Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Yfirnáttúrufræðingar

Hugmyndir um yfirnáttúru kviknuðu með manninum einhverntíma aftur í forneskju. Ótal útgáfur hafa síðan gengið af því hvernig háttar til í þessum andaheimum. Þarna hafa ótal guðir verið á sveimi, jafnvel innan sömu trúarbragðanna þar sem hver og einn stýrir sínu eigin ráðuneyti.

Yfirnáttúrufræðingarnir sem numið hafa við Háskóla Íslands eru eins og allir slíkir á undan þeim sannfærðir um að þeirra eigin útgáfa af handanheimunum sé sú eina rétta. Þeir hafa sannfærst um að kristindómurinn sé rétt skýring á þessum heimum, en t.d. ekki múslimatrú eða hindúismi. Samt hafa þeir ekkert höndunum sem skákað getur því sem hinir hafa. Guð er sagður hafa talað til þeirra sem rituðu Biblíuna, en hann talaði líka til Múhameðs, Bahá'ullah og Texas Jesú. Hvernig geta þessir menn vitað að þeirra útgáfa er rétt?

Málið er ekki einu sinni svo klippt og skorið að hægt sé að segja að kristindómurinn sé réttur en allt hitt ranghugmyndir. Nei, samkvæmt yfirnáttúrufræðingum Háskólans er kristni Gunnars í Krossinum snarvitlaus, einnig kaþólskan og hugmyndafræði flest allra þeirra kirkjudeilda sem komið hafa fram í aldanna rás.

Aðeins þeir búa að svarinu og svarið felst í "ljósi Krists". Öll hin nöturlegu Biblíuvers sem aðrar kirkjudeildir hafa í gegnum tíðina gleypt hrá og beitt í baráttu sinni gegn hinu illa (s.s. nornabrennur), eða túlkað á hvern þann hátt sem best hentaði þeim, ber núna skyndilega að lesa í þessu téða ljósi. Þar með er líka öll önnur kristni en þessi kristsljósskristni orðin að villutrú, tuttugu aldir af kristindómi orðnar að hindurvitnum.

Kaþólikkar dagsins í dag eru því samkvæmt þessu villutrúarmenn auk allra þessara bókstafssöfnuða sem boða orðið eins og það kemur af skepnunni. En yfirnáttúrufræðingar Háskólans eru auðvitað allt of skynsamir til að segja það hreint út. Því þótt túlkunarfræði þeirra höndli sannleikann sjálfan, fyrst allra kristinna fræða, þá hafa þessir menn enga þörf fyrir að útbreiða þann boðskap, vilja heldur halda honum innan síns eigin geira, sjálfum sér til fullnægju. Þeir tala því ekkert um þetta nema á þá sé gengið.

En það er svo sem ekkert skrýtið, því þetta eru óraflókin fræði sem ekki hægt að ætlast til að venjulegur pöpullinn skilji. Betra er að hann treysti bara yfirnáttúrufræðingunum fyrir þessu og hlýði óljósri boðun þeirra um náungakærleik og tilbeiðslu í blindni.

Það er því orðið ljóst að Guð sendi okkur ekki skýr fyrirmæli um hvernig móta skal hugsun vora og háttu heldur gestaþraut sem tók nærri tvo aldartugi eftir fæðingu sonar hans að leysa. Verst að lausnin skuli vera jafnflókin og þrautin sjálf.

(Sjá ennfremur: Djásnin og mykjuhaugurinn)

Birgir Baldursson 13.01.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Daníel - 14/01/04 10:32 #

Ég er guðleysingi og hef þess vegna verið að skoða þessa vefsíðu svolítið. En það er eitt sem ég skil ekki alveg. Af hverju eruð þið svona reiðir? Flest allir sem ég hitti eru líka guðleysingjar (meira að segja þeir sem eru í þjóðkirkjunni) og engan hef ég hitt sem amaðist yfir trúleysi mínu (og hef ég þó setið fundi með Snorra í Betel og honum virtist bara vera alveg sama um trúleysi mitt). A.m.k. umræður og rökleyðingar um tilvist Guðs eru vita gagnslausar. Þú sannfærir trúaðan mann aldrei með skynsemi, það eina sem virkar á hann er trúin. Ætli Guð þyrfti ekki að segja honum persónulega að hann sé ekki til til að sá trúaði tryði honum? Persónulega finnst mér að baráttan ætti frekar að snúa að trúarlegu misrétti, s.s. kristinfræði í skólum, útvarpsdagskránni o.s.frv. Ég hitti einu sinni konu sem var að velta því fyrir sér hvernig stæði á því að börnin sæu ekki í gegnum þetta með jólasveinana. Ég spurði hana á móti hvernig stæði á því að fullorðið fólk gæti trúað á Guð. Það er enginn eðlismunur á því að trúa á jólasveinana eða Guð. Trú er einfaldlega ekki spurning um skynsemi.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 14/01/04 10:38 #

Hver segir að við séum reiðir?

Auðvitað er ég stundum reiður, sérstaklega þegar mér finnst á mér brotið, en yfirleitt er ég bara hvumsa.

Spurningin ætti í raun að vera "af hverju nennið þið að standa í þessu" eða "af hverju skiptir þetta ykkur einhverju máli" og við því hef ég ekkert ákveðið svar. Ég hef áhuga á þessu málefni, tel það skipta máli og held það sé verðugt verkefni að benda á húmbúkk og hindurvitni, hvort sem tengjast trúarbrögðum eða öðru.


Skúli - 14/01/04 12:01 #

"Aðeins þeir búa að svarinu og svarið felst í "ljósi Krists"."

Kristnir menn trúa því að kristur hafi risið upp frá dauðum. Sá atburður hlýtur að lita aðrar frásagnir Biblíunnar og gefa þeim nýtt samhengi.

"Þar með er líka öll önnur kristni en þessi kristsljósskristni orðin að villutrú, tuttugu aldir af kristindómi orðnar að hindurvitnum."

Menn geta auðvitað ekki annað en svarað fyrir sjálfa sig, eða hvað? Ég er ósammála þeim sem ganga aðra leið í túlkun sinni á Biblíunni. Menn hljóta nú að mega vera ósammála í guðfræði sem öðrum fræðum án þess að það dæmi fræðin sjálf ógild!

"Því þótt túlkunarfræði þeirra höndli sannleikann sjálfan, fyrst allra kristinna fræða, þá hafa þessir menn enga þörf fyrir að útbreiða þann boðskap, vilja heldur halda honum innan síns eigin geira, sjálfum sér til fullnægju. Þeir tala því ekkert um þetta nema á þá sé gengið."

Ég tala og tala um þessa hluti og hef lengi gert. H.v. vil ég hæla ykkur fyrir það, þið kæru vantrúuðu, að ýta við okkur og hvetja okkur til þess að forma hugsanir okkar betur en við hefðum e.t.v. ella gert.

"Það er því orðið ljóst að Guð sendi okkur ekki skýr fyrirmæli um hvernig móta skal hugsun vora og háttu heldur gestaþraut sem tók nærri tvo aldatugi eftir fæðingu sonar hans að leysa. Verst að lausnin skuli vera jafnflókin og þrautin sjálf."

Texti Biblíunnar kemur f.o.f. fyrir í frásögnum og frásagnir eru þess eðlis að þær ber að túlka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.