Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjónusta við fegurðina

Þegar kristnir trúmenn virða fyrir sér siðferðislegan grundvöll sinn hafa þeir tilhneigingu til að sjá verðmæti í því að eitthvert "æðsta gildi" sé mælikvarði allra hluta. Á þessum forsendum er siðferðisgrundvöllur húmanista gagnrýndur, því manneskjan er nú einu sinni breysk og varhugavert að byggja siðferði sitt á svo veikum stoðum.

Ekki veit ég hve réttmæt slík gagnrýni er, því þótt að sönnu sé talað um það í (siðrænum) húmanisma að maðurinn sé efsta viðmið alls, þá er ekki þar með sagt að siðferðishugmyndir okkar byggi á dyntum hans frá einum tíma til annars. Þvert á móti er lagt upp með það að reynsla manna móti siðferðisviðhorf þeirra og þeir geti lært af mistökum sögunnar. Siðfræði húmanista byggir fyrst og fremst á þekkingu og reynslu.

En það er hægt að þrífast á öðrum siðferðislegum forsendum en hinum húmanísku, sé maður á annað borð trúlaus. Ein þessara forsendna nefnist Fagurhyggja og tekur að mínu mati fram öðrum þeim leiðum sem mannkynið hefur hingað til farið - leiðum reglusiðferðis og reynslunnar.

Ég er á því að tilgangslaus eymd og ógeð eigi ekki upp á pallborðið hjá tegund okkar. Til að hægt sé að sætta sig við slíkt þarf að liggja tilgangur þar að baki. Menn sætta sig við stráfallin lík út um víðan völl ef tilgangurinn er að ráða yfir þeim velli. Þeir sætta sig líka um vitneskjuna um sjúk og deyjandi börn ef tilgangurinn er að koma harðstjóra á kné og öðlast yfirráð yfir auðlindum.

Hvernig stendur á því að sama fólkið og sér lítið athugavert við að fórnarlömb liggi í blóði sínu í hernaðarátökum kemst í uppnám ef fórnardýrin eru afrakstur geðbilaðs fjöldamorðingja eða umferðar- og flugslysa? Er það ekki einmitt vegna tilgangsleysisins sem blasir við mitt í öllu því manntjóni? Menn dóu bara upp úr þurru, engum málstað til framdráttar.

Heimur hins trúaða er tilgangsþrunginn heimur. Þar er allt til dýrðar Guði og því hægt að sætta sig við eymd og volæði, jafnt eigin sem annarra, ef aðeins er hægt að sannfærast um æðri tilgangs slíks ástands. Slík sátt hefur sýnt sig að vera staðreynd gegnum alla sögu kristninnar, svo dæmi sé tekið, og volæðinu jafnvel verið mælt bót. Sjáið bara lotninguna fyrir holdsveiki Hallgríms Péturssonar!

Sjónarhóli trúleysingjans fylgir vitundin um tilgangsleysi veraldar. Og þar með nauðgar það í honum fegurðarskyninu þegar eymd og volæði blasir við. Það er varla til náttúrlegri og réttari aðferð til að meta þetta, enda tala menn ætíð um "fagurt mannlíf" þegar verið er að velta fyrir sér æðstu siðferðislegu markmiðum sem hægt er að ná.

Í raun mætti innræta ákjósanlegt siðferði með einni setningu: Þjónið fegurðinni! Hver sá sem ekki réttlætir eymdina með tilgangi byrjar sjálfkrafa að berjast gegn henni á slíkum grundvelli fagurhyggju. Og enginn þarf lengur að byggja siðferði sitt á svo "veikum grunni" sem maðurinn er.

Hvað þá þeim fárveika grunni sem Guð er.

Birgir Baldursson 29.02.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Már Örlygsson - 07/03/04 21:03 #

Fín grein. Sú um tómhyggjuna er líka fín. Mér finnst einhvern veginn miklu áhugaverðari svona skrif sem snúast um að skoða "trúleysið" sem gagnlegt verkfæri í andlegri lífsbaráttu okkar og hvernig "trúleysið" getur leyst "trúna" af hólmi sem jafn gagnlegt eða gagnlegra verkfæri en "guðstrúin". Ég held að hugleiðingar á þessum nótum séu miklu mun líklegri til að snúa einhverjum til trúleysis, heldur en endalausar hamranir á því hvað trúarbrögð séu röng og vitlaus.

Það þýðir ekki að benda fólki á að verkfærið þeirra sé gallað, ef maður getur ekki sannfært það um að maður hafi upp á eitthvað betra að bjóða. Annars er maður bara að skilja fólk eftir tómhent og pirrað.

Hilsen,

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.