Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Páskahugvekja: Hvar er Jesúkallinn?

puki.jpgÍ dag er páskadagur. Samkvæmt bókunum er verið að minnast þess að Jesús reis upp frá dauðum en í raunveruleikanum er verið að fagna vorinu. Allt í kringum okkur eru heiðin tákn vorkomu og frjósemi. Páskaungar og egg eru þekktustu tákn hátíðarinnar, alveg ótengd einhverjum Jesúkalli.

Páskar eiga að vera aðalhátíð kristinnar kirkju en Jesús er langt frá hugum Íslendinga. Fólk fer frekar á skíði á páskum en í kirkju (svo lengi sem færið er gott), hugsanlega lenda sumir í því óláni að einhver prestur sé að messa á skíðasvæðinu en flestir sleppa.

Sjálft Ríkissjónvarpið hefur slappast í trúrækninni (gvuði sé lof), vanalega eru heillandi myndir um einhverjar kristnar goðsagnapersónur en ekkert slíkt er að finna í dagskránni núna. Sjónvarp allra þjóðkirkjumanna bregst þó ekki algjörlega, það er þáttur um skírnir, fermingar og brúðkaup í kvöld, sá þáttur heitir Merkisdagar á mannsævinni. Ég get ekki ímyndað mér að margir líti yfir ævi sína og hugsi til fermingar eða skírnar sem einhvers hápunkts (enda væri það sorglegt).

Í kjölfar merkisdagaþáttarins er tíu mínútna páskahugvekja, reyndar vilja fæstir eyða svo löngum tíma í að hugsa um Jesú þannig að þetta fær væntanlega svipað áhorf og nýársávarp Markúsar Arnar. Það eru eiginlega bara nöttarar eins og ég sem nenna raunverulega að hugsa um trúarlegu hlið páskanna í dag.

Reyndar eiga ótal börn eftir að leika sér að kristilegu tákni á morgun, það eru nefnilega púkar á páskaeggjum. Púkarnir hafa fallið í ónáð hjá einhverjum þjóðkirkjuprestum en slíkt hjal nær ekki til barnanna enda eru íslensk börn almennt ekki kristin nema í nokkra mánuði fyrir fermingu sína.

Jesúkallinn er týndur og tröllum gefinn, það er í sjálfu sér ágætt en er ekki kominn tími til að lýsa því yfir að hann sé látinn svo við getum losað okkur við draslið sem hann skyldi eftir?

Guð er dauður - Friedrich Nietzsche (1844-1900)

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.04.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


jogus (meðlimur í Vantrú) - 11/04/04 10:36 #

Það er nú ekki alveg rétt að við fengjum að sleppa við yfirnáttúruáróður í dag, páskadag. Ég kveikti á barnaefninu af gömlum vana þegar ég fór fram með krakkann í morgun, þar sá ég á tiltölulega stuttum tíma bæði teiknimynd á Stöð 2 um Móses að leiða Ísraela frá Egyptum og stuttu seinna voru fíflin í Stundinni okkar að predíka um að Jesú hefði nú risið upp á páskadegi (eða einhverjar náskyldar bábiljur, ég játa að þau fengu nú ekki athygli mína óskipta).


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 11/04/04 14:38 #

Leiðrétting, ekki leiða Ísraela heldur Ísraelsmenn. Þjóðarheitið 'Ísraeli' varð til 1948 en hebrear Biblíunnar nefnast 'Ísraelsmenn'... :)


dídí - 12/04/04 16:46 #

Hvað er eiginlega að ykkur? Ég sem bar alltaf virðingu fyrir öðrum trúarhópum... Ég veit ekki hvert það fór þegar ég las þetta. Þess má geta að þið eruð trúahópur þar sem þið eruð að boða það að Kristni sé bull. Sú staðreynd að þið getið ekki einusinni stafað Guð rétt kemur illa út.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/04 17:03 #

Við erum ekki trúarhópur, það er bara rugl í þér. Trúarhópa þekkir maður á því að þeir trúa á eitthvað yfirnáttúrulegt fyrirbrigði, við trúum ekki á neitt slíkt og erum því trúleysingjar, það er ekki form trúar heldur "ekki-trú".

Opnaðu síðan orðabók, í flestum ef ekki öllum þeirra er að finna orðið gvuð.


Bjoddn - 12/04/04 17:06 #

dídí... þú ættir að fara með þessa fullyrðingu um að hér sé um trúarhóp að ræða upp í kirkjumálaráðuneyti. Ef ég fengi að ráða, þá yrði hér um skráð trúfélag að ræða sem héldi hátíð einu sinni á ári þar sem allir fengju sín sóknargjöld endurgreidd.

Verst hvað þeir sem ráða eru vitlausir að sjá ekki það sem þú sérð.


Úlfurinn - 13/04/04 11:00 #

Guð er ekki dauður.Til að deyja verður viðkomandi að vera til.Dæmið gengur ekki upp.Guð var aldrei til,þess vegna dó hann ekki.


Kalli - 14/04/04 22:13 #

Ég held að það sé best að taka orð Nietzche ekki of bókstaflega, lestu Svo mælti Zaraþústra, fín bók.


Magni - 08/11/04 04:54 #

"Guð er dauður - Friedrich Nietzsche (1844-1900)"

"Nietzsche er dauður" - ég drap hann. Guð.


Hmmm - 08/11/04 09:15 #

Guð er dauður + Nietzsche er dauður = Nietzsche er Guð


Thorvaldur - 13/11/04 23:50 #

Af hverju getið þið ekki viðurkennt að Jesús vissulega reis uopp frá dauðum og birtist lærisveinum sínum og meira en 500 mönnum. Jesús lifir og þið vitið það.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/04 23:56 #

Af hverju getið þið ekki viðurkennt að Jesús vissulega reis uopp frá dauðum og birtist lærisveinum sínum og meira en 500 mönnum. Jesús lifir og þið vitið það.

Nei, Þorvaldur minn, ef Ésús var til þá er hann dauður og það fyrir löngu síðan og hann reis ekki frekar upp frá dauðum en langalangafi minn. Afturgöngur eru ekki til í alvörunni og þú veist það.


Thorvaldur - 16/11/04 15:12 #

Þið eruð öfgatrúarmenn að neita því að Jesús lifði hér á jörðinni. Það tel ég gríðarlega mikla trú.
Smá pæling: Ef að Kristur hefði ekki risið upp frá dauðum, af hverju voru lærisveinarnir að boða upprisuna og voru alveg sáttir við að verða drepnir fyrir hana. Ef að upprisa Krists væri ekki raunveruleiki og sannur atburður af hverju voru konur settar sem vitnisburður. Konur voru ekki teknar sem gildur vitnisburður á þessum tíma. Páll segir í 1.Kor:15 kafla talar um mikilvægi upprisunnar og að án upprisunnar þá væri vonin tálsýn, trúin fölsk og ræður okkar heimskar. Hann talar um að án upprisunnar væru hann og fleiri aumkunnarverðastir allra manna. Öll kristin trú byggist á upprisu Jesú frá dauðum. Jesús lifir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 16:14 #

Þið eruð öfgatrúarmenn að neita því að Jesús lifði hér á jörðinni. Það tel ég gríðarlega mikla trú.

Nú, er það trú? Ég sem hélt að það væri gríðarlega mikil vantrú? Sjáðu það sem Dan Barker segir hér. Er það trú að taka þessi rök til greina? Ég treysti mér einfaldlega ekki til að fullyrða neitt um hvort þessi tiltekni trésmiðssonur hafi verið til, en finnst það ólíklegt í ljósi þessara raka. Þeir sem halda fram hinu gagnstæða gera það af trúarsökum einum saman.

Ó hvað ég vildi að þeir sem koma hingað í kommentakerfið að tjá sig færu nú að snúa sér að einhverju gagnlegra en því að gera okkur vantrúðum endalaust upp (bókstafs)trú. Umræða um efni greinanna væri strax framför. Maður hefur ekki undan því að svara ómálefnalegum Ad hominem-árásum á innræti sitt ætlunarverk þessa dagana.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 16:15 #

Það að trúa ekki að Jesú hafi verið til er ekki trú heldur skortur á trú. Mátt kalla okkur öfgatrúleysingja.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 16:34 #

Og Þorvaldur, af hverju í ósköpunum ættum við að trúa því að jafnvel þótt þessi einstaklingur hafi verið til þá hafi hann lifað dauðann af og sé enn til? Af hverju í ósköpunum trúir þú þessu? Hafa verið færð fullnægjandi rök fyrir því eða léstu bara ljúga þessu að þér og ert síðan svo huglaus að geta ekki skorað þær afkáralegu lygar á hólm?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 17:32 #

Páll segir í 1.Kor:15 kafla talar um mikilvægi upprisunnar og að án upprisunnar þá væri vonin tálsýn, trúin fölsk og ræður okkar heimskar. Hann talar um að án upprisunnar væru hann og fleiri aumkunnarverðastir allra manna. Öll kristin trú byggist á upprisu Jesú frá dauðum. Jesús lifir.

Fyrir utan síðustu fullyrðinguna þá skrifa ég alveg undir þetta. Jesús er nefnileg adauður, ef hann þá einhvern tímann var til. Ég, fyrir mitt leyti, hallast frekar að því að hann hafi verið til. Það var enginn hörgull á mannkynslausnurum á þessu svæði á þessum tíma, og ástæðulaust að skálda upp einhvern karl, þegar af nógu var að taka. Tröllasögur um upprisu og göngu á vatni og mettun þúsunda og þannig eru samt bara það: Tröllasögur.


Thorvaldur Jo - 16/11/04 22:44 #

Ég hef sjálfur upplifað Krist inn í mitt líf. Mín mesta gleði er að trúa á hann og lofa hann af hjarta og sál. Ég hef fengið að upplifa mikinn frið, mikla gleði og djúpann kærleik. Og Birgir, það var ekki mamma eða pabbi eða einhver annar sem sannfærði mig um upprisuna. Ég trúi upprisunni algerlega óháður einhverju fólki. Og Vésteinn: Varðandi mannkynnslausnina þá er það alveg rétt að margir komu fram á þessum tíma og þóttust vera eitthvað eins og Gamalíel faríseí segir í Postulasögunni 5 kafla og 35 til 39. Einhver Þevdas kom og 400 manns fylgdu honum og síðan kom einhver Jósef frá Galíleu og sneri fólki til fylgis við sig. En Drottinn Jesús hann reis upp frá dauðum og enginn kraftur, vald eða farísear gátu stöðvað djörfungina og sannfæringu lærisveinanna að Jesús lifir enn. Aðalumræðuefni þeirra var upprisan og trú á hana.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 16/11/04 22:59 #

Spurningin "Var Jesús til?" er frekar snúin. Svarið fer eftir því hvað maður meinar með Jesú. Þar sem að þetta var eitt algegngasta nafnið á þessum tíma í Palestínu á þessum tíma (minnir að það séu amk 19 Jesúsar í Ant. Jósefusar), þá hefur örugglega verið til einhver Jesús með messíasarkompexa, minnir jafnvel að það hafi einhver verið í Ant (en á allt öðrum tíma). Ef að með Jesús eigi maður við Jesú NT þá var hann örugglega ekki til, amk er það lítið eftir af honum að hann er ekki sami Jesúinn og í NT.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 02:45 #

Þorvaldur:

Ég hef sjálfur upplifað Krist inn í mitt líf. Mín mesta gleði er að trúa á hann og lofa hann af hjarta og sál. Ég hef fengið að upplifa mikinn frið, mikla gleði og djúpann kærleik.

Ég er alls ekki sannfærður um að þú hafir "upplifað Krist". Ég hef upplifað "Ésú" að því leyti að ég hef étið hveitiplötu sem átti að vera kjötið af honum. Ég fann ekki nema hveitibragð af henni samt. Þorvaldur, ég held að þú haldir bara að þú hafir upplifað Ésú. Ég held að þú hafir ómeðvitað blekkt sjálfan þig, eins og aðrir sem hafa "upplifað Krist".

Ég trúi upprisunni algerlega óháður einhverju fólki.

Nú, varðstu vitni að henni? Ef ekki, þá hefurðu líklega lesið um hana í Biblíunni. Þá er trú þín háð öllum þeim þýðendum, riturum, uppskrifurum og upphaflegu uppdikturum sem eru milli þín og upphaflegu hugmyndarinnar um upprisuna.


ThorvaldurJo - 17/11/04 17:17 #

Ég held ekki neitt um það, ég veit að það var Jesús sem kom inn í líf mitt og þegar ég fór að virkilega elska hann af öllu hjarta og fá að upplifa elsku hans og kærleika til mín og þann djúpa frið. Allt líf mitt breyttist, ég fór að finna fyrir von, tilgang og sanna lífsgleði í fyrsta sinn. Ég elska hann og hann lifir.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 18:27 #

Nei, Þorvaldur, Ésús er dauður. Ef hann var þá til. Það getur verið að þú hafir upplifað einhverja tilfinningu sem þú hafir túlkað sem guðdómlega nærveru eða eitthvað -- ekki efa ég að þú hafir upplifað eitthvað -- en að það hafi verið Ésús, þú þarft að fara lengra út í sveit með þá tröllasögu.


ThorvaldurJo - 18/11/04 00:31 #

Nei, kallinn minn.Jesús lifir og punktur. Okey, þannig að öll þau tugþúsunda kraftaverka sem hafa gerst í Jesú nafni séu bara slys og tilviljanir? Og allar þær þúsundir manna sem taka trú á Jesú Krist, læknast, leysast og upplifa eitthvað nýtt í fyrsta skipti, eru þau kannski bara að ljúga? Og allir vitnisburðir af fólki um allan heim af fólki eins og ég og þú, sem hafa læknast af blóðsjúkdómum, krabbameinum, heyrnardeyfð og ýmsum öðrum kvillum, er fólkið bara að plata og vísvitandi ljúga, eða læknast fólk af tilviljun af ýmsum ólæknandi sjúkdómum? Ég hef séð of margar lækningar til að segja að þau séu bara tilviljanir.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 00:41 #

Ég sagði ekki tilviljanir, það er þitt orð. Ég hef aldrei séð eða vitað trúverðuga heimild fyrir því að alvöru kraftaverk hafi átt sér stað. Aldrei. Stórkostlegar fullyrðingar þarf að styðja með stórkostlegum sönnunargögnum og þau höfum við ekki við höndina. Trú getur vissulega haft raunveruleg áhrif á líðan fólks, en það er ekki vegna utanaðkomandi goðmagns heldur vegna þess að maðurinn er fær um að hafa áhrif á líðan sína með hugarástandi. Það er ekkert mýstískt við það, en auðvelt að láta sem það sé það. Fyrir svo utan Það fólk sem er fárveikt og tekur trú í örvæntingu sem síðasta haldreipi og batnar svo. Það er auðvitað ekki þar með sagt að því batni vegna trúarinnar, reyndar er mun líklegra að það læknis þökk sé ónæmiskerfi líkamans. Við heyrum sjaldan um fólkið sem tekur trú en læknast ekki vegna þess að það deyr og þar með er sá vitnisburður úr sögunni. Ef þú hefur séð svona margar lækningar og stendur á því fastar en fótunum að um sé að ræða yfirnáttúrulegar lækningar, þá ættirðu að setja þig í samband við James Randi. Ef fullyrðingar þínar eru á rökum reistar og þú getur sýnt fram á að það sé hægt að lækna fólk með yfirnáttúrulegum hætti geturðu unnið milljón dollara. Ef þú ert ekki fyrir peninga geturðu gefið þá góðum málstað, s.s. Rauða krossinum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/11/04 00:47 #

Og allir vitnisburðir af fólki um allan heim af fólki eins og ég og þú, sem hafa læknast af blóðsjúkdómum, krabbameinum, heyrnardeyfð og ýmsum öðrum kvillum, er fólkið bara að plata og vísvitandi ljúga, eða læknast fólk af tilviljun af ýmsum ólæknandi sjúkdómum?

Þarf þetta að vera annað-hvort-eða sitúasjón? Ertu reiðubúinn að opna hugann fyrir því að þarna geti aðrir þættir verið á ferðinni? Kannski fleiri en einn? Nei, þetta fólk þarf ekkert að vera að ljúga.

Kannski myndi dálítil efahyggja hjálpa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.