Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúir biskup á Satan?

SatanÉg er forvitinn maður að eðlisfari, trú og trúarbrögð vekja forvitni mína. Ég vil vita sem mest um þessi mál, ég nota þessa vitneskju síðan í að berjast gegn þessum fyrirbrigðum.

Það vekur endalaust furðu mína hve lítið ég veit um þau trúarbrögð sem ég var alinn upp við, þjóðkirkjukristni. Það er líka ákaflega erfitt að komast að því hverju fólk á að trúa ef það er í þjóðkirkjunni og hvernig fólk á að hegða sér. Ég er að vísu nokkuð viss um að Jesús og guð koma þarna sterkir inn, heilagur andi er líklega kominn úr tísku eða þá hefur sameinast guði endanlega.

Mig langar að vita hvort þjóðkirkjan sé á þeirri skoðun að Satan sé til, þjóðkirkjan sjálf hefur reyndar fáar skoðanir sjálf en biskupinn getur kannski verið holdgervingur hennar. Trúir herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands á Satan?

Ég veit að Lúther sem er að nafninu til helsti hugmyndasmiður þjóðkirkjunnar trúði á Satan. Lúther sagðist sjálfur hafa hitt Satan og notaði einkar eftirminnilegt bragð til að sigra hann, hann leysti vind í átt að honum (nú vitið þið hvernig þið sigrið Satan, borðið baunir!).

Hefur Karl hitt Satan? Það væri fróðlegt að vita. Við getum allavega verið viss um að Karl hefur lesið nóg eftir Lúther til að vita hvernig skal koma fram ef Satan bankar upp á.

Ég sé fyrir mér allavega tvær mögulegar skoðanir sem Karl hefur á málinu. Kannski er biskup nútímalegur í hugsun og sér fyrir sér að Satan sé myndlíking fyrir hið illa í heiminum en vill ekki styggja þá sem trúa raunverulega á Satan. Hins vegar gæti verið að Karl trúi á Satan en veit að hann myndi verða að athlægi ef hann játar það þannig að hann reddar sér með því að tala um "hið illa".

Ég held að það séu margir innan þjóðkirkjunnar sem eru í vafa um tilvist Satans, þessu fólki þætti örugglega vænt um ef biskup myndi svara þessari einföldu spurningu og leiða það í allan sannleikann um málið.
Bæði ég og sauðir þjóðkirkjunnar viljum fá svar: Trúir biskup á Satan?

Óli Gneisti Sóleyjarson 26.01.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 26/01/04 10:55 #

Ég get ekki séð hvernig biskupinn gæti ormað sig út úr því að trúa ekki á Satan. Átti Jesús ekki heilmiklar samræður við Satan í eyðimörkinni, varla fer einhver biskups-splæs að ásaka sjálfann "Frelsarann" um lygi eða delerium?

93


Bjoddn - 26/01/04 11:47 #

Ég tel það mundi fara eftir því við hvern hann væri að tala. Í vissum tilvikum vari Satan til og í öðrum væri þetta svona túlkunaratriði... bara hvað hentar best hverju sinni


Daníel - 26/01/04 13:33 #

Af hverju spyrðu hann ekki bara sjálfan? Netfangið hans er: biskup@biskup.is Þú getur svo birt svarið hér á þessum vef.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/04 23:19 #

Ef Karl heldur því fram, eins og margir nútímalegir kristnir, að Satan sé myndlíking fyrir hið illa, getur þá verið að í huga hans sé Guð einungis myndlíking fyrir hið góða? Er Guð vera eða myndlíking í huga Karls og kristinna.

Hvað olli því að Satan, sem augljóslega var vera í upphafi, varð skyndilega myndlíking en Guð hélt áfram að vera vitundarvera?

Ef Guð er bara myndlíking eins og Satan er greinilega orðinn, þá veldur það einungis rugli og misskilningi að gera þessum eiginleikum, góðu og illu, upp mannlega eiginleika. Fyrir nú utan það að velta þarf því fyrir sér hvort þar séu algild hugtök á ferðinni eða relatív útfrá sjónarhorni mannsins.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/01/04 23:32 #

Ég held að ég þurfi ekki að senda biskupi póst, ég treysti nefnilega á að hann lesi þennan góða vef á hverjum degi og ef hann vill þá getur hann kommentað hér einsog hver annar.

Annars þá væri ég almennt spenntur að heyra hvað þeim sem eru innan þjóðkirkjunnar finnst um Satan, sérstaklega ef þeir svara líka þessari athugasemd Birgis.


Guðbjörn - 27/01/04 14:43 #

Ég vil benda á að trúa að eitthvað sé til eða trúa á einhvern er ekki sami hluturinn. Ef við trúum á eitthvað , þá förum við að treysta að viðkomandi sjái fyrir þörfum manns t.d. ef þú trúir á Jesús, þá treystirðu honum fyrir því sem þú gerir og biður um blessun yfir því. En að trúa að hann sé til þá treystirðu ekki á hann.

Ég vil bara benda á að þetta er ekki sami hluturinn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/01/04 15:16 #

Þetta er ekki rétt hjá þér. Ef maður segist trúa á álfa þá þýðir það ekki að sá hinn sami treysti að álfar geri líf hans betra.

Það ættu annars allir að vita hvað ég er að tala um og það er bara leiðinlegt að ræða um eitthvað sem er augljóst.


Björgvin Ragnarsson - 30/01/04 01:52 #

Ég held að þessi spurning skipti ekki máli. Það er ekki biskups að segja í einu og öllu um hvernig hin íslenska ríkistrú skal vera, hann má alveg hafa sínar persónulegu skoðanir um ákveðin deilu/vafamál á trúnni.

Hins vegar finnst mér svona spurningar sýna frekar hversu gallaður kristnidómurinn er, að í raun sé hægt að vera í vafa um jafn mikil grundvallaratriði eins og tilvist/högun hins illa ("andstæð(ingum)/u" þess sem trúað er á).

En á hinn bóginn þegar litið er á hversu klofin kirkjan er, þá er það ekkert skrýtið. Guð er einfaldlega svona vinsæll vegna þess að fólk má nánast trúa á hann eins og þeim sýnist...


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/01/04 12:45 #

Ég er að sjálfsögðu að benda á að þjóðkirkjan tekur ekki afstöðu grundvallaratriði trúarinnar, þorir því ekki af ótta við að missa meðlimi.


Hlín Stefánsdóttir - 25/02/04 23:39 #

Þjóðkirkjan tekur víst afstöðu. Kirkjan er jú bara fólkið í kirkjunni... og það er mjög líklegt að fólkið í kirkjunni hafi mismunandi skoðanir og því erfitt fyrir einn mann að stíga fram og segja "kirkjan trúir að blablabla" Aftur á móti hefur biskup orð fyrir okkur sem æðsti maður þjóðkirkjunnar hér á landi en hann er mennskur og getur haft aðrar skoðanir en einstakir meðlimir kirkjunnar. En þjóðkirkjan er lúthersk svo kannski væri bara réttast að benda á fræði Lúthers og þá ættuð þið að geta séð hver grundvallaratriðin eru í okkar trú...


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/02/04 23:44 #

Þannig að þjóðkirkjan trúir á nornir og Satan? Gott að vita.

Ef biskupinn væri alvöru trúarleiðtogi myndi hana þora að vera heiðarlegur varðandi skoðanir sínar, hann myndi glaður svara spurningu minni, hann er hins vegar forstöðumaður gráðugrar stofnunnar og ég tel að hann þori ekki að taka afstöðu af því að kirkjan myndi tapa á því.


Jón - 26/02/04 17:13 #

Þú segir að ef biskup væri heiðarlegur mundi hann glaður svara spurningu þinni. Hefur þú spurt hann eða birtiru bara spurninguna hér og ætlast til þess að hann lesi þessa síðu. Ef þú vilt virkilega vita svarið afhverju hringiru ekki bara í hann eða sendir honum póst. Að auki þá hefur biskup talað um Satan sem hinn illa sem situr um sálir okkar í viðtali við fréttablaðið fyrir nokkru.


Jón Ómar - 26/02/04 17:13 #

Þú segir að ef biskup væri heiðarlegur mundi hann glaður svara spurningu þinni. Hefur þú spurt hann eða birtiru bara spurninguna hér og ætlast til þess að hann lesi þessa síðu. Ef þú vilt virkilega vita svarið afhverju hringiru ekki bara í hann eða sendir honum póst. Að auki þá hefur biskup talað um Satan sem hinn illa sem situr um sálir okkar í viðtali við fréttablaðið fyrir nokkru.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 17:33 #

Hefurðu dagsetningu á þessu? Ég man aldrei eftir að hann hafi talað um annað en "hið illa".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.