Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvar er eldingin?

Efahyggjumenn hafa oft mjög ákveðna ímynd í bókum og kvikmyndum. Efahyggjumenn eru sýndir sem þröngsýnir náungar sem þrátt fyrir augljósar sannanir neita að trúa að skrýmslið sé til, efahyggjumenn eru síðan gjarnan étnir af skrýmslunum í refsingarskyni. Efahyggjumenn eru líka oft sagðir svo ástfangnir af tækni og vísindum að það blindar þá.

Hinir svokölluðu Muggar (e. Muggles) úr Harry Potter bókunum eru ákaflega gott dæmi um þessa ímynd. Mannfólkið í þessum bókum er skipt í þá sem skilja að töfrar eru til og hina einföldu Mugga sem þola ekki að vita neitt um yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Muggar eru óþolandi persónur í bókinni og þá sérstaklega fjölskylda hans sem ofsækir Harry fyrir að vera öðruvísi. Lesendur bókarinnar eru ekki í neinum vafa um að upplýsta mannfólkið er æðra Muggunum.

Efahyggjumenn er oft stimplaðir á sama hátt í raunveruleikanum, þeir eru sagðir lokaðir og þröngsýnir fyrir það eitt að trúa ekki í blindni. Efahyggjumenn raunveruleikans eru hins vegar svo heppnir að þeir eru sjaldan étnir af skrýmslum, þeir fá engar heimsóknir frá draugum né fá þeir eldingar í sig frá móðguðum guðum. Efahyggjumenn búa nefnilega í raunveruleikanum þar sem draugar, skrýmsli og guðir eru ekki til. Í raunveruleikanum eru það hinir trúuðu sem berja höfðinu við steininn og neita að horfast í augu við hið augljósa.

Í Nýja Testamentinu er sagt frá Tómasi sem var lærisveinn Jesú, hann vildi ekki trúa í blindni:

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."

Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."

Þarna var Jesús afskaplega indæll við vantrúarsegg úr sínum eigin röðum og því ætti hann ekki að taka því illa þó þeir sem eru í 2000 ára fjarlægð frá honum krefjist sannana. Þar sem mér fyndist einkar ósmekklegt að vera að skoða einhver för eftir pyntingar þá væri líklega betra að fara aðrar leiðir til að sýna mér "sannleikann", ég sting upp á því að Jesús sendi mér Lottótölur morgundagsins. Ég bíð spenntur.

Óli Gneisti Sóleyjarson 09.01.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Andrés - 09/01/04 03:36 #

Vel mælt.

Svo er þetta ekki einu sinni endilega spurning um að trúa á tilvist Guðs (sem ég geri reyndar ekki), heldur hvað tilvist Guðs myndi þýða þó hún væri sönnuð, ekki myndi ég byrja að mæta í kirkju og tilbiðja Guð, eða breyta lífi mínu á neinn stórkostlegan hátt þó svo tilvist Guðs og upprisa Jesú og hvaðeina væri sannað fyrir mér svo ekki lægi nokkur vafi á.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 09/01/04 14:34 #

Ef við gefum okkur að Ésú hafi verið til og sagt hafi verið nokkurn veginn rétt frá, þá kemur tvennt til greina.

Annars vegar að hann hafi verið sonur gvuðs og hann hafi verið krossfestur og dáið og risið upp frá dauðum og Tommi hafi fengið staðfestingu á þessum útúrsnúningi náttúrulögmálanna.

Hins vegar kemur til greina að hann hafi verið loddari sem var krossfestur og losaður niður fyrir dauðdag og blekkti svo Tomma (því sannlega hafa verið naglaför í höndunum á honum).

Þó ég sæi einhvern gæja með naglaför í lófunum þá myndi ég aðeins geta dregið þá ályktun að það hefðu verið naglar í höndunum á honum, ekkert um það að hann hefði dáið og hætt við það. Myndi þessi sami maður hins vegar segja mér lottótölurnar (fyrirfram)... já, þá held ég að ég myndi íhuga það að trúa hinni sögunni líka.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/04 18:22 #

Já, upprisa Krosslafs í fleskinu er afar ótrúverðug sönnun þess að hann hafi lifað dauðann af og sé sonur Guðs. Af hverju í ósköpunum þurfti hann á líkamanum að halda (meðskítogöllusaman) þegar hann yfirgaf náttúruheima og steig yfir í yfirnáttúruveröldina þar sem enginn hefur efnislegan líkama til að byrja með?

Nei, þá var nú aðeins meira vit í útlistun gnostíkeranna á meintum atburðum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/01/04 18:46 #

Vann ekki í Lottó, fékk engar tölur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.