Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frjáls vilji og hugsanafrelsið

Niðurstöður nýjustu heilarannsókna renna stoðum undir það sem alla grunar en fáir þora að segja upphátt: Við höfum ekki frjálsan vilja.

Með tilkomu PET-skannans hefur kortlagning heilastarfsins tekið gríðarlegum framförum og er svo komið að hægt er að benda nákvæmlega á hvar starfrænar truflanir eiga sér stað þegar menn hafa tapað hæfileikanum til ákveðinna hluta. Og kannski eru merkilegustu fréttirnar þær að alls kyns andfélagsleg og glæpakennd hegðun á sér orsakir í slíkum truflunum en fellur ekki lengur undir "illt innræti" eða "mannvonsku" á nokkurn hátt. Því er viðbúið að öll meðhöndlun sakamanna muni í framtíðinni taka miklum breytingum, því hvers vegna ættum við að refsa bilaðri vél?

Í niðurlagsorðum bókarinnar Kortlagning hugans segir:

Meðan tilfinningar okkar og athafnir birtust eins og fyrir galdur út úr lokuðum heimi heila okkar var óhjákvæmilegt að innsæisskýringin á huganum réði ríkjum, og sem vinnutilgáta hefur hún gagnast okkur vel öldum saman. En nú þegar búið er að opna þennan lokaða heim er að verða erfitt að halda tvíhyggjunni til streitu. Rannsóknirnar sem lýst er í þessari bók sýna að þegar við horfum inn í heilann sjáum við að athafnir okkar stafa af skynjunum og skynjanir okkar eru orðnar til fyrir heilavirkni. Og þessi virkni er að sínu leyti ákvörðuð af uppbyggingu tauga sem eru mótaðar af samspili erfða okkar og umhverfis. Það sjást engin merki um neitt Descartes-loftnet sem er stillt á annan heim.

Margir eiga erfitt með að sætta sig við þá hugmynd að gerðir okkar séu gersamlega vélrænar og sumir sjá fyrir sér einhvers konar dómsdag ef hún nær einhverntíma útbreiðslu. Verði ekki hægt að gera fólk ábyrgt gerða sinna, segja þeir, munum við öll gefa ábyrgð okkar upp á bátinn, gefa okkur óvirkri örlagatrú á vald og láta hömlulaust undan sérhverri hvöt.

Eitt svarið við þessu er að já, kannski mundum við gera það - ef við gætum. En þannig vinnur vélin ekki. Eins og við höfum séð eru sumar blekkingar forritaðar af slíkri festu inn í heila okkar að einber vitneskja um að þær séu rangar kemur ekki í veg fyrir að við sjáum þær. Viljafrelsi er ein þessara blekkinga. Við viðurkennum kannski með skynseminni að við séum vélar, en við munum halda áfram að haga okkur og finna til eins og við séum innst inni frjáls undan vélrænum skipunum.

Blekking viljafrelsisins er rótgróin einmitt vegna þess að hún kemur í veg fyrir að við sökkvum niður í sjálfseyðandi hugarástand örlagatrúar - hún er ein af sterkustu vopnum heilans í lífsbaráttunni. En eins og svo mörg af lífsafkomukerfum okkar vinnur hún ekki lengur okkur í hag að öllu leyti. Með því að skapa þá blekkingu að hvert okkar eigi sér „ég“ sem sjálft tekur ákvarðanir veldur hún því að við refsum þeim sem virðast haga sér illa, jafnvel þótt refsingin þjóni bersýnilega ekki neinum hagnýtum tilgangi. Hún hvetur okkur einnig til að líta á starfrænar bilanir í heilanum sem veikleika einhvers óefnislegs „sjálfs“ fremur en líkamlega sjúkdóma. Þessi brengluðu viðhorf voru sennilega gagnleg áður fyrr vegna þess að þau hröktu andfélagslegt og veiklað fólk burt úr ættbálknum. Núna valda þau bara þjáningum. Tilfinningalega getum við haldið áfram að trúa því að við séum annað og meira en vélar, en það þarf ekki að koma í veg fyrir að við tökum það andstæða gilt með skynseminni og lögum siði okkar að þeirir vitneskju - eins og fram hefur komið á heilinn ekki í neinum vandræðum „vita en vita samt ekki“. Fyrir okkur sem einstaklinga er það „djúplæga“ vitneskjan sem er rótgróin í tilfinningaheila okkar sem mun ævinlega hafa yfirhöndina, en í samskiptum okkar við aðra er áreiðanlega betra að láta skynsemisheilann ráða.
(bls. 206 - 7)

Nú er það svo að þeir sem hafna átrúnaði og aðhyllast gagnrýna hugsun tala gjarna um það hugsanaferli sitt sem hugsanafrelsi (free thought). Þetta sama fólk verður oftar en ekki efnishyggjufólk sem sér meðvitundina sem afrakstur eðlis- og efnafræðilegra ferla, fremur en birtingarmynd eilífrar sálar. Það er dálítið kaldhæðnislegt að lokaniðurstaða hugsanafrelsingjanna skuli verða sú að hinn frjálsi vilji sé aðeins blekking.

En við sættum okkur samt alveg við það. Það er meira að segja hægt að sjá í því ákveðna fegurð.

Birgir Baldursson 20.03.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Kvistur - 21/03/04 14:03 #

Svo virðist sem hinn frjálsi vilji sé auðveld bráð þeirra sem þekkja mátt sannfæringunnar. Að segja það nógu oft skiptir öllu, hvort það er sannleikur eða lýgi, skiptir engu. Kirkjan veit það, Hitler vissi það og auglýsingar þrífast á því.


Bjartur - 04/05/05 21:21 #

Manninum finnst hann hafa frjálsan vilja og vitund en í rauninni erum við bara hluti af jörðinni sem er bara hægt að rannsaka utan frá, eki að innan.


Þórður Sveinsson - 05/05/05 03:21 #

Jæja, setjum svo að við höfum ekki frjálsan vija og frjálsa hugsun - af hverju í ósköpunum eruð þið þá, mínir mjög svo ágætu Vantrúarmenn, að halda úti þessum frábæra vef? Er einhver tilgangur í því ef við erum bara vélar? Er það ekki einmitt út af frjálsri hugsun sem þetta vafstur ykkar hefur áhrif á fólk?

Annars held ég að þið getið ekki ímyndað ykkur hversu oft ég er búinn að ýta á „delete“-takkann á meðan ég er búinn að vera að skrifa þessa færslu - já, og ég held það satt að segja að það sé mikið afrek af minni hálfu að hafa getað skrifað hana stafsetningarvillulaust! Já, þannig er nú það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/05 12:19 #

Jæja, setjum svo að við höfum ekki frjálsan vija og frjálsa hugsun - af hverju í ósköpunum eruð þið þá, mínir mjög svo ágætu Vantrúarmenn, að halda úti þessum frábæra vef?

Um þennan skemmtilega paradox fjallar einmitt greinin hér að ofan, sbr: „Það er dálítið kaldhæðnislegt að lokaniðurstaða hugsanafrelsingjanna skuli verða sú að hinn frjálsi vilji sé aðeins blekking.“

Við lifum einfaldlega í þeirri sjálfsblekkingu að við höfum frjálsan vilja og hegðum okkur svo í samræmi við það. Öðruvísi fengjum við ekki almennilega þrifist.

En hegðunin er þegar upp er staðið fyrirsjáanleg og útreiknanleg - af því að við erum vélar.


Guðjón - 05/05/05 14:05 #

Þessi niðurstaða hefur heldur betur afleiðingar. Úr því að ég ekki frjálsan vilja hvernig er þá hægt að álasa mér fyrir að hafa vitlausar skoðanir eða gera eitthvað rangt. Úr því að ég lifi í þeirri blekkingu að ég geti valið og hafnað t.d. á grundvelli þess sem mér finnst skynsamlegt er það ekki líka blekking að hægt sé að velja einn kost sem er skynsamlegur og hafna öðrum sem er óskynsamlegur. Er þá yfirleitt til nokkur skynsemi, er það sem við köllum skynsemi þægileg tilfinning sem við fáum stundum. Vélar sem stjórnast algjörlega af aðstæðum og skilyrðum sem þær ráða engu um hafa ekkert með það að gera að ræða málin. Hvað með réttarkerfið sem byggir einmitt þeirri forsendu að við getum valið og hafnað? Hvað með lýðræði sem byggist á þeirri forsendu að kjósendur geti valið milli ólíkra valkosta. Er það ekki þannig að vísindahyggjan sem flytur þann boðskap sem lætur ljúft í eyrum að öll trúarbrögð séu rugl, kippir líka fótunum undan því þjóðskipulagi sem við búum við. Orð eins og frelsi, skynsamlegt val, ábyrgð, fegurð eða kærleikur, rétt eða rangt o.s.frv. hafa enga merkingu samkvæmt vísindahyggjunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/05 14:29 #

Úr því að ég lifi í þeirri blekkingu að ég geti valið og hafnað t.d. á grundvelli þess sem mér finnst skynsamlegt er það ekki líka blekking að hægt sé að velja einn kost sem er skynsamlegur og hafna öðrum sem er óskynsamlegur. Er þá yfirleitt til nokkur skynsemi, er það sem við köllum skynsemi þægileg tilfinning sem við fáum stundum.

Mér sýnist þú detta í Slippery Slope rökvilluna hér, Guðjón, eða dregur í það minnsta of stórar ályktanir. Þótt við séum lífrænar vélar getum við lært. Við skilyrðumst af umhverfinu og áttum okkur á að hegðun okkar hefur afleiðingar. Og ætli skynsemi okkar gangi ekki bara út á þetta nám og hegðunarbreytingar í kjölfarið. Í stuttu máli mætti því ef til vill skilgreina skynsemina sem hæfileikann til að sjá orsakasamhengi hlutanna, svo málin séu nú einfölduð dálítið.


Þórður Sveinsson - 05/05/05 14:54 #

Árans! Það var víst ein villa í þessu hjá mér :)

En það verður víst bara að hafa það. Annars finnst mér þessi klausa í hinum tilvitnaða texta sérlega athyglisverð:

„Eins og við höfum séð eru sumar blekkingar forritaðar af slíkri festu inn í heila okkar að einber vitneskja um að þær séu rangar kemur ekki í veg fyrir að við sjáum þær.“

Og líka þessi hér:

„Tilfinningalega getum við haldið áfram að trúa því að við séum annað og meira en vélar, en það þarf ekki að koma í veg fyrir að við tökum það andstæða gilt með skynseminni og lögum siði okkar að þeir vitneskju - eins og fram hefur komið á heilinn ekki í neinum vandræðum „vita en vita samt ekki“.“

Þetta minnir mig á mjög áhugaverða pælingu í 1984 eftir George Orwell. Þar er fjallað um samfélag manna eins og það hefur mótast undir einræðisstjórn að loknu kjarnorkustríði. Svokölluð tvíhyggja er þar innrætt fólki, þ.e. ákveðin leið til að „vita en vita samt ekki“. Stöðugt er verið að breyta öllum skráðum gögnum um fortíðina þannig að þau falli að þeirri mynd sem er hagstæðust alræðishyggjuflokknum hverju sinni. En ljóst er að fólk hlýtur óhjákvæmilega að verða vart við breytingarnar. Flokkurinn vill hins vegar að það raunverulega trúi því að hann hafi ávallt lög að mæla. Þess vegna er fólk þjálfað í því að „vita en vita samt ekki“ eins og það er orðað í hinum tilvitnaða texta – m.ö.o., það lætur sig „gleyma“ því sem það vissi áður þannig að vitneskja þess sé ávallt í samræmi við flokkslínuna.

Hér fjallar Orwell um samfélag þar sem „hæfileikinn“ til að „vita en vita samt ekki“ er misnotaður herfilega til að skapa andstyggilegt, mannfjandsamlegt þjóðfélag. Í hinum tilvitnaða texta kemur hins vegar fram það viðhorf að þessi „hæfileiki“ sé nauðsynlegur til að við getum yfir höfuð búið í samfélagi. Þannig að nálgun höfundar hins tilvitnaða texta og Orwells er svo sannarlega ólík.


Þórður Sveinsson - 05/05/05 14:58 #

En það væri vissulega kaldhæðnislegt ef þið Vantrúarmenn, sem berjist gegn blekkingum af öllu tagi og reynið að fá fólk til að hætta að lifa í sjálfsblekkingu, yrðuð svo eftir allt saman að viðurkenna ákveðna sjálfsblekkingu sem nauðsynlegan grundvallarþátt í samfélaginu. Hins vegar held ég að þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af þessu. Við höfum vissulega frjálsan vilja og það að heilastarfsemin stjórnist af taugaboðum og lífefnisfræðilegum ferlum breytir því ekki.

Eða var það ekki frjáls hugsun sem varð til þess að Einstein kom fram með afstæðiskenninguna? Og gildir ekki hið sama um það þegar Darwin setti fram kenningu sína um þróun tegundanna?

Jú, það held ég. Þaulhugsaðar vísindakenningar eins og þessar geta ekki verið annað en afrakstur frjálsrar hugsunar. Og hið sama gildir um margt annað, bæði góða hluti og slæma. Hver sá sem kynnir sér söguna á bak við þjóðarmorðin í Rúanda árið 1994 getur þannig ekki litið öðruvísi á málið en svo að skipuleggjendur þess hafi vissulega haft til að bera frjálsa hugsun sem samfara óheyrilegri mannvonsku varð helsti hvati þessa hræðilega glæps.

Hins vegar kann að vera að ýmsir þeirra sem tóku þátt í þjóðarmorðunum – já, mennirnir með sveðjurnar – hafi gert það án nokkurrar frjálsrar hugsunar. Fullkomlega slævðir af áfengi og gegndarlausum kynþáttaáróðri – og örvaðir af þeirri skelfilegu múgsefjun sem greip um sig – hafi þeir unnið illvirki sín án þess í raun að hafa nokkra sjálfsstjórn. Þeir voru sem sé aðeins vélar sem ríkisstjórnin beitti fyrir sig til að útrýma „hinum óæskilegu“.

Og þannig er að ýmislegt sem við segjum og gerum er sennilega ekki afrakstur frjálsrar hugsunar. Það hefur komið fyrir alla að hafa misst stjórn á sér og segja eitthvað sem betur hefði verið látið kyrrt liggja – og sumir hafa við slíkar aðstæður gert eitthvað óyfirvegað sem orðið hefur til að eyðileggja líf sjálfra þeirra og annarra. En þetta breytir því ekki að flest það sem við gerum stjórnast af frjálsum vilja okkar. Ef ekki væri fyrir hann þá væru enda engin vísindi til – og ekki heldur bókmenntir, tónlist, byggingarlist, stjórnmál, heimspeki o.s.frv o.s.frv.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/05 15:14 #

ÉG held að menn geri hér of mikið úr hugmyndinni um að hafa ekki frjálsan vilja. Það táknar ekki að við séum jafnfyrirsjáanlegar vélar og þær sem við höfum sjálf smíðað. Við erum svo miklu flóknari að fyrirsjáanleikinn og útreiknanleikinn er á allt öðru plani. En samt sem áður erum við fyrirsjáanlegar vélar.

Við getum lært. Það er lykillinn að því að skilja þetta réttum skilningi. Einhverntíma tók ég dæmi af bifreið sem útbúin væri gríðarlega öflugri tölvu, myndavélum, míkrófónum og jafnvel lyktarskyni, sem gerði henni fært að læra af reynslunni og ráða í aðstæður út frá þekkingu sinni. Semsagt bifreið sem keyrði sjálf. Slík bifreið, sem yrði að teljast skynvera, myndi kannski á einhverjum tímapunkti fara að reikna út líkindi þess að hún kæmist yfir á rauðu ljósi brunandi án þess að lenda í árekstri. Og líkindareiknirinn í hinum flókna hugbúnaði hennar kæmist að þeirri niðurstöðu að henni væri tiltölulega óhætt að gera þetta milli klukkan 3 og 6 á nóttunni. Og allt í einu væri þessi bíll farinn að þjóta yfir á rauðu ljósi á þessum tíma sólarhringsins.

Frjáls vilji? Eða kannski bara búnaður sem kann að læra af reynslunni?


Guðjón - 05/05/05 15:29 #

Ég er sammála Þórði um frjálsan vilja þ.e. frjáls val er mögleiki en ekki sjálfgefin, en ég er ekki sammál honum um afleiðingarnar fyrir vantrúarmenn. Það er löngu komin tími til að t.d. Birgir átti sig á því að vísindahyggjan gengur ekki upp. Ein af veikleikunum við málfluting vantrúarmanna er skortur á gagnrýni hugsun. Mér finnst menn hér allt of reiðubúnir að gleypa við alls konar dellu ef hún hefur á sér yfirbragð vísinda og efahyggju. Dæmi um þetta er tilvitnuð klausa úr Kortlagninu hugans sem er reyndar skrifuð af blaðamanni en ekki vísindamann ef ég man rétt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/05 15:52 #

Skortur á gagnrýninni hugsun segir Guðjón og gefur sér þar með að klausan upp úr Kortlagningu hugans hljóti að vera heilaspuni þess er hana ritaði.

Guðjón, þessi niðurstaða þarna í bókinni er afrakstur rannsókna á heilastarfinu, niðurstaða sem, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er líklegri til að vera sönn en eldri hugmyndir okkar um frjálsan vilja.

Mér finnst menn hér allt of reiðubúnir að gleypa við alls konar dellu...

Ef þú sjálfur trúir á guð(i) og á heilagleika einhverra gamalla rita ættirðu að beita þessari setningu beint á sjálfan þig.

Þórður, ég skrifaði pistilstúf á sínum tíma um þessa tvíhyggju Orwell. Þú gætir haft gaman af því að lesa hann.


Guðjón - 05/05/05 21:14 #

Það verður að gera greinamun á beinu niðurstöðum og túlkun á niðurstöðum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/05 22:10 #

Það verður líka að gera greinarmun á þeim sem komast að niðurstöðunum og þeim sem skrifa um þær í bókum.


Þórður Sveinsson - 06/05/05 16:52 #

Snjallar pælingar í þessari grein sem þú bentir mér á, Birgir.

En það að athafnir okkar stafi af skynjunum og að skynjanir okkar séu orðnar til fyrir taugaboð, lífefnafræðileg ferli og annað slíkt útilokar ekkert frjálsan vilja.

Eða hvers vegna ætti ekki að geta verið til vél, í þessu tilviki heilinn, taugakerfið, kirtlar sem gefa frá sér hormón og annað slíkt, sem er fær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir?

Með „sjálfstæðum ákvörðunum“ á ég þá við ákvarðanir sem ekki eru fyrirsjáanlegar og útreiknanlegar á nokkurn hátt, hvort sem einfalt er eða flókið – já, jafnvel óyfirstíganlegt verkefni – að sjá þær fyrir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/05/05 22:34 #

Við lifum einmitt í þeirri blekkingu að svo sé, en þegar allt er skoðað virðist sem þessi kompjúter í hausnum á okkur láti menn sýna af sér fyrirsjáanlega hegðun í hvívetna. Breyturnar eru bara svo margar og aðstæðurnar svo margvíslegar að við komum ekki auga á það.

En auðvitað væri ég alveg til í að frjálsi viljinn væri raunverulegur. Ég læt hins vegar staðreyndirnar skyggja á þá óskhyggju. Það er hið eina heiðarlega í stöðunni.


Þórður Sveinsson - 10/05/05 17:28 #

Eftirfarandi færslu, ritaða af þér, rakst ég á í spjalli um grein eftir þig hér á vefnum:

Ég skil ekki hvernig hægt er að skamma menn fyrir óheiðleika þar sem þeir hafa ekki frjálsan vilja.

Þótt mennirnir séu lífrænar vélar geta þær lært og leitast við að skilja heiminn sem réttustum skilningi. Þú lætur gera við bílvél sem brennir smurolíunni. Á sama hátt má benda trúmönnum á sinn andlega olíubruna og mengunina sem af honum stafar.

Með skömmum, sem verða til þess að sá sem fyrir þeim verður lærir eitthvað, er með öðrum orðum verið að gera honum greiða, ef ég skil þig rétt. Þær geta sem sé verið nauðsynlegar til að hin lífræna vél, sem maðurinn er, sýni viðbrögð sem leiða til framfara og aukinnar hamingju – eða er það ekki það sem þú átt við?

Sem sagt: Hin siðferðislega réttlæting fyrir skömmum, refsingum og öðrum neikvæðum afleiðingum hegðunar fólks er ekki lengur sú að það sjálft hafi kosið að breyta illa og verðskuldi þess vegna afleiðingarnar, heldur að þessar afleiðingar séu nauðsynlegar til að móta hið vélræna hugarfar fólks og beina því þannig á rétta braut.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/05 17:32 #

Skömmum? Ég kýs að kalla þetta ábendingar. Ég er t.d. ekki fylgjandi hörðum refsingum glæpamanna, heldur að þeim sé kennd viðurkennd hegðun. Í vil lágmarka eymdina í veröldinni og grimmd og refsingar auka aðeins á hana.


Þórður Sveinsson - 10/05/05 18:52 #

Jamm, ég sé að í þeirri færslu þinni, Birgir, sem ég vísaði til í minni síðustu færslu, ræddir þú aðeins um að einhverjum væri bent á eitthvað en ekki að hann yrði fyrir skömmum. Ég vildi aftur á móti færa umræðuefni ykkar Guðjóns, sem þú varst að svara, í víðara samhengi þannig að það næði til afleiðinga rangrar hegðunar í allravíðasta skilningi, þ.e. á öllum sviðum þjóðfélagsins og af hvaða tagi sem þær væru. Ég var því ekkert að hengja mig í hina tiltölulega þröngu merkingu orða þinna en hefði kannski mátt gefa það til kynna til að koma í veg fyrir misskilning.

Þess má hins vegar geta að eitt sinn var sú stefna mjög ofarlega á baugi að refsingar ættu að vera meðferð en ekki eiginlegar refsingar. Sú stefna, hin svokallaða meðferðarstefna, eins og Jónatan Þórmundsson lagaprófessor kýs að kalla hana, var mjög misheppnuð miðað við lýsingu hans í bókinni Afbrot og refsiábyrgð. Í henni fólst að unglingum var jafnvel haldið inni árum saman á eins konar meðferðarheimilum, t.d. í Bandaríkjunum, fyrir smávægileg brot þar sem þeir þóttu aldrei nægilega endurhæfðir. Þessi stefna, sem var mjög vinsæl á 19. öld og fram eftir þeirri 20., nýtur ekki mikillar hylli nú – enda gerði meðferðin oft á tíðum aðeins illt verra – þó að sjálfsögðu sé víðast hvar, a.m.k. þar sem menn hafa fjárhagslega burði til þess, reynt að veita föngum viðeigandi meðferð. Vera má hins vegar að framfarir í sálfræði og öðrum fræðigreinum hafi nú orðið slíkar að meðferðarstefnuna megi endurvekja.

En jæja, ég er víst kominn út um víðan völl. Ítarleg umfjöllun um stefnur í refsimálum á kannski ekki beint heima á þessum vettvangi þó áhugaverð sé. Annars var punkturinn hjá mér í síðustu færslu í raun og veru þessi: Ef við höfum ekki raunverulegan frjálsan vilja, hver er þá hin siðferðislega réttlæting fyrir því að slæm hegðun fólks hafi neikvæðar afleiðingar, hverjar svo sem þær eru, s.s. hvort einstaklingi sé refsað eða hann látinn gangast undir viðeigandi meðferð þar sem hann lærir viðurkennda hegðun?


Þórður Sveinsson - 10/05/05 19:01 #

Þannig er að ég held að einhvers staðar í okkur öllum leynist sú hugsun að þeir sem gera eitthvað af sér, a.m.k. eitthvað verulega illt, verðskuldi makleg málagjöld, hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Höfum við engan frjálsan vilja þá verðskuldum við í raun og veru ekki neitt. Sá sem stendur sig vel í lífinu gerir það þá bara vegna þess að hann er svo heppinn að hafa fæðst sem tiltölulega velheppnað eintak sem ólst upp við ákjósanlegar aðstæður og sá sem gerir eitthvað skelfilegt af sér af fyllstu yfirvegun gerir það bara vegna þess að hann er svo óheppinn að hafa fæðst sem illmenni – eða orðið fyrir slíkum umhverfisáhrifum að hann gat ekki orðið annað.

Allt veltur þá á heppni og óheppni, ekki sjálfstæðum ákvörðunum. Fyrirlitning á mönnum, sem skipuleggja þjóðarmorð, á þá engan rétt sér. Að sama skapi á þá aðdáun á til að mynda miklum vísindamönnum engan rétt á sér heldur. Það illa eða góða, sem þessir menn gera fyrir heiminn, stafar bara af vélrænni breytni sem þeir hafa ekki nokkra minnstu stjórn á. Þetta er auðvitað mjög nýstárleg tilhugsun fyrir marga, a.m.k. mig.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/05 19:23 #

Við öll höfum komið okkur saman um hvað sé æskileg hegðun og auðvitað reynum við að styrkja hana á kostnað óæskilegrar. Markmiðið er vel fúnkerandi samfélag þar sem eymdin er lágmörkuð til að ryðja velsæld brautargengi.

Því verður að sjálfsögðu að taka á óæskilegri glæpahegðun, þótt þeir sem hana hafi í frammi geti kannski ekki að henni gert. Ég er sannfærður um að siðblindu fólk má kenna æskilega hegðun. Þetta fólk getur lært eins og aðrir og ætti að geta séð að það sjálft er upp á samfélagið komið eins og við hin.

Ekkert réttlætir grimmd í garð afbrotafólks. En samfélaginu er best borgið að það sé tekið úr umferð meðan hin æskilega hegðun er því kennd.


Þórður Sveinsson - 10/05/05 20:30 #

Þetta svarar mínum spurningum og ég er þér að sjálfsögðu sammála um að ekkert réttlætir grimmd í garð þeirra sem brjóta af sér hvað sem líður tilfinningum á borð við fyrirlitningu og reiði. Ég held líka að sú hugmynd að viljinn sé ekki frjáls í dýpsta skilningi sé til þess fallin að hafa mannbætandi áhrif – hún getur hjálpað fólki að láta orð sín og gerðir stjórnast af skynsemi þannig að sterkar tilfinningar á borð við fyrirlitningu eða óhóflega aðdáun villi því ekki sýn; það lítur sem sé ekki á neinn sem annaðhvort djöful eða guð í mannsmynd en skynjar alla sem manneskjur. Það hefur svo í för með sér að orð þess og gerðir mótast síður af grimmd eða lágkúrulegri lotningu.

Hvað sem því líður er ég síður en svo afhuga hugmyndinni um frjálsan vilja og frjálsa hugsun. Mér finnst ekkert rangt við það að nota þessi hugtök þó svo að að allt sem við hugsum, segjum og gerum stafi af taugaboðum og lífefnafræðilegum ferlum. Í allradýpsta skilningi má ef til vill segja að allt sé fyrirsjáanlegt og útreiknanlegt eftir einhverjum leiðum – þó að oftast séu þær allt að því óendanlega flóknar – en við hljótum þó, hvernig sem þessu er háttað, að mega nota einhver orð yfir þá tilfinningu okkar að við njótum þrátt fyrir allt frelsis. Þetta eru þá einhvers konar myndlíkingar… – en, jæja, nú er ég kannski kominn út í einhver grænsápufræði og kominn tími á að stoppa :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/05 20:38 #

Mér finnst alveg óhætt er að nota hugtök á borð við hugsanafrelsi og jafnvel frjálsan vilja. Þessi grein hér að ofan fjallar reyndar um þá dílemmu að vita sig ekki hafa frjálsan vilja á sama tíma og maður berst fyrir hugsanafrelsi.

En ef við snúum okkur aftur að greinninni sem kveikti þessa umræðu, þá er hún hvorki skammir né er hún skrifuð af fyrirlitningu og refsigleði. Hún er aðeins hlutlæg ábending til trúmanna um þann óheiðarleika sem mótar lífsviðhorf þeirra, svo þeir geti áttað sig.

Hún er aðeins ábending.


Þórður Sveinsson - 10/05/05 21:36 #

Ég sé að sú færsla mín, sem kveikti þessa umræðu, hefur valdið misskilningi. Af því tilefni vísa ég til skýringa minna hér að ofan. Satt að segja hafði ég alls ekki grein þína í huga þegar ég notaði orðið „skammir“. Þegar ég lít yfir þetta sé ég hins vegar að orðalag mitt var fljótfærnislegt og biðst ég velvirðingar á því.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 16/09/05 18:14 #

We have to believe in free-will. We've got no choice. Isaac Bashevis Singer

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.