Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kjaftæði í brennidepli

Páll Benediktsson fréttamaður hefur í vetur séð um þáttinn Í brennidepli. Í síðasta þætti var farið með unga konu, Sigrúnu Erlu Sigurðardóttur, til nokkurra kuklara (Sirrýar "spákonu", Sigríðar Klingenberg "völvu", Hermundar Rósinkrans "ráðgjafa og miðils" og Júlíusar Júlíussonar) sem reyndu að spá fyrir henni. Þessi tilraun var gerð með það að markmiði að sjá hvort niðurstöður þessa fólks yrðu svipaðar. Margt hefði mátt betur fara í þessari umfjöllun.

Afar lítið kom fram um hvernig þessi tilraun var sett upp sem er afar slæmt enda eru fjölmörg atriði sem geta haft úrslitaáhrif á niðurstöðurnar. Meðal þess sem hefði verið nauðsynlegt að vita er hvort kuklararnir fengu að vita nafn Sigrúnar eða eitthvað annað um hana áður en hún kom til þeirra. Einnig hefðu verið nauðsynlegt að vita hvort þessir yfirnáttúrufræðingar hafi vitað hver af öðrum (vegna hugsanlegs samráðs).

Raunar voru niðurstöðurnar afar lélegar, kuklararnir töluðu um ferðalög, vöðvabólgu og einn talaði um bókstafinn E sem Sigrún sagði að táknaði líklega kærastann sinn (spákonan sjálf tengdi stafinn ekki við neinn). Sigrún tók líka fram að ýmislegt hefði ekki passað en við fengum engar raunverulegar upplýsingar um hve góðar eða slæmar niðurstöðurnar voru. Það versta við þáttinn var þó að það vantaði alla almennilega gagnrýni í hann. Eini maðurinn sem talaði gegn kuklinu öllu saman var yfirnáttúrufræðingurinn Sigurður Sigurðsson vígslubiskup sem hafði ekkert fram að færa nema kvart og kvein.

Það er ekkert leyndarmál að miðlar og spámenn hafa í gegnum tíðina notað ákveðnar aðferðir til að fá upplýsingar upp úr viðskiptavinum sínum án þess að mikið beri á. Þekktust af þessum aðferðum er háttlestur (cold reading) sem er fáguð aðferð til að blekkja viðmælandann til að halda að miðillinn/spámaðurinn hafi yfirnáttúrulega hæfileika. Meðal þess sem þessi aðferð gengur út á er að koma með ótal tilgátur vitandi það að viðmælandinn man miklu frekar það sem hitti í mark heldur en það sem geigaði, einnig skiptir öllu máli að geta lesið viðbrögð viðmælandans.

Ætli háttlestur geti útskýrt þá ótrúlegu nákvæmni sem virtist vera hjá Sirrý "spákonu"? Málið var að þegar þátturinn var tekinn upp þá var Sigrún nýorðin ólétt, flestir kuklararnir töluðu eitthvað óljóst um frjósemi og hugsanlegar barneignir sem er mjög léttvægt miðað við að viðmælandinn var ung kona en Sirrý virtist vita meira en hinir.

Sirrý sagði: "þú ert ekki orðin ólétt, en þó ef það er, þá er það alveg bara pínulítið" og síðan kom afar dramatískt hljóð til að undirstrika hve frábært þetta var hjá henni. En var þetta glæsileg frammistaða? Þegar ég skoðaði upptöku af þessu þá tók ég eftir smáatriði sem hafði farið framhjá mér fyrst. Það sem gerðist í raun var að Sirrý sagði "þú ert ekki orðin ólétt", síðan leit hún framan í Sigrúnu og þá kom smá glott á "spákonuna", hún bætti þá við "en þó ef það er, þá er það alveg bara pínulítið".

Þetta virðist vera klassískt dæmi um háttlestur, það kemur fram tilgáta og eftir að hafa skoðað viðbrögð viðmælandans þá er tilgátan löguð til. Fyrst segir Sirrý beint út að Sigrún sé ekki ólétt sem er kolrangt, síðan bætir hún afar varfærnislega við að Sigrún sé allavega ekki komin langt á leið ef ske kynni að hún væri þunguð.

Afskaplega er þetta nú lélegt, Sirrý segir að ung kona sem sýnir engin ytri merki þungunar sé annað hvort ekki ólétt eða komin skammt á veg. Þrátt fyrir að þessi "spá" Sirrýar hafi ekki á nokkurn hátt verið merkileg þá var þetta sett upp þannig að þetta væri alveg ótrúleg nákvæmni. Fyrir þetta fá aðstandendur þáttarins þónokkur mínusstig.

Því miður eru svona vinnubrögð ekki undantekningin heldur reglan hjá íslenskum fjölmiðlum, fjallað er um hverslags kukl og vitleysu án þess að gagnrýnisraddir heyrist. Vefritið/félagið Vantrú er tilbúið til þess að aðstoða fjölmiðlafólk við umfjöllun um yfirnáttúruleg fyrirbrigði, bæði þekkjum við til þessara mála og einnig getum við bent á aðila sem eru hæfir til að fjalla um þessi mál.

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.04.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Dr. Schnitzel - 27/04/04 00:12 #

Góð grein hjá þér. Ekki veitir af því að fjalla um þetta, enda er gagnrýni á svona þvælubrögð síst komin lengra í samfélaginu en andóf gegn áhrifum skipulagðra trúarbragða.


Hreinn Hjartahlýi - 27/04/04 09:02 #

Takið líka eftir því hvernig spáfólkið orðar spádómana sem spurningar. Þórhallur miðill gerir þetta líka. Er mamma þín farin? Er þetta svona? Er þetta hinsegin? Þannig er það fórnarlambið sem kemur með allar upplýsingarnar.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 27/04/04 10:01 #

Já cold reading er svona "hit and miss" tækni þar sem þú skýtur mörgum skotum og og þegar þú hittir þá lyftir þú andartakinu upp en flýtir þér framhjá þegar þú missir marks. Þeir sem trúa svona bulli muna svo aðeins eftir þeim tveimur atriðum (sem hver sem er gæti náð með því að nota algeng mannanöfn eða common sense) en gleymir strax hinum 10 atriðunum sem voru vitlaus.

Hér kemur týpískt dæmi frá þekktum útvarpsmiðli:

Miðill: Afhverju er ég svona mikið að hugsa um Akranes? Svar: Mmmmmm, veit ekki. Miðill: Það er eitthvað í sambandi við Akranes eða Vesturland. Svar: Tja. Miðill: Þekkir þú engan frá Akranesi, einhvern sem er farinn? Svar: Mmmmm, nei. Miðill: Ok, mundu eftir þessu, mundu eftir þessu, þetta á eftir að koma seinna. Miðill: Áttu tvö börn? Svar: Já. Miðill: Strák og stelpu? Svar: Nei, tvo stráka. Miðill: Það er eitthvað í sambandi við veikindi hjá yngri stráknum sem verður í lagi, kannastu við það? Svar: Nei, það er nú allt í lagi með hann. Miðill: Það er eitthvað með veikindi hjá ungum dreng, skilurðu það? Svar: Eh, sonur vinkonu minnar hefur verið veikur. Miðill: Já,takk,takk. Segðu henni að það verði allt í lagi. Svar: Ok. Já. Miðill: Hver er Magnús? Mangi gamli? Svar: Hmmmm, veit ekki. Miðill: Eitthvað í sambandi við sveit. Magnús sem er farinn? Svar: Mmmmmm, kannski frændi mannsins míns? Miðill: Var hann í sveit? Svar: Já. Miðill: Já, takk,takk, það er hann. Hann slær á læri sér og hlær dátt og biður þig að skila til mannsins þíns að hætta nú að vera svona þrjóskur! Kannastu við það? Svar: Ha,ha,ha, já,já. Miðill: Já, takk, takk. Miðill: Hér komin Guðrún sem er farin. Kannastu við það? Svar: Eh, amma mín hét Guðrún. Miðill: Já, takk. Hún segir þér að það verði allt í lagi með vandamálið sem þú hefur verið að hugsa um. Svar: Ha? Miðill: Eitthvað með vinnuna? Svar: Hmmmm, tja. Jaaaaá. Miðill: Gott. Gott.Já, hún var nú alltaf vel til höfð gamla konan? Svar: Já. Miðill: Og bakaði mikið af pönnukökum? Svar: Já. Miðill: Ha,ha, nú hlær hún, ha,ha. Skilurðu það, skilurðu það? Svar: Eh, já,já. Miðill: Ertu sátt? Svar: Já. Miðill: Guð blessi þig.


Sigurður Ólafsson - 27/04/04 10:20 #

Þetta eru reyndar ekki alveg réttar tölur hjá Aiwaz, James Randi rannsakaði þetta og komst að þeirri niðurstöðu að "spáfólkið" hafði aðeins rétt fyrir sér með eitt atriði af hverjum fjórtán!

Tillaga mín að þýðingu á "cold reading" er "svarlestur" eða "svörunarlestur", en þessi tækni byggist jú á því að lesa í þá "svörun" eða þau viðbrögð sem "viðfangsefnið" sýnir. Svörun getur verið með ýmsum hætti, t.d. munnleg, ósjálfráð viðbrögð, líkamsbeiting og fas o.s.frv.

Einnig mætti nota sögnina að fiska í þessu sambandi.


Júlíus Júlíusson - 27/04/04 12:55 #

Athyglisverð grein hjá þér og skemmtileg tilbreyting að vera kallaður "kuklari" fyrir þá sem starfa eða eru að kukla eitthvað í þessum dúr þá eru nauðsynlegir þeir aðilar sem hafa ekki trú eða velta vöngum eins og þið hér á þessari síðu, til þess að gera þessi mál athyglisverðari og fá breiða umræðu. Í sambandi við hvernig þátturinn var unninn þá er ég sammál þér það hefði sko snnarlega mátt segja frá því hvernig hann var unninn, við vissum ekkert hvort af öðru,ég var tekinn upp síðastur og mátti ekki tala um þetta og ekki hitt og mér var tilkynnt að þetta væri kona sem 3 aðrir væru búnir að tala við, en svo var mest klippt út sem ég sagði, kannski hefur það ekki þótt nógu krassandi....en það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og gaman að fá viðbrögð af öllu tagi á eftir. Áhugaverð pæling um Cold reading.....maður verður að kynna sér þetta :) maður er greinilega aftarlega á merinni.

Kær kveðja til ykkar vantrúarmanna og í guðanna bænum ekki fara að trúa...þá er allt fyrir gíg.

Kveðja Júlli


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 27/04/04 13:13 #

Þetta handrit upp úr útvarpinu er alger snilld. Þau fáu skipti sem maður hefur heyrt hann bulla í útvarpinu þá er þetta svona. Skotið út í loftið í hvert einasta skipti og vonað að eitthvað hitti.

Ég skil bara ekki hve fólk getur verið blint á þetta eftir að hafa hlustað á svona þvælu. Djöfull hlýtur fólk að vera örvæntingarfullt sem lætur óskhyggjuna leiða sig svona áfram.

Því miður hefur maður þurft að hlusta á sín eigin skyldmenni lýsa því hve þessi og hinn hafi bara haft allt rétt fyrir sér og sagt sér allt án þess að þurfa spyrja nokkuð. Ég hef alltaf sagt við það fólk að ég trúi því ekki en ef ég gæti hlustað á upptöku af þessu þá skyldi ég reyna skoða þetta í öðru ljósi. Það myndi nú ekki mikið breytast við það en maður gæt þá kannski bent fólkinu á hve mikið bull þetta sé. Sérstaklega finnst mér ótrúlegt þegar fólk er að panta tíma hjá miðli með margra mánaða fyrirvara. Í fræðunum kallast það víst "hot reading" og þá geta þeir reynst vera rosalega vitrir og fólk kemur alveg gáttað út frá þeim! Frekar dapurt allt saman...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/04 17:23 #

Hugsanleg þýðing á "Cold Reading" gæti verið sviplestur eða sviplæsi.

Júlíus, menn geta stundað sviplestur án þess að vera endilega meðvitaðir um það. Þeir ráða þá í viðbröðg þess sem andspænis þeim situr án þess að hafa hugmynd um það, telja sig í staðinn hafa einhverja yfirnáttúrlega "næmni".

Og svo fiska menn auðvitað, sbr. dæmi Aiwaz.

Ef þú ert svona yfirnáttúrlegur (skv. heimasíðunni þinni) þá vil ég benda þér á að ekki hefur enn verið sýnt fram á tilvist yfirnáttúrunnar. Þú gætir því, með því að gangast undir próf James Randi, orðið fyrsti maðurinn á jarðríki til að sýna fram á að yfirnáttúran sé raunveruleg. Það yrðu miklar fréttir fyrir okkur öll. Að launum fengirðu milljón dollara sem þú gætir látið renna til góðgerðarstarfs, ef þú vilt ekki bara hirða þá sjálfur.

Engum hefur tekist að standast prófin sem Randi beitir - hann sýnir í hvert skipti fram á að menn beita, annað hvort ósjálfrátt eða viljandi, þekktum aðferðum (s.s. sviplestur), ellegar bregða fyrir sig hreinu og beinu svindli.

En þar sem þú ert ekki svindlari, heldur heiðarlegur miðill ættirðu að rúlla þessu upp, ekki satt?


Júlíus Júlíusson - 27/04/04 17:42 #

Sæll Birgir.

Ég fór nú að leita á heimasíðu minni og fann ekki að þar stæði að ég væri yfirnáttúrulegur, og ekki er ég miðill og hef aldrei sagt og aldrei hef ég heldur sagt að ég væri ekki svindlari, en vil koma því að hér að ég tel mig ekki vera svindlara. Mér sýnist á því sem þú segir um þetta próf að það sé ekki leysanlegt þannig að ég á ekki von á því að geta leyst en hver veit :)

Kveðja Júlíus


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/04 18:37 #

Á kærleikssíðu þinni býðurðu upp á spilaspá, draumráðningar og andlega leiðsögn. Hvað eru spilaspár og draumráðningar annað en yfirnáttúruþjónusta? Og andleg leiðsögn... Er þetta hefðbundin sálfræðimeðferð (andlegur í merkingunni huglægur) eða snýst hún um leiðsögn að handan?

Þú gefur þig út fyrir að geta spáð fyrir fólki og þar með varstu þátttakandi í þætti Páls. Því á stimpillinn "yfirnáttúrlegur" fullkomlega við þig.

En í mínum augum ertu annað hvort svindlari eða auðtrúa og með ranghugmyndir um eigin andlega getu.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 27/04/04 21:45 #

Það er þvert á móti mjög auðvelt að standast þetta próf, hafirðu yfirnáttúrulega hæfileika. Þú segir hvað þú getur, og gerir það. Þess má geta að margir sem koma gallvaskir í (for)prófið hafa einmitt fulla trú á eigin getu og átta sig ekki á því að þeir eru að beita ósköp "venjulegum" aðferðum til að gera trikkin sín.

Gaman væri því að sjá í hvorum hópnum Júlli er. Fari hann í prófið er augljóst að hann trúir því að hann hafi þessa hæfileika, og við fylgjumst spenntir með niðurstöðunum úr því. Fari hann ekki í prófið (nú þegar hann veit sannanlega af því) er augljóst að hann veit að hann er loddari og já, kuklari.

Ég neita að trúa því að nokkur sem veit að hann getur náð sér í svona auðveldar milljónir hafni því, bara fyrir það að sýna fram á að maður kunni það sem maður starfar við. Myndi smiður neita sjötíu milljónum fyrir að negla spýtur einn eftirmiðdag? Myndi forritari neita sjötíu milljónum fyrir nokkurra klukkustunda setu við tölvuna? Myndi skúringakonan ekki taka við sjötíu milljónunum ef hún þyrfti aðeins að skúra gólfið undir ströngu eftirliti?


Hreinn Hjartahlýr - 27/04/04 23:35 #

Ég keypti einu sinni klámspólur af Sirrý spákonu.


Sigurður Ólafsson - 28/04/04 09:50 #

Orðið "sviplestur" er þýðing á tækninni sem Júlli notar, vitandi eða óafvitandi. Hann spáir að vísu fyrir fólki í síma, eins og algengt er í dag, en með því móti er trauðla hægt að skoða svipbrigði fólks :) Ég vil því aftur mæla með þýðingunni "svarlestur" (eða "svörunarlestur" sem er ekki eins þjált orð). Þeir sem nota þessa tækni skoða nefnilega "svörun" af ýmsu tagi, s.s. blæbrigði raddar, líkamsbeitingu og fas og stundum halda þeir í hönd "kúnnans" og nema ýmsa "svörun" með þeim hætti. Einnig spilar inn í þetta önnur ytri einkenni s.s. klæðnaður og málfar (þannig má t.d. geta sér til um menntun og stétt viðkomandi). Mér finnst "sviplestur" ekki ná alveg utan um þetta fyrirbæri :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/04 12:19 #

Góður punktur.


Hreinn Hjartahlýr - 28/04/04 13:07 #

Þetta virkar soldið eins og radar. Þú kastar fram bylgjum af spurningum/fullyrðingum og lærir á því sem kemur til baka. Radar er að vísu ekki íslenska, viðbragðslestur er ljótt, bragðskynjun gæti misskilist, svörunartúlkun, þýðing, lestur, ráðning, ég veit það ekki.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 28/04/04 23:07 #

"Svartúlkun"? Radar á sér íslenska þýðingu sem er ratsjá.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 01:44 #

Háttsjá? Háttlestur? Háttlæsi? Háttnæmi? Háttskyn? Svarnæmi? Svarlæsi? Ansvísi? Ansnæmi?


Sigurður Ólafsson - 30/04/04 12:46 #

Margar góðar hugmyndir í þessum þýðingum, en er þetta ekki allt frekar á jákvæðu nótunum? Ekki má gleyma því að hér er um að ræða pretti og loddaraskap sem notaður er gagnvart auðtrúa fólki. Ég dreg því fyrri tillögur mínar til baka og mæli með þýingunni "loddaranæmi". Dæmi um notkun: "Stína miðill var í essinu sínu og tókst auðveldlega að veiða upplýsingar upp úr Jóa, enda loddaranæm með afbrigðum".


Hönd Guðs - 08/12/05 23:34 #

[Athugasemd eytt, sleppið óþarfa skítkasti.]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.