Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kjaftshögg á kristindóminn

Heimurinn er hvorki vondur né góður. Hann bara er. Hugtökin gott og illt eru einungis fengin út frá því hvaða atburðir henta hinum nakta prímata og hverjir ekki.

Kristindómurinn gerir mikið út á vernd Guðs manninum til handa í vondum heimi. En þessi vernd er alger blekking, hún er eins og að bera gasgrímu fyrir vitum úti undir hreinu lofti.

Ástralska bíómyndin Bad Boy Bubby er sannkallað kjaftshögg á kristindóminn. Þar bregður einmitt fyrir þessari samlíkingu við gasgrímuna. Móðir Bubby hefur haldið honum föngnum inni á heimili þeirra frá fyrstu tíð. Bubby er að komast á miðjan aldur og hefur enga reynslu af veröldinni nema gegnum orð móður sinnar sem setur upp gasgrímu í hvert sinn er hún fer að heiman. Segir syninum að loftið úti sé svo eitrað að hann muni strax deyja fari hann út úr dyrum.

Auðvitað stendur gasgríman honum ekki til boða, heldur er honum haldið föngnum í krafti "eitraða" loftsins. En eftir æði frumlegar tilraunir í líffræði kemst að hann að hinu sanna:

Kötturinn hans gengur út og inn án gasgrímu og verður ekki meint af. Móðir Bubby segir það eiga sér forsendur í því að kötturinn þurfi ekki að anda, hann sé ekki lífvera (hin kristilega hugmynd um að dýrin hafi ekki sál og þurfi ekkert hjálpræði). Bubby sannreynir þetta með því að pakka kettinum inn í plastfilmu en við það verður kötturinn "kyrr". Bubby reynir plastfilmuna á móður sína og föður sem kominn er heim úr langri útlegð og þau verða bæði "kyrr" eins og kötturinn. Ályktunin sem Bubby dregur er eðlilega sú að loftið úti sé ekki eitrað og að honum hafi verið haldið í lygi.

Kristin kirkja heldur þegnum sínum í þeirri trú að lífið sé mettað af synd (eins og útiloftið hjá Bubby) og menn bjargist aðeins fyrir hjálpræði Krists (gasgríman). En auðvitað er því ekki þannig farið. Hver sá sem skoðar slíkar fullyrðingar gagnrýnum augum sér ekki aðeins í gegnum þessa fullyrðingu, heldur verður hún í augum hans að gersamlega fáránlegri og sjúklegri firru sem engan vitrænan grundvöll hefur undir sér. Þetta hljómar í eyrum hins trúlausa sem fullkomlega geðsýkislegir órar.

Ég mæli með myndinni Bad boy Bubby sem stúdíu á óra kristindómsins og legg til að menn hafi í huga meðan horft er að ekkert í veröldinni er í sjálfu sér annað hvort gott eða illt, heldur ber að skoða þau hugtök afstætt í ljósi þess hvernig hlutirnir káfa upp á okkar eigin dýrategund. Ég lofa því að jafnvel örgustu trúmenn muni við þessa tilraun koma auga á hvers konar kjaftshögg Rolf de Heer greiðir kristninni þarna og nái jafnvel að botna í því hve sjúklegar hugmyndir þeirra um heiminn hafa verið fram að þessu.

Góða skemmtun.

Birgir Baldursson 02.01.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Magnús Antonsson - 04/01/04 00:56 #

Ég las greinina þína og hef einmitt velt fyrir mér upphafi lyginnar. Ég skrifaði grein sem þú getur fundið á Hugi.is undir dulspeki - trúmál og kallaði hana Lygin - Trúin - Faðir - Móðir.


ÞorvaldurJóhannesson - 30/01/04 23:58 #

Ég trúi á Guð og ég veit að hann er t il. Ég er vottur þess að Jesús lifir og ritningarnar eru sannar frá upphafi til enda. Ég hvet þig lesandi góður að lesa Jobsbók 26 sem er í Gamla testamentinu. Sú bók var skrifuð fyrir um 3500 árum og lýsir því hvernig jörðin svífur í geimnum og að vatnið sé bunduð saman í skýjunum.Þar er talað um línu sem Guð hefur dregið hringinn í kring þar sem ljós og myrkur mætast.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/01/04 02:23 #

Skondin tilviljun, ég var að lesa Jobsbók í dag. Áhugaverð, líklega er sagan töluvert eldri en gyðingdómur einsog margar aðrar sögur í Biblíunni.

Í byrjun bókarinnar er talað um syni guðs, hverjir eru það? Gengur það ekki gegn hugmyndinni um að Jesú hafi verið einkasonur guðs? Finnst þér ekki líka skrýtið að Satan komi þar fram einsog hann sé einn af sonum guðs? Eru þessir þeir synir guðs, risarnir, þeir sömu og höfðu samfarir við dætur manna í Fyrstu Mósebók?

En áhugaverðast við það að Jobsbók er alveg sönn einsog allt annað í Biblíunni er að það er ekkert samhengi milli þess Job sem er í upphafi og enda bókarinnar og þess sem er að formæla guði í millikaflanum. Það er almennt viðurkennt að það hafi verið tveir höfundar sem komu að Jobsbók og ekki á sama tíma, þeir eru greinilega ekki sammála um framvindu mála þannig að ég get ekki séð hvernig þetta sagan geti verið sönn frá upphafi til enda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.