Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Til kvenna um trú

Orð og gjörðir Guðs eru afdráttarlaus, konur eru skapaðar til þess að vera annað hvort eiginkonur eða hórur.
Marteinn Lúther,
Verk 12.94

Kvenréttindi eru stundum til umræðu og er það vel, mætti þó vera meira um slíkt. Baráttan fyrir jafnri stöðu kvenna og karla er jú mesta réttindamál allra tíma.

Þegar rætt er um orsakir þess að konur standa höllum fæti gangvart körlum er þar ýmist kennt um innri gerð þjóðfélagsins sem byggð er á hugmyndafræði einhverra stjórnmálakenninga ellegar er kennt um almennu viðhorfi sem þurfi að breyta. Það má vera að eitthvað sé til í því en mér er ómögulegt að skilja hvernig meirihluti fólks getur verið svona gersamlega blindur fyrir þeirri staðreynd að sjá ekki að það eru trúarbrögð heimsins sem ávalt hafa verið hryllilegustu og verstu óvinir kvenréttinda. Þar sem ég sjálfur hef trúleysi sem lífssýn fyndist mér auðvitað eðlilegast að allar konur væru trúlausar en burt séð frá því er það mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig nokkur kona getur játað einhver af hinum skipulögðu trúarbrögðum heims.

Lítum á kristni. Kristin trú ræður að mestu ríkjum í hinum Vestræna heimi og hér á landi eru rúm 90% manna og kvenna skráð í kristna söfnuði. Þetta er mér alveg óskiljanlegt. Eru þær blindar? Ekki eru þær ólæsar? Þora þær ekki að horfast í augu við staðreyndir? Vita konur virkilega ekki hvaða augum þær eru litnar af þeirra eigin trúarbrögðum?

Það þarf nú ekki annað en að fletta upp á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar til að átta sig á hvað guði 90% íslenskra kvenna finnst um þær og stöðu þeirra gagnvart körlum:

Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér. (1. Mós.3.16)

Skapillur og hefnigjarn guð ákveður sem sé að leggja á konur álög þjáninga og setur þær í stöðu þræla gagnvart karlmönnum!

Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 2.12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. 2.13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 2.14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. (Fyrra bréf Páls til Tímóteusar 2.11-14)

Bara þessi setning ætti að nægja hverri hugsandi manneskju með einhvern snefil af sjálfsvirðingu til að hafna öllu því sem telst til kristni. Láta konur bjóða sér svona rugl og vanvirðu? Geta konur haft þetta eftir og sagst trúa að þetta sé óskeikult opinberað orð Guðs þeirra!?

Getur þú ímyndað þér þann óhugnanlega hrylling sem bara þessi eftirfarandi setning hefur gert konum í gegnum aldirnar?:

Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda. (2. Mós. 22.18 )

Bara þessi eina setning er ábyrg fyrir pyntingum og morðum hundruð þúsunda kvenna. Á Þingvöllum, þar sem konum var drekkt vegna þessarar setningar, var haldin skemmtihátíð í tilefni kristnitöku árið 2000. Manni verður hreinlega óglatt við tilhugsunina þegar manni er ljóst samhengið og hvernig nokkur kona gat látið sjá sig á þessari "skemmtihátíð" er mér hulin ráðgáta. Það er svipað og að Gyðingar myndu mæta til skemmtihátíðar í Auswitz til að halda uppá afmæli Hitlers! Hvað er að konur? Er ykkur alveg sama? Eða þurfið þið frekari vitna við?

Allt í lagi.

Tertullian kirkjufaðir, einn af virtari kennimeisturum frumkirkjunnar og nánast í "guðatölu" innan Kaþólsku kirkjunnar, segir:

...sérhver ykkar kvenna er Eva....Þér eruð hlið Helvítis, Þér eruð freistari hins forboðna trés; Þér voruð fyrstar til að falla frá hinu guðlega lögmáli.

Íslenskar konur malda kannski í móinn og segjast vera Lútherskar, gott og vel, hvað segir Lúther um ykkur:

Ef kona skyldi mæðast og að lokum deyja við barnsburð þá skiptir það ekki máli. Látum hana bara deyja vegna barnsburðarins, til þess er hún hér.

Halló konur! Þurfið þið meira?

Vitnum þá aftur í opinberað kærleikskver Guðs. Hvað haldið þið að kristnin kenni að sé grundvöllur sambúðar karls og konu? Ást og gagnkvæm virðing? Nei, skoðum hina úrkynjuðu mynd sem Guð dregur upp í bók sinni:

7.1 En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu. 7.2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu..
því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd (7.9) (Fyrra bréf Páls til Kórintumanna)

Maður þarf ekki að vera stjarneðlisfræðingur til að skilja að sá sem hefur ritað þessar setningar lítur á konur sem illa en nauðsynlega kynlífsþræla fyrir karlmenn. Best er sem sagt að virða konur að vettugi en ef kynlífslöngunin er að drepa mann er þó sennilega skást að ganga í hjónaband til að fá útrás fyrir kynóra sína! Ást og gagnkvæm virðing, ekki aldeilis, samkvæmt Guði eru konur ekki annað en sjálfsfróunarvélar fyrir karlmenn.

Þá segir kannski einhver að Biblíuna eigi nú ekki að taka bókstaflega. En hvaðan annarsstaðar fá þá kristnir heimildir um trú sína? Hvergi. Biblían er eina heimildin sem til er um Guð kristinna manna og þau boð hans um lífið og tilveruna sem kristnir játa. Sértu ekki sammála Biblíunni áttu að hætta að kalla þig kristna og ganga úr kristnum söfnuði. Annað er ekki bara hræsni heldur óheilindi við sjálfa þig og ekki þér samboðið. Það eru einmitt kirkjur allra kristinna trúflokka sem hvað ötulast hafa barist í gegnum aldirnar fyrir því að konur mættu ekki tjá sig á opinberum vettvangi, að þær mættu ekki njóta verkjalyfja við fæðingahríðum eða nytu sama réttar og karlmenn.

Enn þann dag í dag er það kirkjan sem er skipulagðasti og harðasti andstæðingur félagslegra, efnahagslegra og kynferðislegra réttinda kvenna. Það eru trúbræður kristinna kvenna sem harðast berjast gegn rétti þeirra til fóstureyðinga og sem í Bandaríkjunum hreinlega drepa lækna vegna slíks. Það er sami skríll sem er að berjast gegn réttindum samkynhneigðra og réttindum kvenna.

Hvers vegna eru konur annars-flokks borgarar? Hví berjast trúaðir gegn réttindum kvenna? Jú, vegna þess að Biblían er beinlínis kennslubók í því hvernig eigi að halda konum niðri. Í Biblíunni er konunni stillt upp sem óæðri, sem "óhreinni", sem glæpakvendi og sem undirgefinni karlmanninum að boði Guðs sjálfs.

Lesið bara Biblíuna ykkar! Konur í Biblíunni eru eignir: feður eiga þær og selja þær í þrældóm jafnvel fórna þeim. Feður mega selja dætur (nota bene ekki syni sína) uppí skuld! Biblían blessar nauðganir á stríðstímum og í öðru samhengi. Samkvæmt Móse-lögum, má athuga hvort brúður er óspjölluð, það er í fína lagi þótt á eiginmenn renni afbrýðissturlun og þeir geta skilið við konur sínar fyrirvaralaust. Í Biblíunni er það dæmigert að vísað sé til kvenna á þann hátt að þær séu "skækjur" eða "hórur".

Ef þú ert trúkona þá er það vitsmunalega óheiðarlegt að segja núna, já,já, Aiwaz minn, þetta er kannski allt rétt hjá þér en við konur tökum bara ekkert mark á þessu heldur trúum á Jesú og kærleika hans. Það er eins og að segjast vera gallhörð Sjálfstæðiskona sem hafi fulla trú á Davíð Oddssyni, og standi með Sjálfstæðisflokknum í öllu nema hvað viðkomandi fyrirlíti stefnuskrá og grundvöll flokksins og hafni því algjörlega! What?

Kæra trúkona, ertu eiginkona, hóra eða sjálfsfróunarvél?

Aiwaz

Aiwaz 07.11.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Lúther , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Bjarki - 07/11/03 11:18 #

Takk takk takk, svo sammála þér, það er fátt í heiminum sem er verra heldur en trúarbrögð, þau eru í raun og veru uppruni alls ills. Skil ekki hvernig fólk getur trúað á Guð, það er eins og það geti ekki höndlað að það sé ekkert líf eftir dauðann, verður að hafa einhvern stað til að fara á eftir að það deyr.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 11:59 #

Bjarki, takk fyrir.

Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og þú. Ég held að meginorsök þess að fólk lýsi sig trúað sé ótti við dauðann og svo eru auðvitað margir sem vilja bara fljóta með straumnum hugsunarlaust.

Aiwaz 93


Messías - 07/11/03 13:58 #

þrátt fyrir að það sé margt í trúarbrögðum sem að á ekki við í dag, þá finna margir fyrir styrk og öryggi í því að vita að það sé einhver sem að er æðri okkur sem að passar upp á okkur. Ég er nýlega orðinn trúaður maður og finn mikinn kraft í því að biðja til guðs og láta hann vaka yfir þeim sem að mér þykir vænt um. Það var ekki guð sem að skrifaði biblíuna og ég er viss um það að honum hafi ekki fundist konur vera hórur eða óhreinar. Þú þarft ekki að vera bókstafstrúi til að vera í kirkjunni, heldur bara trúa á algóðan guð sem að passar upp á okkur. Því að öll eigum við eftir að lenda í einhverjum áföllum í lífinu og þá er gott að hafa trúna til að komast yfir það. Það var kona sem að fæddi jesú og kom honum í heiminn svo að án ykkar væri ekki einusinni til biblía. Guð skapaði Adam og Evu, hann skapaði ekki Evu bara svo að hún gæti verið eithvað leikfang fyrir Adam. Veriði skynsamar konur því að við þurfum á hvor öðrum að halda og guð veit það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 14:07 #

Kæri Messías!

Röksemdafærsla þín virðist mér vera þessi: "Það veitir styrk og öryggi að trúa á Guð. Þess vegna er hann til." Er það rétt skilið hjá mér? Skiptir raunveruleikinn þig engu máli svo lengi sem lygin veitir fró? Mundu að það er álíka siðlaust að láta sér í léttu rúmi liggja hvort eitthvað sé satt svo lengi sem það veldur þægindatilfinningu og að láta sig einu varða hvaðan peningar eru fengnir svo lengi sem þeir eru komnir í veskið.

Ef það eru bara fylgjendur trúarinnar, en ekki Guð sjálfur sem skilja eftir öll þessi kvenfyrirlitningarskilaboð útum alla Biblíu, af hverju lætur Guð það þá viðgangast? Hefur hann ekki áhuga á að hans eigin siðferði sé í hávegum haft?

Eða er hann kannski bara ekki til?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 18:45 #

Ég þarf ekki guð sem passar mig og hjálpar mér, ég hef litla fljúgandi álfa sem gera það.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 20:45 #

Messías. Ég bendi á greinina "Heppilegt fyrir mig", birta á Vantrúnni í gær 6. nóvember. Hljómar eitthvað kunnuglega?


B - 07/11/03 21:20 #

Takk fyrir greinina. Það má í raun heimfæra geinina uppá baráttu samkynhneigðra fyrir því að fá blessun kirkjunnar á samböndum sínum og kynhneigð. Ég spyr alltaf sömu spurningarinnar í því samhengi: Hvers vegna að streða alltaf við þann aðila (þ.e. kirkjuna) þegar hann oft á tíðum sýnir bara fingurinn? Það er hægt að pússa sig saman borgaralega!

Sjálfsagt bendir einhver mér á þá einföldu staðreynd að samkynhneigðir trúa líka. Þá er það næsta spurning: Hvernig er það hægt þegar komið er fram við mann á þann hátt sem gert er?

Ég hef eitt mottó sem dugar langt: Það er ekki hvað þú segir heldur hvað þú gerir.

Það þýðir því ekkert að tala um að þó megnið af prestum séu svo og svo jákvæðir fyrir þessari þjónustu við homma og lesbíur - eða að menn eigi að lesa Biblíuna í "réttu ljósi" heldur að benda á framkvæmdina. Hún er mannfjandsamleg.

Og læt ég nú staðar numið B


Tryggvi - 07/11/03 21:47 #

Vá hvað þú ert vitlaus. Konan er óæðri manninum á flestum sviðum. Jafnrétti er hugtak sem á sér ekki tilvistarrétt meðal kalla og kvenna þar sem konur geta aldrey náð þangað sem kallmenn eru. Takk Fyrir

Og vonandi færðu leggöng og deyrð Heil Lúther


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/03 22:07 #

Hvaða rök geturðu fært fyrir þessari fullyrðingu þinni að konan sé óæðri manninum, Tryggvi? Ég hefði gaman af því að sjá þau.


Skúli - 08/11/03 23:35 #

"Ef þú ert trúkona þá er það vitsmunalega óheiðarlegt að segja núna, já,já, Aiwaz minn, þetta er kannski allt rétt hjá þér en við konur tökum bara ekkert mark á þessu heldur trúum á Jesú og kærleika hans."

Nei, það er fullkomlega heiðarlegt. Þær trúa á Jesú sem hampaði konum og gerði hlut þeirra mikinn í þessu karlveldi sem hann starfaði í. Konurnar skipa stóran sess í guðspjöllunum og einmitt ekki síst þær sem þótt einskis virði á þessum tíma, s.s. kanverska konan og María Magdalena. Með þessu sýndi hann að ást Guðs á manninum fer ekki manngreinarálit og spyr ekki að kynferði. Allir eru dýrmætir í augum Guðs jafnvel þótt samfélagið dæmi þá úr leik.

"Það er eins og að segjast vera gallhörð Sjálfstæðiskona sem hafi fulla trú á Davíð Oddssyni, og standi með Sjálfstæðisflokknum í öllu nema hvað viðkomandi fyrirlíti stefnuskrá og grundvöll flokksins og hafni því algjörlega! What?"

...what? WHAT??? hvers konar samlíking er þetta nú eiginlega? Stefnuskrá kristindómsins er téður kærleiksboðskapur Jesú Krists.

Nær væri að segja að gallhörð Sjálfstæðiskona þurfi ekki endilega að vera sammála öllum þeim jálkum sem talað hafa í nafni þess flokks í gegnum tíðina.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/03 23:53 #

Jamm, Jesú hampaði konum svo sannarlega. Þær voru nú einmitt helmingur lærisveina hans, er það ekki? Eða nýtti Jesú kannski ekki besta tækifæri sitt til að sýna jafnrétti í reynd.

Vissulega fannst Jesú gott að hafa konur nálægt sér, bera á sig smyrsl og svona. Man ekki alveg hvaða hlutverki konur í kringum Jesú gegndu öðru en að þjóna honum.

Ég held eiginlega að framkoma Jesú við konur í NT komi alveg heim og saman við það sem Páll postuli sagði um að maðurinn ætti að vera höfuð konunnar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 00:08 #

Ég fór annars og rifjaði upp dæmið af Kanversku konunni sem Jesú var svo góður við.

22Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." 23En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." 24Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." 25Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" 26Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." 27Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." 28Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Afsakið ef mér finnst Jesú ekki vera fyrirmynd góðmennsku í þessum kafla, hann vill ekkert vita af dóttur konunnar fyrren konan hefur algerlega auðmýkt sig fyrir honum. Jesú er bara skíthæll.

En þú getur örugglega túlkað þetta betur því þú hefur sérstaka símalínu til guðs og svo heppilega vill til að guð er einmitt sammála þér um hvernig á að túlka þetta, þó það sé langsótt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 11:22 #

Skúli, með "jálkum" áttu væntanlega við menn á borð við Pál Postula og Lúter, eða hvað?


Skúli - 09/11/03 16:35 #

Kanverska konan kom til sögunnar í kjölfar viðureignar Krists við farísea og fræðimenn sem þóttust hafa allt í hendi sér í krafti þeirrar verkaréttlætingar sem gaf lífi þeirra gildi. Kristur snupraði þá og rak frá sér. Kanverska konan hlaut hins vegar náð fyrir augum hans og henni varð að ósk sinni. Í auðmýkt sinni er hún ein af fyrirmyndum kristinna manna en hroki hinna fyrrnefndu víti til varnaðar.

"Ég held eiginlega að framkoma Jesú við konur í NT komi alveg heim og saman við það sem Páll postuli sagði um að maðurinn ætti að vera höfuð konunnar."

Framkoma Jesú við konur var öndverð þeirri sýn sem menn almennt höfðu á konur um það leyti. Jesús umgekkst sérstaklega konur af lægstu stigum samfélagsins, sem almennt voru útskúfaðar eða taldar óhreinar. Þær frásagnir ættu að sama skapi að vera kristnum mönnum fordæmi.

"En þú getur örugglega túlkað þetta betur því þú hefur sérstaka símalínu til guðs og svo heppilega vill til að guð er einmitt sammála þér um hvernig á að túlka þetta, þó það sé langsótt."

Held nú að símreikningurinn sé alveg nógu hár fyrir ;) Nei, ég reyni af veikum mætti að túlka ritninguna með þeim hætti sem menntun mín og samviska býður. Annars er gaman þú skulir nefna samviskuna þarna í greininni þinni. Ætla að setja nokkur orð um hana fljótlega á annálinn minn og hlakka til að heyra viðbrögð ýmissa fastagesta.

"Skúli, með "jálkum" áttu væntanlega við menn á borð við Pál Postula og Lúter, eða hvað?"

Já, þeir gátu vissulega verið "jálkar" ástundum, enda börn síns tíma á sumum sviðum þótt þeir hafi verið byltingarsinnar á flestum öðrum. Var nú reyndar að tala um "jálka" innan Sjálfstæðsflokksins í ljósi ummæla höfundar um flokksbundna og stefnuskrána.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 17:26 #

En Jesú kom aldrei fram við konur einsog jafningja, hann hafði þó mörg tækifæri til þess. Það að Jesú hafi á einhvern hátt verið skárri en samtímamenn hans þýðir ekki að hann hafi ætlast til þess að konur væru jafn réttháar karlmönnum.

Jesú kom illa fram við kanversku konuna jafnvel þó neyð hennar væri mikil. Jesú sýndi kanversku konunni fyrirlitningu en ekki kærleik. Framkoma Jesú við kanversku konuna bendir einmitt til þess að hann hafi verið ánægður með það að hún hafi sætt sig við að vera þriðja flokks mannvera. Jesú var ekki að hvetja konuna til að bera virðingu fyrir sjálfri sér né að hún væri jafn mikils virði og aðrir, hann sagði einmitt hið gagnstæða.


Skúli - 09/11/03 17:42 #

Kanversku konunni varð að ósk sinni og með bæn sinni hafði hún áhrif á Jesú.

Lestu 15. kaflann í Mt. í heild sinni: Fyrst mætir hann körlum úr efstu stigum samfélagins (faríseum og fræðimönnum) og kallar þá hræsnara. Þá hittir hann þessa konu sem vermdi botnsætið, bæði vegna kynþáttar síns og kynferðis, og hún fékk náð fyrir augum hans.

Samanburðurinn tekur af öll tvímæli um það hver afstaða Krists var á þessu sviði.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 18:27 #

Ég sé ekki að þú svarir á nokkurn hátt athugasemdum mínum um þessa sögu. Jesú er skíthæll sem kemur ekki fram við konur einsog jafningja.

Þessi saga er dásamleg því hún sýnir Jesú í allt öðru ljósi en kristnir Íslendingar vilja sjá hann. Hinn almenni meðlimur Þjóðkirkjunnar hefur ekki áhuga á að sýna auðmýkt kanversku konunnar til að fá náð í augum Jesú. Sá Jesú sem Íslendingar trúa á hefði ekki látið konuna auðmýkja sig, hann hefði sýnt kærleika en ekki hroka.


Skúli - 09/11/03 20:57 #

"Ég sé ekki að þú svarir á nokkurn hátt athugasemdum mínum um þessa sögu. Jesú er skíthæll sem kemur ekki fram við konur einsog jafningja."

Hvað segirðu? Ég benti á samhengi sögunnar og andstæðurnar sem blasa við þegar borin eru saman viðbrögð Krists við karlaveldinu annars vegar og hinni undirokuðu konu hins vegar. Hvað er svona torskilið við það?

Sögurnar lýsa því hvernig hann mölvar niður stéttar- og kynjamúra sem til staðar voru í hinni gömlu Palestínu og auðvitað út um allan heim á flestum tímum.

Mér er t.d. sem ég sæi grísku heimspekingana sýna af sér þvílíkt hátterni. Nei, þessir merkisberar skynseminnar studdust óspart við þrælahald í sínum sögum og líkingum og lítið fór fyrir kvenfrelsi í ritum þeirra.

"Sá Jesú sem Íslendingar trúa á hefði ekki látið konuna auðmýkja sig, hann hefði sýnt kærleika en ekki hroka."

Hann sýndi henni kærleika, hann læknaði dóttur hennar. Já, hann hlustaði á hana og hafi hann sýnt henni hroka í byrjun lýkur samræðum þeirra með því að hann hælir henni og verður við ósk hennar.

Hvað orð eins og "skíthæll" varðar o.þ.h. sem eru að mínu mati alltof algengt í þessum skrifum ykkar, nenni ég ekki að pirra mig á. Ég lít fremur á það sem víti til varnaðar og gæti mín á því að tala sjálfur af meiri aðgætni um skoðanir andmælenda minna og lífsgildi þeirra.

Og eitt smáatriði sem ég má til með að benda ykkur áhugamönnum um kristindóminn á. Sérnafnið Jesús er beygt svona í íslensku :

nf. Jesús þf. Jesú(m) þgf. Jesú ef. Jesú

Ég segi þetta alls ekki í neinum hroka eða yfirlæti. Þessi málvilla er bara svo ótrúlega algeng!


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 21:02 #

Jesú bar ekki einu sinni virðingu fyrir móður sinni samkvæmt Jóhannesi 2:4 "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."

Reyndar lýsir þetta frekar hugsunarhætti grískumælandi Rómarkirkjumanni sem skáldaði þetta grísk-rómverska guðspjall. Jesú guðspjallanna er ekkert annað en skáldskapur þess tíma, full af vannærðri lífsýn og örkumla alheimslausn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 21:34 #

Af hverju þurfti Jesús að gera allt í svona gátum sem ´við þurfum þig til að skilja? Ég sé nefnilega alls ekki það sama og þú útúr þess og ég fatta alls ekki hvernig þú færð það út.

Ástæða orðnotkunnar minnar er sú að ég er að reyna fella skurðgoðið af stallinum og þá finnst mér gott að vera með smá vanvirðingu. Ég er vissulega óheflaður og dónalegur á köflum en ekki vera að alhæfa um alla sem skrifa hér.

Grísku heimspekingarnir voru svo sannarlega gallaðir menn á marga vegu og ég hef ægilega gaman af því að skoða hinar ýmsu klikkuðu kenningar þeir höfðu. En málið með grísku heimspekingana er að þeir voru ekki guðir á Jörð, þeir voru bara menn og gerðu mistök sem slíkir. Ég þarf ekkert að leggja blessun mína yfir líf og gjörðir heimspekingana þó mér finnist eitthvað vit í speki þeirra.

Þú segir að lítið hafi farið fyrir kvenfrelsi í ritum Grikkjana en ef ég man rétt þá er jafnrétti kynjanna í frægasta riti Platóns. Ég man eftir tilvitnun í Aristóteles þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að Platón hefði gefið konunum jafnrétti í Ríkinu af því hann vissi ekki hvað hann ætti að gera við þær.


Skúli - 09/11/03 21:48 #

"Af hverju þurfti Jesús að gera allt í svona gátum sem ´við þurfum þig til að skilja?"

Æ, hvað væri gaman að fá þetta allt vegið og mælt eins og við værum að fara að baka brúnköku? Leitin sjálf er partur af svarinu.

"Hvað orð eins og "skíthæll" varðar o.þ.h. sem eru að mínu mati alltof algengt í þessum skrifum ykkar,"

Þetta er ekki alhæfing.

"Ég þarf ekkert að leggja blessun mína yfir líf og gjörðir heimspekingana þó mér finnist eitthvað vit í speki þeirra."

Nei, það voru þeir ekki, en þegar þið eruð að ryðja úr ykkur tilvitnunum í Biblíu og kristna höfunda er eins og þið gleymið að geta þess úr hvaða jarðvegi þeir voru sprottnir. Með því að benda á þessa hnökra heimspekinganna vildi ég sýna fram á það að hin ómengaða skynsemi er síður en svo trygging og forsenda jafnréttis.

Jújú, konur gátu komist til æðstu metorða í Ríkinu, ég gekk ekki lengra en þetta: "og lítið fór fyrir kvenfrelsi í ritum þeirra". Annars var Platón enginn sérstakur jafnréttisfrömuður.

Raunar er hugmyndin um jafnrétti mjög framandleg lífverum jarðar og þarf gríðarlegt átak til þess að hrinda henni í framkvæmd: Syndugt eðli okkar lætur okkur góna í eigin barm í sífellu og gerir okkur blind fyrir þörfum náungans.

Jæja nú hvíli ég mig á þessu í bili.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 22:27 #

Spurningin mín er eiginlega tekin úr samhengi, það sem fylgir í kjölfarið er staðhæfing mín um að í raun sé textinn hreinn og klár en þú býrð til gátu sem þú getur leyst á þann hátt að það henti þínum skoðunum. Fyrirgefðu að við lesum Biblíuna ekki á þann hátt sem kennt er í guðfræðinni.

Við erum greinilega sammála um að það sé lítið að marka Biblíuna, hvers vegna telur þú það rétt að byggja trú þína á henni? Þú telur að allt sem í henni er sé meira og minna litað af fordómum þeirra sem skrifuðu hana, gefur eitthvað til kynna að Biblían sé að einhverju leyti komin frá guði? Hvað gefur til kynna að þeir kaflar sem þú notar til að skilgreina trú þína séu þeir réttu og þinn skilningur á þeim réttur? Þykir þér ekki vænst um þá kafla sem gefa til kynna að guð sé einsog þú vilt að hann sé? Þeim köflum sé gefa til kynna að guð sé með sömu skoðanir og þú?

Mér fannst bara rétt að minnast á Ríkið í þessu samhengi en benti sjálfur á hve lítils virði það er í raun með því að vitna í Aristóteles.

Það er áhugavert að þú bendir á náttúruna í sambandi við jafnrétti kynjanna. Vissulega er rétt að það er lítið jafnrétti í náttúrunni en gefur það ekki til kynna að guð sé bara ekkert hrifinn af jafnrétti? Er guð ekki að nota náttúruna til að senda þér skilaboð um að það sé enginn þörf á jafnrétti kynjanna?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/03 23:06 #

"Raunar er hugmyndin um jafnrétti mjög framandleg lífverum jarðar og þarf gríðarlegt átak til þess að hrinda henni í framkvæmd"

Fólk sem aðhyllist skynsemi er líklegra til sjá gildi þess fyrirkomulags en þeir sem trúa að Biblían sé orð Guðs. Segir það þér ekki eitthvað?


Skúli - 10/11/03 09:21 #

"Spurningin mín er eiginlega tekin úr samhengi, það sem fylgir í kjölfarið er staðhæfing mín um að í raun sé textinn hreinn og klár en þú býrð til gátu sem þú getur leyst á þann hátt að það henti þínum skoðunum."

Þú lest þvert á móti textann úr öllu samhengi. Biblíusýn ykkar gengur út á það. Röksemdafærsla mín fyrir þeirri túlkun sem ég geng út á byggir einmitt á samhenginu!

"Við erum greinilega sammála um að það sé lítið að marka Biblíuna, hvers vegna telur þú það rétt að byggja trú þína á henni?"

Erum við sammála um það? Þú getur kíkt á þetta: http://www.annall.is/skuli/2003-10-17/21.13.58 og http://www.annall.is/skuli/2003-10-17/00.04.41

"Er guð ekki að nota náttúruna til að senda þér skilaboð um að það sé enginn þörf á jafnrétti kynjanna?"

Nei, Guð færir mér annan boðskap, náungakærleik, virðingu og umburðarlyndi. Kristið siðferði gengur m.a. út á það að berjast við eigingirnina og hrokann, sem Biblían kennir við synd mannsins og brotthvarf hans frá Guði.

"Fólk sem aðhyllist skynsemi er líklegra til sjá gildi þess fyrirkomulags en þeir sem trúa að Biblían sé orð Guðs. Segir það þér ekki eitthvað?"

Við Óli vorum nú sammála um þröngsýni heimspekinganna fornu (þó ég kaupi ekki orð hans um Aristóteles). Ég held þú ætlir skynseminni fullmikinn hlut þarna Birgir.

Tveir ágætir skynsemishyggjumenn, Descartes og Kant,gera báðir ráð fyrir Guði eða a.m.k. e-rri guðlegri forsjón í sínum heimspekikerfum. Sá síðarnefndi (fyrst við erum nú á siðfræðilegum nótum hér) réttlætir siðferðislega sérstöðu mannsins m.t.t. þess að Guð hafi gefið honum skynsemi sem gerir hann einstæðan í lífríkinu.

Mín lífsskoðun gengur út á það að maðurinn þurfi að rækta tilvist sína í öllum sínum margbreytileik: tilfinningar, helgidómar, dýpstu tilvistarrök og hin praktíska og teóretíska skynsemi. Í sumum þessara eiginleika nýtist skynsemin mér aðeins sem verkfæri til þess að flokka, sundurgreina og forðast mótsagnir. Ég vil ógjarnan fara varpa einhverju af þessu á glæ.

Hvernig er það með þig Birgir? Er skynsemin allsráðandi í þínu sálarlífi?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.