Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lífið er núna

Eitt helsta einkenni flestra trúarbragða er sannfæringin um líf eftir dauðann. Það er eins og mannskepnan geti ekki sætt sig við eigin dauðleika og verði því að kokka upp allra handa tilgátur um hvað taki við þegar skrokkurinn hættir að starfa.

Í kristindómi er stunduð gengdarlaus sölumennska með þetta meinta framhaldslíf. Þar er mönnum í raun gert að sannfærast um að þeir séu syndum hlaðnir en fyrir tilstilli veru, sem var hálfur guð og hálfur maður, sé þeirri byrði létt af mönnum. Í staðinn þurfa þeir svo að lúta þessari guðaveru og ekki síður umboðsmönnum hennar á jörðinni.

Þeir sem gefa kirkjunni eða söfnuðinum mest skotsilfur eru öruggastir um að fá framlengingu á meðvitundinni.

Það er í raun andstyggilegt og ábyrgðarhluti að koma því í kollinn á almúganum að dauði án upprisu í Jesú Kristi sé hræðilegt hlutskipti. Þessi áróður hefur verið rekinn með svo öflugum hætti yfir hausamótunum á lýðnum gegnum aldirnar að jafnvel fjölmargir í nútímasamfélagi eru gáttaðir á því að til sé fólk sem taki sénsinn á að trúa ekki. Þetta sama fólk á um leið mjög erfitt með að skilja að náttúrlegur dauði manna og dýra sé eðlilegur hlutur sem enginn þurfi að óttast.

Nýlega svaraði ég fyrirspurn frá framhaldsskólanema sem vildi vita hvernig trúlausir færu að því að glíma við dauðann, þegar engin væri frelsunin og eilífðin. Í svarinu kemur fram hve hlægilega auðvelt þetta er:


Kæra Xxxxxx!

Nú er það svo að fátt tengir trúleysingja saman annað en trúleysið sjálft. Þeir koma af öllum sviðum þjóðlífsins og hafa allskonar skoðanir á mönnum og málefnum.

Svar mitt um endalokin ber því að skoða með tilliti til þessa. Verið getur að margir trúleysingjar séu afar ósáttir við það tilgangsleysi sem felst í lífi okkar, samkvæmt heimsmynd hins trúlausa. En mín afstaða er þessi:

Lífið er náttúrlegt ferli þar sem einstaklingurinn er hlekkur í keðju. Hlutverki hvers einstaklings lýkur því í raun þegar hann hefur komið upp afkvæmum sínum. Því hlýtur "tilgangur lífsins", ef hægt er að kalla hann því nafni, að vera sá einn að geta afkvæmi og fóstra þau allt þar til þau geta tekið við keflinu.

Við höfum engan "æðri" tilgang en þennan. Við erum bara gáfaðar skepnur.

Um leið og maður hefur fallist á þessa lífssýn verður dauðinn fáránlega léttvægur, samanborðið við áhyggjurnar sem maður hafði af honum áður. Og dauði ástvina verður einfaldlega eitthvað sem við má búast hvenær sem er. Besta leiðin til að kljást við hann er í raun sú að ganga ekki útfrá tilvist manna sem sjálfsögðum hlut, heldur vera viðbúinn því öllum stundum að menn og skepnur deyi. Hver dagur í félagsskap vina og ættingja fær með þessu aukið vægi. Og hvatinn til að njóta samvistanna til hins ýtrasta verður enn meiri en ella, því allt gæti þetta verið farið forgörðum á morgun.

Og þegar það gerist er lítið annað hægt en yppta öxlum og laga sig að nýjum aðstæðum. Sorgarferlið verður því styttra og bærilegra en hjá þeim sem hágrátandi spyrja "af hverju, af hverju hún/hann?" í fullkomnu skilningsleysi á eðli náttúrunnar.

Í mínu tilfelli veitir trúleysið aðlögunarhæfni og skjótari sátt við aðstæður en ella. Maður áttar sig enda á því að gæfa hvers og eins er ekkert sem æðri máttarvöld úthluta heldur bera menn sjálfir ábyrgð á velferð sinni og hamingju.

Trúleysi er því í raun frelsi með ábyrgð. Frelsi, því engum guðum þarf að lúta, engum bókstaf þarf að hlýða í blindni. Ábyrgð, því það er enginn þarna uppi sem tekur í taumana þegar allt er á leið í vaskinn.

Vona að þetta svari einhverju.

Bestu kveðjur,
Birgir Baldursson
http://birgir.com

Hvað er fengið með eilífu lífi, gott fólk? Og er það gengdarlaus sóun á verðmætum að fólk, sem áratugum saman hefur komið sér upp þekkingu og þroska, hætti að eiga sér tilvist og verði að heimskri mold?

Í raun ekki. Sú þekking sem við tileinkum okkur hefur gildi núna. Það er ekkert unnið með því að halda að reynsla okkar og lærdómur sé einhver undirbúningur undir eilífðina, heldur ríður á að við miðlum þessum hlutum jafnóðum. Við höfum það hlutverk eitt að planta genum okkar í næstu kynslóð. Í því felst framhaldslíf okkar, en til þess að afkomendurnir standi betur að vígi þarf að miðla þeim viðstöðulaust af gnægtabrunnum reynslunnar.

Nei, það er ekki sóun á verðmætum þegar manneskja deyr, hafi hún á annað borð miðlað af þekkingu sinni. Slík sóun á sér aðeins stað ef menn nýta sér ekki tilvist sína, þekkingu og þroska sjálfum sér og öðrum til gagns og ánægju. "Dyggðug" og lífsnautnasnauð æviganga sannkristinnar manneskju er í raun hroðalegur glæpur sem hún fremur á sjálfri sér og sínum nánustu. Ég leyfi mér í þessu samhengi að vitna í prestinn í bíómyndinni Chocolat:

Við getum ekki miðað góðsemi okkar við það hvað við látum ógert, hvað við neitum okkur um, hverju við berjumst gegn og hverja við útilokum. Ég held við ættum að mæla góðsemi okkar út frá því hverjum við sýnum umhyggju, hvað við sköpum og hverja við höfum með í för.

Þekking okkar, reynsla og þroski eru tæki sem gagnast okkur til að skila hinu genetíska hlutverki okkar. Og staðreyndin er sú að við getum skemmt okkur konunglega við það starf sem og í lífinu öllu. Það ríður á að njóta ávaxta heimsins, hvort sem þeir heita appelsínur eða bókmenntir, dufl eða dans. Sú nautnahyggja sem sér verðmætin í gæðum jarðar jafnt sem í ótal kimum menningarinnar er af hinu góða.

Lífið er núna. Mikilvægt er að láta það ekki glutrast niður í þurrkuntulegri heimsafneitun og átrúnaði á annað líf sem búið er að ljúga að fari í gang þegar við deyjum. Sé þessu lífi lifað af áhuga og spenningi höfum við ekkert við hitt að gera.

Enda verður ekki betur séð en það sé ávísun á tómt hangs og leiðindi til eilífðarnóns.

Birgir Baldursson 12.09.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Davíð - 12/09/03 19:46 #

Það að þekkja Jesú snýst ekki um dauðan heldur lífið. Bæði það líf sem við eigum hér á jörðinni og tilgang þess og svo eilífðina.


Davíð - 12/09/03 19:49 #

Ég myndi frekar vilja lifa í einn dag með trúnni á Drottinn en 40.000 ár án hans. Þess virði er það líf. Líf án Drottins er í raun ekkert annað en tómlegt hljóm það er hin fyrri dauði sem líka auðvelt að vinna á. Með því að viðurkenna Krist. Davíð


Baldur - 14/09/03 22:35 #

Ef ég þyrfti að eyða eilífðini með fólki eins og Davíð að loknum dauðanum myndi ég frekar vilja fara til helvítis.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.