Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hundalógík 3: Guð=geimfarar

Hvað sem sagt verður um Erich Von Däniken þá verður það ekki af honum tekið að frjósemi hugans er með ágætum á þeim bænum. Biblíuskýringar hans hafa enda komist næst því að vera lógískar, að gefnum ákveðnum forsendum.

En það sem allt strandar á eru þessar gefnu forsendur. Erich fellur í pytt gervivísindanna um leið og hann byrjar að útskýra ævagömul mannvirki og áletranir með orðunum "hlýtur að vera".

Það kallast að hrapa að niðurstöðum.

En Biblían er semsagt í hans augum frásagnir af reynslu mannanna af geimförum úr öðrum sólkerfum. þessar framandi verur áttu hér að hafa hitt fyrir einhverjar hálfgreindar mannverur og kynbætt þær, jafnvel með eigin erfðaefni (manninn í sinni mynd - synir Guðs og dætur mannanna). Og það voru mannverur fyrir botni Miðjarðarhafs sem urðu fyrir valinu. Geimfararnir fylgdust svo með framvindunni, horfðu upp á nýtt mannkyn greinast niður í alls kyns afbrigði eftir mökun við óæðri apategundir, en þeir héldu til haga einu "úrvalskyni", Abraham og niðjum hans.

Þessu fólki varð gerð erfðasyndin kunnug. Hún fólst í því að eignast afkvæmi út fyrir hóp þessarar úrvals genetíkur og var mönnum miskunnarlaust gert að slátra slíkum bastörðum.

En svo þurftu þessir kallar að fara, en lofuðu að mæta á svæðið aftur til að skilja sauðina frá höfrunum. Ekki man ég hvað Erich segir um þetta en dreg sjálfur þá ályktun að ef þetta reynist rétt eigum við yfir höfði okkar að geimskip lendi út um allan hnött og slátri þeim sem ekki eru af réttum kynflokki. Helförin hin síðari vofir yfir og eins gott að við nábleik á norðurhjara séum undan honum Benjamín kallinum, því annars lægi leið okkar í eldsofnana með öllum Japönunum og svertingjunum.

Já, það má nota Biblíuna til margra hluta, í versta falli til að kynda undir rasisma, heimsku og hatri. Í besta falli má nota hana í sígarettubréf og kannski rétt að hvetja til þess að meira sé gert af því.

Læt ég svo lokið hundalógíkurpistlum.

Birgir Baldursson 15.11.2003
Flokkað undir: ( Nýöld )