Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skynsemi og trú - öndverð sjónarmið

Anna Sif Farestveit guðfræðinemi ritar athyglisverða grein í Moggann nýverið og svarar þar yfirlækni á kvennadeild Landspítalans. Umræðuefnið snýst um hinar siðferðilegu hliðar snemmómskoðana á fóstrum.

Fyrir trúlausan mann eins og mig er merkilegt til þess að hugsa að lokaritgerð BA prófs í háskólanum skuli snúast um spurninguna hvort mennirnir séu farnir að taka framfyrir hendurnar á Guði. Slík framsetning mála er nefnilega endemis-forneskjuleg í augum okkar sem sjá náttúruna fyrir það sem hún er, en erum ekki að gera henni upp gáfaðan og tilfinningaríkan skapara með sérstakan tilgang.

Anna Sif tekur reyndar fram í grein sinni að með ritgerðinni sé ekki verið fullyrða neitt í þessum efnum, en gengur að setja málin upp með þessum hætti? Hvað er það annars við fóstureyðingar sem gerir þær svona ósiðlegar í augum margra hinna trúuðu?

Það er auðvitað meint tilvist sálarinnar sem er að flækjast fyrir þeim. Þeir sem trúa á yfirnáttúru og annað líf sjá ekki betur en að með fóstureyðingum sé verið að vinna saklausri sál mein. Í huga hinna trúuðu plantar hið guðlega afl með skipulögðum hætti vitundum í okfrumur við getnað og verið sé að ryðjast inn í hið guðlega plan með því að meina slíkum frumkekki að þróast í átt að fullburða barni.

Þessi hugmynd er ævaforn og byggir ekki á neinu vitrænu. Hér er aðeins um gömlu óskhyggjuna um eilíft líf að ræða og sú von er látin næra ranghugmyndirnar um sálina og guðlegt plan. Frekar nýtilkomin vitneskja um hver við raunverulega erum gengur gersamlega á skjön við þessa gömlu hugmynd, en óskhyggja hinna trúgjörnu svæfir að sjálfsögðu allar hugmyndir um að við séum aðeins fjölfruma kjötkökkur, knúinn áfram af efnaskiptum og heilastarfsemi. Mikið er blekkingastarf sjálfsvitundarinnar.

Óskandi væri að Anna Sif áttaði sig á því undir hve afkáralegum formerkjum hún ritar lokaverkefni sitt. En henni er vorkunn, því lífsviðhorf hennar rænir hana rökréttri sýn, er úr takti við almenna vitneskju, en ýtir undir miðaldahugsunarhátt eða eitthvað þaðan af forneskjulegra. Greinilegt er að ekki skiptir máli hvort menn eru bókstafstrúar og á valdi eldklerka, ellegar háskólamenntaðir guðfræðingar, það er trúin sjálf og ranghugmyndirnar sem tilheyra henni sem vandanum valda.

Og lausnin á þessari meinsemd er auðvitað aðeins ein: Varpa trúnni. Í þessu tilviki virðist hún skapa skilningstálma þegar kemur að því skynsamlega sjónarmiði að gölluðum fóstrum sé best að eyða. Slíkt er einfaldlega liður í að draga úr eymdinni í veröldinni.

Birgir Baldursson 09.02.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Daníel - 09/02/04 00:21 #

Þarna ferðu inn á áhugavert svið sem hinir trúuðu eru alls ekki sammála um og líklega ekki við skýrir heldur. Lengi hélt kirkjan því fram að það væri synd fyrir drengi að rúnka sér og að konur væru óhreinar meðan þær voru á túr. Nú í dag held ég að erfitt sé að finna einhvern trúaðan sem trúir þessu. Af hverju það er þá allt í einu synd að eyða þessum tveimur frumum (sæðinu og egginu) eftir að þær renna saman er mér hulin ráðgáta. Hins vegar er þarna um einhverja ímyndaða línu að ræða. Þ.e. allir eru líklega sammála því að það er ósiðlegt að eyða 9 mánaða gömlu fóstri. En eins dags gömlu? Þá er það jú bara okfruma, frumuklasi án nokkurrar sérhæfingar eða lífsgetu utan líkama móðurinnar. Hvað á að draga línuna sem líklega verður að draga einhversstaðar? Það væri voðalega hentugt að geta fundið daginn sem fóstrið hættir að vera frumuklasi og verðu barn en þannig er bara lífið ekki. Fóstureyðingar hljóta þannig alltaf að vera stórt siðferðilegt spursmál, en athugið, siðferðilegt spursmál ekki trúarlegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/02/04 00:35 #

Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að nú þegar séu til viðmið í þessum efnum. Fóstrum er yfirleitt ekki eytt eftir að þau ná þriggja mánaða aldri (nema mikið liggi við), enda talið að miðtaugakerfið hafi náð það miklum þroska við þau mörk að hægt sé að fara að tala um lífveru en ekki frumukökk.

Taktu eftir því að Anna Sif er að ræða snemm-ómskoðun ófrískra kvenna, þar sem fundið er út á fyrstu vikum meðgöngu hvort hvort fóstrið sé gallað. Fóstureyðing í kjölfarið á slíkri skoðun ætti því ekki að vera siðferðilegt álitamál, nema menn gefi sér að þarna sé verið að fremja glæp gegn Guði og hinni meintu sál.

Við erum að tala um frumukökk. Ekki einstakling. Ef það er illvirki að eyða slíku hlýtur að vera mun stærri glæpur að lóga ketti eða kála rottu, þar er í það minnsta einstaklingur á ferðinni sem býr að háþroska taugakerfi og tilvistarreynslu.


Embla - 10/02/04 00:07 #

Langaði bara að benda á að umrædd snemmómskoðun, öðru nafni hnakkaþykktarmæling, þar sem mældar eru líkur á að fóstur sé með litningagalla, er framkvæmd á 11.-14. viku meðgöngu, eða rétt fyrir þessi þriggja mánaða mörk þar sem talið er í lagi að eyða fóstri. Á þessum tíma er fóstrið 6-7 sentimetra langt og komið með alla helstu líkamsparta sem við státum af; höfuð, útlimi, heila, eyru, augu, hjarta o.s.frv. Ég myndi því ekki útiloka að þetta væri siðferðilegt álitamál.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/04 05:00 #

Kannski það. Bara svo lengi sem það siðferðilega álit er dregið út frá almennu, vestrænu nútímasiðgæði, en ekki á þeim forsendum að verið sé að "taka fram fyrir hendurnar á Guði".

Það er nefnilega ekkert móralskt við hugmyndina um að verið sé að gera Guði rangt til.


Lárus Viðar Lárusson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/04 22:48 #

Ég vil byrja að taka það fram að ég er trúleysingi og hef enga trú á framhaldslífum né neinu slíku. Ég hef fylgst með skrifum á þessari síðu nú um nokkra hríð og hef haft gagn og gaman af.

Hins vegar verð ég að vera algerlega ósammála hvað skoðanir ykkar á fóstureyðingum snertir. Ég hef lagt stund á líffræði í HÍ og hef því nokkra faglega þekkingu á málinu.

Þið talið um fósturvísa sem frumukekki og að það sé ekki fullbær einstaklingur. Kannski svo en með því að grípa inn í eðlilega þroskun fósturvísis eftir getnað er verið að binda enda á líf nýs einstaklings. Við skulum ekki blekkja okkur með því að tala um fósturvísa sem lítilfjörlegar frumuhrúgur því að þetta eru nýir einstaklingar í mótun þrátt fyrir að hafa ekki náð fullum þroska sem slíkir.

Að stöðva þroskun fósturvísa er dráp á manneskju, það er ekkert öðruvísi.

Hins vegar gæti ég aldrei persónulega sett mig upp á móti fóstureyðingum. Það er sorgleg staðreynd að sum börn eru einfaldlega óvelkomin í þennan heim og mæðurnar verða að fá að hafa val um það hvort að þær eignist börnin því að þetta er jú þeirra líf.

Ég get samt ekki að því gert að mér finnst fóstureyðingar vera siðferðislega rangar, rétt eins og dráp á köttum að óþörfu.


jogus - 11/02/04 09:34 #

Hérna er verið að tala um tvennt, annars vegar hvort sé siðferðilega rétt að leyfa fóstureyðingar og hins vegar verið að tala um hvort eigi að blanda guði eitthvað í það mál. Trúleysingjar, hvort sem er á vantrú eða annars staðar hafa væntanlega margar og mismunandi skoðanir á því hvort leyfa eigi fóstureyðingar, en eru einnig væntanlega flestir sammála um að það eigi ekkert að blanda tali um guð inn í það mál.


Jón Valur Jensson - 05/01/05 23:45 #

Vegna umræðunnar hér um fóstrið, hvers eðlis það sé og hvort viðurkenna beri lífsrétt þess, þá er ástæða til að benda hér á rökræðu, sem ég og Hjalti Vantrúarmaður höfum staðið í um þetta mál á vefsetri sr. Arnar Bárðar Jónssonar frá 29. des. 2004 til dagsins í dag, 5.1. 2005, á ÞESSARI VEFSLÓÐ sem þið smellið nú á!

Með kveðju og von um að þetta eigi eftir að gagnast ykkur og öðrum sem fræðast vilja um sannleikann í málefnum ófæddra barna.


Jeremía - 06/01/05 19:41 #

Ég vil líka bæta við þetta að ég hef skrifað upp allar röksemdir eða mótbárur sem ég hef séð og heyrt frá viðmælendum mínum þegar ég hef verið að ræða fóstureyðingar. Ef einhver hefur mótbáru sem er ekki svarað þar, þá býð ég honum að setja fram comment. http://jeremia.blogspot.com/2004/12/mtbrum-svara.html


Anna Sif - 09/06/05 11:58 #

Sæll Birgir, Þakka þér kærlega fyrir að vorkenna mér fyrir miðaldarlegan hugsanahátt. Ég vil einfaldlega benda þér á að lesa ritgerð mína uppi á þjóðarbókhlöðu þar sem ég leyfi öllum sjónarmiðum að njóta sín án þess að gagnrýna eitt einasta hvorki kirkjuna, foreldra fatlaðra, fatlaða, lækna eða ljósmæðra. Ég vil taka það fram og það tók ég fram í ritgerðinni að ég er alls ekki á móti fóstureyðingum þær eiga vissulega rétt á sér í ýmsum tilfellum. Það sem ég einfaldlega skil ekki er hversvegna menn eins og þú bregðast svona gífurlega hart við þegar fjallað er um önnur sjónarmið en þín eigin. Af hveju má ekki leyfa hinum siðferðilegu sjónarmiðum einnig að heyrast? Hvers vegna þarf alltaf að kæfa þessi sjónarmið niður í fæðingu? Við erum mannverur með siðferðisvitund, hún á vissulega rétt á að fá að láta heyra í sér


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/06/05 12:36 #

Hafi ég skilið greinina þína rétt, þá er þú skrifaðir í Moggann, þá fjallar BA-ritgerðin þín að hluta til um það hvort menn séu farnir að taka fram fyrir hendurnar á guði kristinna manna. Fyrir það, sé þetta rétt skilið hjá mér, gagnrýni ég fræðaskrif þín. Hvað er að því að ég gagnrýni sjónarmið sem mér finnst ekki eiga heima í fræðilegri ritgerð? Ef þú ætlar að velta þér upp úr því hvort þarna sé tekið fram fyrir hendurnar á guðinum þínum verðurðu fyrst að sýna fram á að hann sé yfir höfuð til, ekki satt?

Ég er ekkert að reyna að kæfa sjónarmið þín í fæðingu, skárra væri það nú. Nei, sá sem ritar fræðiritgerð hlýtur að geta átt von á gagnrýni á það sem hann heldur fram. Þarna hafðirðu mína og þér væri nær að íhuga hvort eitthvað af viti gæti leynst í henni í stað þess að vísa henni strax á bug sem ofstopa og gífuryrðum.

Ef þú ert ófær um að sjá gildi þeirra sjónarmiða sem ég set fram hér að ofan staðfestir það einungis þau orð mín að trú þín skapi skilningstálma þegar kemur að því að meta hvort gölluðum fóstrum sé best að eyða.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.