Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af hverju ættir þú að þurfa að réttlæta guð?

Jafnaldri minn dó nýlega í bílslysi, hann skildi eftir sig 21 árs kærustu sem var kominn sex mánuði á leið. Þau bjuggu víst í sama húsi og tengdaforeldrar mínir, mér fannst undarlegt að komast að því, minnist þess ekki að hafa séð þau, kannski gerði ég það en man ekki eftir því, kannski var mér sama.

Svona er lífið, við tökum því góða með því slæma og vonum það besta. Ég hugsaði hvort það væri ekki auðvelt fyrir hana að missa vonina á slíkum tímum, henni hlyti að líða fáránlega illa, svo illa að ég gæti aldrei skilið það án þess að lenda í því. Ég velti því einnig fyrir mér hvort hún tryði á guð. Það er ekki eitthvað sem ég hugsa um daglega, en ég var að velta því fyrir mér hversu erfitt það er að trúa því að maður sé undir vilja æðri veru, þá að reyna að skilja hvers vegna þessi æðri vera myndi vera svona vond við mann.

Það er ekki hægt að finna trú með því að beita skynsemi, það er ekki hægt að leiða út að til sé guð, það er bara hægt að trúa, eða ekki. Þú getur ekki rökrætt við heittrúarfólk um tilvist Guðs, tilfinningar þeirra yfirgnæfa öll rök. Um leið og þessar tilfinningar bregðast, það er efi kemst í gegnum varnarvegginn, þá er annað hvort að réttlæta inn í núverandi heimsmynd eða að breyta henni. Hið síðarnefnda er mun erfiðara en hið fyrr.

Það er ekki auðvelt að gefa upp trú sem er djúpt innrætt í manni og svo margir taka sem sjálfsögðum hlut.

Ég var ekki alinn upp sem kristinn og ég hef aldrei verið sammála kristinni kirkju, því er það auðvelt fyrir mig að gagnrýna það sem er mér fjarri. Mín trú er sú að ef til sé guð, hin fullkomna vera, eða hvað ekki, þá ætti það engu máli að skipta fyrir hana hvort við tryðum á hana eða ekki, það er enginn ástæða fyrir hana að vera svo sjálfselsk að vilja láta tilbiðja sig. Guð ætti að vera alveg sama hvort við tryðum á hann og hvort við gerðum hluti sem skipta raunverulega engu máli, því þetta er enginn vanvirðing, bara vantrú á þá hræðslu sem fólk hefur gagnvart “guði.”

Sagt er að guð hafi skapað mann í sinni mynd, þá myndi ég segja að ég hef hitt betri menn en þann guð.

Það er ömurlegt að ímynda sér nokkra manneskja láta stjórnast allt sitt líf af ótta við eitthvað, það er ömurlegt en þó mjög algengt, þá ekki bara í trúarbrögðum þó það sé umræðuefnið hér. Okkur er eðlislægt að óttast það sem við skiljum ekki, og þegar þessi ótti er blásinn inn í okkur í æsku þá getur verið erfitt að nota skynsemi á hann.

Trúarbrögð voru aðferð notuð til að skýra heimsmynd sem menn skilja ekki; guð skapaði heiminn vegna þess að við gátum ómögulega skilið hvernig hann hefði orðið til annars. Nú skiljum við það. Er ekki kominn tími til að endurskipuleggja skipulögð trúarbrögð þannig að þau geri okkur meiri gagn? Flest trúarbrögð eru orðin mjög úrelt í ljósi samfélagsþróunar en þó eru margir sem vilja reyna að réttlæta eitthvað sem enginn heilbrigð manneskja gæti í fullri skynsemi samþykkt.

Það eru margir sem taka biblíuna, til dæmis, sem heilaga ritningu þó hún sé skrifuð af mönnum, og það misjöfnum mönnum. Biblían hefur verið notuð sem tæki til ills og er notuð þannig ennþá á mörgum stöðum. Hún er ekki einu sinni rétt, biblían sem við höfum núna er vel þýdd útgáfa af illra þýddri útgáfu af endurskrifaðri útgáfu af guð-veit-hverju sem hefur verið endurskrifuð svo oft í misjöfnum tilgangi að hver veit hvað í henni er einu sinni nálægt því að vera rétt.

Mér leiðist spurningin "ertu trúaður?" því ég hef ekkert svar við henni nema "nei." En staðreyndin er sú að ég trúi á "guð," ekki guðinn sem var í biblíunni að stríða Abraham, ekki guðinn sem gekk á meðal vor, ég trúi á guð sem er mun jarðbundnari og ekki jafn mannlegur. Allt virðist reddast á endanum og ég og guðinn minn erum sáttir við það. Ég trúi á guð sem væri aldrei svo mennskur að hann vildi að við tilbæðum hann og sendi okkur í vítisloga til eilífðar ef við erum ekki nógu dugleg að óttast hann, heldur trúi ég á guð sem er í andlegu jafnvægi og er nógu góður guð að við vissum aldrei af honum, gætum aldrei skilið hann. Hann stjórnar ekki heiminum, en hann er heldur ekki persóna, hann ætti eiginlega ekki að vera kallaður "hann."

Ég trúi í raun ekki á neitt yfirnáttúrulegt, ég held að minn guð sé mjög náttúrulegur, enda hluti af náttúrunni, hluti af mér og öllu öðru í þessum heimi. Ég treysti ekki á hann fyrir það sem ég þarf heldur reyni ég að redda því sjálfur, enda á það að vera þannig, annað væri gegn okkar eðli.

Ekki óttast eitthvað sem þið skiljið ekki og kalla það svo “guð,” þá eruð þið betur sett án hans.

Karl Jóhann 23.02.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/04 14:09 #

Ef þetta "guð" er svona náttúrlegt fyrirbæri, sett saman úr náttúruöflunum eða eitthvað þvíumlíkt, er þá nokkur ástæða til þess að kalla það "guð"? Er það ekki bara ávísun á misskilning og rugling?


Kalli - 23/02/04 19:12 #

Ja, pointið var bara að við þurfum all verulega að endurskipuleggja trúarbrögð okkar...losa okkur við þetta yfirnáttúrulega. En þetta er mjög góður púnktur, þetta er kannski ruglingslegt, en hvað myndir þú vilja kalla þetta?


Kalli - 23/02/04 19:15 #

Ókei, ég skil hvað þú meinar. Ég var að reyna að segja að það sem fólk kallar guð er í raun bara hluti af þeim... ef það útskýrir eitthvað


Eyjó - 05/03/04 04:14 #

Af hverju leiðir þú þetta ekki hjá þér í stað þess að vera stanslaust að pæla í guði?? það vita allir að bíblían er bara bull en þú virðist fastur í þessu, ertu viss um að þú eigir ekki einhverndaginn eftir að verða sjálfur einhver trúarvitleysingur? Það er greinilega einhver þörf í þér að hugsa um æðri máttarvöld og hvort þau séu til eða ekki!


Kalli - 07/03/04 13:47 #

Gaman að heyra að fólk virðist virkilega skilja hvað maður er að reyna að segja! Ég kenni sjálfum mér um, er greinilega ekki nógu skýr. En Eyjó minn, við höfum allir okkar áhugamál, þú mátt treysta því að ég verð aldrei trúarvitleysingur, en þú myndir vita það hefðir þú virkilega lesið greinina.


Eyjó - 11/03/04 05:43 #

Nei ég er ekki að tala um greinina heldur þessa síðu... Hvernig þið nennið að halda henni uppi þar sem að hennar megin innihald er trú.....eða skortur á trú. Og alltaf einhvað ferskt efni, það er eins og þið séuð með guð á heilanum og ef þetta er ekki bara tilraun til þess að fylla uppí þetta sama "tóm" sem að trúarvitleysingar eru að reyna að fylla uppí þá veit ég ekki hvað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/04 13:39 #

Þessu er svarað víða um vefinn, t.d. hér og hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.