gerði myndbandið , hvaða rétt hef ég til þess að tjá meira en það sem ég held að ég raunverulega viti að öllu leyti um innihald þessa myndbands sem ég á reyndar eftir að sjá? Hvað er að trúa? Hvað er að vita? Ég held að sönn vitneskja sé viska , og að það sem menn trúi geti staðið og fallið á því. Þannig að þegar ég var að senda ykkur vitlaus svör byggð á gölluðum málflutningi bar það í raun á endanum aðeins vitni um skort á visku. Hvað Biblíuna varðar skil ég nú mikið betur táknfræði hennar og heimsmyndunarfræði en ég hafði gert áður. Hvað Snorra - Eddu varðar , einnig. Hvað er að trúa einhverju? Er skoðun mín þess efnis að það sé hugsanlega eitthvað vit í því fyrir mig að ganga í Indverska herinn byggð á trú á það að það sé eitthvað vit í því? Hvaða rétt hef ég til þess sem einhver sem er ekki ásatrúar að segja þér , hvort að ásatrú sé góð trú eða ekki? Við erum ekki þær vitru verur sem við héldum að við værum. Ég biðst velvirðingar á og hlæ þegar ég lýt til baka og sé hversu heimskulega ég hagaði mér við menn um alls kyns málefni , hugsanlega jafnvel ásatrú líka þó að ég hafi aldrei áður skrifað tölvupósta til Vantrúar um ásatrú. Ég held að það væri allt í lagi ef að ásatrú væri opinber trú á Íslandi - en þá verðum við líka að viðurkenna alls kyns önnur trúarbrögð. Munum við ekki öll eftir því þegar allir voru meira og minna efnishyggjusinnar á Íslandi stuttu fyrir kreppu og enginn mátti efast um ´ágæti yfirvaldsins´? Það var trú manna þá. Var það góð trú eða slæm trú?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/10 14:37 #

Já þakka þér fyrir það Ásgeir. Og gott að sjá viðleitni þína við að vera kurteis, skýrmæltur og yfirvegaður.

Ég get þó ekki annað en bennt þér á að í þetta langri athugasemd væri ef til vill betra að hafa fleiri greinaskil.

En svo þú haldir ekki að ég ætli bara að gagnrýna framsetningu þína þá kemur hér smá efnislegt svar.

Náttúrutrú af einhverju tagi þarf ekkert endilega að vera neikvæð og er í raun oft á tíðum mjög eðlileg túlkun. Þó ætti upplýstu fólki ekki að vera nauðsynlegt, eða sérlega gagnlegt fyrir það leiti, að persónugera náttúruna um of. Það finnst mér Ásatrú gera. Og þó það sé mjög skiljanlegt miðað við þann tíma sem þessi trúarbrögð voru uppá sitt besta þá tel ég þau varla samræmast heimssýn bygðri á áreiðanlegum vísindum.

Og Ásatrúin hefur það fram yfir mörg trúarbrögð nútímans, t.d. kristnina, að hún er ekki að taka sjálfa sig of alvarlega. Hún er lítt dogmatísk að því leiti að það er lítið um rétttrúnað og hver sem er virðist geta nálgast hana á eigin forsendum án þess að eitthvað sterkt yfirvald segji til um hvað er rétt eða röng túlkun. Og í samfélagi þar sem felstir virðast meira og minna umburðarlyndir og kærleiksríkir hafa trúarbrögð sem kvetja, eða í það minnsta leifa, persónulegar túlkanir vissa yfirburði yfir önnur.

Ég get þó ekki fagnað því að þú viljir fara í einhverja skylgreiningarleikji með orðið trú. Þó það megi vissulega nota í mörgum merkingum eins og þú bendir réttilega á þá er sú merking orðsins sem við hér á Vantrú göngum útfrá mjög skýr, einföld og afmörkuð. Við teljum trú vera þá skoðun að til sé yfirnáttúra af einhverju tagi. Ég vil biðja þig sem aðra að miða málflutning ykkar við þessa skylgreiningu svo við getum hugsanlega náð landi í rökræðum.

Við í Vantrú erum á þeirri skoðun, og teljum okkur langt í frá eina um það, að ríkisvaldið eigi með engum hætti að skipta sér af trú landsmanna. Það felur meðal annars í sér að það sé engin opinber trú, að ekki sé haldin skrá yfir trúarskoðanir fólks og að ríkið taki ekki þátt í fjármögnun neinna trúfélaga. Við teljum það vera farsælasta fyrirkomulagið fyrir bæði trúfélögin sjálf, ríkið og þar með borgarana.

Vonandi skilur þú afstöðu okkar einhverju betur eftir þetta.

Kveðja Haukur Í


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/04/10 11:12 #

Gleðilegt sumar.

Ásatrúarmenn fagna sumri að venju með blóti á sumardaginn fyrsta, 22. apríl. Blótið hefst kl. 15 á lóðinni okkar í Öskjuhlíð, austan nýbyggingar Háskólans í Reykjavík.

Allsherjargoði helgar blótið og goðar drekka til landvætta að venju. Þá verður vígður bautasteinn til heiðurs stofnanda og fyrsta allsherjargoða Ásatrúarfélagsins, Sveinbirni heitnum Beinteinssyni.

Að því loknu flytjum við okkur yfir í félagsheimilið okkar að Síðumúla 15, þar sem börnin fá sumargjafir og við skemmtum okkur saman.


Ásrún - 29/04/10 13:59 #

GÓÐ TRÚ!

Ég hélt að í okkar margræða nútíma, þúsund sjónarhorna værum við löngu komin handan góðs og ills. Hélt að allt væri bæði, ég meina eru drepsóttir og stríð góð? Ja þau eru allavega praktísk, sjá um að grisja stofninn, flýta tækniframförum og auðga hugsunnarhátt...

Tvíhyggjan um að allt sé annaðhvort, er löngu úrellt. Klisjan um að ljós væri ekki til án myrkurs stendur fyrir sínu. (ekki að annað sé betra eða til í sjálfu sé án hins)

Mér finnst að guðir ásatrúarinnar endurspeigli einmitt þetta, þeir eru hvorki góðir né vondir heldur standa þeir fyrir harmóníu heimsins. Átök árstíða, mann sem manns gaman eða annars úlf, hringrás lífsins, samspil gefandi jarðar og eyðandi náttúruafla.

Flest forn trúarbrögð leggja áherslu á þessa janusar-pælingu.

Hún gleymdist reyndar vegna ofríki kristninnar með mann í guðsmynd og öfugt, en kom aftur í ljós með upplýsingu, frönsku biltingunni og þróaðst áfram með drepsótum stríðum og mótlæti, þó með möguleikanum á að sjá heildarmyndina í formi póstmódernisma.

Nú er tvíhyggjan hinsvegar aftur í sókn með mannhelginni: Allt sem drepur menn er óhagstætt! Það er bara ekki rétt, offjölgun mannsins stuðlar að útrýmingu hans. Þess vegna er það einfaldlega öfugsnúið að finnast allt slæmt sem grisjar mannkynið nema auðvitað maður vilji frelsa jörðina undan áþján hans í eitt skipti fyrir öll.

Ég er þó allavega nógu mikill mannvinur til að vilja það ekki, án allrar helgislepju samt!


Kristinn - 29/04/10 14:03 #

Allt sem drepur menn er óhagstætt! Það er bara ekki rétt, offjölgun mannsins stuðlar að útrýmingu hans.

Talandi um klisjur.

Offjölgun mannsins stuðlar að hruni í stofninum fyrr eða síðar, væri kannski vitrænni setning.


Ásrún - 29/04/10 14:20 #

Kristinn

Ekki missa þig í orðhengilsháttinn!


kalli jóns - 29/04/10 23:08 #

þetta er mesta lýgi sem ég hef heyrt ásatrúin er eina trúin sem ber virðingu fyrir öllu og styður drengskap og heiðarleika og allir innan veggja ásatrúarinnar trúa allir á það ég skil ekki ykkur trúleysingjan af hverju þið þurfið alltaf að tala og reyna að niðra allar trúr það eru ekki allir svona vitskertir og barnalegir eins og þið


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/04/10 23:40 #

Ég er mjög hrifinn af heiðnum sið, sem er kannski dálítið annað en ásatrú. Drengskapur og heiðarleiki kemur ásum og vönum nákvæmlega ekkert við - reyndar sniðgengu þeir iðulega hvort tveggja.

Kalli Jóns, þú átt greinilega margt ólært.


Ásta Norrman - 30/04/10 09:29 #

Á norðurlöndunum er meira og meira sett jafnaðarmerki á ásatrú og dýrkendur norrræna kynstofnsins. Þórshamar er meira og meira notað sem tákn nýnasista. Ég held að margir ásatrúarmenn séu jafn hrifnir af því og ef krossinn væri tekinn sem tákn fyrir petofila presta, en þar sem mjög venjulegt er að ásatrúarmenn á norðurlöndunum vilja upphefja hin norræna stofn, eru þeir meira og meira teknir sem nasistar.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 09:48 #

Ekki missa þig í orðhengilsháttinn!

Ja, munurinn er sá að ef offjölgun leiðir til hruns en ekki til tortímingar eru rök þín fyrir mati á þessum hlutum ógild.


Ásrún - 30/04/10 10:39 #

og í hruni tortímist (deyr) stór fjöldi einstaklingana... bara aðeins dramatískara orðalag!

áfram orðhengilsháttur og við bætist að verða að hafa síðasta orðið... mjög vitrænt og þroskað Kristinn waa waa wáááá


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 10:42 #

He he, Ásrún komin á flug.

Nú er það sem sagt allt í einu ekki tortíming tegundarinnar sem er lykilatriði, heldur hvað það er sorglegt að margt fólk deyji, sem var einmitt ekkert sorglegt þegar það gerist í kjölfar trúarstríða?

Ég fæ ekki betur séð en þú sért í bullandi mótsögn, Ásrún.


Ásrún - 30/04/10 11:33 #

Ég var að útskýra þinn orðhengilshátt ekki mínar skoðanir á sorg, dauða eða einhverju öðru...

En flott að leggja mér orð í munn og gera mér upp skoðanir það er alls ekki í mótsögn við þitt yfirlæti!

Til hambó með harmóníuna:)!!!

Áfram Kristinn sverð þig í jörðina sem þú ert að reyna að sveja af þér!


Ásrún - 30/04/10 11:34 #

og svo þú þurfir ekki að hengja þig í það...

það vantaði r í sverja


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 12:03 #

Ups, notaði ég orðið "sorglegt", ég átti við "óheppilegt". Kemur í sama stað niður og ógildir eftir sem áður málstað þinn.


sven - 03/05/10 16:20 #

Í ásatrú eru Æsirnir (Guðirnir) ekki mælikvarði á fullkomnun heldur mælikvarði á mennina, og því er þessi kynflokkadrættir eru einungis spegill í okkar eigið samfélag kv. Your Friendly Neighboorhood atheist


Sindri - 04/05/10 21:45 #

Er nú alveg nauðsynlegt að fara í fýlu út í öll trúarbrögð sem til eru bara vegna þess að þau eru trúarbrögð? Væri ekki ágætt að taka þessu frekar öllusaman með smá "salti" eins og sagt er, en leyfa þessu nú samt sem áður að vera til?

Það er ekkert þar með sagt að maður eigi að lifa lífi sínu eftir einhverjum trúarbrögðum, þótt manni finnist þau áhugaverð eða skemmtileg.

Miðað við það sem ég hef lesið á þessari síðu þá eru flestir hérna á móti öllu sem ekki er hægt að sanna vísindalega. Hversvegna í ósköpunum? Er þetta bara hroki? Telur hérna einhver okkur vita allt sem við gætum vitað með vísindum? Er ekki mun líklegra að við séum ennþá blind fyrir flestu sem gerist í kringum okkur og að okkur takist aðeins að sjá hluta af heildarmyndinni með þeirri tækni sem við búum yfir í dag?

Allavega, ég aðhyllist ekki trúarbrögð því að þau eru öll mannleg uppfinning og þar af leiðandi ólíkleg til þess að vita eitthvað meira um tilgang lífsins eða myndun alheimsins en ég. Samt sem áður get ég engan vegin keypt að heimurinn hafi einfaldlega orðið til í einhverjum miklahvelli. Kannski var mikill hvellur, en hvað olli honum til að byrja með? Þessu getur enginn svarað og því er sniðugast að fara varlega í hvað maður kýs að trúa.

Það er ekkert sniðugra að trúa ekki á guð en að trúa á hann, bara vegna þess að það er ekki hægt að sanna tilvist hans. Öruggast er að segja, ég veit það ekki og leyfa fólki að hafa sínar skoðanir, held ég. En það er bara mín skoðun.

(Og já ég veit að þetta er alltsaman svolítið off-topic en þetta þurfti út)


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 04/05/10 22:07 #

Sæll Sindri

Þú gefur þarna í skyn að þú vitir til þess að skoðanir manna á Vantrú séu þær að trúarbrögð megi ekki vera til, að við þykjumst vita að guð sé ekki til, að við séum í fýlu og fleira í þeim dúr.

Þetta er ekki allskostar rétt lýsing á félagsskapnum Vantrú, sem reyndar er samansafn ólíks fólks.

Ég t.d. get tekið undir flest sem þú segir. Við vitum e.t.v. afskaplega fátt og auðvitað þarf að taka afstöðu ólíkra manna til trúar með smá salti.

Samfélagið er hinsvegar svo gegnsýrt af þeirri hefð að bera eigi einhverja sérstaka virðingu fyrir trú og fyrir trúarlegum hugmyndum - sem augljóslega sumar eru helber þvættingur, því allt getur þetta ekki verið satt í einu - og af ýmsum ástæðum er full ástæða til að efast um gæði trúarbragða og vekja fólk til umhugsunar um það atriði.

En nei, það á ekki að "leyfa" fólki að hafa sínar skoðanir ef þá er átt við að gagnrýna þær ekki og taka þátt í þöggunarleik.

Ég legg til að þú horfir á þetta myndband þegar þú hefur tíma, það er alveg frábært:

http://commonsenseatheism.com/?p=7562


Sindri - 04/05/10 23:47 #

Sæll Kristinn

Ég viðurkenni nú alveg að ég tók kannski full djúpt í árina þarna áðan, en ég vildi nú ekki meina að ég viti neitt um skoðanir allra á Vantrú, þetta var einungis sú tilfinning sem ég fékk eftir að ég las ýmis svör hérna á síðunni og átti alls ekkert að vera tæmandi lýsing á félagsskapnum hérna á síðunni.

Hvað virðingu gagnvart trú og trúarlegum hugmyndum varðar þá er ég alveg á sama máli og þú, mér finnst ekkert "heilagt" í þeim efnum ef svo má að orði komast. Hinsvegar finnst mér erfitt að sjá tilgang með því, þeir sem trúa eru ekki að fara að hlusta á nein rök sem þið hafið fram að færa og þeir sem taka trúnni með smá salti geta að öllum líkindum séð þetta fyrir sig sjálfir.

Það sem fer svona aðallega í taugarnar á mér er hvað það er oft óþarflega harkalega tekið til orða. Hvar liggur línan á milli gagnrýni og niðurrökkun? Sérðu hvað ég er að fara?

Og þakka þér fyrir tengilinn, ég reyni að líta á þetta við tækifæri.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 05/05/10 01:43 #

Sindri

Þetta með hljómfall umræðunnar er klassískt umfjöllunarefni gagnrýnenda Vantrúar.

Af ýmsum ástæðum er svarið ekki eins einfalt og ætla mætti. En ég skal reyna að útlista þetta lauslega,

Oformlega er það vissulega stefnan að taka hressilega og vinalega við öllum innleggjum og vera málefnaleg í greinarskrifum.

Hinsvegar er stundum ögrandi tónn í greinum og þá ýmist viljandi og/eða greinarhöfundi heitt í hamsi. Um gæði slíkra brodda í greinum má vissulega deila.

Í spjallinu veltur tónnnin oft á fólki beggja megin borðs og ég á það t.d. til að svara hrokafullu fólki með hroka, því þá þykir mér sá fyrri hafa sett tóninn í umræðunni og bara gaman að svara á þeim nótum á móti. Þetta er nefnilega líka vettvangur fyrir umræðu og rökræður og sumir hafa einfaldlega gaman af að takast á og beita sér með dálitlum gorgeir ef svo ber undir.

Margir telja alltaf að sér vegið þegar trúmál eru rædd og þess vegna er óneitanleg oft bitur tónn í innleggjum, sem þá endurspeglast oft í svörum. En það er svo nokkuð sem fólk upplifir mismunandi sterkt og misalvarlegt.

Efasemdarmenn eru síðan óneitanlega dálítið hallir undir rökfræði og þegar menn er inntir eftir rökum og gögnum til stuðnings fullyrðingum sínum þykir sumum leiðinlega farið að. En það er bara eðli efasemdamannsins að vilja ræða hlutina á þeim forsendum og þyki mönnum það fúlt er líklegt að þeir flosni héðan burt.

Að þessu öllu sögðu gætum við að sjálfsögðu oft gert betur og verið betri fordæmi í samskiptum.

Varðandi tilganginn, þá eru lesendur og viðmælendur vitaskuld á hinum ýmsu stigum þekkingar og sannfæringar í þessum efnum. Við vonum að það sem hér er skrifað veki fleiri til umhugsunar og gagnrýninnar meðhöndlunar á eigin hugmyndum en hreki menn frá. Það teljum við vitaskuld að sé tilfellið, því annars færum við ekki svona að. En hvort það sé rétt eða nógu vel sé staðið að því er klárlega umhugsunarefni sem stöðugt þarf að hafa í huga.

Þú mættir gjarnan benda okkur á dæmi um greinar eða tilsvör sem þér þykja fráhrindandi eða óheppileg svo við getum velt þeim fyrir okkur, því glöggt er gestsaugað.

Ekki síst er þér velkomið á skjóta á mig sjálfann, á mín innlegg og greinar, þar sem ég sit hér fyrir svörum í augnablikinu.

mbk,


Ásgeir Helgi Hjaltalín - 06/07/10 05:17 #

Sælinú,

Datt inn á þennan þráð einhvernveginn og finnst mér þetta nokkuð undarleg viðbrögð við Ásatrú. Nú er ég trúlaus sjálfur en skráður í Ásatrúarfélagið vegna áhuga og vilja til að styðja við menningararfleið okkar. Sem alger nirfill myndi ég seint vilja gefa beint pening til Ásatrúarfélagsins og mun háskólinn seint loka vegna þess að partur af sköttum mínum renni ekki til þeirra. Þannig á algerlega persónulegan hátt uppfyllir þetta þörf minni til að veita stuðning við stofnun sem ég tel vera skemmtileg og einstaklega menningarleg.

Aðeins að orðum þessa innleggs. Finnst soldið undarlegt að tala um hversu ógeðsleg trú sem er greinilega komin af yfir þúsund ára gamalli menningu. Ég held að þetta hafi nú bara verið nokkuð nákvæmt fyrir þennan tíma og hef ekki séð nein ummerki um hina villimannslegu þætti ásatrúar í nútíð.

Svo að þessu að verið sé að lemja jötna að því að þeir eru "öðruvísi"? Nú kannast ég ekki við hvaða texta höfundar er að vísa í til að renna stoðum undir þessa athugun...Jötnar vísir í ýmsar verur bæði mannlegar og hin ýmsu skrímsli og ómannlegu verur úr norrænni goðafræði. Fenrir og Miðgarsormurinn eru t.d. jötnar sem og Þrívaldi og Mímir. Því þykir mér undarlegt að segja að hér sé á ferð einhverskonar rasismi. Er það einnig rasismi þegar aðrar goðsagnir og fornar sögur tala um að drepa skrímsli?

[Kaldhæðni] Er það kannski lúmsk tilvísun í hatur á svertingjum þegar Grettir drepur Glám í Gerplu? [/kaldhæðni]

Vissulega þykir mér líklegt að óvinum einstaka norræna ættbálka hafi verið líkt við Jötna, jafnvel sagt að þeir væru í "liði" með þeim og því væri árás á þá réttlætanlegri. En að kalla það viðbjóð þykir mér nú fullhart, enda engin ástæða til þar sem slíkt iðkast ekki í nútíð að mér vitandi; því er fordæming á slíkum verknaði ekki í takt við þann tíma sem þessi ákvörðun er tekin á. Ég get ekki sleppt þessum punkti. Mér finnst svipað rökrétt að fordæma hegðun fólks í Íslendingasögunum. Vissulega eru þetta oftast ómenni og ribbaldar notandi ofbeldi og yfirgang til að ná sínu fram. En það er svo tilgangslaust að reyna að dæma þetta eftir nútíma siðferði...meikar þetta eitthvað sense?

Vissulega gæti ég tekið svipaða kristna texta og leikið mér að því að sýna hvernig þeir eru kannski ekki svo slæmir eftir alltsaman. Enda hér um forna þjóð og siði að ræða því nokkuð undarlegt að dæma það eftir nútíma siðferði, alveg eins og í tilfelli Ásatrúar...rétt? Rangt. Þar sem kristni staðnar og rekur upp heróp gegn nútíma siðferði og kallar á að allt skuli verða á ný eins og á bronsöld þá hef ég ekki séð neitt slíkt í hinni svokallaða "norse neo-pagan" hreyfingu. Engin megalómanísk áform um heimsyfirráð, ekkert trúboð, engin afneitun vísinda né dauði barna af illri umönnun sem er svo auðvelt að finna meðal hinna margra brota-brota kristninnar.

Hef ég þar með sannað að það er í lagi að leyfa órökstuddum hugmyndum og hugsunum svo lengi sem að það séu ekki kristnar hugsanir? Að vegna þeirra menningartengsla sem ég finni fyrir að ég leyfi hin mikla "viðbjóð" ásatrúarinnar sem ég svo fyrirlít í kristninni? Að mínu mati, nei. Ég sé kristni og ásatrú sem algerlega aðskildan hlut, sameinað aðeins þegar kemur að í hvaða mengi þessar tvær hugmyndir eiga heima. Engin upprunanleg synd, ekkert helvíti til að brenna í fyrir þá sem ekki trúa, ekkert trúboð ikað með sverði og kyndli.

Nú hef ég verið að ráfa um Vantrú nokkuð lengi, og það eru póstar eins og þessi sem hrinda mér frá þessum félagsskap. Það er þessi kæruleysislega árásargirni á allt sem er ekki beinlega trúlaust sem verður mjög þreytandi til lengdar; og þetta komandi frá mér sem lít á mig sem ekki bara trúleysingja heldur and-trúaðan. En hvaða skaða ætlar Ásatrú að valda á samfélagi okkar og börnum? Ég gæti allt eins farið að ráðast á gríska eða egypska goðafræði. Þetta er tannlaus og vönuð grey á sviði trúarbragða. Þau hafa ekkert pólitískt né félagslegt vald. Að kalla siði þeirra vibjóðslega og siðlausa gerir nákvæmlega ekki neitt og hefur engan tilgang nema til að særa. Það finnst mér vera lélegt.

Ég er ekki trúlaus vegna þess að ég hata trú, ég er trúlaus af því að ég hef metið þau gögn sem ég hef og komist að þeirri niðurstöðu að þetta er eina rökrétta staðan. Ég reyni síðan að leiðrétta misskilning hinna trúuðu um heiminn með því að miðla til þeirra réttum gögnum og leiðrétta misskilning og villur sem þau hafa. Það virðist sem svona tilefnislausar og smámunasamur reitingur sé í kjarna þess sem ég sé í svo mikið af greinum hjá Vantrú.

Það er aðeins yfir 1500 manns skráðir í Ásatrúar félagið hér á landi og tel ég að stór hluti þess sé trúlaus (en hef engar tölur yfir það). Ég hef ekki séð neitt sem myndi gefa til kynna að þessi félagsskapur sé mikið meira en áhugafólk um sögu, goðafræði, íslenska menninga og forna siði. Má vera að einstaklingar innan þessarar trúar trúi í raun á að Ými og Auðhumlu og að af hita Músspells hafi Ými svitnað svo að úr svita hans hafi fæðst hann Surtur og svo áfram að Aski og Emblu og að þau hafi byggt varnargarð í kringum Miðgarð úr augnahárum Ýmis og svo í framhaldi að þessu neiti því sönnunum vísinda og vinni virkt að því að snúa samfélagið aftur til þessa fornu og fávissu tíma. Ef ég hitti það fólk mun ég vissulega taka á móti þeim eins og öðru fólki sem er týnt í trúnni; með sönnunargögn og staðreyndir mér við hönd.

Ásatrú er ekki óvinurinn, en það hornsíli syndir þó vissulega í svipuðum sjó og sá hvíti hvalur.

Kveðja, Ásgeir Helgi Hjaltalín

p.s. Eins og alltaf þegar ég legg í svona skrif varð þetta mun lengra en ég áætlaði fyrst. Nokkrir punktar sem ég veit að munu koma upp, en ég reyndi að svara þessu eins best og ég gat. Öll orð eru mín eigin og gefa einungis mína skoðun.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/07/10 10:27 #

Ásgeir Helgi, mig grunar að þú takir gagnrýnina of hátíðlega. Allnokkrir Vantrúarmenn eru skráðir í Ásatrúarfélagið og við vitum mætavel að stór hluti "Ásatrúarmanna" er trúlaus.

Við vitum líka að trúboð er sagt óþarft í lögum Ásatrúarfélagsins og það vinnur mjög þarft verk í að berjast gegn forréttindum ríkiskirkjunnar hér á landi, m.a. fyrir dómstólum. Nú er mál þeirra komið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Vantrú hefur góð samskipti við Ásatrúarfélagið og á í samstarfi með því um þessar mundir.

Af þessu ætti að vera ljóst að við lítum ekki á Ásatrú eða Ásatrúarfélagið sem hræðilega ógn eða viðbjóð. Raunar sýnist mér afstaða þín til þessa endurspegla afstöðu Vantrúarmanna ágætlega.


Bjarki - 09/07/10 01:00 #

ég ota því oft að kristnum að fleiri hafa fallið vegna boða náungakærleikstrúabragða þeirra en ásatrú þar sem eina leiðin til valhallar(eða æðsta himnaríkis) er að deyja i ofbeldisfullum aðgerðum...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/07/10 02:12 #

Aðeins að orðum þessa innleggs. Finnst soldið undarlegt að tala um hversu ógeðsleg trú sem er greinilega komin af yfir þúsund ára gamalli menningu. Ég held að þetta hafi nú bara verið nokkuð nákvæmt fyrir þennan tíma og hef ekki séð nein ummerki um hina villimannslegu þætti ásatrúar í nútíð.

Sjá þetta:

"Norrænir menn tignuðu goðin til að friða þau eða kaupa velvilja þeirra. Alls ekki vegna þess að þeir litu upp til þeirra."

Abb, þetta má sennilega allt til sanns vegar færa. Grein þessi er þvi fallin um sjálfa sig og fall hennar var mikið :)


Haukur - 23/08/12 00:04 #

Mjög gaman að lesa mörg af svörunum við þennan pistil hans Birgis. Eins og nær oftast þegar að talað er um trúmál þá er bæði hægt að hafa rétt og rangt fyrir sér. En með því að vera tilitsöm og róleg þegar að við lesum og svörum getum við náð að miðla marktækum upplýsingum á milli hvors annars.

Það er áhugavert hvernig mannfólkið tengir náttúrufyrirbæri og aðra óútskýranlega hluti þess tíma við trúnna. Þrumuveður, jarðskjálftar, sólmyrkvi o.s.frv. Hver trú hefur sínar útfærslur.

Kristinn maður sem iðkar ekki trú sína af viti, opinn fyrir skoðunum annara og finnst ásatrú flott þar sem að hún bíður upp á margar skemmtilegar og áhugaverðar sögur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.