Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þið ráðið hverju þið trúið

Í Ríkissjónvarpinu var sýndur þáttur um hina ýmsu rugludalla (misruglaða reyndar) sem voru stimplaðir sem leitandi. Hvort þátturinn átti að fjalla alvarlega um málin eða hvort það átti bara að gera grín að þeim er ekki ljóst. Þessir náungar koma án efa út einsog bjánar hvort sem það er vilji þáttagerðarmannanna eður ei. Umsjónarmaðurinn kom með lykilsetningu snemma í þættinum þegar hann sagði: Þið ráðið hverju þið trúið.

Öll höfum við heyrt um hveitiakrahringi og í þættinum var talað við náunga sem taldi þessa hringi vera gerða af geimverum sem eru víst að reyna að koma einhverjum skilaboðum til okkar. Þessar þróuðu geimverur hafa semsagt ekki betri leiðir til að hafa samband okkur heldur en að eyðileggja hveitiuppskerur. Þessi klikkaði náungi játaði nú að hægt væri að gera þessa hringi á einni nóttu með afar einföldum tækjum, sú einfalda og rökrétta skýring var hins vegar ekki að slá í gegn hjá honum. Hringirnir voru margir flottir, þetta eru misskildir listamenn.

Næst voru náungar sem trúðu að geimverur sveimuðu um á fljúgandi diskum. Annar játaði að 90% fljúgandi furðuhluta væri hægt að skýra á eðlilegan hátt, hin 10% eru augljóslega geimverur af því að einhverjir sjálfskipaðir sérfræðingar hafa enga skýringu. Hinn náunginn var skemmtilegri af því að hann var með myndir af fljúgandi diskum. Hann vissi hvaða diskar væru frá Venus og hvaða diskar væru frá Mars (kannski fékk hann upplýsingarnar úr ofmetinni sjálfshjálparbók).

Síðan kom að Tantranáunga, hann starfaði sem nuddari og nuddaði meðal annars legið að innan (ætli Guðjón Bergman bjóði upp á svona þjónustu?). Kynlífið hans virtist nú vera áhugavert og hann hafði ekkert á móti því að sýna áhorfendum nokkrar skemmtilegar stellingar. Ég missti samt af honum þegar hann byrjaði að tala um guðinn í okkur sjálfum, af hverju að flækja þetta svona?

Jóganáunginn er í svipuðum flokki, hann kallar sig Siddharta og stundar jóga. Allt í fínu lagi með einhverjar svona æfingar en hvers vegna að troða einhverju guðatali inn í þetta?

Draugaveiðarar eru greinilega eftirsóttir í Danmörku miðað við að það var talað við þrjá slíka. Tveir fyrstu fundu ekki neitt þó þeir væru með myndavél og vasaljós einsog ég keypti í Tiger um árið. Ég man að með vasaljósinu fylgdu mislit gler sem gátu breytt ljósinu, líklega kemur það að gangi í draugaleit.

Þriðji draugaveiðarinn var öflugur, hann fann tvo drauga í þættinum. Hann þarf ekki að nota við vasaljós en hefur þess í stað þriðja augað (ósýnilegt reyndar) sem sér drauga, hann setur líka út einhverja þreifara (ósýnilega líka). Það fyrsta sem hann gerði eftir að hafa fundið drauginn var að kitla hann aðeins. Hann byrjaði síðan að sveifla handleggjunum til að opna leið í andaheiminn (draugurinn var fastur á milli heima) og beindi honum síðan í ljósið. Það var sagt frá því að hann hefði einu sinni fundið og bjargað 36 draugum í einu. Geðsjúklingur eða svindlari? Hver veit.

Hare Krishna! Talað var við náunga sem líktist Hallgrími Helgasyni, það virtist vera fjör hjá honum og félögum hans þegar þeir voru að syngja, dansa, hringja bjöllum og brenna reykelsi. Meinlausir rugludallar að því er virtist.

Ásatrúarmenn komu síðastir. Þeir voru að tala um að goðin væru tákn fyrir krafta í náttúrunni. Það er stór spurning hvort þetta eru beinlínis trúarbrögð eða bara leið til að komast í snertingu við forna menningu. Einn sem var nýbyrjaður í þessum félagsskap talaði um að það væri fáránlegt að halda að maðurinn væri það stærsta í veröldinni, hann var vissulega leitandi en einsog allir aðrir í þessum þætti var hann á villigötum.

Niðurstaðan er sú að ef þú leitar að flóknum, dularfullum skýringum en hunsar þær sem eru einfaldar og rökréttar þá áttu auðvelt með að komast í fjölmiðla.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.01.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.