Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað á að gera við ríkiskirkjuna?

a_hallgrimsk.gif
Umræður um aðskilnað ríkis og kirkju er komin á undarlegt stig hér á landi. Svo virðist sem embættismenn ríkiskirkjunnar með biskup í fararbroddi vilji að íslensk þjóð greiði þeim milljarða ofan á milljarða fyrir ríkiskirkjujarðir ef til aðskilnaðar kemur. Síðan ætlar þessi sjálfskipaða stétt manna (mikið til sömu prestafjölskyldurnar) að eigna sér öll þessi verðmæti. Þetta er svona svipað og að starfsmenn RÚV fengju stofnunina sjálfum sér til eigna og ráðstöfunar. Ekki veit ég hvað þessir ríkisstarfsmenn kirkjunnar ætla að gera við allt þetta fé og mér er spurn hvort að græðgin sé búinn að taka öll völd á Laugarvegi 31.

Auðvitað á ekki að tala um aðskilnað ríkis og kirkju heldur að íslenska ríkið hættir starfsemi ríkisrekins guðs. Auðvitað á Lúterskt fólk á Íslandi að stofna sína eigin sjálfstæðu kirkju. Þetta er ekkert flókið og verður að hafa sinn aðlögunartíma. Ríkið verður að standa við skuldbindingar sínar og greiða eftirlaun til ríkispresta o.s.fr. Eðlilegt væri fyrst um sinn að ríkið innheimti sóknargjöld fyrir söfnuði hér á landi til að milda áhrifin en hætti því eftir ákveðin tíma. Enda ekki í verkahring ríkisins að innheimta félagsgjöld fyrir klúbba á Íslandi.

Eitt flóknasta verkefnið er hvað eigi að gera við kirkjubyggingar enda á þjóðin kirkjujarðirnar. Elstu kirkjubyggingarnar eru menningarverðmæti sem íslenska ríkið á að viðhalda, enda slíkt mjög kostnaðarsamt og ekki á færi félagasamtaka að gera í stórum stíl. Að sjálfsögðu ætti Lúterski söfnuðurinn að hafa greiðan afnotarétt af byggingunum sem og aðrir söfnuðir innan þeirra marka að þetta eru þjóðminjar. Flestar nýlegar kirkjubyggingar ætti Lúterski söfnuðurinn að fá til eigna enda hafa margar þeirra verið byggðar fyrir gjafafé. Segja má að eignaréttur á kirkjubyggingum sé eflaust flóknasta úrlausnarefnið í þessu máli.

Það er kominn tími til að talað sé hreint út í þessu máli og biskupinn geri sér grein fyrir að hann er embættismaður hjá ríkinu en ekki sjálfskipaður auðkýfingur. Ef meint Þjóðkirkja telur sig lifa sjálfstæðu lífi og kannast ekki við tilveru sína í fjárlagafrumvarpinu og hjá ríkinu, þá er vissara að gríman sé tekin af nafninu og orðið "þjóð" verði tekið þar strax af. Einnig að hætt verði að greiða rúmlega milljarð í beinan styrk til hennar á næsta ári. Einnig að biskupsstofa fái ekki umsvifalaust 45.800.000 í aukafjárveitingu fyrir árið 2003.

Frelsarinn 18.10.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


eva - 25/10/03 11:08 #

Voru þessar ríkiskirkjujarðir flestar, ekki upphaflega eign Kaþólsku kirkjunnar? Og rændu ekki forkólfar Lúthersku kirkjunnar þeim jörðum? Leiðréttið mig ef þetta er rangt en einhvernveginn rámar mig í að þetta hafi verið á þessa leið.

Sé þetta réttur söguskilningur hjá mér, væri þá ekki eðlilegt að Þjóðkirkjan skilaði ránsfeng sínum aftur til réttra eigenda, fyrir Jesú blessaða blóð, og forði þannig prelátum sínum og Birni Bjarnasyni frá því að lenda í eldsdýkinu á hinum hinsta degi?

Og þar sem Kaþólska kirkjan eignaðist stóran hluta þessara jarða með því að kúga sauðheimska þjóðina til að láta eignir sínar af hendi, ýmist með hótunum um helvítisvist eða fyrirheitum um himnaríki, væri þá ekki við hæfi að Kaþólska kirkjan gerði slíkt hið sama að jörðunum endurheimtum, og skilaði þeim eignum sem hún sankaði að sér með ókristilegri fjárkúgunarstarfsemi til réttmætra erfinga; íslensku þjóðarinnar, í Jesú nafni? Að launum myndi heilög María guðsmóðir vafalaust ganga til fundar við Drottinn hersveitanna og telja hann a að stytta vist hinna kaþólsku klerka í hreinsunareldinum um fáein hundruð ára. Og það er nú til nokkurs að vinna.


eva - 25/10/03 11:27 #

Og nei, nei, auðvitað er þetta ekki alveg sanngjarnt hjá mér. Auðvitað var oft um viðskipti að ræða, menn fengu greidda einhverja þóknun fyrir jörðina, fyrirkomulagið eitthvað svipað kaupleigu í dag. Og allir hamingjusamir þegar upp var staðið. Eða svo segja sagnaritarar, sem voru auðvitað prestar.

Það gæti orðið flókið að komast að niðurstöðu um það hvað voru heiðarleg viðskipti og hvað var kúgun. Þó ber að líta til þess að auðævi Kaþólsku kirkjunnar, hvarvetna í Evrópu, voru fengin með sölu aflátsbréfa, öðrum friðþægingargjöfum og viðlíka andstyggð. Fussum svei og færið fram góð rök ef þið viljið telja mér trú um að Kaþólska kirkjan á Íslandi hafi eignast sínar jarðir með mun heiðarlegri aðferðum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 21/10/04 17:42 #

Það er lokað fyrir athugasemdir við þessarri færslu þar sem það hefur ringt inn kommentaspammi hér (semsagt auglýsingar, ekki heimskulegar athugasemdir).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.