Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ef þróunarkenningin...

Ef þróunarkenningin:

  1. ...væri eins og trúarbrögðin byggð á engu nema hugdettum manna (Darwins í þessu tilviki), og fylgjendum hennar væri gert að trúa á skrif hans í blindni, þá gæti ég fallist á að henda mætti henni úr skólakerfinu og inn í þar til gerðar "kirkjur þróunartrúarbragðanna".

    En:

    1. Kenningin er ekki byggð eingöngu á hugdettu Darwins, heldur áralöngu rannsóknarstarfi hans. Hann tók t.d. heilan áratug í að reyna að hrekja niðurstöður sínar áður en hann setti kenninguna endanlega fram.

    2. Fylgjendum þróunarkenningarinnar er ekki gert að trúa á hana í blindi, heldur tíðkast það í gervöllum vísindaheiminum (ekki bara í þróunarfræðum) að menn reyna að hrekja þær kenningar sem búið er að leggja fram. Gildi kenninganna er svo mælt í því hve vel þær standa af sér afsönnunartillögur annarra fræðimanna. Þróunarkenningin hefur ekki enn verið afsönnuð, en rannsóknir fjölmargra líffræðinga hafa þvert á móti stutt hana og styrkt. Kenningin virðist því ætla að standa keik enn um sinn, fyllri og nákvæmari með hverju árinu sem líður.

      Þróunarkenningin er því partur af vitneskju og mannkynsins, öfugt við trúarbrögðin, sem alltaf eru hugdettuskýringar á því sem þekkingin nær ekki yfir, glæfraför inn á lendur fáfræðinnar. Og það er fyrst og fremst þetta sem gerir Darwinismann þess verðan að vera kenndur í skólum en trúarbrögð ekki. Skólar eiga enda að miðla þekkingu, ekki hindurvitnum.



  2. ...boðaði eins og trúarbrögðin eitthvert ákveðið siðferði, t.d. það sem kallað hefur verið félagslegur Darwinismi (og kemur kenningunni ekkert við) á myndi ég styðja það heils hugar að kenningunni yrði varpað á dyr í skólakerfinu.

    En:

    1. Eins og aðrar vísindakenningar hefur þróunarkenningin engan boðskap, heldur er henni ætlað að lýsa hlutunum eins og þeir koma fyrir. Hins vegar hefur mikið farið fyrir því að almenningur átti sig ekki á þessum eiginleika vísindanna og rugli saman við ýmsar ógeðfelldar pólitískar / hagfræðilegar / trúarlegar kenningar spekúlanta sem færa sér hvað sem er í nyt málefni sínu til framdráttar.

    2. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að ræða innan skólakerfisins hinn félagslega Darwinisma á fræðilegum nótum, skrúfa hann í sundur og bera saman við önnur heimspekikerfi. Slíkt mun aðeins færa okkur þekkingu en hún er sem kunnugt er andstæðan við fáfræði á borð við þá sem trúarbrögðin útvarpa.

Birgir Baldursson 26.08.2003
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Arnar Sigurðsson - 23/04/04 08:25 #

Þessu er ég ekki sammála hvað með t.d. býflugur þær stinga og deyja ! það er deadeand eins og við segjum svo thetta gengur ekki upp !!!!!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/04/04 10:01 #

Býflugur í búi eru allar með sömu genetíkina. Því er það ekki sérlega skaðlegt búinu þótt slatti af þeim fórni sér fyrir það með því að stinga þær skepnur sem ógna því. Hér eru það hagsmunir heildarinnar sem ráða, að nýjar drottningar komist á legg til að bera arfgerðina til næstu kynslóðar.


Snorri - 23/06/04 14:41 #

Þetta er nú alveg kostulegt. Darwin "datt í hug" þróunarkenningn og glímdi við hana í áratug. Sú hugdetta er ekki hindurvitni. En ef "hugdetta" telst til trúarbragða þá kallast hún hindurvitni! Hin genatíska varðveisla sem býflugurnar stunda gæti þess vegna réttlætt "racisma" sem Nazistar stunduðu - enda trúðu þeir á þróun og flokkuðu mannkynið í yfir og undirflokka. Yfirflokkurinn hafði rétt til að eyða undirflokkum, gyðngum, svertingjum og sígaunum. Þegar Guð var ekki til þá var allt landamæralaust og menn töpuðu sér í skefjalausri grimmd ( til að varðveita genatjörnina?) Gáum vel að hverju við hleypum að okkur. Guð er til og Jesús er útvalinn sem dómari lifenda og dauðra.

kveðja

Snorri í Betel


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/06/04 17:46 #

"Datt í hug" er kannski ekki alveg nákvæm lýsing á þessu. "Kom auga á" ætti betur við, enda forsendur komnar fyrir því að sjá þetta í réttu ljósi eftir undangengið fræðastarfs, t.d. hjá munknum Mendel.

Ekki rugla saman Darwinisma og félagslegum Darwinisma. Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt. Félagslegur Darwinismi er álíka nöturlegur og kristni sú sem þú aðhyllist, þar sem mönnum er skipt upp í hólpna og útskúfaða, og það af "frelsaranum" sjálfum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.