Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugsunarvandamál

Hæ öll, ég heiti Aiwaz og ég á við hugsunarvandamál að stríða.

Þetta byrjaði sossem nógu sakleysislega. Ég fór að hugsa í partíum og síðan til að hressa mig við. En auðvitað leiddi eitt af öðru og það kom að því að ég varð meira en bara social-hugsari.

Ég fór að hugsa þegar ég var einn - "til að slappa af" sagði ég við sjálfan mig - en ég vissi að það var ekki satt. Það varð mér sífellt mikilvægara að hugsa, og loks var ég farinn að hugsa í sífellu.

Ég fór að hugsa í vinnunni. Ég veit að vinna og hugsun eiga ekki saman en ég bara gat ekki hætt.

Ég fór að forðast vinina í hádegishléinu svo ég gæti lesið Thomas Paine og Kafka. Svo kom ég ringlaður aftur á skrifstofuna og spurði, "Hvað erum við aftur að gera hér?"

Það var heldur ekki gæfulegt heimilislífið. Eitt kvöldið slökkti ég á sjónvarpinu og spurði konuna mína út í siðfræði án trúarbragða. Hún eyddi þeirri nótt hjá mömmu sinni.

Brátt fór það orðspor af mér að ég væri stórhugsari. Dag einn var ég kallaður til yfirmannsins. Hann sagði, "Dolli, mér líkar vel við þig og því særir það mig að þurfa að segja þetta en þessi hugsun hjá þér er orðin raunverulegt vandamál. Ef þú hættir ekki að hugsa í vinnunni verður þú bara að leita þér að öðru starfi." Þetta gaf mér ástæðu til að hugsa mikið.

Eftir þetta samtal við yfirmanninn kom ég snemma heim. "Elskan", viðurkenndi ég..."Ég hef verið að hugsa....."

"Ég veit að þú hefur verið að hugsa" sagði hún, "og ég vil skilnað!" "En elskan mín, það getur ekki verið svo alvarlegt?"

"Víst er það alvarlegt" sagði hún með titrandi varir. "Þú hugsar eins mikið og háskólaprófessor og háskólaprófessorar hafa litlar tekjur svo ef þú heldur áfram að hugsa svona munum við verða gjaldþrota!"

"Þetta er klassísk rökvilla hjá þér" sagði ég óþolinmóður, og hún fór að gráta. Ég var búinn að fá nóg. "Ég er farinn á bókasafnið" hvæsti ég og stormaði út um hurðina með skellum.

Ég keyrði í áttina að bókasafninu, tilbúinn að lesa smá Nietzsche, og hlustaði á Klassík FM í útvarpinu á leiðinni. Ég skransaði inn á bílastæðið og hljóp að hurðinni...hún opnaðist ekki. Bókasafnið var lokað.

Ég er viss um að einhver Æðri Máttur var að passa mig þetta kvöld.

Ég féll til jarðar klórandi í hurðina og kjökrandi bað ég um Zaraþústra. Þá sá ég auglýsingaspjald. "Vinur minn, er of mikil hugsun að eyðileggja líf þitt?" stóð á spjaldinu. Þið þekkið þessa setningu úr þessum venjulegu auglýsingapésum frá Krossinum.

Og þess vegna er ég í dag óvirkur hugsari. Ég sleppi aldrei samkomu hjá Krossinum. Á fundunum horfum við stundum á fræðslumyndir, í síðustu viku var það "Einn dagur í einu án hugsunar". Svo tölum við mikið saman um það hvernig okkur tókst að sneiða hjá því að hugsa nokkuð frá síðasta fundi.
Ég hélt starfinu og það gengur miklu betur heima.

Lífið er einhvernvegin svo miklu auðveldara....eftir að ég hætti að hugsa.


Þýðandi Aiwaz, höf. Tom Rowe

Aiwaz 22.11.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )