Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúin og ástin

Ég hef stundum gripið til þess að bera saman trú og geðveiki, svona til að varpa ljósi á það fyrir trúfólki hvernig trú þeirra kemur mér fyrir sjónir. Það eru þessir þættir hér sem ég dreg jafnan upp:

  • Eins og hinn geðveiki stendur hinn trúaði í sambandi við ósýnilegar verur.

  • Sá trúaði hlýðir jafnvel fyrirmælum þessara vera, sem "tala til hans" á svipaðan hátt og ofskynjanaverur hins geðveika stjórna gjörðum hans og lífi.

  • Hinn trúaði getur tekið fullkomlega óreiðu- og mótsagnakennt rit eins og Biblíuna og séð út úr texta hennar fullkomlega heilsteypta og fallega mynd á sama hátt og hinn geðveiki fær í ranghugmyndakófi sínu algerlega lógíska sýn á eitthvað sem utanaðkomandi finnst vera fullkomin þvæla.

Nú má ekki misskilja mig og halda að með þessu sé ég að fullyrða á þann veg að hinir trúuðu séu á nokkurn hátt geðveikir, eða að geðveiki sé á einhvern hátt trúarbrögð. Því fer auðvitað fjarri, þótt sumum henti að leggja mér slík orð í mun í þeim tilgangi að styrkja málflutning sinn. En þeir eru til sem kjósa af vísa þessari samlíkingu á bug sem óheppilegri, en tefla í stað fram ástinni sem góðum kosti til samlíkingar.

Og það er í lagi, því margt er líkt með þessum tveimur kenndum. Báðar eru til að mynda jafn óvitrænar og frumstæðar, fyrir utan það að hvorug tekur sérlega mikið tillit til fyrirliggjandi staðreynda.

Ólafur Jóhann Sigurðsson lýsir þessum eiginleikum ástarinnar ágætlega í hinni frábæru sögu "Litbrigði jarðar". Þar grípur ástin aðalpersónuna svo miklum heljartökum að hann verður eins og vönkuð kind í hvert sinn sem sú heittelskaða er í námunda. En napur raunveruleikinn læknar hann af þessari andlegu sullaveiki og þá loks nær hann að sjá gyðjuna í sínu rétta ljósi - frekar svona snobbaða, slepjulega og fráhrindandi.

Ástin blindar. Það er alvitað. Og þannig er það líka með trúna.

Eins og trúmenn geta trúað á ímyndaðar verur getur maður orðið ástfanginn af persónum sem hvergi eiga sér tilvist nema í manns eigin höfði. Tvisvar hefur það gerst að ég hef orðið ástfanginn í draumi af einhverjum manneskjum sem heili minn kokkaði upp. Í annað skipti kvað svo rammt að ástinni að allan næsta dag var ég í blússandi ástarsorg yfir því að þessi dásamlega mannvera skyldi ekki vera til. Þetta var örugglega næstum eins sárt og að missa elskuna sína í dauðann.

Þessi ást var fullkomlega raunveruleg, þótt það sem hún beindist að væri það ekki. Þannig er það líka með trúna. Trúin á eitthvað gerir þetta eitthvað ekki þar með raunverulegt.

Áfram með samlíkinguna: Hinn ástfangni getur látið hvaðeina yfir sig ganga í krafti ástar sinnar. Þannig fyrirgefur hann það þegar elskan hans mætir of seint eða ekki á tiltekið stefnumót, finnur henni þess í stað allt til afsökunar og finnst hann jafnvel ekki þess verður að ástin sé endurgoldin í jafn miklum mæli.

Sama ferli má sjá hjá trúmanninum. Það virðist einu gilda hve litlu, ef nokkru, af bænum hans er svarað, því hann er þess hvort eð ekki verður og vilji Guðs er hvort eð er öllu æðri.

En það sem mestu máli skiptir er að hvorug þessara tilfinninga er yfir rannsóknir hafin. Og menn hafa komist að hreint ágætum niðurstöðum þegar báðar þessar kenndir eru skoðaðar:

Ástin er lífefnafræðilegt ferli í heilanum sem heldur einstaklingnum að ákveðinni hegðun. Þróun tegundarinnar hefur gert þeim einstaklingum hægast fyrir í genaafritun sinni sem eru reiðubúnir að fórna sem mestum tíma í að "leggja í" afkvæmin og koma þeim á legg. Og því hefur sú manntegund orðið ofan á í þróuninni sem hefur heilabúið vírað á þann hátt að boðefnakokteillinn hafi við ákveðnar aðstæður bragðið "aðdáun - fórnfýsi - kynlöngun - blíða - feimni - þrá eftir líkamlegri snertingu - stolt".

Sama hefur gerst í tilviki trúarinnar. Richard Dawkins lýsir því mjög vel hér. Boðefnasúpan þarna hefur greinilega bragðið "trúgirni - traust - trúgirni - traust - trúgirni". Og þegar trúin nær þeim hæðum að guðleg návist er skynjuð má rekja það til floga í gagnaugablöðum heilans.

Þeir sem frekar vilja líkja trúnni við ástina en geðveikina segja stundum að sá sem ekki hafi elskað muni aldrei geta skilið til fullnustu í hverju það felst að trúa. Ég er sammála þessu. Ég hef bæði trúað og elskað og get fullyrt að hvorug tilfinningin hefur nokkuð með tilvist þess að gera sem elskað er/trúað er á. Þetta eru einfaldlega bara kenndir sem kalla á ákveðna hegðun: Ástin gerir menn órökvísa, fórnfúsa og svolítið eins og sullaveikar kindur. Trúin gerir menn að sama skapi órökvísa, jafnvel fórnfúsa á sínum bestu stundum, en ekki síst fær hún fólk til að hugsa og tala dálítið eins og væri það með geðklofaeinkenni.

Birgir Baldursson 19.01.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Skúli - 24/01/04 18:20 #

"Ástin gerir menn órökvísa, fórnfúsa og svolítið eins og sullaveikar kindur. Trúin gerir menn að sama skapi órökvísa, jafnvel fórnfúsa á sínum bestu stundum, en ekki síst fær hún fólk til að hugsa og tala dálítið eins og væri það með geðklofaeinkenni."

Þetta er heiðarleg samlíkning hjá þér Birgir miðað við þinn fyrri málflutning. Má þá túlka efahyggju þína með þeim hætti að þú hafir sama álit á kenndunum ást og trú því hvorugar lúta þær ströngum lögmálum gagnrýninnar hugsunar?

Sé litið til "moðhausa"-kenningarinnar ;) er ástfangið fólk þá ekki sama marki sprottið og við trúmenn? Gagnrýnin hugsun stýrir ekki öllum þáttum tilveru okkar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/04 14:32 #

Það er hárrétt hjá þér, Skúli, gagnrýnin hugsun stjórnar ekki öllum þáttum tilverunnar. En það afsakar ekkert hvers lags mein átrúnaður á æðri máttarvöld er.

Ástin er mannkyninu til framdráttar, stuðlar að fjölgun og viðhaldi. Hún er gagnleg sullaveiki (eða moðhausagangur) ef svo má að orði komast. Trúin er það aftur á móti ekki, eins og ég hef margrökstutt, t.d. hér, hér, hér og hér.

Aðalatriðið er hvaða atriði það er sem moðkvillinn rænir okkur sýn á. Í tilviki ástarinnar er það ein manneskja og afleiðingarnar hugsanleg glötun sem hinn ástfangni steypir sér í. Í hinu tilvikinu er það öll heimsmyndin sem hangir á spýtunni. Og afleiðingar þessarar ástar/ótta við æðri öfl getur kostað heilu samfélögin ómældar þjáningar, án þess að ávinningur kenndarinnar sé nokkur, ólíkt því þegar ástin á í hlut.


Skúli - 25/01/04 17:03 #

Ja, þetta einfaldar nú málið til muna og öll sár(uppgerð eða raunveruleg) hljóta nú að gróa meðþaðsama ;)

Langflest erum við því moðhausar og tökum skv. því ákvarðanir sem ekki standast strangar reglur efans. Einfaldara væri því að uppnefna þennan agnarsmáa minnihluta sem tiplar í varfærni framhjá hverri hættu í lífinu. Hér er stungið upp á orðinu "grjóthaus" ef menn hafa einhvern metnað í þessari hugtakasmíð.

Valkostir okkar flestra í þessum efnum snúast því ekki um annað hvort eða - heldur er spurningin sú hvað er í húfi hverju sinni, hversu mikilvægt það er og hversu stór háskinn er þegar menn stinga sér af bakkanum án þess að sjá til botns.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/04 19:33 #

Mér sýnist á öllu því sem þú segir hér að síðasta komment mitt á þræðinum "Heilagar kýr" hafi farið fram hjá þér. Ég vísa því í það hér: http://www.vantru.net/2004/01/15/01.10/#athugasemd-20040119163443"


skúli - 25/01/04 21:27 #

Nei, kommentið las ég og sé ekki betur en að þér viti gott eitt til.

Gættu þess h.v. að mistúlka mig ekki og gera mér upp eitthvert hugarangur eða hneykslan. Ég er bara að reyna að fá botn í þessi moðhausafræði! Þá er ég auðvitað margsinnis búinn að svara því hvers vegna ég skrifaði greinina . Hún er svar við spurningu þinni eins og fram kemur í upphafi hennar.

Einhvers staðar skilgreinir þú moðhaus m.t.t. gagnrýninnar hugsunar - þ.e. moðhaus er sá sem ekki lætur hana stýra lífi sínu í stóru og smáu. Ég bendi á þá veikleika skilgreiningarinnar að hún eigi við þann þorra mannkyns sem er/var/vill verða ástfanginn! Ef þetta er rétt hjá mér (eins og mér þykir þessi grein og benda til) er hugtakið svo rúmt að það segir okkur ekkert um það sem það á að lýsa.

Menn eru þá almennt moðhausar upp til hópa í ljósi þess að fleiri þættir móta þá en rökhugsunin ein.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/04 21:39 #

Ég tala eingöngu um moðhausa í tengslum við nám í guðfræði við Háskólann, velti fyrir mér hvort (eða staðhæfi að) þessi deild útskrifi tóma moðhausa. Með þessu er átt við að engin tilraun virðist vera gerð til þess innan þessara veggja að kenna rökfræði, rökgreiningu, rökvillur eða yfirleitt ástundun gagnrýninnar hugsunar, heldur virðist ljóst að námsefnið innihaldi eingöngu eitthvert gagnrýnislaust og þokukennt moð handa mönnum að kjamsa á.

Það er einhver hugsanaleti í gangi þarna innan veggja, eða svo sýnist mér. Hljómar hugtakið hugsanaletingi betur en moðhaus? Það táknar í huga mér sirka það sama.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/04 21:46 #

"Ég bendi á þá veikleika [moðhausa-] skilgreiningarinnar að hún eigi við þann þorra mannkyns sem er/var/vill verða ástfanginn!"

Já, vel getur passað að skilgreina ást fólks hvert á öðru sem moðhausagang. Það er í það minnsta ekkert lógískt við hugarstarfsemi ástfengisins, heldur keyra menn á impúlsum og ranghugyndum um dýrðleika annarra.

Það hefur mér að minnsta kosti sýnst. En ég er náttúrlega bara grjóthaus. Skúli, ég er nákvæmlega ekkert viðkvæmur fyrir að vera kallaður eitthvað slíkt. Vel getur verið að það sé algert réttnefni á mig. Ég er í það minnsta alveg til í að setjast niður og skoða hvort svo geti verið.

Það er hegðun sem fleiri trúmenn mættu ástunda meira :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.