Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Indiana Jones og trúarstökkið

Í myndinni Indiana Jones and the Last Crusade þá stendur Indy á barmi hyldýpis og þarf að taka trúarstökk. Hann þarf í raun að treysta á að guð grípi hann, að guð búi til brú fyrir hann. Indy ákveður að láta vaða og guð bjargar honum. Jamm, þannig virkar það í kvikmyndunum.

Ef ég væri Harrison Ford og hefði George Lucas og Steven Spielberg á bak við mig þá myndi ég líka þora að taka þetta skref út í tómið því þeir hjá Industrial Light and Magic eru nokkuð snjallir. Ég myndi ekki taka þetta skref í raunveruleikanum enda væri það bara brjálæði. Það er annars ekki hægt að taka þetta eina atriði úr samhengi við hinar myndirnar.

Í fyrstu myndinni, Raiders of the Lost Ark, er Indiana varfærnislegur náungi sem trúir ekki á mátt Sáttmálsarkarinnar en í lok myndarinnar þá verður hann vitni að því að Örkin bræðir stóran hóp af nasistum. Indiana fær þar staðfestingu á því að eitthvað er á bak við Biblíuna.

Í mynd númer tvö, Indiana Jones and the Temple of Doom (í tímaröð þá gerist hún fyrst), þá fær Indy að kynnast mætti Kali og Shiva. Sankara steinarnir reynast máttugir og prestur Kali rífur hjartað úr brjósti manns án þess að drepa hann.

Í þriðju myndinni er hetjan okkar því búinn að fá staðfestingu á því að í hans heimi þá gerast yfirnáttúrulegir hlutir út um allt. Þessi Indiana Jones sem veit hvernig reglurnar í hans heimi virka stendur á barmi hyldýpis og í ljósi þeirrar vitneskju sem hann hefur þá tekur hann skrefið, það er ekki trúarstökk því hann hefur þegar fengið staðfestingu um að það er til guð.

Ég hef ekki fengið neina staðfestingu á því að það sé til guð, ég þyrfti að treysta á guð sem hefur líklega ekki sýnt sig í 2000 ár og þá sýndi hann sig bara einhverjum hirðingjum sem ég myndi ekki treysta til að passa úlfaldann minn (einn þeirra skipaði fylgismönnum sínum að hirða einhvern asna sem einhver hlýtur að hafa átt).

Í heimi Indiana Jones er guð til, í okkar heimi er hann goðsögn, mistök fortíðarinnar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 07.10.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sigurður Hólm Gunnarsson - 08/10/03 02:52 #

Skemmtileg pæling. Ekki hafði ég hugmynd um að "Temple of Doom" gerðist á undan "Raiders of the Lost Ark". Hvernig veistu það? :)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/10/03 10:12 #

Það kemur reyndar fram í upphafi myndanna, Temple er 1935, Raiders er 1936 og Crusade er 1939.


sivar - 08/10/03 14:17 #

Mistök fortíðarinnar?

Hvernig færðu það út að hann hafi verið mistök?

Ég skil goðsögn.. og að hann sé ekki til. En mistök?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/10/03 15:45 #

Það eru margar ástæður fyrir því að guð hafi verið mistök hjá mannkyninu. Til dæmis voru það mistök að búa til guð sem hægt var að nota til að útskýra allt því það seinkaði reyndum að finna út hvað raunverulega knýr alheiminn áfram.


sivar - 10/10/03 10:34 #

En það er samt mjög skiljanlegt að skoða afhverju trú og trúarbrögð komu fram. Það er bara þróun. Jú vissulega er hægt að segja að hún hefði kannski verið "betri" en ef þú lítur á trúarbrögð þá eru þau búin að þróast mikið.

En ég skil samt alveg hvað þú átt við. Er eiginlega sammála því líka.


Karl - 23/10/03 16:52 #

Stundum getur þjónað hagnýtum tilgangi að trúa á æðri mátt sem maður geti haft hlutdeild í ef maður sækist eftir því. Ef Indy trúir því að Guð ætli að hjálpa honum að stökkva eins langt og hann getur, þá er hann með mátt Guðs í höndunum, a.m.k. í huganum. En það er sálfræðileg staðreynd að trú og sterkur vilji getur hjálpað til að gera hluti að veruleika, getur a.m.k. framkallað breytingu í huga og líkama viðkomandi manneskju. Ég geri ráð fyrir að þú áttir þig á því að hlutirnir ganga yfirleitt betur ef maður er fullur af sjálfstrausti og hikar hvergi, heldur en þegar maður er bugaður af ótta og með hugann við verstu afleiðingar. Trú á æðri mátt getur einmitt gefið fólki þennan styrk til þess að takast á við veruleikann a.m.k. eftir bestu getu.

Dæmi um þetta er 12 spora kerfi AA samtakanna, en það gerir ráð fyrir trú á æðri mátt. Þetta hjálpaði Bubba Morthens að losna við dópið, sem fyrir hann hefði verið óyfirstíganlegt stökk án trúar. Það má segja að trúin hafi framkallað kraftaverk, en til þess að útskýra fyrir ykkur sem takið allt í bókstaflegri merkingu má segja að trúin sé sálfræðilegt tæki til þess að ná fram markmiðum. Ekkert mystískt við það.


Stjáni - 14/11/03 10:53 #

Það er eins og mig minnir að það hafi reyndar ekki verið guð sem bjargaði Indy. Það var brú þarna allann tíman, hún sást bara ekki sökum sjónhverfingar. :)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/11/03 11:27 #

Það er náttúrulega alveg rétt hjá þér, þetta var bara sjónhverfing. Ég var einmitt að horfa á aukaefnið með nýja settinu um daginn og þá kom þetta upp í hugann, hefði nefnt það þegar ég skrifaði hana ef ég hefði munað eftir því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.