Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Því svo hataði guð heiminn...

Í messuhaldi og kristinfræðslu er þessi setning úr guðspjalli kennt við Jóhannes ein sú mest notaða til að fylla kristna trúarlotningu og þakklæti:

Jh 3.16: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Staðreyndin er sú að þessi setning er jafn illa ígrunduð og öll kristin trú. Að drepa son sinn til að sýna öðrum ást er ógeðslegt og hefur ekkert með ást að gera. Því samkvæmt Nýja-testamentinu eru örlög sonarins skipulögð af
Guði sem grunnurinn af kristinni trú. Lítill hefði áhuginn verið hjá blóðþyrstum skrælingjum þess tíma ef trésmiðurinn hefði látist í hárri elli. Krassandi aftökur, blóð og naglar er það sem virkaði í auglýsingaskyni.

Síðan telst það seint til fórnar að vakna sprelllifandi þrem dögum síðar eftir aftökuna. Kristnir menn virðast þannig trúa vegna fáránlegs samviskubits yfir að sonurinn hafi látist fyrir þá af mannavöldum. Hvernig er hægt að fá samviskubit ef hann vaknaði hress og ódrepandi? Það er einhver skelfileg rökvilla í öllum þessum farsa og í raun eru einstaklingar sem fórna lífi sínu til að bjarga öðrum miklu merkilegri en ódrepandi guðir.

Það er líka afskaplega barnalegt fyrir almáttugan guð að senda son sinn í reisu til Palestínu, bara til að fá hann dæmdan sem guðlastara og landráðamann. Láta hann síðan sogast til himna í einkasamkvæmi tólf lærisveina, fyrirgefið, ellefu lærisveina, en ekki fyrir ásjónu þúsunda manna sem hefði verið öllu skynsamlegra fyrir alvitran Guð. Í staðinn ræður hann Rómarkirkjuna til að drepa milljónir við að troða á villimannlegan hátt kristinni kirkju upp á lýðinn. Þar var milljónum fórnað fyrir ekki neitt nema heimsku. Það þarf afskaplega mikla afneitun til að sjá vitrænan tilgang með þessu brambolti.

Í þessari setningu er fólk líka flokkað í tvo hópa með ógeðfelldri aðskilnaðarstefnu, þau sem trúa á draugagang sonarins og hin sem ekki trúa á slíkar goðsögur. Þau sem ekki trúa hljóta grimmilega refsingu með því að brenna um alla eilífð í eldsofni. En hin trúuðu fá inngöngu í ríki guðsins. Þannig er fórn þeirra, sem ekki trúa á slíkt rugl og villimennsku samvisku sinnar vegna, miklu meiri en fórn afturgengna sonarins.

Ég get ekki skilið hvernig prestar hafa geð í sér að fara með þessa heimskulegu setningu sem ást og kærleik þegar hún er í raun útskúfun og hatur. Það þarf ekki mjög rökfastan mann til að sjá hversu fórn þeirra milljóna manna sem trúðu ekki á Jesú Krist fyrir herjum kirkjunnar er miklu stærri en nokkur fórn ódrepandi guðs. Þannig er þessi setning nýja testamentisins kennd við Jóhannes í raun mestu öfugmæli síðari tíma.

Frelsarinn 30.09.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )