Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Miðlar trufla lögreglurannsóknir

Fjölmiðlamenn eru duglegir við að draga upp einstaklinga sem þykjast hafa einhverjar vísbendingar um morðmál á grundvelli dulrænna hæfileika sinna. Þetta er afar vafasamt framferði og satt best að segja ættu fjölmiðlamenn að skammast sín fyrir þetta.

Í fyrrasumar vakti morðmál í Danmörku mikla athygli og þá spratt fram miðill sem kvaðst hafa dulrænar vísbendingar fyrir því hver morðinginn væri. Þessi miðill ákvað meira að segja að fara á eigin kostnað til Danmerkur. Lögreglan í Danmörku handtók síðan einhvern annan mann en þessi miðill hafði bent á. Miðillinn hélt því samt fram að hann vissi betur en lögreglan, síðan kom í ljós að lögreglan í Danmörku hafði DNA-sönnunargögn. Var þessi miðill viljandi að reyna að koma sökinni á einhvern saklausan einstakling eða var þetta bara rugl í hausnum á honum?

Þegar Geirfinns- og Guðmundarmálin voru í gangi þá komu miðlar að rannsókn málsins og að sjálfssögðu kom ekkert upp úr því enda er þetta bara rugl. Þegar tveir drengir hurfu á Reykjanesi fyrir nokkrum árum síðan tróð einhver miðill sér fram og sagði að þeir væru á þröngum stað. Þessar "upplýsingar" komu að sjálfssögðu ekki að neinu gagni enda svo óljósar að nærri hvaða staður sem er kom til greina. Það er að sjálfsögðu í ætt við það hvernig miðlar starfa, þeir koma með óljósar upplýsingar og ef þær virðast í einhverju samhengi við raunveruleikann þá hrópa þeir húrra fyrir sjálfum sér.

Hvað fær einstaklinga til að troða sér fram í fjölmiðlum með svona upplýsingar? Gera þessir einstaklingar þetta í þeim tilgangi að auglýsa miðilsstarfssemi sína? Mig grunar það. Blekkja þessir einstaklingar sjálfa sig þannig að þeir halda að þeir hafa einhverjar yfirnáttúrulegar upplýsingar um glæparannsóknir? Það gæti verið en staðreyndin er sú að þeir vita ekki neitt og það er siðlaust af fjölmiðlafólki að hleypa þessum einstaklingum í sjónvarpið.
Ef það kæmi einhvern tíma fyrir að þessir miðlar hafi rétt fyrir sér um eitthvert atriði í morðrannsókn þá væri það eina rétta að lögreglan tæki að sér að yfirheyra miðilinn til að sjá hvaðan upplýsingarnar kæmu vegna þess að þær koma ekki frá draugunum.

Það versta sem þessir miðlar gera er að þeir særa saklaust fólk, þeir særa ættingja fórnarlambanna og þeir særa þá sem þeir eru að reyna að koma sök á. Þetta er í hæsta máta siðlaust og þeir fjölmiðlamenn sem taka þátt í þessum leik miðlanna eru jafn sekir og miðlarnir sjálfir.

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.02.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


jogus - 13/02/04 16:28 #

Það getur oft verið alveg með ólíkindum hvað það örlar ekki á gagnrýninni hugsun hjá fjölmiðlum. Þetta er mjög áberandi í Ísland í dag, ég hef oft á tilfinningunni að Jóhanna verði hreinlega móðguð þá sjaldan heyrist styggðaryrði gegn miðlum (eða hvers kyns kukli) í þáttunum hjá henni.


Hulda - 12/03/04 18:11 #

Ég er sammála þér að það skortir gagnrýnni hugsun hjá fjölmiðlum en mér finnst ekki rétt að alhæfa um miðla þó einhverjir einstakir taki sig til og leiki einhvern skrípaleik í glæpamálum og fjölmiðlum. Þú getur ekkert frekar afsannað tilvist framliðinna en miðlar geta sannað hana og þar af leiðandi eru rök þín litlu skárri. Heimurinn er ekki allur eins og við sjáum hann. Þú getur t.d. ekki séð atóm en samt efast fæstir um að það sé til. Það er margt í vísindaheiminum sem telst ósannað þó kenningar megi finna um hitt og þetta. Samt virðist fólk trúa þessum kenningum eins og heilögum sannleik þó svo þær séu á engan hátt sannaðar, ekki frekar en yfirskilvitlegir hlutir. Það kalla ég hræsni.

Það sem mér finnst þó ennþá meiri hræsni er sú frekja að halda því fram að allir sem ekki fylgja þinni (og þá á ég ekki endilega við þig sérstaklega, heldur svona almennt eins og virðist vera hjá „vantrúuðum“) skoðun séu vitleysingar. Þið fáið ómögulega skilið hvers vegna það séu ekki allir jafn gáfaðir og klárir og þið að fatta hversu mikil vitleysa þetta allt sé. Stundum finnst mér eins og margir ykkar vantrúuðu séu svo fastir á því að allt sem ekki telst til venjulegra hluta sé ekki til að þið hunsið það að það eru einnig til vísindalegar rannsóknir og kenningar um yfirskilvitlega hluti sem styðja kenningar trúaðra. Það er næstum eins og þetta sé orðið að sér trúarbrögðum hjá ykkur.

Svo má líka alltaf tala um þá staðreynd að meirihluti mannkyns fylgir einhverjum trúarbrögðum og trúir á yfirskilvitlega hluti í einhverju magni og ég stórefa það að nær allt mannkynið sé svona blint og að það sé einungis einhver lítil elíta vantrúaðra sem sé svo heppin að sjá hlutina í „réttu“ ljósi. Hvað er það annað en hroki að halda slíku fram?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/03/04 18:32 #

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sem skrifar á þennan vef álíti þá sem eru okkur ósammála vera vitleysinga, vissulega eru vitleysingar meðal þeirra og ef þú skoðar vefinn þá finnurðu ótal dæmi um það (í vikunni fengum við tölvupóst þar sem við vorum beðnir að hætta að tala illa um Martein Luther King). Það er hins vegar til fullt af annars gáfuðu fólki sem trúir alls kyns vitleysu.

Vísindi ganga út á gagnrýni, vísindi ganga út á það að það eigi að efast um alla skapaða hluti þannig að þú hefur eitthvað skakka mynd af áliti okkar á heiminum. Það er hins vegar engin ástæða til þess að trúa að draugar (eða andar) séu til frekar en það er ástæða að trúa á álfa eða jólasveina, svo einfalt er málið. Það er ekkert sem bendir til þess að draugar séu til og því ættum við að lifa lífi okkar með það í huga, óskhyggja nær afar skammt þegar sannanir eru metnar.

Við Vantrúaðir höldum ekki fram að við séum þeir einu sem geti séð sannleikann, við höldum að flestallir geti séð sannleikann en afneiti honum. Ég verð að gera athugasemd við orðalag þitt þegar þú segir að nær allt mannkyn trú á eitthvað yfirnáttúrulegt, ég get sætt mig við meirihluta mannkyns en hitt eru bara ýkjur í þér.

Þeir sem trúa hafa þá skoðun að þeir hafi sérstakan aðgang að "sannleikanum" og því eru þeir einmitt sekir um það sem þú ásakar okkur um.

Ef allt mannkynið fengi spurningalista þar sem spurt væri hvort kristni væri leiðin af sannleikanum þá myndi meirihluti mannkyns neita því, sama á við um öll önnur trúarbrögð. Þetta leiðir að þeirri niðurstöðu að meirihluti mannkyns hlýtur að vera blint.

Mannkynið er líka að skána, hægt og rólega eykst trúleysi (á þeim stöðum þar sem menntun er mest allavega).

Við þykjumst ekki hafa aðgang að neinum æðri sannleika, ólíkt þessum meirihluta mannkyns, við bendum bara á þær upplýsingar sem við getum nálgast (allavega í þessum heimshluta) benda til þess að öll trú og trúarbrögð mannkyns séu rugl.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 12/03/04 19:42 #

"Þú getur ekkert frekar afsannað tilvist framliðinna en miðlar geta sannað hana"

Algengur misskilningur. Sá sem kemur með staðhæfingu skal sanna að hún sé sönn. Það er ekki allra hinna að afsanna hana. Þannig virka hlutirnir ekki í vísindum. Ef vísindamaður kemur fram með kenningu skal hann koma fram með aðferð sem aðrir geta notað sem sýnir fram á gildi hennar. Aðrir vísindamenn eiga ekki að setjast niður og reyna að afsanna kenninguna og þangað til það tekst telst hún gild.

"Þú getur t.d. ekki séð atóm en samt efast fæstir um að það sé til"

Það er hægt að sjá atóm með jónasmásjá (ég held að ég fari rétt með það, einhver má vinsamlegast leiðrétta mig ef þetta er rangt).

"[...] að halda því fram að allir sem ekki fylgja þinni skoðun séu vitleysingar"

Nei, alls ekki. Ég er tilbúinn að rökræða þessa hluti fram í rauðan dauðann, það eina sem ég vona er að fólk hlusti á rök (frekar en sögusagnir).

"þið hunsið það að það eru einnig til vísindalegar rannsóknir og kenningar um yfirskilvitlega hluti sem styðja kenningar trúaðra"

Vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á yfirskilvitlegum hæfileikum í meira en 130 ár. Mikill meirihluti af niðurstöðunum er neikvæður, það er að ekki hefur tekist að sýna fram á neina slíka hæfileika. Sumar hafa hins vegar skilað jákvæðum niðurstöðum, en þær rannsóknir eiga allar tvennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi hefur sá sem gerði rannsóknina alltaf verið trúaður á að yfirnáttúrulegir hlutir væru raunverulegir (viljað fá jákvæða niðurstöðu), og í öðru lagi hefur öðrum vísindamönnum aldrei tekist að endurtaka þessar tilraunir þannig að jákvæðar niðurstöður fáist. Af því hefur (eðlilega) verið dregin sú ályktun að framkvæmd upprunalegu tilraunarinnar hafi verið gölluð.

Þetta 'afsannar' að sjálfsögðu ekki að dulrænir hlutir séu ekki raunverulegir, það segir bara að það hafi aldrei tekist að sanna að þeir séu raunverulegir. En það bendir reyndar sterklega til þess að þetta sé bábilja ein.

"meirihluti mannkyns fylgir einhverjum trúarbrögðum og trúir á yfirskilvitlega hluti í einhverju magni"

Ef þessi margfrægi meirihluti tryði allur á það sama (allir segðu að sami guðinn væri til, allir segðu að eftirlífið væri eins, allir væru með ca. sama sett af kukli, allir væru sammála um hvers vegna yfirnáttúrulegir hlutir væru eins og þeir eru, ef allir (alvöru?) spámenn gætu spáð fyrir um atburði eins og sprengjutilræðið á Spáni og svo framvegis) þá myndi málið kannski horfa öðruvísi við. En þangað til held ég mig við rök og staðreyndir.


Huld - 12/03/04 21:32 #

Þegar ég segi að meirihluti mannkyns trúi á yfirskilvitlega hluti í einhverju marki þá á ég við það að "guð", "englar" o.s.frv. myndu flokkast sem yfirskilvitlegir hlutir.

Þú segist ekki hafa neina ástæðu til að trúa því andar o.s.frv. séu til, en hins vegar eru margir aðrir sem hafa ástæðu til þess. Sjálf er ég efahyggjumanneskja en ég sé árur og fór meira að segja til augnlæknis til að láta athuga hvort það gæti ekki eitthvað verið að augunum á mér og sagði lækninum hvað það var sem ég var að sjá. Hann sá ekkert athugavert við augun á mér. Ég hef fengið ótal vísbendingar og margar hverjar mjög sterkar sem benda til þess að það sé fleira til í þessum heimi en almennt er viðurkennt og hef fengið þær staðfestar af mörgum aðilum, jafnvel erlendis frá, bæði frá fólki og í eitt skiptið meira að segja British Museum. Mig dreymdi fyrir dauða Díönu prinessu en ég hélt að draumurinn væri bull þar til dauða hennar bar að nákvæmlega eins og ég hafði séð fyrir ári áður. Ég skil alveg ykkar viðhorf, en persónulega hef ég bara orðið vör við of mikið til að geta afneitað því að það sé ýmislegt til í þessum heimi sem okkur er hulið.

Sú fullyrðing að mannkynið sé að skána við það að fleiri og fleiri séu trúlausir finnst mér hroki. Það sem mér finnst að mannkyninu skorti mest af öllu er umburðarlyndi. Mér finnst ekkert að trú eða trúarbrögðum í heild sinni utan þá staðhæfingu ýmissa trúarbragða eins og t.d. kristni að hún sé hin EINA RÉTTA trú. Slíkar fullyrðingar orsaka deilur og stundum trúarstríð, svo ekki sé minnst á trúboð sem mér persónulega finnst frekja. Mér finnst ekkert að því að haga sér á skikkanlegan hátt og að hafa samvisku en mér finnst persónulega trúarbrögð mörg hver hafa bælandi áhrif á einstaklinga. Fólk sem ekki fellur inn í hið fyrirfram ákveðna munstur á sér þar af leiðandi erfitt uppdráttar. Oft er þetta þó ekki endilega trúarbrögðunum sjálfum um að kenna heldur túlkun ýmissa stofnana og einstaklinga á þeim.

Sjálf er ég ekki kristin en mér þykir samt leiðinlegt hversu oft er bent á hana í tengslum við þessar umræður. Þetta er auðvitað ekki eina trúin í heiminum og þó svo það sé kannski ekki meiningin hjá ykkur þá hljómar þetta oft eins og ómeðvituð herferð gegn henni. Þið ættuð frekar að beina sjónum ykkar að kirkjunni eða öðrum trúarstofnunum, því oft á það betur við.

Ég er ekki viss um að meirihluti mannkyns myndi neita því að sín trúarbrögð séu leiðin að sannleikanum, þar sem það er einmitt leitin að sannleikanum sem dregur fólk að trúarbrögðum. En þér er velkomið að leggja þessa spurningu fyrir mannkynið og sjá hvort okkar hefur rétt fyrir sér. En einhverjar kenningar okkar um hvað mannkynið myndi eða myndi ekki gera leiðir ekki að neinni niðurstöðu nema við fengjum einhvern fót fyrir þeim.

Það er mín skoðun að það sé hroki að fullyrða að sín skoðun sé sú eina rétta og að allir hinir hafi rangt fyrir sér, alveg sama hvort um er að ræða trúað fólk eða vantrúað. Þegar uppi er staðið er það eina sem skiptir máli hvaða skoðun og/eða trú það er sem þér líður best með og er rétt í þínu hjarta. Ekkert okkar er eins og þar af leiðandi er ekki hægt að ætlast til þess að allir eigi að ganga sama veginn. Við erum öll mismunandi gerð og komum frá mismunandi bakgrunni og það sem er rétt fyrir þér þarf ekkert endilega að vera rétt fyrir næsta manni. Því hver erum við að fullyrða hvað sé satt og hvað ekki? Og hversu mikið stoðar það þegar við getum ekki sannað eitt né neitt? Og það á eins mikið við um trúaða og þá sem ekki eru það.

Við getum heldur ekki dæmt heilan hóp út frá nokkrum einstaklingum. Vissulega er til fólk sem heldur því fram að það sé miðlar en er síðan bara einhverjir rugludallar sem helst ætti að loka inni á hæli svo það valdi sem minnstum skaða. Að alhæfa út frá þeim að allir miðlar séu þjóðfélaginu til vandræða er út í hött. Það sama á við um trúarbrögð o.s.frv.

P.S. Það eru víst vísindalegar rannsóknir sem benda til þess að "draugar" eins og þú kallar það séu til og t.d. sálfarir. Lestu bara Sálfræðibókina svo dæmi séu nefnd.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 12/03/04 22:00 #

"Mig dreymdi fyrir dauða Díönu prinessu en ég hélt að draumurinn væri bull þar til dauða hennar bar að nákvæmlega eins og ég hafði séð fyrir ári áður"

Ég efast svo sem ekki um það, það sem menn gleyma hins vegar gjarnan er öll hin skiptin sem þá dreymir eitthvað og ekkert gerist.

"Það eru víst vísindalegar rannsóknir sem benda til þess að "draugar" eins og þú kallar það séu til og t.d. sálfarir. Lestu bara Sálfræðibókina svo dæmi séu nefnd."

Nei, það eru ekki til vísindalegar rannsóknir sem benda til þessa. Til þess að þessar rannsóknir geti kallast vísindalegar þarf hver sem er að geta lesið lýsingu á þeim og endurtekið þær. Sértu viss um að "Sálfræðibókin" sé að fara með hlutlaus vísindi sem hægt er að endurtaka og sanna (eða einhver önnur bók ef út í það er farið), farðu þá á www.randi.org og sæktu um milljón dollara verðlaunin. Það voru skv síðustu athugun 70,659,999 íslenskar krónur. Ekki ónýtt það, sé raunverulega til vísindaleg rannsókn sem sýnir fram á tilvist drauga. Þú þarft ekki einu sinni að endurtaka tilraunina, það er nóg að þú sendir inn lýsingu á aðferð sem hlutlausir aðilar geta endurtekið.

Meira að segja árulesturinn þinn skilgreinist yfirnáttúrulegur og fullnægir því skilyrðin fyrir milljón dollara verðlaunin, þú getur sótt um það. Please láttu okkur vita hvernig gekk.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/03/04 22:05 #

Við getum útbúið próf þar sem við athugum þessa áruhæfileika þína. Það er ákaflega einfalt.

Síðan er áhugavert að einhver hafi sannað að einhver yfirnáttúrulega fyrirbrigði séu til í einhverri bók án þess að almenningur hafi frétt af því. Ég sé þig ekki fyrir mér sem efahyggjumanneskju.

Við einbeitum okkur að kristni aðallega af tveimur ástæðum, við erum flestir aldir við kristni og vegna þess að þjóðkirkjan hefur óeðlilega stöðu hérna. Ef við værum í íslömsku ríki þá myndum við hafa aðrar áherslur.

Ef maður heldur ekki að trú sín sé sú eina rétta þá er maður ekki sérstaklega einlægur í trú sinni.

Ég er held að ég hafi rétt fyrir mér í þessum málum, ég fer ekki að gera mér upp einhverja hógværð og tala um að allar skoðanir séu jafn réttar, þær eru það bara ekki. Til dæmis er sú skoðun sköpunarsinnans að þróunarkenningin sé rugl ekki jafn rétt og skoðun allra hinna sem telja þróunarkenninguna í grunnatriðum rétta. Það er kannski erfitt að vera ekki hrokafullur þegar maður rífst við fólk sem hefur engin rök, þannig að það gæti vel verið að við séum stundum hrokafullir, mér er bara alveg sama um það. Ég gæti hins vegar þagað um skoðanir mína og bara afgreitt fólk sem trúir á yfirnáttúruleg fyrirbrigði sem rugludalla sem ekki er hægt að tala við en ég sýni þeim þess í stað þá virðingu að rökræða við það.

Ég veit ekki til þess að ég eða nokkur hérna hafi alhæft nokkuð um miðla einsog þú heldur fram, ég veit ekki hvaðan þú færð það. Það gæti hins vegar verið að allir miðlar séu til vandræða í þjóðfélaginu, það er allavega ekki gott að hópur af fólk stundi það að útbreiða ósannindi.

Hvernig þekkirðu annars úr hvaða miðla á að loka inni og hverja ekki? Þeir virðast flestir vera haldnir sömu ranghugmyndunum.


Úlfurinn - 13/03/04 15:16 #

Halló,Huld. Ef þú hefðir varað Díönu við,og hún hefði ekki farið í bílferðina,og væri lífs í dag,þá hefði þig ekki dreymt fyrir dauða hennar.Þá hefði draumurinn sem sagt verið marklaus.Er þetta ekki svolítið skondið?


Bergdís - 08/02/05 22:17 #

Vá það hlýtur að vera leiðinlegt að vera svona þröngsýnn! Hljómar allavega ekki spennó!


Snær - 08/02/05 22:37 #

Þröngsýnir? Þætti þér það þröngsýni að trúa ekki á Ósýnilega Bleika Einhyrningin?

Þú ert örugglega bara enn einn guðlastarinn! Og hræsnari í þokkabót.

Feh.


Snær - 08/02/05 22:55 #

/kaldhæðni

sjá umburðarlyndi.


Balzac - 13/08/05 13:54 #

Maður getur næstum orðið hrærður af trúarhitanum í skrifum hinna vantrúuðu. Það er íronískt að þeir skuli ekki átta sig á því sjálfir að hin vísindalega aðferð er trúarbrögð heldur telja sig hafa fundið ,,Sannleikann" í eitt skipti fyrir öll. En það er auðvitað háttur heittrúaðra.

Sem leiðir hugann að viðbrögðunum við hugmyndum Galileos á sínum tíma. ,,Vísindamenn" andmæltu þeim einum rómi af því að þeir höfðu komið sér upp svo einfaldri og þægilegri mynd af ,,raunveruleikanum" að þeir máttu ekki hugsa til þess að hróflað yrði við neinu.

En Newton rak nú samt smiðshöggið á verkið sem Kópernikus hóf og síðan varð ,,allsherjarlögmál" hans enn einn ,,stórisannleikurinn" sem ,,vísindin" hafa hampað. Svona svipað og þegar kaþólska kirkjan talar um óskeikulleika páfans.

Þetta dugði þangað til Einstein fór að tala um að tíminn væri afstæður og að ljósið hefði þyngd. Þá tóku hundrað ,,vísindamenn" sig til og skrifuðu bókina "One Hundred Ways to Disprove Einstein."

Ójá. Margir eiga erfitt með að taka því að eitthvað sé ofar þeirra skilningi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/05 14:15 #

hin vísindalega aðferð er trúarbrögð

Nei.

telja sig hafa fundið ,,Sannleikann" í eitt skipti fyrir öll

Nei.

Sem leiðir hugann að viðbrögðunum við hugmyndum Galileos á sínum tíma. ,,Vísindamenn" andmæltu þeim einum rómi af því að þeir höfðu komið sér upp svo einfaldri og þægilegri mynd af ,,raunveruleikanum" að þeir máttu ekki hugsa til þess að hróflað yrði við neinu.

Nei.

Ójá. Margir eiga erfitt með að taka því að eitthvað sé ofar þeirra skilningi.

Líklega. En þeir eru ekki meðal Vantrúarpenna.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/05 14:41 #

Æ æ, er þetta bara ofar okkar skilningi, greyjin við.

Geturðu kannski nefnt einhver dæmi til stuðnings máli þínu eða dugar það þér að koma með innihaldslausar dylgjur?


Dvergurinn - 16/08/05 14:40 #

Balzac virðist ekki skilja út á hvað vísindalegar aðferðir ganga, ef marka má ganrýni hans. Þetta hefur verið útskýrt í ótalin skipti á vantrú, en dropinn holar jú steininn, svo e.t.v. má reyna einu sinni enn.

Maður getur næstum orðið hrærður af trúarhitanum í skrifum hinna vantrúuðu. Það er íronískt að þeir skuli ekki átta sig á því sjálfir að hin vísindalega aðferð er trúarbrögð heldur telja sig hafa fundið ,,Sannleikann" í eitt skipti fyrir öll. En það er auðvitað háttur heittrúaðra.

Þeir sem aðhyllast vísindalegar aðferðir hafna því alfarið að "Sannleikurinn eini" sé fundinn. Sú staðreynd að hann er það ekki er beinlínis grundvöllur vísindarannsókna.

,,Vísindamenn" andmæltu þeim einum rómi af því að þeir höfðu komið sér upp svo einfaldri og þægilegri mynd af ,,raunveruleikanum" að þeir máttu ekki hugsa til þess að hróflað yrði við neinu.

Vísindamenn vinna samkvæmt ákveðnum viðurkenndum aðferðum, en eru vissulega mannlegir. Það er því ekkert undarlegt að þeir gagnrýni nýjar kenningar sem stangast á við þá heimsmynd sem fyrri athuganir gefa til kynna. Auk þess er alltaf mjög ódýrt að skjóta á vísindin út frá hálfrar aldar gömlum kenningum þeirra.

Ójá. Margir eiga erfitt með að taka því að eitthvað sé ofar þeirra skilningi.

Það mætti vera ákaflega þröngsýnn vísindamaður sem héldi því fram að allt sem í heiminum er sé að fullu rannsakað og útskýrt. Einn helsti eiginleiki vísindarannsókna er að því fleira sem rannsakað er, þeim mun betur kemur í ljós hve mikið er eftir sem þarf að rannsaka. Menn verða sjálfir að gera það upp við sig hvort það er kostur aðferðarinnar eða galli.


Dvergurinn - 16/08/05 14:43 #

"hálfrar aldar gömlum kenningum..."

Afsakið mig, ég átti auðvitað við fimm alda gamlar kenningar.


samadhi - 30/01/06 12:55 #

Sá sem virkilega vill leita hins yfirskilvitlega mun finna það á endanum og vitið að það er svo magnað að það hefur sig upp yfir öll vísindi,alla miðla,öll trúarbrögð. Finnst efni þetta er ofarlega í hugum ykkar vantrúuðu hljótið þið að vera leita þess. Hafið hugfast: Vísindin eru aðeins ein hliðin á fílnum en trú og miðlar og önnur slík málefni,önnur hlið. Fíllinn hefur fleiri en tvær hliðar. Munið: Heilinn er ofmetið líffæri


Silvía - 26/02/06 20:54 #

Má fólk ekki bara trúa á það sem það vill....hvort sem það er allt eða ekkert?


Valtýr Kári - 07/03/08 18:32 #

Við einbeitum okkur að kristni aðallega af tveimur ástæðum, við erum flestir aldir við kristni og vegna þess að þjóðkirkjan hefur óeðlilega stöðu hérna. Ef við værum í íslömsku ríki þá myndum við hafa aðrar áherslur. -Óli Gneisti

Nei óli, ef að við værum í íslömsku ríki væri búið að myrða okkur alla.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/08 21:06 #

Við færum lágt og við myndum ekki skrifa undir nafni.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/08 03:46 #

Það er svo mikið langt í frá að við teljum okkur hafa fundið sannleikann. Við höfum aðeins fudnið heppilegustu leiðina að honum. Heimurinn er án efa mun flóknari en við fáum nokkurn tímann skilið en samt reynum við smátt og smátt að skilja meira og meira. Við stefnum að fullkomnun vitandi að við náum henni aldrei.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 08/03/08 14:21 #

Haukur skrifar:

Það er svo mikið langt í frá að við teljum okkur hafa fundið sannleikann. Við höfum aðeins fudnið heppilegustu leiðina að honum.

........

Mín hugmynd um heppilegustu leiðina til að finna sannleikann, er að öðlast skilning á hinu yfirnáttúrulega eins og það er kallað ekkert síður en því áþreifanlega.

Að afneita er ekki rétta leiðin.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/08 15:07 #

Hvernig öðlumst við skilning á einhverju sem virðist ekki vera til þegar reynt er að rannsaka það?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.