Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

"Yfirnáttúruskýringar"

Oft þegar við trúlausir erum að gagnrýna grundvöll trúarinnar, og rök trúmanna, notum við gjarnan hugtakið "yfirnáttúruskýringar" þegar við vísum í eitt eða annað sem trúmenn leggja fram máli sínu til stuðnings. Ég fór að hugleiða þetta betur og hef komist að því að hugtakið "yfirnáttúruskýring" er mótsögn sem stenst ekki rökfræði og er þar af leiðir (nokkuð óvænt) enn ein leið til að sýna fram á tilvistarleysi guða.

Við búum í efnislegum náttúrulegum heimi og erum sjálf úr efni, allt háð náttúrulögmálunum. Skynfæri okkar sem afla okkur þekkingar eru úr efni og háð náttúrulögmálunum. Heilinn okkar sem vinnur úr þessum upplýsingum sem efnisleg skynfærin öfluðu honum, hann er líka úr efni. Við öflum þannig allrar þekkingar okkar með efnislegum skynfærum úr efnislegum heimi náttúrunnar.

Þannig getur þekking okkar ekki verið önnur en náttúruleg þ.e. allar hugmyndir okkar og þekkingaratriði hafa einhverja náttúrulega tilvísun og ramma. Ég hef oft hugleitt af hverju draugar og yfirnáttúruleg skrímsli eru í kvikmyndum aldrei sýnd sem t.d. bleikur fljótandi kassi heldur skulu draugar alltaf vera í mannsmynd og skrímsli eins og t.d. úrillar risaeðlur. Jú ástæðan er auðvitað sú að allar okkar tilvísanir, öll okkar þekking er bundin hinum náttúrulega heimi. Meira að segja bleiki kassinn minn er auðvitað mjög svo efnislegt fyrirbæri! Mér sýnist því að allt sem við mennirnir myndum kalla "skýringu" verði að hafa tengingu eða tilvísun við náttúruleg fyrirbæri því annars er sú þekking sem skýra á, okkur óskiljanleg og hefur enga vitræna merkingu.

Hið yfirnáttúrulega er samkvæmt trúmönnum utan meðvitundar og skynjunar mannsins. Miðað við það sem ég var að segja um þekkingu og hvernig hún verður ekki til nema með tilvísun í það náttúrulega og þekkta eru yfirnáttúruleg fyrirbæri þar af leiðir án vitrænnar merkingar og óskiljanleg manninum. Ég endurtek ÓSKILJANLEG. Yfirnáttúruleg fyrirbæri eru óskiljanleg manninum og því hlýtur það að vera mótsögn að segja eitthvað eiga sér "yfirnáttúruskýringu". Það getur ekki verið hægt að skýra hið óþekkta með því óskiljanlega. Það er mótsögnin.

Nú jæja, ég vildi óska að ég væri vel verseraður í þekkingarfræði sem mér sýnist að sé einna mest spennandi hluti heimspekinnar en þar er krufið til mergjar hvað "þekking" er og sýnist sitt hverjum en að segjast hafa þekkingu og vitneskju um hið óskiljanlega og óþekkta er nú bara eins og að segja..tja, ekki neitt!

93

Aiwaz 15.10.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )