Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gerviávöxtur kristninnar

Margir velta fyrir sér tilgangi lífsins og missa þá oft andlegt þrek þegar rætt er um dauðann. Gefast upp fyrir eigin hvötum og gerast kristnir, því kristindómurinn lofar okkur upprisu holdsins og eilífu lífi. Við þessa hugmyndafræði vil ég gera athugasemdir.

Í fyrsta lagi er dauði nauðsynlegur hluti viðgangs lífsins á jörðinni á sama hátt og fæðing. Án þessarar hringrásar verður engin þróun á jörðinni og lífið deyr út. Þannig er kristnin með afskræmingu sinni í raun mesti óvinur lífsins á jörðinni.

Okkur langar að lifa því það er okkur eðlislægt, svo við förum okkur ekki að voða. Slík lífshvöt er því jafn eðlileg lífinu eins og kynhvöt eða að neyta matar. Kristnin hámarkar lágkúru sína með því að biðja fólk að bæla allar aðrar hvatir niður. Nema þá sem kirkjan notfærir sér til að lokka fólk til sín, það er lífslöngunina. Því án hennar hefur trúin ekkert að bjóða að launum. Til hagræðingar þarf ekki að greiða þennan innistæðulausa eilífðartékka því trúgjarni viðtakandinn deyr á endanum.

Margir trúa vegna þess að þeir óttast dauðann. En ég segi að það sé óþarfi, því við höfum öll reynslu af dauðanum. Við vorum í þeirri "stöðu" áður en við fæddumst. Mér leið ekki illa ófæddum og veit með vissu að eftir þetta líf mun ég komast í sama algleymi. Hins vegar væri viljalaust hangs næstu milljarða ára í himnaríki hreinn hryllingur. Það verða líka ansi mikil þrengsli þar þegar milljarðar manna streyma þangað við endalok sólkerfisins, þegar sólin gleypir jörðina. Allavega hef ég enga löngun til að bíða eftir því þegar meintur lyklapétur missir vinnuna. Eftir það verður ekki mikið að gerast í hæstu hæðum nema meira af endalausu hangsi með sama liðinu.

Mín skoðun er sú að Kristna eilífðin sé í besta falli blekking og í versta falli ógæfa þess sem trúir henni í blindni. Því með því að trúa á ódauðleika eru miklar líkur á að okkar eina líf glatist í hendur tilgangsleysis trúarinnar. Kristindómurinn er því gerviávöxtur sem enginn ætti að bragða á sér til sjálfsblekkingar og ólyfjan.

Frelsarinn 29.08.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Davíð - 09/09/03 12:53 #

Fullvissan er sterk og hún er byggð á reynslu og samélagi við frelsara minn Jesú Krist. Hafðu það sem best, kveðja Davíð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.