Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ástríðan

Skjáskot úr Life of Brian


Miklar deilur hafa sprottið um myndina um mannssoninn og getum við hér á Vantrú ekki hunsað þetta þrekvirki kvikmyndasögunnar. Sannleiksgildið skiptir ekki máli heldur boðskapurinn. Aðalleikarinn kemst yfirleitt vel frá þessu erfiða hlutverki en ekki er hægt að líta framhjá því hve utangátta hann er í mörgum atriðum myndarinnar, hann lítur í raun út fyrir að vera timbraður en kannski eru aðrar skýringar á þessu.

Það hefði verið auðvelt að sýna móður meistarans sem fagra konu en leikstjórinn tekur annan pól í hæðina og sýnir hana sem einkar óaðlaðandi kerlingu með óheft málfar. Þetta leyfir innri fegurð hennar að taka völdin í myndinni, ást hennar á syninum fær dýpri merkingu. Þegar móðirin lætur mannssoninn vita af raunverulegu faðerni sínu þá umturnar það lífi hans, hann áttar sig á hver köllun hans er og þarf að yfirgefa móður sína sem fyllist angist.

Ástarsamband meistarans hefur í gegnum tíðina verið túlkað í mjög mismunandi hátt. Í þessari mynd er konan í lífi mannssonarins sýnd sterk og sjálfstæð sem að lokum áttar sig á að hún getur lifað án hans vegna þess að hún skilur boðskap hans í hjarta sínu. Þegar þau verða náin veldur það togstreitu milli sonar og móður sem vill ekki skilja að hann er fullorðinn maður sem má gera það sem hann vill.

Þegar predikun fagnaðarerindisins hefst koma fram margskonar erfiðleikar. Fyrst lendir hann á þeim sem bara vilja ekki trúa vegna þess hve hjarta þeirra er kalt, næst verður hann fyrir aðsúgi fólks sem vill að hann svari öllum spurningum þeirra sama hve ómerkilegar þær eru en að lokum fær hann aðstoð félaga sinna sem virðast þó vera hálfgerðir tækifærissinnar sem sjá hann sem vopn í baráttunni við Rómverjana. Þetta verður skiljanlegra þar sem þjóðfélagsástandinu í Palestínu á tímum Jesú eru gerð góð skil í myndinni, allt er á suðupunkti, samsæri á hverju strái og það er skiljanlegt að margir hafi haldið að meistarinn væri byltingarleiðtogi.

Sýnt er hve óþakklátir hinir læknuðu gátu verið, líklega er leikstjórinn að sýna hve sumir geta verið kaldrifjaðir menn geta verið þau sannleikurinn sé beint fyrir framan þá. Maðurinn sem Jesús læknaði af holdsveiki hugsar bara um að hann þurfi að finna sér vinnu en mállausi maðurinn vill ekki einu sinni deila mat sínum með mannssyninum og fylgismönnum hans.

Boðskapurinn nær hápunkti þegar fylgismönnunum er kennt að þeir séu einstaklingar sem þurfa að finna sér eigin tilgang án þess að nokkur maður skilji hann. Þegar klofningur myndast í röðum fylgismanna meistarans má greina ósk leikstjórans um að eitthvað sterkt yfirvald leiði hinn kristna heim að sannleikanum, það má greina sorg hans yfir því að stórir hópar hunsi raunveruleikann.

Deilt hefur verið um margt varðandi þessa mynd, til dæmis um hvort mannssonurinn hafi kunnað latínu en að mínu mati var það atriði bara nokkuð sannfærandi, sérstaklega þar sem hann er auðmýktur af rómverskum hermanni fyrir að fara rangt með latneskan texta. Í einu atriði fannst mér myndin raunverulega fara yfir strikið og það voru þessar geimverupælingar, þær eru hugsanlega einhver tilvísun í fyrri mynd hans en á ekkert skylt við söguþráð myndarinnar.

Mikið hefur verið rætt um þá ákvörðun leikstjórans að láta fólk leika persónur af gagnstæðu kyni, þarna eru ófáar tilvísanir í samkynhneigð. Oft virðist það vera í því skyni að gera grín að samkynhneigðum en það gengur aldrei það langt að það sé móðgandi. Minna hefur verið gert úr því hvernig leikstjórinn kýs að lítillækka málhalta í myndinni, ýmis baráttusamtök þessa hóps hafa reynt að gagnrýna myndina en samt sem áður hefur lítið heyrst í þeim.

Rómverjarnir í myndinni eru drambsamir, þeir líta augljóslega á íbúa landsins sem aumkunarverða sveitadurga. Reyndar sýnir myndin að Rómverjar voru í raun á allt öðru menningarstigi en gyðingarnir. Gyðingar hafa ekki allir verið ánægðir með þessa mynd. Atriðið þegar múgurinn á að velja einhvern til að frelsa gefur nú ekki jákvæða mynd af fólkinu þarna en ég hef líka fengið að sjá atriði sem klippt var úr myndinni sem var með sterka tilvísun í nasisma, líklega var best að það var klippt út en það er samt magnað.

Ofbeldið í myndinni er gróft, samfélagið sjálft virðist gegnsýrt af ofbeldi og virðast mannslíf engu skipta. Þetta sést best á fanga sem hefur kvalist hjá Rómverjum í fimm ár, þetta atriði er mikilvægt til þess að sýna að þær pyntingar sem Jesús fékk að þola í lok lífs síns voru í raun ekkert í samanburði við það sem hann hefði fengið að þola ef Rómverjar hefðu kosið að misþyrma honum með þeirri hugmyndaauðgi sem þeir höfðu í þessum efnum.

Kristsgervingurinn myndarinnar er mjög táknrænn. Hann segir okkur að við verðum að vara okkur því það er auðvelt að spila á trúgirni manna, hann segir okkur að við verðum að passa okkur á falsspámönnum.

Líklega er magnaðasta atriðið þegar félagar meistarans sjá að þeir þurfa að halda áfram án hans, að hann hafi veitt þeim sýn á sannleikann sem þeir verða að framfylgja, þeir skilja að þeir verða að yfirgefa hann til að boðskapur hans komist til skila. Eftir þetta er hann einn og yfirgefinn, hefur engan félagsskap í þjáningu sinni nema frá öðrum "glæpamönnum". Það er í raun ákaflega hughreystandi hvernig einn þjáningarbræðra hans byrjar að syngja lítið lag til að láta mannssyninum líða betur. Þá skiljum við að þó heimurinn geti litið út fyrir að vera kaldur þá eigum við alltaf að líta á björtu hliðarnar. Við komum af engu, verðum ekkert og höfum því engu tapað á tilveru okkar.

Þetta er frábær mynd af því hún getur sýnt okkur allt ruglið sem er í kringum okkur í réttu ljósi.

Skjáskot úr Life of Brian
Óli Gneisti Sóleyjarson 14.03.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja , Klassík )

Viðbrögð


róbert - 14/03/04 05:47 #

Eins og bent er á í frábærri grein á www.vald.org þá er þetta nokkurs konar Mad max mynd með meiri sadisma. Að sýna endalausar pyntingar er í besta lagi EF þær eru ekki helsta markmið myndarinnar. En allt á þetta að leiða til guðdómlegrar uppljómunar of fyrirgefningar, en myndin nær aldrei því hámarki.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 14/03/04 11:08 #

LOL, góður. Life of Brian er tær snilld.

Aiwaz, member of the Judean Liberation Front (second reform)


Hr. Pez - 14/03/04 14:41 #

"You come from nuffin', you go back to nuffin'. What have you lost? NUFFIN'!" Jamm, fagnaðarerindið hefur aldrei verið ljósara.


cappel - 17/03/04 18:06 #

Var ekki djöfullinn kona í myndinni? Hver lék hann og hvernig stóð hún sig?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.