Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heill og hamingja

Algengt er meðal hinna kristnu að ganga út frá því að samfélagið við Guð sé leiðin að vellíðan og þeir sem ekki njóti slíks séu vansælir. Kristnir draga sumir hverjir upp þá mynd af þessu að í heilabúi mannsins sé sérstakt hólf tileinkað samfélaginu við Drottinn og mikilvægt sé að þetta hólf sé notað. Þetta er að sjálfsögðu alröng greining.

Ef Guð er til, er ekkert eðlilegra en gera ráð fyrir því að þetta hólf sé til staðar. En vandmálið er því miður yfirþyrmandi líkur á tilvistarleysi Guðs.

Og þegar málin eru skoðuð út frá þeim bæjardyrum verður hólfið fyrir samfélagið við Guð nokkuð torkennilegt á að líta. Hér er mín greining:

Góð líðan sem skapast við meint samfélag við Guð eða guði er tilkomin af þeim ranghugmyndum að maður sé glataður án þessa samfélags. Þetta er hræðsluáróður sem hinir trúgjörnustu á meðal vor eru á valdi. Okkur hinum líður ágætlega þótt við látum þetta sem vind um eyru þjóta, en eymingjans trúgjarna fólkið er haft að fíflum með heimskulegum fullyrðinga- og hótanavaðli um nauðsyn á samfélagi við draug sem ekkert bendir til að eigi sér tilvist.

Þeir sem aðra hneppa í þessa hugsanaánauð gera það ekki fyrir illgirnissakir eða fégræðgi (nema í einstökum tilfellum) heldur eru þeir sjálfir undir ofurvald ranghugmyndarinnar settir og skíthræddir um hvað verði um vitund þeirra eftir að lífinu lýkur.

Eina lækningin við þessari sjúku ánauð er að hætta að gera ráð fyrir Guði, hætta að óttast dauðann og láta sig einu varða hvað um okkur verður eftir að það slokknar á heilabúinu.

Betra er þess í stað að byrja af krafti í þessu lífi að stuðla að heill og hamingju, bæði sinni eigin og annarra. Í raun er það hin eina hegðun sem verjandi er að hafa í frammi. Guðshólfið er einfaldlega eiturpyttur sem best er að koma ekki nálægt.

Birgir Baldursson 20.09.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )