Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gerir trúin fólk að aumingjum?

Ég hef heyrt þá gagnrýni á málflutning okkar trúlausra að hann sé einungis til þess fallinn að ræna fólk huggun þeirri sem aðeins trúin veiti. Ef ef við veltum því aðeins fyrir okkur hvað það er sem trúin á hughreysta menn gegn kemur í ljós að þar eru á ferðinni fyrirbæri sem trúin sjálf hefur plantað í huga fólks til að byrja með.

Synd og fyrirgefning. Ill öfl og góð. Glötun og hjálpræði. Fátækt og ríkidæmi. Illur heimur og himnaríki. Allt eru þetta uppstillingar sem sveigja huga fólks til hlýðni og hræðslu. Alið er á ótta um afdrif manna eftir dauðann, en loforð þó gefið um að ef menn verji lífi sínu með þessum eða hinum hættinum muni allt fara vel.

Það er meira að segja gengið svo langt að draga upp þá mynd að allt þetta sé með einhverjum hætti fegurð, en önnur heimsmynd sé ljótleiki. Með þeim hætti er auðsveipum sálunum safnað saman til undirgefnishegðunar og þrælslundar.

Á þessu hefur gengið allt frá því í árdaga.

Í nýlegu svari sínu til Sigurðar Hólm Gunnarssonar segir guðfræðineminn Stefán Einar:

Ef Sigurður væri kennari við barnaskóla og eitt barnanna myndi falla frá og bekkjarfélagi þessa barns myndi spyrja um afdrif vinar síns, myndi Sigurður eflaust segja: ég veit það ekki, líklegast verður vinur þinn núna að mold og ekkert meira gerist; allt búið, sorry! Hvað viljum við að sagt sé við börnin okkar við þessar aðstæður? Hvað myndum við segja við börnin okkar við þessar aðstæður?

það þarf ekki að velkjast í vafa um það að guðfræðineminn myndi í þessum sporum segja bekkjarfélagann kominn til veisluborðs himnaríkis þar sem hann sæti í góðum fíling. Hann þröngvar þar með lygahuggun upp á börnin í trausti þess að þetta sé það sem þau þurfi á að halda við þessar aðstæður.

Þurfa þau þess virkilega? Myndu þau öll bugast ef þau hefðu alist upp við þann veruleika að við dauðann hætti fólk einfaldlega að vera til sem persónur, en muni áfram lifa í hugum þeirra sem eftir eru?

Það fylgir ábyrgð því að innprenta hugmyndina um framhaldslíf. Þeim sem sæst hefur við hinn náttúrlega veruleika, þar sem dauðinn er partur af eðlilegri framvindu lífsins, er hugmyndin um framhaldslíf absúrd og óhugnanleg, enda er með henni fyrst kominn jarðvegur fyrir óttann. Ef ein yfirnáttúruvera er til, því þá ekki þær allar? Ef Guð og Jesús eru þarna hinu megin og hafast þar við ásamt englum og heilögum anda, hví ættu þá ekki illir andar og Djöfullinn sjálfur að vera raunverulegir? Með því að gera ráð fyrir allri þessari yfirnáttúru verður bæði líf og dauði töluvert meira hættuspil.

Barn sem elst upp við þann veruleika að engin yfirnáttúruöfl séu á höttunum eftir okkur hefur að öllum líkindum meiri sálarró og andlegt þrek en önnur. Og sú hugarró mun fylgja því ævina á enda.


Draugahræðsla

Myrkfælni stendur gjarna í samhengi við ill yfirnáttúrleg öfl. Hver man ekki eftir því sem krakki að hafa ímyndað sér alls kyns reimleika og ósýnileg illfygli þegar hraða þurfti sér húsa á milli í myrki? Hræðslan gat á stundum jafnvel orðið svo sterk að hún verkaði nánast lamandi. Og það versta er að margir þjást enn á fullorðinsárum af slíkri óskynsamlegri hræðslu við ókunn öfl og eru logandi hræddir þurfi þeir að vera einir heima að kvöldi til.

Guðstrúin kyndir undir svona hræðslu og boðar patentlausn þar sem "góðar" yfirnáttúruverur koma við sögu. Þannig teflir kristnin t.d. fram englum sem halda verndarhendi yfir öllum sem vilja og trúa, en spíritisminn boðar velviljaðar fylgjur framliðinna til sama brúks.

Með því einfaldlega að aðhyllast þá skynsamlegu skýringu að heimurinn samanstandi af náttúrlegum einingum og atburðum eingöngu má með einföldum hætti leggja alla þessa absúrd vitleysu til hliðar og öðlast rósemi hugans.


Sátt við dauðann

Sá sem ganga þarf á Guðs vegum til að eiga aðgang að eilífðarvist í hinum góða stað hefur gengisfellt sína eigin skynsemi og kastað hugrekinu. Hann er orðinn aumur þræll náðarinnar.

Að óttast dauðann er lært ástand. Í því felst eðlilega ekki hræðsla við meðvitundarleysi, því þá myndum við ekki þora að sofna á kvöldin. Nei þessi ótti er innplantaður og gengur út á að menn vakni upp við nýjar ókunnar aðstæður þar sem hugsanlegt er að maður sé á valdi illra afla, ef maður hagaði lífi sínu ekki rétt í lifanda lífi. Það er við þetta sem menn hafa allar götur verið logandi hræddir og því hlýtt í blindni hverri þeirri tilskipun sem boðar lausn mönnum til handa eftir dauðann.

Og að ferlegasta er að við þetta kasta menn frá sér sjálfstæðri hugsun, hugrekki og þori, en verða sem viljalaus fjúkandi lauf í vindi gagnvart eilífðinni og "hinu illa". Mestu skræfurnar liggja stöðugt á bæn allt sitt líf og hafa í frammi alls kyns fáránleg töfraritúöl, signingar og skyrpingar, æðri öflum til friðunar. Þeir sem fastir eru í slíkri endalausri þráhyggju eiga alla mína samúð, því líf þeirra er ekkert líf. Þetta fólk getur ekki um frjálst höfuð strokið.

Tiltrúin á yfirnáttúruöfl dregur úr fólki kjarkinn og fyllir hugann ótta og óhugnaði. Og í ljósi þess sem hér hefur verið sagt verður svarið við spurningunni sem lagt var upp með óneitanlega: Já, hún gerir það.

Birgir Baldursson 01.11.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/03 15:50 #

Það er nefnilega merkilegt hvað hinir kristnu eru nú hrædddir við að fara á fund guðs síns. Ætli þeir óttist að hann hafi viljað að þeir færu eftir því sem stendur í Biblíunni? Ætli þeir óttist að þeir verði fyrir vonbrigðum? Ég get alveg sagt þeim að þeir verða ekki fyrir vonbrigðum þegar þeir deyja, þeir verða ekki neitt.


kari - 04/04/04 16:02 #

'Eg veit ekki hvort þessi spurning á hér við en mig langar að vita hvort þú trúir á það góða í manninum. Og hvort boðorðinn burt séð frá trúnni séu ekki þess virði að fara eftir. Þessar lífsreglur sem eru settar koma fram í flestum trúarbrögðum og til þess gerð að bæta manninn burt séð frá himnaríki eða Nirvana og öllu því sem er lofað getur þú ekki neitað að manneskja sem fylgir grunnreglum boðorðana (en samt trúlaus) er betri manneskja en sú sem er andsnúinn þeim.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/04/04 17:01 #

'Eg veit ekki hvort þessi spurning á hér við en mig langar að vita hvort þú trúir á það góða í manninum.

Áður en ég get svarað þessu verð ég eiginlega að fá að vita hvaða skilgreining liggur til grundvallar hugtakinu "hið góða". Er hún á annað borð til?

Ég er á því að hugtökin "gott" og "illt" séu ekki absólút stærðir í heiminum, heldur hljóti að þurfa að meta þau út frá aðstæðum Er það til dæmis tákn um "hið góða" í manni ef hann drepur særðan hest með byssu sinni? Hann linar auðvitað kvalir hestsins, en tók eigi að síður líf hans.

Ef slíkt líknardráp er til merkis um að "hið góða" í manninum sé þarna að verki, gildir þá ekki slíkt hið sama um það þegar helsjúkur maður er deyddur með lyfjagjöf, eða með því að tækin sem hann er tengdur við eru tekin úr sambandi?

Hugtakið "hið góða" virðist mér vera mismundandi frá einum tíma til annars og frá einu menningarsamfélagi til þess næsta. Þetta fer allt eftir aðstæðum sem ríkja og viðhorfum þeim sem gilda í hverju samfélagi. Því er það nánanst barnalegt að ætla að stilla þessu upp sem algildu hugtaki, sem hafið sé yfir tíma og rúm.

Og hvort boðorðinn burt séð frá trúnni séu ekki þess virði að fara eftir.

Boðorðin eru ekki frekar en "hið góða" eitthvað absolút. Boðorð Biblíunnar eru m.a.s. þrælgölluð á mælistiku nútíma siðferðis. Hvað segirðu t.d. um "heiðra skaltu föður þinn og móður þína"? Stenst það siðferðiskröfur nútímans? Á ekki fólk að þurfa að sýna með einhverjum hætti fram á að þa sé allrar virðingar vert, eða er nóg að eignast bara börn og geta svo komið fram við þau eins og manni sýnist í krafti þessa boðorðs? Ég bendi á þessa ágætu grein Frelsarans okkar hér á Vantrú.

Mér sýnist á öllu að trúarbrögð þau sem þú aðhyllist hafi rænt þig viljanum til að hugsa sjálfstætt (eða svo notuð sé klisjan "út fyrir boxið"), því þú virðist gangast við þeim áróðri sem þar er haldið á lofti sem óumdeilanlegum lögmálum. Passaðu þig á því, því einmitt þannig verðurðu viljalaust verkfæri í höndum þeirra sem þrá að ríkja yfir þér og sjúga af þér vinnuframlag.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.