Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jarðáran

Í hinu glænýja Skagablaði birtíngi, sem kom út í dag, er viðtal sem ég tók við Garðar Bergmundsson rafsegulmælingamann:

"Ég er minn eigin mælir"

Akranes er víst algert rafsegulbæli. Einhverju slíku heldur í það minnsta Garðar Bergmundsson fram, en hann fæst einmitt við að mæla út rafsegulsvið og gera ráðstafanir til að eyða því.

"Ég er búinn að vera í þessu í þrjú ár. Þetta er bæði skemmtilegt og þakklátt. Í flestum tilfellum hverfur vöðvabólga, exem og mígreni þegar ég hef athafnað mig, auk þess sem dregur úr fótaverk og svefntruflunum. Kýr hætta að fá júgurbólgu. Ég setti tól mín upp í svínabúi og þar hættu svínin að lemja sig með hölunum. Svo verður loftið mun betra í húsum.“

Á síðasta ári var lögð fram tillaga til þingsályktunar um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann. Þar er lagt til að faraldsfræðileg rannsókn verði gerð á þessu, sérstaklega með nýgengi krabbameins í huga. Margar rannsóknir hafa sýnt að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennumengunar. En Garðar beitir aðferðum sínum reyndar ekki á háspennu:

"Ég mæli jarðáruna,“ segir hann. "Hún er samansett úr lágspennurafmagni og gasi. Ég er minn eigin mælir og notast við prjóna sem ég held út frá líkamanum. Þeir snúast svo í samræmi við þetta lágspennusegulsvið og það með svo mikilli nákvæmni að það tekur öllu öðru fram t.d. þegar finna á raflínur í jörð.“

Aðferðir Garðars eiga um margt skylt við spákvisti þá sem notaðir eru til að finna vatn í jörðu. Hann segir jarðáruna tengjast flekaskilunum í landinu og allt aðrar niðurstöður fáist til dæmis út af Reykjanesskaga en í Reykjavík.

En byggir þetta á traustum grunni vísindalegrar þekkingar?

"Nei, það gerir það ekki, enda eru vísindamenn engir guðir. Það er ótalmargt sem þeir segja sem alls ekki stenst. Sönnun mín er hjá fólkinu. Vísindamönnum hefur ekki enn tekist að mæla þessa lágspennu og hvað þá gasið.“

En er þetta ekki bara uppspuni? Eigum við að treysta fullyrðingum þínum um vitnisburð fólks? Eru engar staðfestar rannsóknarniðurstöður sem sýna fram á réttmæti þess sem þú heldur fram?

"Nei, en ég er alltaf til í slíkar tilraunir,“ segir Garðar. "Eða telurðu það ekki nógu trúverðugt að um leið og ég slekk á þessu versnar fólki um leið af húðsjúkdómi sínum?“

Ekki ætlar birtíngur að leggja á það mat, en finnst það skondið að þeir einu sem stunda þessa iðju í á öld vísinda og tækni séu einyrkjar með forneskjulegar málmstangir í höndunum. Einnig finnst honum sæta furðu að bæði lofttegund og lágspenna, sem hafa svona mikil áhrif á menn og skepnur, skuli ekki vera greinanlegar með tækjum í heimi þar sem búið er að kortleggja öll frumefni og eðli rafmagns að auki.

Takið eftir því að það eina sem Garðar hefur fyrir sér, utan eigin upplifana á gildi mælinganna, er meintur vitnisburður fólks. Eins og fram hefur komið hér á Vantrú er vitnisburður vita gagnslaus sem sönnun einhvers.

Garðari ætti að vera það kappsmál að láta hlutlausa aðila meta áhrif þeirra aðferða sem hann beitir til að laga "jarðáruna" í híbýlum fólks. Að öðrum kosti getur hann búist við því að hugsandi fólk afgreiði hann sem skúrk.

Birgir Baldursson 03.04.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


jogus (meðlimur í Vantrú) - 03/04/04 20:28 #

Þessar lýsingar Garðars minna mjög á lýsingarnar hans Brynjólfs frá Akureyri (einnig þekktur sem Binni nuddari), nema þar á bara að vera um rafsegulsvið að ræða, en ekki gas (ef ég skil þetta rétt).

Hvort sem rafsegulbylgjur og/eða "jarðárur" eru hættuleg fyrirbæri eða ekki þá er amk ljóst með hann Brynjólf að þar er um hreinræktaðan loddara að ræða, því hann hefur bókstaflega ekki hundsvit á því sem hann er að tala um. Það sést best á aðferðunum sem hann beitir til að "laga vandann" hjá fólki, en þær eru hreint og beint hlægilegar ef þú hefur lágmarksþekkingu á eðlisfræði.

Af lestri þessarar greinar virðist sem Garðar og Brynjólfur séu af sama sauðahúsi.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 03/04/04 21:06 #

Samt, það er varla hægt að krefjast þess að hann reyni að færa vísindalegar sönnur á þessar aðferðir. Hvað er í ljós kæmi að þetta væri byggt á ranghugmyndum? Að þetta væri húmbúkk? Að þetta hefði aldrei mælst einfaldlega vena þess að þetta væri ekki til? Varla viljum við að blessaður maðurinn verði atvinnulaus, eða hvað?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/04 21:09 #

Mig langar ekki að lifa í heimi þar sem menn komast upp með að hafa lifibrauð sitt af því að svíkja og blekkja fólk. Þessi maður getur bara fengið sér heiðarlega vinnu eins og við hin (að svindlinu gefnu).


jogus (meðlimur í Vantrú) - 04/04/04 17:24 #

Má ég spyrja að einu: Ef engin tæki geta mælt þetta, hvernig veit hann þá að um rafsegulsvið og gas er að ræða?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/04/04 18:47 #

Það var helst á honum að heyra að hann "skynjaði" þetta sjálfur gegnum prjónana. Því fellur þessi grein klárlega undir flokkinn "nýöld".


Karl Guðmundsson - 24/11/04 17:36 #

Prjónarnir eru forn uppfinning (talin 6 þúsund ára gömul) og rafsegulsvið er eitthvað sem vísindin hafa viðurkennt þó enginn ykkar sjái þetta svið berum augum. Vil benda ykkur á grein sem ég rakst á um þessi mál. Sjá http://frontpage.simnet.is/vgv/orkulin.htm. Vil minna á að það er ekki svo langt síðan að vísindamenn sögðu jörðina flata en það hefur breyst síðan. Þeir sem sögðu jörðina hnattlaga höfðu náttúrlega rangt fyrir sér með sama hætti og þessir tveir mætu menn. Þess vegna er ágætt að taka svona kenningum af opnum hug frekar en að útiloka þær og kalla menn loddara og öðrm illum nöfnum fyrir að stunda þessi nývísindi. Tíminn leiðir þetta allt saman í ljós.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 24/11/04 17:41 #

Vil minna á að það er ekki svo langt síðan að vísindamenn sögðu jörðina flata
Værir þú til í að segja meira frá þessum vísindamönnum sem sögðu jörðina flata?

Minni svo á að forn grikkir vissi að jörðin var hnöttótt og reiknuðu út þvermál hennar (og voru ansi nákvæmir)

Nánar: The Myth of the Flat Earth


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/11/04 18:20 #

Karl, sú niðurstaða er fengin að þessi prjóna- og pendúlanotkun skilar engu umfram það að hreinlega geta sér til um hlutina. Og hreyfingar prjónanna eiga sér forsendur því sem kallað er Ideomotor effect.

Það er ekki eins og maður sé að kalla menn loddara upp úr þurru.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 26/11/04 08:49 #

Þessi ideomotor effect er ekta; ég hef upplifað hann á sjálfum mér. Þarf varla að taka fram að þar var ekkert yfirnáttúrlegt á ferðinni. En 'ley lines' voru einhvern tímann þýddar sem 'marklínur' ef ég man rétt. Og norrænir menn á miðöldum vissu líka að jörðin væri hnöttótt. Snorri Sturluson segir, ég man ekki hvort það er í Heimskringlu eða Snorra-Eddu,

Jörðin er ballarlaga.
Böllur hér merkir knött eða bolta. Sbr. 'ball' á ensku. Sæfarendur sáu að þegar þeir nálguðust landið "risu fjöllin úr hafinu" og stundum var miðað við að "sjór næði í miðja hlíð" í einhverju fjalli. Það þurfti ekki snilling til að draga sínar ályktanir út frá því. Ég held að flatjörðungatrú hafi aldrei verið eins allsráðandi og látið er í veðri vaka. Ég held að kirkjan hafi alla tíð haldið því fram og hafi einokað umræðuna þannig að það hafi sjaldan komið fram að til væri fólk sem vissi betur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/11/04 09:09 #

Er böllur bolti? Ég sem hélt að það væri eitthvað allt annað.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 26/11/04 18:59 #

...rafsegulsvið er eitthvað sem vísindin hafa viðurkennt þó enginn ykkar sjái þetta svið berum augum.

Augun eru mælitæki sem nema rafsegulbylgjur með öldulengd á bilinu 400 - 700 nm. Það má því segja að við sjáum ekkert annað en rafsegulbylgjur.
Hins vegar er rétt að við sjáum ekki allar gerðir rafsegulgeislunar. Við höfum hins vegar þróað geysiöflug fræði sem lýsa þessum fyrirbærum og smíðað (alvöru) tæki til mælinga sem ná langt út fyrir mannlega skynjun. Ég fullyrði því að þessir pinnar eru ekki að mæla rafsegulsvið. Ef þeir eru að mæla eitthvað (sem ég hef enga trú á) þá er jafnrökrétt að kalla það hljóðbylgjur, þyngd, rúmmál eða vegalengd eins og að kalla það rafsegulsvið (reyndar held ég að pinnarnir væru best til þess fallnir að mæla vegalengd af þessari uppltalningu).


Kristín - 21/12/08 22:17 #

skemmtileg, rakst á þessa gömlu umræðu á googlinu, ég lét útbúa fyrir mig koparstangir þunnar sem ég hef prófað svona eins og "rugludallarnir" sem þið nefnduð og ég hef aldrei heyrt að þeir tali um að þetta sé yfirnáttúrulegt og ég hef lesið fullt af bókum og auðvitað er fólk mis ýkt en yfirnáttúrulegt chi og þetta nei, bara mismunandi túlkun...en það sem mig langar að spyrja ykkur er að er ég geng með prónanna og ég nálgast áhveðna staði í íbúðinni minni fara þeir á fullt henda sér út og suður í V- og krossast...það er eitthvað sem gerir þessa breytingu og er þá ekki líklegt að maður finni fyrir henni sjálfur ef maður sæti inn í þessum krossi ef svo skal kalla...ég finn að ég fæ eins og smá straum í gegnum mig...langar að þig commentið


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/08 23:49 #

Gúgglaðu ideomotor effect.


Björg F. - 01/08/10 09:09 #

Hmmm... hélt að Vantrú bygðist á vantrú en ekki skilyrtri vísindatrú.. ættuð að skipta um nafn á ykkar ágæta félagi svo það stæði meira undir nafni.

Annars finnst mér persónulega máltækið "Allt er þangað til annað kemur í ljós" eiga vel við hér :)


Anonymous - 02/08/10 02:40 #

Ég er minn eigin mælir og notast við prjóna sem ég held út frá líkamanum. Þeir snúast svo í samræmi við þetta lágspennusegulsvið og það með svo mikilli nákvæmni að það tekur öllu öðru fram t.d. þegar finna á raflínur í jörð.“

Ég hef heyrt af tilraun sem var gerð með þessa prjóna, hún fór svona fram : kjaftæðisvísindamennirnir féllust á það að prjónarnir væru mælitækið. með það á bakvið eyrað er hægt að taka næsta skref í vísindalegri aðferð eftir upplýsingaöflun og skráningu sem er að framkvæma tilraun... í ákveðnu herbergi í höndum manns urðu prjónarnir snælduvitlausir, síðan var framkvæmd tilraun með breytu sem útilokaði mannlega þáttinn gína eða einhver andskoti sem bifast ekki né skelfur eða beitir prjónunum var látin halda á "mælitækjunum" og viti menn þeir högguðust ekki, ekki nein hreyfing enda er hún orsökuð af lófa mannsins.

í þætti penn and teller bullshit þar sem þeir fjalla um svikahrappa miðla, andaglas og særingar var fjallað ítarlega um þann þátt sem maðurinn átti í mælingunni. sálfræðingar þekkja til hugarástands sem auðveldar ómeðvitaða hreyfingu sem veitir iðkanda/fórnarlambi þá tilfinningu að hann eigi engann þátt í hreyfingu glassins í andaglasi...

Einnig gerðu þeir þátt um rafsegulsviðs rugludalla, það svið sem þeir telja sig hljóta skaða af mælist ekki með nákvæmustu ælitækjum í heimi. hinsvegar mældist kjaftæðið og heimskan út fyrir skalann, símabylgjur voru teknar fyrir, sýnt fram á að þær geta undir engum kringumstæðum ollið þeim skaða sem menn telja(æxlismyndun/krabbamein eað álíka í heila) en bylgjurnar eru einfaldlega of stórar til að smjúga í gegnum frumur okkar og valda stökkbreytingu.

amma mín telur sig verða veika af símabylgjum vill ekki hafa gsm síma nálagt sér, í heimsóknum skiljum við síma okkar eftir en pabbi minn ekki. hún veit ekki af símanum og verður þar af leiðandi ekki "veik".

í fréttum nýlega hafa nemendur einhvers grunnskóla kvartað undan höfuðverkjum og álíka vegna fyrirferðamikils síma búnaðar á lofti skólans(endurvarpsstöð eða eitthvað álíka) það er augljóst að unglingar gera allt til að komast undan skóla og ég veit það manna best enda nýlega búinn í grunnskóla... þessu uppgerðu veikindi tapa enn meiri trúverðugleika þegar að tilkynnt var að mun legnur hafði verið kveikt á apparatinu en skólafólkið hélt.

ég tel þennan hausverk vera allgjört bull en það er bara ekki langsótt leið til undankomu úr skóla miðað við það sem ég hef gert. allt var á hreinu og á vitorði allra 10bekkinga hvað hiti skólastofu mátti minnst vera, við opnuðum gluggana í frímínutum, kvörtuðum undan kulda og heimtuðum mælingu. það var farið til hjúkkunnar vegna uppgerðra veikinda, við tókum rafmagnið af með vafasömum hætti, földum námsgögn kennara, töfðum, ég tók það stundum að mér að halda kennaranum á snakki til að komast hjá heimanámi eða einhverjum lærdómi í hverjum tíma með fjölda spurninga, suð tuð og allt sem hægt var. ég var mjög illa séður gaur af kennurunum. ég rökræddi af minnsta tilefni við alla kennara, ég kynnti mér lagalega stöðu mína varðandi eftirsetu og hver hefur rétt til að láta mig framfylgja henni. ég reifst við kennara og frístundaheimilis-starfsmenn þegar þeir þóttust ætla hindra félaga mina ferðum þrátt fyrir að hafa undir höndum vopn eða sígarettur til dæmis. ég hef orðið vitni af mjög mikilli og ranglegri valdbeitingu kennara og skólastjóra en þeir telja sig hafa vald til að hefta okkur frelsi og einnig til að framkvæma leit á eignum nemenda. að gera sér upp hausverk er EKKERT! :D

hér er bara komin uppástunga að efni í nýja grein "ólögmæt valdbeiting valdalausra stétta og brot á mannréttindum grunnskólanema" hehehhe

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.