Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Göbb og aprílgöbb

Lögfræðingurinn Ed rekur keilusal í smábæ í Bandaríkjunum, allavega á miðvikudagskvöldum á RÚV. Fyrsti þátturinn í nýrri syrpu fjallaði um sálfræðing sem Danny DeVito lék. Sálfræðingur þessi var ekki að fara vel með menntun sína, hann notaði hana nefnilega til þess að svindla á fólki.

Svindlið hans DeVito (eða öllu heldur persónu hans) var snilldarlegt í einfaldleika sínum. Það gekk út á það að hann valdi sér hundrað manna hóp sem hann skipti í tvennt. Hann sendi þeim síðan upplýsingar um úrslit íþróttaleiks, 50 fengu miða þar sem stóð að lið X myndi vinna en 50 fengu miða þar sem stóð að lið Z myndi vinna. Eftir leikinn skipti sálfræðingur svikuli þeim 50 sem höfðu fengið rétt úrslit í tvo hópa og sendi þeim úrslit í öðrum leik, þetta endurtók hann þar til hann var kominn með fámennan hóp af fólki sem var sannfært um spádómshæfileika hans. Þessi litli hópur sá vitaskuld möguleikann á því að græða með því að veðja á úrslit íþróttaleikja og var þar af leiðandi tilbúinn til að borga þóknun fyrir að fá úrslitin fyrirfram. Svikahrappurinn náði að græða töluvert á þessu svindli sínu.

Sálfræðingurinn benti á að fólk er fyrirsjáanlegt, það er hægt að spá fyrir um hegðun þess (enda höfum við ekki frjálsan vilja) og því er auðvelt að spila á það. Flestir vita að það er ekki hægt að spá fyrir um úrslit íþróttaleikja (nema kannski ef Arsenal keppir við Einherja frá Vopnafirði) en það er ákaflega freistandi að trúa því að það sé hægt. Það væri indæll heimur þar sem hægt væri að græða fyrirhafnarlítið á veðmálum en jafnvel færustu fjárhættuspilarar heims tapa stundum, þrátt fyrir að þeir þekki allar líkur þá er ekki hægt að vita neitt fyrir víst.

Það vantar stundum að það kvikni á viðvörunarljósi hjá fólki. Fólkinu sem sálfræðingurinn var gabba datt ekki í hug að spyrja sig hvers vegna spámaðurinn væri að selja þessar upplýsingar frá sér, af hverju hann væri ekki bara að veðja sjálfur eða láta vini og ættingja veðja fyrir sig. Kviknuðu kannski viðvörunarljós sem voru bara hunsuð vegna óskhyggju og sjálfsblekkingar? Var þetta valkvæm hugsun?

Í dag er fyrsti apríl, það er dagurinn sem við sjáum hve auðvelt er að plata fólk. Í kvöld og á morgun munu fjölmiðlar monta sig af því hve margir hafi fallið fyrir gabbinu þeirra. Það er auðvelt að sjá í gegnum flest aprílgöbb en flest höfum við þó einhvern tíman trúað einhverju gabbinu, þó að eftir á höfum við hrist höfuðið í vantrú yfir eigin trúgirni. Það er gott að muna eftir þessari trúgirni okkar þegar við hugsum til miðla, sænska pýramídasvindlsins, peningakeðjubréfanna sem gengu fyrir svona áratug, Jesú, Múhammeðs og allrar annarrar vitleysu sem fólk fellur fyrir.

Þess má annars geta að fyrsti apríl markaði áður fyrr endalok nýárhátíðar (þá var 25. mars nýársdagur) og voru ærsl hluti af þessum fögnuði. Seinna meir komu fram skýringar sem áttu að kristna þennan hátíðisdag einsog svo marga aðra, til að mynda var haldið fram að á þessum degi hefði:

  • Júdas hengt sig.
  • Júdas átt afmæli.
  • Jesús verið sendur frá Heródesi til Pílatusar.
  • Nói sleppt hrafni til að finna land (hrafninn sneri ekki til baka, mér líkar alltaf vel við hrafna).
  • Satan fallið frá himnaríki eftir uppreisnartilraun (hvaða dagatal ætli Guð noti?).

Margir féllu fyrir þessum aprílgöbbum en sannleikurinn er auðfundinn, til dæmis í bókinni Saga Daganna frá árinu 1993 eftir Árna Björnsson, við hér á Vantrú gerum síðan okkar besta til að benda öll hitt platið.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.04.2004
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Sverrir - 01/04/04 15:16 #

Var það ekki dúfa sem fann land fyrir Nóa? Ertu nokkuð að rugla honum saman við Hrafna-Flóka?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/04/04 16:02 #

Hann sendi fyrst hrafn sem stakk bara af þannig hann þurfti að senda dúfuna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.