Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Davíð Þór og fuglahræðurnar

Í DV um helgina getur að líta kjallaragrein eftir Davíð Þór Jónsson, þar sem hann tekur á pistli mínum um fermingarblað Fréttablaðsins á vefnum Vantrú.net.

Gagnrýni Davíðs snertir mig ekki vitund. En það er ekki vegna þess að ég sé svo siðblindur að geta samviskulaust troðið heilu árganga fólks niður í svaðið. Nei það kemur til af því að þessi árás hans hefur einfaldlega ekkert með það að gera sem ég var að segja í grein minni.

"Straw man" rökvillan er afar áberandi í allri umræðu um trúmál. Hún kallast þessu nafni sökum þess að í staðinn fyrir að ráðast beint á málflutning þess sem gagnrýndur er, er smíðuð einfölduð eða villandi útgáfa af honum og ráðist á hana í staðinn, svona svipað og ef sölluð væri niður fuglahræða í stað manns af holdi og blóði. Davíð Þór gerir sig sekan um þetta þegar hann gerir mér það upp að vera að ráðast gegn fermingarbörnunum.

Ég er alls ekki að því, heldur er gagnrýninni fyrst og fremst beint að þjóðkirkjunni og Fréttablaðinu. Hver sá sem les grein mína getur gengið úr skugga um það. Ef skilningur Davíðs Þórs á skrifum mínum væri réttur, væri ég auðvitað að fella sleggjudóma yfir sjálfum mér rétt eins og fermingarárganginum í ár, því ekki læt ég þar hjá líða að ræða mína eigin græðgi og fermingarsystkina minna.

En ég tek líka fram að græðgin er eðlilegur partur af sálarlífi unglinga í allsnægtarsamfélaginu. Ég er ekkert að amast við því, heldur bendi aðeins á það. Kirkjan er hins vegar í því hlutverki að æsa þessa græðgi upp meðal 13 - 14 ára krakka og Fréttablaðið tekur undir af miklum móð. Mörg heimili í landinu líða fyrir þessa samfélagslegu kröfu, eins og hamrað hefur verið á í fréttum að undanförnu.

Það vakir síður en svo fyrir mér að fullyrða eitthvað um að ekkert fermingarbarn sé kristið og að öll séu þau á höttunum eftir skjótfengnum gróða. Þarna gerir Davíð Þór mér aftur upp skoðanir. Ég talaði eingöngu um þá augljósu hræsni sem felst í að taka skyndilega kristna trú þegar líður að fermingaraldri og tók nokkur dæmi úr Fréttablaðinu sem sýna hvað þeim börnum sem þar er rætt við er efst í huga.

Davíð getur reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að flest öll fermingarbörn landsins séu sannkristin og finnist mikilvægt að staðfesta fyrir Guði og Jesú að ásetningur þeirra sé að tilbiðja þá. Eins og sést best á fermingarblaði Fréttablaðsins er raunveruleikinn þó annar og tel ég ekki eftir mér að benda á það, jafnvel þótt ég setji með því höfuð mitt á höggstokkinn í Fuglahræðulandi.

Svo er kómískt að sjá Davíð falla í sömu gryfju sleggjudóma og hann ber upp á mig, þegar hann ræðst að kaupmannastéttinni í heild sinni og kallar hana vonda kapítalista. Flokkast það ekki undir ærumeiðingar? Og í raun kemur í ljós að við erum alveg hjartanlega sammála þegar hann segir að í hverjum árgangi séu margir hræsnarar.

Það er einmitt allt það hræsnissukk sem ég er að tala um þegar ég nefni til sögunnar gráðugu unglingana í Fréttablaðinu. Ef úrtak þess á viðmælendum er marktækt er þetta einfaldlega gegnumgangandi afstaða hjá íslenskum fermingarbörnum.

Og svona rétt í lokin: Hvað gengur Davíð Þór til þegar hann líkir fermingum við fertugsafmæli? Ekki hvetur kirkjan til fertugsafmæla með skefjalausum áróðri og því síður leggur fertugt fólk það á foreldra sína að kosta dýra veislu. Auk þess sést varla nokkur sá sem á fertugsafmæli í vændum hafa það á orði í fjölmiðlum hann vilji fá peninga í afmælisgjöf alveg eins og vinir hans.

Birgir Baldursson 05.04.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Ívar Ísak - 09/04/04 01:34 #

Ég var að velta því fyrir mér hvað það er að vera kristinn að ykkar mati sem haldið út þessum vef?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/04 01:41 #

Góð spurning! Í mínum huga er það að vera kristinn fyrst og fremst það sama og að vera trúaður á hvaða trúarbrögð önnur: Að hallast að yfirnáttúru einhvers konar.

Í þessu felst að hafa í trúgirni sinni fallist á órökstuddar fullyrðingar einhverra sem sjá sér hag í að sópa að sér hirð. Þetta er einskonar smit sem vantrúaðir hafa ekki sýkst af, nú eða læknast.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 09/04/04 03:37 #

Hinn almenna skilgreining á kristnum einstaklingi hjá kristna fólkinu er svona: "sá sem að segist vera kristinn og er sammála mér". Þannig að það getur verið svolítið erfitt fyrir vantrúaða að skilgreina hvað kristinn einstaklingur er.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/04 02:03 #

Hehe, já. Minnir mig á þennan djók:

I was walking across a bridge one day, and I saw a man standing on the edge, about to jump off. So I ran over and said "Stop! don't do it!" "Why shouldn't I?" he said. I said, "Well, there's so much to live for!" He said, "Like what?" I said, "Well...are you religious or atheist?" He said, "Religious." I said, "Me too! Are you christian or buddhist?" He said, "Christian." I said, "Me too! Are you catholic or protestant?" He said, "Protestant." I said, "Me too! Are you episcopalian or baptist?" He said, "Baptist!" I said,"Wow! Me too! Are you baptist church of god or baptist church of the lord?" He said, "Baptist church of god!" I said, "Me too! Are you original baptist church of god, or are you reformed baptist church of god?" He said,"Reformed Baptist church of god!" I said, "Me too! Are you reformed baptist church of god, reformation of 1879, or reformed baptist church of god, reformation of 1915?" He said, "Reformed baptist church of god, reformation of 1915!" I said, "Die, heretic scum", and pushed him off.

-- Emo Phillips


Jóhannes - 19/05/04 14:52 #

Hæ Hvernig Rökstiðjið þið að það sé enginn Guð eða andlegur heimur til, öðruvísi en með útursnúnung og alhæfingu


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 19/05/04 15:56 #

Jóhannes, athugasemd þín tengist greininni ekki beint og á því heima á spjallborðinu.

Gaman væri ef þú tækir þig til og teldir upp alla þessa útúrsnúninga. Gætir t.d. póstað því á áðurnefnt spjallborð.


Ásgeir - 05/04/05 01:13 #

Jóhannes, hvernig rökstyður þú að til sé Guð og andlegur heimur?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.