Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mótmælandi Íslands

Um helgina sá ég heimildarmyndina Mótmælandi Íslands eftir þau Þóru Fjeldsted og Jón Karl Helgason. Eins og flestir lesendur hér á Vantrú vita þá fjallar heimildarmyndin um Helga Hóseasson. Áður en ég sá myndina gerði ég mér fullkomlega grein fyrir því að erfitt er að gera heimildarmynd um jafn sérstæðan baráttumann sem Helgi er. Þökk sé Þóru og Jóni þá tókst þeim að koma lífi og skoðunum Helga frábærlega til skila. Í þessari einstöku heimildarmynd fær réttlætistilfinning og einlægni Helga Hóseassonar að njóta sín fullkomlega. Myndin er laus við allar klisjur en nær engu að síður að snerta áhorfandann með hæfilegum léttleika og alvöru.

Eftir að hafa séð myndina rifjast upp baráttumál Helga Hóseassonar við þá grimmúðlegu miðaldarkirkju sem þrífst á Íslandi. Allir vita að kirkjan getur á einfaldan hátt veitt Helga Hóseassyni lausn frá skírn og fermingarheitinu með einu bréfi. Múrar lífsskoðunarkúgunar eru því miður svo rík hefð í þeirri kirkju að ég á bágt með að trúa nokkrum breytingum þar á bæ. En mikið yrði herra Karl Sigurbjörnsson maður að meiru að skipta um skoðun og veita Helga sjálfsagða lausn sinna mála. Það er í seinn einfalt og sjálfsagt.

Hvers vegna getur Hagstofan ekki afskráð barnaskírn? Því miður liggur svarið hjá Alþingi Íslands. Í hvert sinn sem Helgi Hóseasson var settur í fangelsi fyrir skoðanir sínar var hann í raun fangi Alþingis. Lögreglan er aðeins framfylgja ólögum frá Alþingi og sama gildir um þvermóðsku Hagstofunnar. Það er því einlæg áskorun mín til allra þingmanna að veita Helga Hóseassyni þá virðingu sem hann á skilið, með því að breyta lögum um Hagstofu Íslands þannig að hægt verði að afskrá barnaskírn úr Þjóðskrá. Þetta eru einfaldlega sjálfsögð mannréttindi sem Alþingismenn ættu að lagfæra hið snarasta.

Að lokum vil ég þakka framleiðendum myndarinnar "Mótmælandi Íslands" fyrir frábært framtak og skora ég á alla að sjá myndina, enda gefur hún fólki sem ekki þekkir Helga nema að mjög takmörkuðu leyti algjörlega nýja vídd á þennan magnaða baráttumann.

Að sjálfsögðu vil ég senda Helga Hóseassyni allar mínar bestu baráttukveðjur.

Hér má lesa viðtal við Helga, sem birtist að hluta í Mannlífi fyrir nokkrum árum.
Frelsarinn 03.11.2003
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 02:30 #

Mér var boðið á myndina (og er þakklátur fyrir það) og hún var góð.

Mér þótti skemmtilegast að sjá hvað húmorinn hjá Helga skein oft í gegn. Maður sem skvettir skyri á Alþingismenn er ekki geðsjúklingur heldur húmoristi.

Aðalgalli myndarinnar er að ekki er fjallað nægilega vel um þá kúgum sem Helgi hefur sætt af hálfu "þrælanna".

Ég hvatti annars aðstandendur myndarinnar að gefa hana út á dvd því þar væri hægt að koma inn einhverju af því efni sem ekki endaði í myndinni.

Ef Helgi deyr áður en orðið verður við kröfum hans þá mun ég mæta á Hagstofuna og biðja þá að skrá inn í Þjóðskrá að ég hafi rift öllum samningum við guð og ég veit að ég verð ekki einn um það.


eva - 03/11/03 19:05 #

Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér hvort maður ætti ekki að senda bréf til Dóms- og Kirkjumálaráðuneytisins, Hagstofunnar, Forsetaembættisins, Biskups, formanna stjórnmálaflokkann og annarra sem kynnu að láta málið til sín taka og krefjast þess að fá mínum skírnarsáttmála rift, þótt ekki væri til annars en að sýna samstöðu með málstað Helga. Spurning hvort einhverjir fleiri hafa áhuga? Við gætum jafnvel skrifað staðlað bréf til að auðvelda fólki sem ekki er sátt við að hafa verið skírt til trúar á barnsaldri, að krefjast þess að sáttmálanum verið rift.


Jón Ómar - 04/11/03 11:12 #

Sæl, Ég skil ykkur ekki alveg. Þið segist ekki trúa á Guð en samt viljið þið rifta samningum við hann. Hvernig er hægt að rifta samningi við einhvern sem ekki er til. Skírn skiptir engu máli fyrir þann sem hann trúir á hann. Þetta er bara bull. Ef þið viljið rifta skírnarsáttmálan þá hljótið þið að trúa að hann sé til.

Með kv. Jón Ómar


Jón Ómar - 04/11/03 11:16 #

Smá villa: ,,Skírn skiptir engu máli fyrir þann sem hann trúir á hann''

Þetta á að vera:

,,Skírn skiptir engu máli fyrir þann sem ekki trúir á hann''

Með kv. Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 12:23 #

Trúir þú á Satan? Trúir þú á Kalí eða Shíva? Myndir þú vilja að það væri skráð að þú hefðir einhverja samninga við þessar ímynduðu verur?


Jon Ómar - 04/11/03 13:57 #

En þú hefur ekki samning við þær ef þú trúir ekki á þær. Kristin skírn er gjöf frá Guði það er þitt að ákveða hvernig þú vilt nota hana. Skírn er aðeins raunverulegur sáttmáli ef þú trúir.

með kv. Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 14:19 #

Þú svaraðir ekki spurningunni minni. Værir þú sáttur við það að það stæði í Þjóðskránni að þú hafir samið við Satan, Kalí eða Shíva? Finnst þér ekki að þú ættir þá að fá að þurrka út svoleiðis vitleysu?

Ef skírnin er milli mín og guðs þá á Hagstofan ekkert að vera skipta sér af málinu.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 14:29 #

Jón Ómar, En þú svarar ekki Óla Gneista. Ef þú trúir ekki á Satan væri þér þá ekki sama þótt það væri skráð í Þjóðskrá Lýðveldisins að þú sért skírður til heilagrar trúar á Hinn Mikla Satan og fermdur til ævarandi hlýðni og þjónustu Djöfulsins?

Myndir þú yppta öxlum og hugsa, "tja, ég trúi á Jesúm Krist og minn sáttmáli er við hann, þetta bíttar engu"?

Aiwaz 93


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 14:31 #

úps, við Óli svöruðum á sama tíma, ha,ha

Aiwaz 93


Jón Ómar - 04/11/03 18:21 #

Sælir,

Þegar þið sitjið þetta upp svona þá verð ég að játa mig sigraðan. Ef þetta snýst bara um skráningaratriði. Ég sé svo sem ekkert athugavert við það að það væri tekið út úr þjóðskránni að þú værir skírður. Það er ónauðsynlegt að tilgreina í þjóðskránni hvort maður sé skírður eða fermdur. Skrýtið að vera sammála ykkur í þessu. Ég hefði samt kosið að þið hefðuð flutt mál ykkar án þess að hafa Helga Hósearson sem fulltrúa. Enda maðurinn langt frá því að vera húmoristi og sillingur, hann er einfaldlega geðveikur. Mér til halds og traust bendi ég á skýrslu geðlækna sem hann selur hverjum sem er. Einnig má benda á það að er algjörleglada út í hött að blanda Þjóðkirkjunni og biskup Íslands inn í þetta. Karl Sigurbjörnsson hefur ekkert um þetta mál að segja það er hið háa Alþingi sem þessu ræður. Skírnarsáttmálinn er ekki sáttmáli á milli kirkjunnar og einstaklings heldur manns og Guðs. Þið ættuð að deila við ríkið en ekki kirkjuna. Með kveðju Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 19:39 #

Hér er vissulega um að ræða ærumeiðingar. Þó þú bendir á 30 ára skýrslu því til stuðnings þá sannar það ekkert. Geðlækningar hafa sem betur fer tekið stórstígum framförum síðustu áratugina. Viðhorf fólks til svona mannréttindamála hefur líka breyst síðustu áratugi. Margir sem hafa gripið til rótttækra aðgerða í sinni baráttu hafa verið álitnir geðveikir. Ef Helgi væri svona 25 ára núna með sömu skoðanir þá myndi engum detta í hug að hann væri geðveikur.

Ég hef hitt Helga og hann er ekki geðveikur, hann er reyndar svoltið skrýtinn og karakter. Ég hef talað við fjölmarga sem þekkja hann og enginn þeirra telur hann geðveikann. Helgi minnir mig á afa minn heitinn sem sagði sem honum fannst um hvern sem er og var fjandanum þrjóskari, ekki geðveikur. Ég leyfi mér frekar að efast um andlegt heilbrigði þeirra sem trúa á ósýnilegar verur.

Annars þá svaraði Helgi þessu á sinn einstaka snilldarlega og húmoríska hátt þegar hann var spurður um hvað hann vildi segja við þá sem kalla hann geðveikan [leturbreyting mín]: "Segi? Ég segi rift allan andskotann við menn. Ég er ekkert að halda því fram að ég sé ekki geðveikur. Hver er ekki geðveikur? Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart því. Þeir ættu þó að gá að sjálfum sér þessir andskotar sem eru að dæma mann geðveikan."

Mér finnst annars gaman að sjá svona umburðarlyndi hjá hinum kristnu, dæmið ekki því þið gætuð verið dæmdir er löngu gleymt. Við getum líka verið fegin að kristnar aðferðir við að lækna geðveiki eru ekki lengur stundaðar á Vesturlöndum, við höfum allavega náð einhverjum framförum þó við höfum ekki losað okkur algerlega við kristni.

Að lokum vill ég segja að það er án efa réttlætanlegt að beina spjótum okkar að Þjóðkirkjunni því það er hún sem gerir þennan samning. Þjóðkirkjan gæti tekið sig til og stutt trúfrelsi að því litla leyti að hvetja Hagstofuna til að hætta að skrá svona hluti. Það væri hægt að samþykkja ályktun þess efnis á kirkjuþingi en málið er að Þjóðkirkjan hefur ekki áhuga á trúfrelsi og það hefur biskupinn sýnt aftur og aftur.


Jón Ómar - 04/11/03 22:44 #

Sæll,

Það var ekki ætlun mín að dæma Helga. Hann er ekki verri maður þó hann sé veikur. Hann þarfnast hjálpar. Það er enginn dómur að vera geðveikur það er veiki og hægt er að fa hjálp við því. Ég tek það fram að sem kristinn maður þá er ég sammála því að þið fáið að fá því eytt úr þjóðskrá að þið hafið verið skírð.

með kveðju og Guð blessi þig


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 23:27 #

Auðvitað er það dómur að halda því fram að einhver sé geðveikur.


Skúli - 10/11/03 12:28 #

"Værir þú sáttur við það að það stæði í Þjóðskránni að þú hafir samið við Satan, Kalí eða Shíva?"

Ég játa að viljastyrkur minn og þolgæði er lítið miðað við kraftinn í Helga. Ég myndi væntanlega líta á það sem sögulegan vitnisburð og þar sem trúfélög hafa áhrif á gang mála í samfélaginu þætti mér ekki óeðlilegt að það stæði einhvers staðar í opinberum plöggum. Rétt eins og hefði ég keypt mér bíl eða flutt úr landi.

Sáttmálinn hefur a.m.k. ekki í gildi þar sem annar aðilinn hefur rift honum.

Hefurðu lesið grein sr. Magnúsar í Fréttablaðinu?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/03 12:51 #

"Ég myndi væntanlega líta á það sem sögulegan vitnisburð og þar sem trúfélög hafa áhrif á gang mála í samfélaginu þætti mér ekki óeðlilegt að það stæði einhvers staðar í opinberum plöggum."

En verður þá ekki líka koma þar fram að hann hafi rift þessum samningi? Annað væri fölsun, ekki satt?


Skúli - 10/11/03 14:20 #

Kemur það ekki fram þegar hann segir sig úr öllum trúfélögum? Er hann ekki skráður trúlaus í öllum opinberum gögnum? Fylgir þá ekki í kjölfarið að hann hafi rift skírnarsáttmálanum? Það þarf ekki nema annan aðilann til þess að rifta slíkum gerningi.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 11/11/03 09:02 #

Því miður Skúli þá er barnaskírn skráð í Þjóðskrá og skjöl um það geymd. Auðvelt væri fyrir Hagsstofu að henda þessari skráningu en fyrir einhver möppudýraleik virðist hún ekki geta gert það. Með kirkjuna er þetta mál táknrænt og siðferðilegt. Ekki spurning um hversu ódýrt þjóðkirkjan getur komist frá þessu. Biskupstofa eða einhver snjall Prestur hefði átt að ganga í þetta mál fyrir löngu síðan og klára það fyrir Helga. Ef kirkjunnar menn geta ekki greint tilfinningar og hjartans mál Helga Hóseassonar þá segi bara svo, viðkomandi aðilar verða þá bara að eiga það við eigin samvisku. En ég veit ekki hvers vegna Þjóðkirkjan vill ástunda handþvott Pílatusar endalaust í þessu máli.


Skúli - 11/11/03 13:49 #

Það sem ég átti við var að það væri skaðlaust af minni hálfu ef einhvers staðar stæði í opinberum skrám ef ég hefði á sínum tíma verið vígður inn í eitthvert trúfélag sem ég vildi ekki lengur kannast við, svo fremi sem það kæmi fram að ég væri þar ekki lengur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/03 14:59 #

Hvað ef þú hefðir á fylleríi hitt einhverja djöfladýrkendur, farið með þeim í partí og blakkað út? Þar hefðirðu svo gert samning við Djöfulinn og það síðan skráð á Hagstofu, óafmáanlegt? Myndirðu ekki berjast?

Hvað þá með samninga sem gerðir eru við ómálga börn og áhrifagjarna krakka á viðkæmum aldri? Mig langar að benda á þetta hér og þetta hér sem dæmi um góð innlegg í það mál. Ég veit ekkert hver skrifar en mér sýnist hann hitta naglann á höfuðið:

Með því að viðurkenna að forsendur séu til riftunar þessara sáttmála, og þá væntanlega þær að Helgi hafi ekki haft til þess aldur og þroska til að gera þá, viðurkennir kirkjan um leið að allar skírnir og fermingar séu í raun ógildar, eða a.m.k. ógildanlegar. Það kallast á lagamáli misneyting, þegar menn notfæra sér ungan aldur, vanþekkingu og þroskaleysi til að gera samning sér í hag. Það er akkúrat það sem kirkjan hefur alla tíð gert, og sæi fram á hrun sitt ef hún viðurkenndi það. Helgi getur því haldið áfram að láta sig dreyma um ógildingu þessara sáttmála, en meðan kirkjunnar menn hafa von um að dagur rísi á morgun, munu þeir aldrei skrifa uppá sinn eigin dauðadóm.

Og:

Finnst engum það neitt skrítið að börnum á fjórtánda ári skuli leyft að gera samning, sem enginn nema "guð" fær rift ? Þau verða ekki sjálfráða fyrr en 18 ára, og ekki fjárráða fyrr en 20 ára, og mér er ekki kunnugt um að þau séu bær til að gera bindandi samninga fyrir þann tíma. A.m.k. yrðu slíkir samningar ofurseldir því að þeim fengist auðveldlega rift ef þeir væru taldir færa viðsemjanda óeðlilega rétt á þeirra kostnað. Af hverju hefur kirkjan þau sérréttindi að geta gert bindandi samninga við smábörn?

Gaman væri að sjá þig svara þessu, annað hvort hér eða á Vísi.


Skúli - 18/11/03 11:04 #

http://www.annall.is/skuli/2003-11-16/13.26.26


Lovísa Fjeldsted - 09/07/04 12:09 #

Mér finnst Helgi eiga sinn rétt til að láta afneita skírn og fermingu. Það er bara þrjóskast út í hann og meira en það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.