Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einkaréttur á draugasögum

Karl Sigurbjörnsson biskup Þjóðkirkjunnar lýsti yfir andúð sinni á draugasetri sem á að opna á Stokkseyri. Finnst honum þetta lágkúra og segir að draugasetrið sé minning um myrkur, hindurvitni, fáfræði, ógn og ótta en því miður séu það slíkir hlutir sem selji. Að vissu leyti er ég afskaplega sammála Karli en ég held að hann sjái þarna ekki bjálkann fyrir flísinni.

Þjóðkirkjan boðar hindurvitni, aðalstoð hennar er fáfræði, aðalvopn hennar er ótti fólks við dauðann. Karl veit að svona hlutir selja því hann er einmitt í sama bransa. Ætli andúð Karls á þessu draugasetri sé ekki aðallega vegna þeirrar samkeppni sem það skapar á draugamarkaðnum? Kristin kirkja hefur í gegnum aldirnar verið með afar vinsælan draug, Jesú sem nennti ekki að vera dauður.

Þjóðkirkjan stendur líka höllum fæti í samanburðinum því að þeirra draugasaga er frekar slöpp miðað við hinar ýmsu draugasögur sem hafa gengið á Íslandi. Draugasögur eru oft komnar frá útlöndum (einsog sagan af Jesú) en flestar þeirra hafa verið staðfærðar til að vekja meiri hroll.

Það er spurning hvort Þjóðkirkjan ætti ekki að fara staðfæra sínar sögur og færa nær nútímanum til fá fólk til að lifa sig meira inn í þær. Það væri til dæmis hægt að blanda Jesú inn í landnámssögur og staðsetja fyrrihluta Biblíunnar á Norðurlöndum. Þjóðkirkjan gæti þá boðið upp á ferðir á söguslóðir Nýja-Nýja-Testamentisins, það yrði örugglega vinsælla en nokkur poppmessa.

Nú er samt spurningin: Hvort draugasetrið er verra eða Þjóðkirkjan? Draugasetrið á vonandi að vera meinlaust gaman og ég efast um að aðstandendur þess eigi eftir að stunda nokkuð trúboð, varla að þeir trúi raunverulega á sögurnar sjálfir (og að því leyti eru þeir nú líkir Þjóðkirkjuprestum) og séu aðallega að þessu til að skemmta fólki. Þjóðkirkjan stundar hins vegar trúboð, hatursfullt trúboð, og hefur alls engan húmor fyrir sjálfri sér. Nú eru íslenskar draugasögur jafn mikil vitleysa og Biblíusögur en munurinn er sá að þeir sem segja íslensku draugasögurnar heimta ekki að litið sé á þær sem heilagan sannleik.

Það ætti einhver að benda Karli Sigurbjörnssyni á að hann hefur ekki einkarétt á draugasögum né lágkúru.

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.10.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/10/03 10:11 #

Right on! :)


Eygló Traustadóttir (meðlimur í Vantrú) - 13/10/03 17:04 #

Stórgóð grein! Þeir ættu kannski að hafa bás fyrir himnadrauginn á safninu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.