Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lygin um sannleikann

Getum við eitthvað vitað um sannleikann? Er einhver leið fær til að komast að því hverjar staðreyndirnar eru bak við tilurð heimsins? Getum við með einhverjum hætti vitað hvort það er Guð?

Í raun réttri getum við ekkert um þetta sagt, þessar spurningar liggja ofan og utan við það sem rannsakanlegt telst með viðurkenndum aðferðum. Það gæti alveg verið að Guð, meira að segja sá guð sem Biblían lýsir, hafi skapað þetta allt saman og sé jafnvel að hlutast til um daglegt líf okkar, rétt eins og krakki í tölvuleik.

Það er bara ekki mjög líklegt.

Þótt ekki sé hægt með beinum hætti að leiða út svörin við spurningunum hér að ofan eru ótal vísbendingar um það hver þau eru. Og því betur sem heimurinn er rannsakaður með aðferðum vísindanna, því lengra rekur okkur burt frá fullyrðingum trúarbragðanna, ættuðum aftan úr forneskju.

Því er það þannig að þótt við getum ekki skorið úr um það hver sannleikurinn um hinstu rök tilverunnar er, getum við með góðu móti fullyrt hverjar lygarnar eru - hvaða svör við þessum spurningum eru beinlínis röng.

Og það ætlum við að gera á þessum vef, enda mikið í húfi.

Það er til dæmis alltaf verið að ausa úr sameiginlegum sjóðum okkar í stofnun sem hefur það eitt að markmiði sínu að boða töfralausnir með göldrum, beinlínis á forsendum gamalla lyga og rangfærslna um heiminn. Aðrar slíkar stofnanir, einkareknar, kalla gjarna til töfralækna frá Afríku og féfletta fólk undir yfirskyni frjálsra framlaga, auk þess að þrýsta á meðlimi sína um tíundargreiðslur.

Og öll hafa þessi költ það að markmiði að forheimska og sljóvga lýðinn með andskynsemisáróðri.

Gegn þessum samtökum öllum teflum við fram skynseminni og gagnrýninni hugsun í þeirri von að ná eyrum einhverra hugsanaþræla.

En er þörf á vef sem þessum? Félagsskapurinn SAMT heldur nú þegar úti ágætum og málefnalegum vef þar sem gagnrýni á trú og trúarbrögð er bæði beinskeytt og rökföst. Vantrú.net hyggst ganga skrefinu lengra og gefur trúleysingjum "í felum" færi á að stíga fram á ritvöllinn og viðra skoðanir sínar með afdráttarlausum hætti. Þetta fólk kemur allsstaðar að og úr öllum stigum þjóðfélagsins. Og hver veit nema að á bak við eitthvert dulnefnið leynist þjóðþekktur einstaklingur, jafnvel prestur?

Vilt þú skrifa á Vantrú.net? Ritstjórnin fagnar öllu fersku blóði í raðir sínar. Ef þú ert trúlaus og með málefni sem brennur á þér þarftu ekki annað en hafa samband við ritstjorn@vantru.net. Fullum trúnaði heitið.

Þið hin: Góða skemmtun.

Birgir Baldursson 23.08.2003
Flokkað undir: ( Leiðari , Vantrú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.