Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Uppgjöf þjóðkirkjumanna

Í fyrra sá ég mig knúinn til að svara grein séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar sem spurði hvort verið gæti að kirkjan boðaði hindurvitni. Ég færði fyrir því ágæt rök að svo væri og vísaði þar í átrúnað þjóðkirkjunnar á yfirnáttúrleg fyrirbæri. Ýmsir tóku að sér að svara mér og valdi ég mér að svara andsvari Helga Sæmundar Helgasonar heimspekings. Þar áréttaði ég að það flokkist undir bábiljur þegar yfirnáttúra er boðuð sem sannleikur, enda eru engin rök sem réttlætt geta slík ósannindi.

Það merkilega er að á síðustu misserum er eins og kirkjunnar menn hafi tekið sig til og endurskilgreint hugtökin trú og trúleysi líkt og þeir vilji verjast ásökuninni um hindurvitnaþáttinn. Hugtakið trú er allt í einu farið að hafa svipaða merkingu fyrir þeim og orðin traust og virðing. Og trúleysingi er þá orðinn sá sem engu(m) treystir og ber ekki virðingu fyrir nokkrum hlut.

Í þessum anda voru orð biskups Íslands, bæði í viðtali við DV-Magasín í vetur sem og í áramótaræðu hans sem bar yfirskriftina Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi. Greinilegt er að orðið trúleysi táknar í huga biskups það sama og siðleysi. Og samkvæmt þessari nýstárlegu uppstillingu hljóta því allir sæmilega siðprúðir menn að vera trúaðir - líka hinir guðlausu.

Mér sýnist sem þjóðkirkjumenn hafi einfaldlega gefist upp við að verja kirkju sína gegn þeim sannindum að boðun hennar gengur út á hindurvitni. Nú rær þetta fólk lífróður til þess að sannfæra aðra um að trúin snúist ekki lengur um guði heldur það eitt að bera traust til manna og sýna þeim virðingu.

Það er ansi þægileg leið fyrir kirkjuna, þegar að henni er sótt með sterkum rökum, að skilgreina bara hugtök upp á nýtt og reyna að festa sig í sessi á nýjum forsendum. En hvernig ætlar kirkjunnar fólk að réttlæta það að guðum og annarri yfirnáttúru sé tvinnað saman við slíkan boðskap? Má ekki gera þá kröfu að þjónar kirkjunnar hætti að ákalla hindurvitnin á þeim samkomum sem boðað er til, nú þegar mælikvarðinn á trú manna hefur ekki lengur neitt með þau að gera?

Já, það er ljóst að kirkjan hefur hafnað því að skilgreina trú á forsendum yfirnáttúru, en ætlar þess í stað að finna sér hlutverk í því að forða mönnum frá siðleysi. En þjóðkirkjumenn átta sig greinilega ekki á því að við þurfum enga kirkju til þess.

Birgir Baldursson 26.08.2003
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )