Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hver á kirkjuna?

Í fréttum að undanförnu hafa leiðtogar kirkjunnar og nokkrir ráðherrar deilt um hvort að Þingvellir séu eign allra Íslendinga eða meintrar Þjóðkirkju.
Fyrir allar þær þúsundir Íslendinga sem ekki eru í henni vekur þessi deila óhug. Eftir allt virðist einn merkilegasti staður og þjóðgarður landsmanna hafa fallið í skaut nokkurra karla við Laugarveg 31.

Í þessum deilum hefur berlega komið í ljós að æðstu menn kirkjunnar telja að hún eigi sig bara sjálf og íslendingum komi ekkert við hvað hún gjörir. Að nú sé kominn tími til að biskup og félagar njóti afraksturs af alda löngu kristilegu fjárplógsstarfi á Íslandi. Satt best að segja er eitthvað bogið við allar þessar yfirlýsingar frá herrum kirkjunnar. Staðreyndin er samt sú að við skuldum þessum mönnum ekki neitt og þeir eiga ekkert í okkar nafni. En samt ákveða þeir að stinga okkur bakið með því að heimta heilan þjóðgarð til leika sér í og sýnast.

Segja má að í kirkjunni ráði nokkrar prestafjölskyldur ásamt ákveðnum hópi presta. Þannig hefur valdaklíka innan kirkjunnar ekki gert annað en að ljúka guðfræðinámi við Háskóla Íslands til að handleika þrjá milljarða á ári í tekjur frá öllum Íslendingum, auk þess að heimta nú stór landsvæði í eigu landsmanna sér til eigna og tekna. Þannig erum við Íslendingar í þeirri sorglegu stöðu að fámennur sjálfskipaður valdahópur hefur á freklegan hátt eignað sér milljarða.

Það er því deginum ljósara að það voru regin mistök að leysa ekki upp hina dönsku konungskirkju þegar Íslendingar fengu sjálfstæði. En þessi kirkja gekk miskunnarlaust ruplandi og rænandi um landið eftir að hafa étið eignir Kaþólsku kirkjunnar með húð og hári. Auðvitað áttu eignir hennar að fara beint í ríkissjóð enda var þetta þá ríkiskirkja. Vegna þessara mistaka stöndum við núna nánast ráðþrota gagnvart gömlu dönsku kirkjuvaldi.

Já, gráðugri kirkju sem fitnar eins og púki á fjósabitanum. Nú þegar hefur hún milljarða hýsiltekjur af skattgreiðendum auk þess að vilja núna innlima heilu landsvæðin í sína þágu.

Með framgöngu kirkjunnar hefur berlega komið í ljós að kristnitökuhátíðin á Þingvöllum árið 2000 var ekkert annað að ögrun, þar sem ákveðin stétt manna var aðeins lyktarmerkja sér svæði. Öllum landsmönnum var boðið til að sjá gjörninginn en sem betur fer mættu fáir til að leggja blessun sína verknaðinn. Á því augnabliki þegar kirkjuleiðtogarnir messuðu yfir þingmönnum þjóðarinnar náði niðurlæging landsmanna hámarki.

Frelsarinn 30.04.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 12:19 #

Þú ert á köflum dramatískur í lýsingum, hmm? Annars er ég efnislega sammála.

Kirkjan hefur aldrei, svo ég viti, gert neitt til að leggja hönd á plóginn í þjóðarbúskapnum, nema kannski þegar hún rak klaustur í fyrndinni. Þessar eignir hennar hafa henni áskotnast öðru fremur með sáluhjálpargjöfum og áheitum og svo einni og einni próventugjöf. Kirkjan hefur m.ö.o. verið sarpur sem hefur tekið við og tekið við en aldrei gefið neitt af sér fyrir alþýðu manna. Hún hefur þegið stórfé í skiptum fyrir loforð um umnaríkisvist eða styttingu píslanna í hreinsunareldinum. Hún hefur semsagt auðgast á svikum, prettum, táli og loddaraskap. Ég er ekki að koma með nein ný sannindi hérna, ég veit það. Það sem vakir fyrir mér er þessi spurning: Hvernig getur það verið löglegt að svíkja fé og eignir út úr fólki með gylliboðum eða nota púka- og galdrasögur til að hræða fólk til að gefa manni peninga? Í alvöru, getur þetta verið löglegt? Hvað kemur í veg fyrir að kirkjunni sé sagt að halda bara kjafti og hvað svo sem hún kunni að hafa átt geti hún kysst bless enda hafi hún ekki átt það skilið til að byrja með? Og hvernig var tilvitnuninn í franska byltingarmanninn sem sagði að síðasti aðalsmaðurinn ætti að dingla í görnum síðasta klerksins?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 12:25 #

Já, þetta er ömurleg mafía. Í raun ætti þessi stofnun frekar að afsala sér öllum kirkjujörðunum í yfirbót fyrir alla glæpi sína gegnum aldirnar. En þar eru greinilega engin takmörk fyrir siðblindunni og græðginni á þessum bæ.


Jón Ómar - 30/04/04 12:40 #

Sælir,

því miður Birgir þá er lítið hægt að gera. Kirkjan á Þingvelli og hefur öll skjöl um það. Samkvæmt þinglýstum eingarheimildum er augljóst að kirkjan fer með eignarhald á Þingvöllum. Það er líka staðfest í lögum nr. 62/1990. Kirkjan er ekki að sölsa til sín það sem hún ekki á.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 12:46 #

Hvað kemur fram í lögum nr 62 frá 1990, ég finn þau ekki í lagasafni Alþingis.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 12:49 #

Af hverjum keypti Kirkjan Þingvelli ?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 12:49 #

Annars þá sýnist mér þjóðkirkjan halda því fram að hún eigi Þingvelli af því Þingvallakirkja á Þingvelli, það er rangt ályktað hjá þjóðkirkjunni þar sem ríkið á Þingvallakirkju (og þar með Þingvelli).


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 13:01 #

Jón Ómar, þessi lög sem þú vitnaðir í hafa verið felld úr gildi, í staðinn gildir þetta:

VI. kafli. Jarðeignir kirkna. 62. gr. Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð. Greiðslur til Kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu átta ár, upphæð er svarar til fastra árslauna eins sóknarprests. Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar

Kirkjan á sem sagt bara prestsetrin.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 15:40 #

Já en, Þingvellir /eru/ prestsetur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 16:05 #

Nei, en það má kannski segja Þingvellir séu kirkjujörð en í þessu einstaka tilfelli er um að ræða kirkjujörð sem er í eigu kirkju sem er í beinni eigu ríkisins, þjóðkirkjan á því ekkert í Þingvöllum.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 16:23 #

Auk þess væri hægur vandi að meðan ríki og kirkja eru í einni sæng, að t.d. Þingvallanefnd mundi kaupa Þingvelli (jörðina og krikjuna) fyrir symbólska upphæð sem rynni í ríkissjóð. Kirkjuna mætti kannski lána kristnum mönnum til bænakvaks (þá öllum söfnuðum).


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 21:46 #

Síðan stendur í 4gr. Laga um friðun Þingvalla að:Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.

Þannig að ég sé ekki að hin meinta þjóðkirkja geti átt Þingvelli.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 01/05/04 00:08 #

Það mætti líka þjóðnýta þetta bara?


Jónas B - 03/05/04 00:08 #

Það kostar tugi miljóna á ári að reka og hirða þjóðgarð eins og þingvelli um það hefur íslenska ríkið séð og alla uppbyggingu og upprækt á svæðinu í áratugi! ef kirkjan ætlar að hirða land þetta af okkur eins og annað! ætla þeir þá að sjá um allan árlegan rekstur og kostnað sjálfir eða er sælla að þyggja en gefa? Ætti ekki bara að nota tækifærið út af þrasi kuflarana og sleppa af þeim beislinu gera kirkjuna að sjálbærri sjálfseignar stofnun og leggja niður ríkisframlag(afnotagjöld) og þeir sjá um sig sjálfir og þeirra eignir eins og á ætti strax að gera við Rúv!!! þá verða þeir að plumma sig í frjálsu markaðs umhverfi. "Kæru þegnar! messa í hallgrímskirkju sunnud kl 11 aðeins 800 kall inn, kaldur á krananum og hvítlauks obláta fylgir með!!! Halli Reynis tekur lagið" þeir borga af Rúv allir sem eiga sjónvarp! samt er það ekki sanngjarnt,en þá munu þeir borga í kirkju sem trúa! það er sanngjarnt.


Árni Árnason - 09/06/04 15:12 #

Í allri þessari umræðu, um það hver eigi hvað sést mönnum yfir ákveðin grundvallaratriði, og freistast til þess að fara að vitna í gömul lög, og afsalspappíra.

Kjarni málsins er í raun miklu einfaldari en þetta.

Eignir ganga kaupum og sölum, seljandi lætur eignina af hendi gegn öðrum verðmætum sem hann telur hæfilegt gjald. Öll verðmæti eru jafnrétthá sem gjaldmiðill, hvort sem um er að ræða áþreifanleg verðmæti svo sem fisk, ull eða lamb, eða óáþreifanleg svo sem flutningur tónlistar, skemmtidagskrár eða fyrirbæna. Það er seljandans að meta hvort hann telur "gjaldið" ásættanlegt eða ekki.

Það hlýtur að teljast landsskika virði að öðlast eilíft líf í sæluríki himnanna, fremur en að kveljast í vítislogum, og því vart að undra þó að óupplýst fólk telji sig gera góð kaup í þvílíkum býttum.

Margir þekkja tilvitnunina í hljóðpípu og kæfubelg í þessu sambandi, þar sem nautn tónlistar er launuð með ætum verðmætum.

En þá að hinum einfalda kjarna málsins. Með flutningi tónlistar er ekki verið að lofa neinu öðru en því sem eigandi kæfubelgsins getur heyrt á meðan á hlóðfæraleiknum stendur, en með loforði um eilífa himnasælu er verið að bjóða meira en hægt er að standa við. Allt sem kirkjan hefur greitt sínar einir með er því svikin vara, falsaðir peningar,loftsýn og loddaraskapur. Kirkjan getur því ekki átt nokkurn skapaðan hlut með réttu, og því hægt að taka það sem hún telur sína eign frá henni samviskulaust.

Hún hefur greitt allar sínar eignir með tékka sem aðeins er útleysanlegur handan móðunnar miklu, og handhafi hans hefur engan við að kvarta þegar hann reynist í raun algerlega óþarfur og innistæðulaus í ofanálag.

Kirkjan, félagsskapur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.