Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?

Ég heyrði um daginn örstutt brot af viðtali á Rás2 þar sem rætt var við kvikmyndargerðafólk sem var að gera mynd um dulvitleg fyrirbæri.

Kvikmyndagerðamennirnir voru afskaplega uppteknir af því að eitthvað dulvitlegt hlyti að vera til vegna þess að þeir voru búnir að tala við svo mikið af fólki sem hafði svo margt merkilegt að segja. Lokarök þeirra voru: Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?

Á ensku segja menn stundum the plural of anecdote is not data sem mætti snúa yfir í margar reynslusögur eru engin sönnun

Það heldur því enginn fram að "allt þetta fólk" ljúgi þegar það segir frá draugum, fljúgandi furðuhlutum, álfum eða englum. Ég held því fram að fólkið hafi ekki rétt fyrir sér, hafi látið glepjast. Það er einfaldlega líklegra að algengt sé að fólk taki feil, geri mistök eða muni vitlaust heldur en að náttúrulögmál hætti að virka.

Vandamálið við vitnarökin er að til að sannfæra þá sem halda þeim fram þarf að hrekja allar sögurnar. Ekki er nóg að sýna fram á hugsanlegar skýringar, alltaf er hægt að finna nýja sögu sem stangast hugsanlega á við mögulega skýringu. Enda er það náttúrulega ekki hlutverk þeirra sem efast um yfirnáttúru að afsanna öll möguleg hindurvitni, heldur er það hlutverk þeirra sem trúa að sanna þau. Og þá dugir ekki til að tína til ótal vitni að ótal mismunandi atburðum með ótal mismunandi sögur. Því margar reynslusögur eru ekki sönnun.

Matthías Ásgeirsson 01.10.2003
Flokkað undir: ( Nýöld )