Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um eðli hlutanna

En rifjum nú upp þennan dag þegar tónaseiður vindhörpunnar fyrst náði hlustum strákanna þriggja og vakti þessa kynlegu óseðjandi þrá í sálum þeirra. Framað þeim tíma höfðu þeir enga tónlist heyrt nema lögin sem Lamm organisti var að kreista útúr hásu kirkjuorgelinu á sunnudögum.
- Pabbi, hver er það sem spilar á vindhörpuna, spurði Kornelíus yngri sem þá var sex ára gamall.

- Náttúrlega vindurinn, svaraði elsti strákurinn.

- Nei, það eru kerúbarnir, er það ekki, pabbi minn? spurði Síríus og leit þessum stóru órólegu augum beint framan í pabba. Annarshugar kinkaði hringjarinn kolli einsog til samþykkis og strákarnir hlustuðu þá enn hugfangnari og bljúgari en fyr. Störðu gegnum klukknaportin útí vindskekinn heiminn þarsem ábúðarmiklar skýjaásjónur liðu hjá ein og ein og hlustuðu fyrir sitt leyti á framandlega tónana. Þetta var svo óvenjulegur dagur að bræðurnir þrír gleymdu honum aldrei og löngu seinna átti Síríus eftir að gera hann ódauðlegan í kvæði sínu "Kerúbarnir liðu hjá".

- William Heinesen, Glataðir snillingar


Hún er skringileg þessi ást manna á hindurvitnum. Það virðist liggja djúpt í manneðlinu að leita duldrar merkingar í atburðum og gera jafnvel náttúrunni upp greind og aðra mannlega eiginleika.

Maður spyr sig af hverju. Nú er heimurinn alveg nógu stórbrotinn þótt maður þurfi ekki líka að gera honum það upp að vera smíðisgripur greindrar veru. Þið hefðuð t.d. átt að sjá litþrungna regnbogann sem blasti við út um rútuglugga á leið minni út á Leifsstöð eldsnemma að morgni síðasta sumar. Ég þurfti barasta ekki rassgat að halda því fram að þetta væri brú Ásanna milli tveggja heima, hvað þá að Guð væri að minna á sáttmála sinn við mennina. Sú vitneskja mín að þarna væri um ljósbrot að ræða spillti í engu því hve fagurt mér fannst það.

Og þegar betur var að gáð þarna í morgunskímunni sá maður að þetta var ekki regnbogi heldur regnhringur og auðvitað hélt hann alltaf sömu fjarlægð frá rútunni. Kúl stöff.

Mér finnst það lýsa algerri vanvirðingu við náttúruna og þau öfl sem hana móta að þurfa að gera öllu draslinu upp einhverja mannlega eiginleika, útskýra allt með almáttugri veru og öðrum hindurvitnum. Fyrir nú utan það að slíkt hátterni rænir menn alveg réttri sýn á eðli hlutanna.

Birgir Baldursson 20.01.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Daníel - 21/01/04 10:53 #

Mér finnst það einmitt gera þessi náttúrufyrirbæri dásamlegri, regnbogann fegurri, fjallahringinn tignarlegri, þytinn í laufblöðunum undursamlegri, að vita að allt þetta er afleiðing rökréttra náttúrulögmála sem maðurinn fær skilið og túlkað. Það að hægt sé að fylgjast með falli laufblaðs og útskýra og reikna út feril þess með því að taka tillit til loftmótstöðu, strauma og hröðunar og túlka þetta síðan allt saman með einfaldri (eða flókinni) stærðfræðiformúlu, finnst mér óræk sönnun fyrir fegurð heimsins og grundvelli hans í sjálfum sér án yfirnáttúrulegrar forsjónar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.